Ívikunni hófust bólusetningar við Covid-19 í Bretlandi og ljóst er að bólusetning Íslendinga mun hefjast snemma á nýju ári. Þá var einnig birt niðurstaða skoðanakönnunar Maskínu sem sýnir að 92% landsmanna ætla í bólusetningu, sem er gríðarlega mikilvægt vegna þess að því fleiri sem láta bólusetja sig því betur og hraðar verðum við varin fyrir veirunni.
Eðlilega eru þessi tíðindi öllum ofarlega í huga hér á landi sem annars staðar en tilkoma þess mun gerbreyta vígstöðu okkar gagnvart þessum vágesti sem hefur nú herjað á okkur frá því í lok febrúar á þessu ári. Strax og faraldurinn skall á var ráðist í að tryggja aðgang Íslands að bóluefni þegar það yrði tilbúið og hefur sá undirbúningur verið í nánu samstarfi við Evrópusambandið þar sem tryggt er að Íslandi og öðrum EFTA ríkjum sé tryggður sami aðgangur að bóluefnum og ríkjum Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þegar gert samninga við sex lyfjaframleiðendur, þar með talda AstraZeneca, Pfizer og Moderna.
Þetta eru tímamót í baráttunni gegn veirunni og við getum óhikað litið með bjartsýni til nýs árs. Samfélagið okkar mun þá byrja að færast smátt og smátt í eðlilegt horf. Við getum farið að njóta samvista óhindrað og efnahagslífið getur spyrnt kröftuglega við fótum og atvinnuleysi byrjað að ganga niður. Aðgerðir stjórnvalda munu skipta þar höfuðmáli enda hefur áhersla ríkisstjórnarinnar verið að verja afkomu almennings og styðja við atvinnulífið þannig að við byggjum upp fjölbreyttari stoðir fyrir efnahags- og atvinnulíf Íslendinga, meðal annars með auknum fjárfestingum í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Um leið munum við vinna að því að atvinnulífið sem kemur út úr kreppunni verði grænna og loftslagsvænna, meðal annars með ívilnunum fyrir grænar fjárfestingar og aukna opinbera fjárfestingu í margháttuðum loftslagsverkefnum.
Nú þurfum við klára þessa vegferð. Við þurfum öll að leggja okkur öll fram til að tryggja að smit verði áfram í lágmarki þar til okkur hefur tekist að verja samfélagið með bólusetningum. Gætum vel að okkur á aðventunni og yfir jólin og höldum áfram að forgangsraða lífi og heilsu. Við munum klára þetta saman.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.