Samstaða á breiðum grundvelli um uppbyggingu á innviðum samfélagsins var mikilvæg þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð. Það átti við um heilbrigðis-, og umhverfismál, menntamál og samgöngur. Þessi breiða samstaða um að sækja fram og byggja upp innviði samfélagsins er bæði forsenda samstarfsins og aðalmarkmið ríkisstjórnarinnar.
Við höfum sannarlega sótt fram í heilbrigðismálum. Nú þegar síðasti þingvetur kjörtímabilsins er að hefjast er mjög gleðilegt að mörgum stærstu markmiðum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum hefur þegar verið náð. Við höfum skrifað og samþykkt heilbrigðisstefnu á Alþingi, byggingaframkvæmdir við nýjan Landspítala við Hringbraut ganga vel, greiðsluþátttaka sjúklinga hefur lækkað, lög um þungunarrof verið samþykkt og heilsugæslan efld. Þessum markmiðum og fleiri mikilvægum markmiðum í heilbrigðismálum hefur okkur tekist að ná í krafti þess að fjárframlög til heilbrigðismála hafa aukist á kjörtímabilinu. Sú verður raunin áfram því framlög til heilbrigðismála verða aukin um ríflega 15 ma.kr. á næsta ári, eða um tæp 6% frá fjárlögum þessa árs.
Þegar Covid-19 skall hér yfir sýndi heilbrigðiskerfið hvað í því bjó með sveigjanleika og hugkvæmni svo öllum varð ljóst að heilbrigðiskerfið okkar er öflugt og sterkt. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar hvarvetna, heilbrigðisvísindafólk og ekki síst embætti landlæknis eiga öll þakkir skildar fyrir frábær störf dag og nótt.
Framundan er erfiður vetur. Áframhaldandi baraátta við Covid-19, atvinnuleysi, fátækt og tekjuhrun hjá þúsundum fjölskyldna. Það er óþolandi að fjöldi fólks þurfi að bíða langtímum saman eftir mat í biðröðum. Þessu verður að breyta. Nú skiptir öllu að knýja fram víðtæka samstöðu um aðgerðir til að styrkja stöðu atvinnulausra og fjölga tækifærum til atvinnu og menntunar. Þar þurfum við að fara óvenjulegar leiðir, eins og að stytta vinnutíma til að dreifa vinnu til fleira fólks og með því að kalla fleira fólk til starfa í velferðarþjónustu og nýsköpun fyrir samfélagið.
Það er augljóst að kosningar að ári liðnu munu fjalla um þessi mál; lífskjör almennings í víðum skilningi. Við höfum komist í gegnum áskoranir kjörtímabilsins því forsætisráðherra er formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Katrín Jakobsdóttir hefur á hverjum degi haft forystu um lausnir flókinna mála á sínum pólitísku forsendum og hefur haft afl, úthald, vilja og pólitíska skerpu til að leiða ríkisstjórnina. Í áskorununum sem framundan eru er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um umhverfisvernd, jöfnuð, mannréttindi, öflugt velferðarkerfi og friðarhyggju séu ríkjandi.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.