Hinn 6. nóvember boða ég til heilbrigðisþings 2020. Umfjöllunarefni þingsins í ár er mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustunni með áherslu á nýsköpun. Þetta er þriðja heilbrigðisþingið sem ég efni til og í ljósi aðstæðna verður þingið rafrænt. Það fer fram 6. nóvember kl. 8.30-12.30 og hægt er að skrá sig á þingið á heimasíðu Heilbrigðisþings, þar sem einnig er að finna dagskrá þingsins og nánari upplýsingar.
Á fyrsta heilbrigðisþinginu sem haldið var árið 2018 var lagður grunnur að þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi í júní 2019. Á grundvelli heilbrigðisstefnunnar var heilbrigðisþingið 2019 helgað siðferðilegum gildum og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu og var liður í gerð þingsályktunartillögu um þessi mál sem var samþykkt sem ályktun Alþingis 9. júní síðastliðinn.
Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sérstaklega fjallað um mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Mönnunin er alþjóðleg áskorun þar sem samkeppni um mannauð er vaxandi og eftirspurn eftir íslensku heilbrigðisstarfsfólki til starfa erlendis mikil. Nauðsynlegt er að fjárfesta stöðugt í menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks. Einnig er bent á að áskoranir framtíðarinnar muni krefjast nýsköpunar, jafnt í þróun tækni og vinnubrögðum starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni. Því skipti m.a. miklu máli að stjórnsýsla og lagaumgjörð heilbrigðismála veiti nægilegt svigrúm til þróunar og nýsköpunar.
Heilbrigðisþingið í ár verður haldið við óvenjulegar aðstæður á tímum Covid-19-farsóttarinnar. Farsóttin hefur þegar leitt í ljós að öflugt opinbert heilbrigðiskerfi er ein af grundvallarforsendum þess að þjóðir geti tekist á við slíkar fordæmalausar aðstæður. Hér á landi höfum við vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem staðið hefur í framlínunni, mikil þekking og nýjar lausnir hafa orðið til og sá lærdómur sem af þessu ástandi hefur hlotist mun vafalaust nýtast heilbrigðiskerfinu til framtíðar. En við verðum að tryggja meðvitað að lærdómarnir gleymist ekki þegar baráttunni við faraldurinn er lokið, og íhuga vel hvernig við getum nýtt reynsluna til að efla bæði mönnun og menntun innan heilbrigðiskerfisins til framtíðar.
Við þurfum að styrkja og efla menntun heilbrigðisstarfsfólks, bæta starfsumhverfi þess, vinna að tryggri mönnun heilbrigðiskerfisins til framtíðar og efla vísindi og nýsköpun, og í ljósi heimsfaraldurs og áhrifa faraldursins þurfum við mögulega að nálgast það markmið með nýjum leiðum. Um þetta fjallar heilbrigðisþingið 2020 og ég stefni að því að afrakstur þingsins verði grunnur að þingsályktunartillögu til Alþingis um þessi mikilvægu mál.