Heimsfaraldur Covid-19 hefur geisað hérlendis í um það bil tíu mánuði. Í fyrsta sinn í sögunni höfum við þurft að grípa til víðtækra sóttvarnaráðstafana til að hamla útbreiðslu veiru sem veldur lífshættulegum sjúkdómi. Sóttvarnaaðgerðir hafa haft miklar afleiðingar á samfélagið og það er áskorun fyrir okkur öll að takmarka útbreiðslu veirunnar en á sama tíma lágmarka þann samfélagslega skaða sem sóttvarnaaðgerðir geta valdið.
Í lok október hertum við sóttvarnaráðstafanir vegna uppgangs Covid-19 í samfélaginu. Það var erfitt en nauðsynlegt skref. Aðgerðirnar sem gripið var til báru árangur og samfélagssmitum fækkaði. Nú greinast sem betur fer ekki mörg smit daglega hérlendis og flest þeirra sem greinast eru í sóttkví. Okkur gengur vel í baráttunni við Covid-19 eins og stendur en til þess að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur þurfum að halda áfram að fara varlega.
Forsenda þess hversu vel okkur hefur gengið hérlendis að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar er einmitt sú að við höfum farið varlega. Almenningur hefur fylgt reglum um sóttvarnir vel, sýnt ábyrgð og mikla og góða samstöðu í þessum erfiðu aðstæðum. Það er nefnilega gott að muna að við erum gæfusöm, og það er almenningi í landinu að þakka.
Samanborið við önnur Evrópulönd er staðan hérlendis mjög góð. Samkvæmt gögnum Sóttvarnastofnunar Evrópu frá 14. desember um nýgengi smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa er næstlægsta nýgengið á Íslandi, en aðeins í Liechtenstein eru færri smit á þeim mælikvarða. Nýgengið er því miður mun hærra hjá mörgum nágrannalöndum okkar og fréttir berast af gildistöku strangra sóttvarnaáðstafana víða í Evrópu um þessar mundir. Margir Evrópubúar sjá fram á jólaundirbúning og jól undir sérstökum kringumstæðum, þar sem lokanir á atvinnustarfsemi og ýmiss konar þjónustu eru miklar og víðtækar. Ég vona sannarlega að vel gangi að ná tökum á útbreiðslu faraldursins í öðrum löndum og hugsa hlýtt til þeirra sem búsettir eru í löndum þar sem útbreiðsla veirunnar er mikil.
Líða fer að jólum. Vegna gildandi samkomutakmarkana verða jólin í ár öðruvísi en við erum vön, en við getum samt notið hátíðanna í hópi okkar nánustu. Við þurfum að halda áfram að gera okkar allra besta. Hvert og eitt þarf að huga áfram að einstaklingsbundnum sóttvörnum, passa upp á viðkvæma hópa og halda hittingum í lágmarki. Almannavarnir hafa gefið út leiðbeiningar um jólahald sem nálgast má á vefsíðunni www.covid.is sem ég hvet alla til að kynna sér og fylgja. Von mín er að við fáum öll notið gleðilegra jóla og áramóta og að við njótum hátíðanna á ábyrgan hátt. Við getum það, saman. Gleðileg jól!