Geðhjálp stendur nú fyrir áskorun til stjórnvalda og samfélagsins alls um að setja geðheilsu í forgang. Félagið stendur fyrir undirskriftasöfnun í samstarfi við Píeta-samtökin og hefur opnað vefsíðuna www.39.is. Framtak Geðhjálpar er bæði mikilvægt og þakkarvert.
Ég er sammála því að setja eigi geðheilsu í forgang. Ég hef lagt sérstaka áherslu á að sýna þennan vilja í verki í embætti heilbrigðisráðherra og á mínum tíma hefur geðheilbrigðisþjónusta verið bætt, til að mynda með auknu fjármagni til málaflokksins og áherslu á aukna fjölbreytni í meðferðarúrræðum. Með ráðningu sálfræðinga í heilsugæslunni og með því að setja á laggirnar geðheilsuteymi í öllum heilbrigðisumdæmum stórbætum við geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Þarna er um að ræða stórátak.
Áskorun Geðhjálpar inniheldur níu aðgerðir sem félagið leggur áherslu á að komist til framkvæmda. Aðgerðirnar varða t.d. eflingu heilsugæslunnar, aukinn stuðning og fræðslu fyrir foreldra, að geðrækt verði hluti af aðalnámskrá grunnskóla og samráðsvettvang um geðheilbrigðismál.
Aðgerðirnar sem Geðhjálp nefnir eru í góðum takti við stefnu mína í málaflokknum. Í ráðherratíð minni hefur markvisst verið unnið að eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu með fjölgun sálfræðinga og stofnun geðheilsuteyma um allt land. Sálfræðingar í heilsugæslu um land allt eru nú tvöfalt fleiri en á árinu 2017 og í fjáraukalögum á þessu ári og því næsta hefur verið samþykkt 540 m.kr. tímabundin viðbótarfjárveiting vegna Covid-19 til eflingar geðheilbrigðisþjónustu.
Sérstakt geðheilsuteymi hefur verið stofnað með það að markmiði að efla og styrkja geðheilsu foreldra og stuðla að öruggri tengslamyndun barna og unnið er að innleiðingu geðræktar og forvarnastarfs í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Heilbrigðisráðuneytið hefur fundað reglulega með samráðsvettvangi geðúrræða á höfuðborgarsvæðingu og sem sérstakt viðbragð við Covid-19 hefur verið sett á fót tímabundið geðráð sem byggir á grundvelli samráðsfunda ráðuneytisins og samráðsvettvangsins.
Árum saman hefur verið bent á mikilvægi þess að tryggja geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum. Í lok síðasta árs settum við á laggirnar geðheilsuteymi sem er sérstaklega sniðið að þörfum þess hóps. Það var löngu tímabær ákvörðun sem hefur þegar sannað gildi sitt.
Einnig má nefna að í ár ákvað ég að veita Píeta-samtökunum sex milljónir króna til að efla forvarnastarf samtakanna og að tryggja 12 milljóna króna fjármagn fyrir stöðu verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis út næsta ár.
Ég fagna átaki Geðhjálpar og tek undir mikilvægi þess að við höldum áfram að styrkja geðheilbrigðisþjónustuna hérlendis. Ég mun halda því áfram.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.