Stutt þingræða, um störf þingsins.
Ný loftslagsmarkmið okkar eru ekki einhvers konar nauðhyggjulágmark eins og ráða má af orðum sumra þingmanna. Þau eru raunhæf og vel metnaðarfull, 55% samdráttur að lágmarki næstu tíu ár og fullt kolefnishlutleysi innan 20 ára. Hvers vegna get ég fullyrt þetta? 55% eru á plani við hærri markmið sumra landa af því að okkar losunarsamdráttur er á höndum allra atvinnuvega, allra fyrirtækja, allra sveitarfélaga og alls almennings í landinu. Hærri prósentumarkmið nokkurra iðnríkja, sem menn vilja bera okkur saman við, byggja á þeirri staðreynd að 60–70% af losun ríkjanna er frá orkuframleiðslu, rafmagni, heitu vatni og jarðefnavinnslu o.fl. og er á höndum fárra fyrirtækja í hverju landi og að hluta til ríkisins. Samdráttur í losun þarna er auðveldari og skjótari samanborið við flóknari leiðir í samdrætti hér þar sem leikendur eru margir og smáir. Okkar orkuframleiðsla er, eins og allir vita, losunarlaus að mestu. Þess vegna er beinn samanburður á losunarmarkmiðum Íslands og Bretlands ótækur og blekkjandi og gefur einhverjum tilefni til að gera lítið úr því sem hér hefur verið ákveðið.
Þessu öllu til viðbótar getum við stigið stærri skref en margar þjóðir í kolefnisbindingu og samdrætti í losun með því að efla skógrækt, landgræðslu, sem er hlutfallslega skilvirk miðað við höfðatölu íbúa í strjálbýlu landi, svo að ég tali nú ekki um endurheimt votlendis sem er ódýr og fljótvirk aðferð til kolefnisjöfnunar.
Ég minni í lokin á að við eigum að gleðjast yfir því að þróunarsamvinna er orðin hluti af loftslagsmarkmiðum Íslands. Það kalla ég framsýni rétt eins og á við um aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Við erum á réttri leið.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður.