Í haust verða liðin nærri sex ár frá því ég hóf að starfa með VG að framsæknum baráttumálum og þá til að byrja með að undirbúningi Alþingiskosninga. Þar á undan var ég óháður stjórnmálasamtökum í áratugi. Hef nú setið bæði í stjórnarandstöðu og stjórn og verið fullur orku og hugmynda allan þann tíma. Árin, sem verða fjögur í stjórnarstöðu, með setu í tveimur fastanefndum (utanríkis- og umhverfis/samgöngu/sveitarstjórnarnefnd, þar sem varaformaður), í einni alþjóðanefnd sem formaður (um norðurskautsmál) og sem formaður Þingvallanefndar, hafa verið gefandi og árangur stjórnarsamstarfins sannarlega vegferðarinnar virði. Hann kemur fram sem framfarir í mjög mörgum málaflokkum þótt alloft hafi verið þörf á stærri eða róttækari félagslegum og umhverfistengdum umbótaskrefum. Í landi samsteypustjórna er aðeins fær leið málamiðlana til breytinga og þar við situr í bili.
Mér hefur verið heiður að því að starfa með samherjunum góðu í þingflokki VG, öðrum félögum hreyfingarinnar og fólki innan og utan VG um allt land. Katrín hefur verið einstaklega öflug, réttsýn og traust sem forsætisráðherra og Svandís og Guðmundur Ingi einkar starfssöm, glögg og skilvirk.
Lýk þessum leiðangri mínum á pólitískum háfjöllum þann 25. september n.k., fari allt eins og til stendur. Fyrsta skrefið er að tilkynna beint öllum hlutaðeigandi innan VG að ég hyggst ekki láta reyna á framboð til Alþingis, í þriðja sinn, í kosningunum í haust. Það hef ég nú gert.
Ég hef stundað fjölbreytta atvinnu, nær ávallt í 5 til 15 ára skorpum, nema hvað margs konar skrif, allt frá ljóðum og blaðagreinum til skáldsagna og fræðibóka, hafa enst áratugum saman, ásamt jarð- og náttúruvísindum, og fræðslustarfi meðal almennings í útvarpi og sjónvarpi. Nú er komið að því enda veruna á Alþingi og taka til við ýmis verkefni og áhugamál. Vissulega mun ég sakna starfsumhverfisins á þingi og margra samstarfsmanna þar og góðra kunningja, ásamt starfi að málaflokkum eins og norðurslóðamálum, raunvísindum, ferðamálum, orkumálum, samgöngumálum, almannavörnum, margvíslegum umhverfismálum og nýsköpun en til þess hef ég líka vettvang utan þings.
Ég þakka vel öllum, sem ég hef átt alls konar samskipti við vegna þingstarfanna, fyrir þau og skrefin með mér, jafnt utan þings sem innan og um land allt. Þar til seint í september verð ég á kafi í minni vinnu á Alþingi, sem aldrei fyrr.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG í Suðurkjördæmi.