Árið 2020 mun skrifa sig í sögubækurnar. Kórónaveiran verður þar efst á blaði og áhrif hennar á líf, heilsu og efnahag þjóðarinnar. Náttúruhamfarir hafa riðið yfir land og þjóð og minna á mikilvægi þess að auka öryggi fólks vegna náttúruvár. En það hafa líka verið stigin mörg mikilvæg skref í átt að réttlátara samfélagi. Komið hefur verið á sanngjarnara skattkerfi, fæðingarorlof lengt og ungu fólki og efnaminna gert betur kleift að kaupa sér húsnæði. Mikilvæg mannréttindi transfólks hafa verið tryggð. Gripið hefur verið til aukinna aðgerða í loftslagsmálum og tilkynnt um mun metnaðarfyllri markmið okkar Íslendinga en áður giltu. Við höfum bannað óþarfa einnota plastvörur, komið á stuðningi við sveitarfélög í fráveitumálum og stóraukið framlög til ofanflóðavarna. Átta svæði voru friðlýst á árinu, þar á meðal Geysir, Goðafoss og Gjástykki – allt ákvarðanir um að vernda einstaka náttúru okkar fyrir komandi kynslóðir.
En það eru líka margar áskoranir og verkefni fram undan.
Áhersla á að vernda líf og heilsu fólks
Heimsbyggðin hefur upplifað breytingar á þessu ári sem ekkert okkar gat séð fyrir. Lífið eins og við höfum átt að venjast því hefur verið sett á pásu. Félagsleg tengsl hafa verið skert eða rofin og heimsóknir til aldraðra ættingja, vinafagnaðir og ferðalög verið í lágmarki. Markmiðið er skýrt: Að vernda líf og heilsu landsmanna.AUGLÝSING
Ég tel að nokkrir þættir hafi skipt sköpum í baráttu okkar við kórónuveiruna. Í fyrsta lagi hafa stjórnvöld horft til vísinda og þekkingar og treyst okkar færustu sérfræðingum til að leiðbeina okkur um aðgerðir. Í öðru lagi búum við að því að eiga sterkt opinbert heilbrigðiskerfi sem hefur verið styrkt enn frekar í ráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur, og hefur sannarlega staðist álagsprófið. Og í þriðja lagi hefur okkur í stórum dráttum auðnast að standa saman sem einn hópur sem ætlar að ná árangri.
Á sama tíma hefur verið gripið til víðtækra aðgerða til að mæta samfélags- og efnahagslegum áhrifum vegna faraldursins. Áherslur hafa verið á réttindi og hag launafólks og að hjálpa lífvænlegum fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann. Jafnframt að styðja sérstaklega við viðkvæma hópa með félagslegum úrræðum því við vitum að áhrif erfiðleika líkt og þessara leggjast ekki jafnt á alla hópa samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur svo horft til framtíðar með aðgerðum sínum til eflingar nýsköpunar, menntaúrræða, loftslagsmála og geðheilbrigðismála.
Frelsi almennings hefur vissulega verið skert í heimsfaraldrinum, en þó mun minna en í mörgum öðrum ríkjum. Kannanir sýna að Íslendingar eru almennt ánægðir með sóttvarnaraðgerðir og nú gildir að halda dampi og klára að komast í gegnum þetta saman.
Opinbera heilbrigðiskerfið styrkt
Fagmennska, seigla og úthald heilbrigðisstarfsfólks hefur heldur betur sýnt sig og fyrir framlag þeirra í kórónuveirufaraldrinum fáum við seint þakkað. Hið opinbera heilbrigðiskerfi hefur sannað sig og mikilvægt að styrkja það enn frekar.
Á þessu kjörtímabili hafa verið stigin stór og mikilvæg skref í átt að réttlátara og öflugra heilbrigðiskerfi. Ber þar í fyrsta lagi að nefna að dregið hefur verið úr greiðsluþátttöku sjúklinga, þar með talið vegna komugjalda á heilsugæslustöðvar. Komugjöld hafa verið afnumin fyrir aldraða og öryrkja og líka fyrir heimavitjanir, auk þess sem greiðsluþátttaka þeirra í tannlækningum hefur verið minnkuð.
Á árinu hafa geðheilbrigðismál verið tekin föstum tökum. Meðal annars hafa geðheilbrigðisteymi út um allt land verið fullmönnuð og sálfræðingum sem starfa í heilsugæslunni hefur verið fjölgað mikið. Þjónusta heilsugæslunnar hefur verið stórefld og uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut stendur yfir. Aukin áhersla á heimahjúkrun mun geta skilað víðtækum árangri í heilbrigðiskerfinu á næstu árum.
Ný metnaðarfull markmið í loftslagsmálum
Vinstri græn hafa staðið vaktina í umhverfismálum í þeim ríkisstjórnum sem við höfum átt aðild að. Fyrstu loftslagslögin á Íslandi voru sett í tíð vinstristjórnarinnar og í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var fyrsta fjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum unnin og komið til framkvæmdar.
Þær fjölmörgu aðgerðir sem gripið hefur verið til í loftslagsmálum eru farnar að skila árangri. Stjórnvöld hafa meðal annars lagt ríka áherslu á orkuskipti í samgöngum og nú er Ísland í öðru sæti í heiminum þegar litið er til nýskráninga vistvænna bifreiða, á eftir Noregi. Bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda árið 2019 benda til samdráttar í losun frá vegasamgöngum í fyrsta skipti í mörg ár. Vonandi erum við að sjá nauðsynlegan viðsnúning í þessum málum og þar skipta aðgerðir og metnaðarfull framtíðarsýn um kolefnishlutlaust Ísland miklu máli.
Núna í desember kynnti ríkisstjórnin svo uppfærð og mun metnaðarfyllri markmið fyrir Ísland í loftslagsmálum. Stefnt er að enn frekari samdrætti í losun árið 2030 eða 55% eða meira í samfloti með Evrópusambandinu og Noregi, auk þess sem ákveðnum áföngum í kolefnishlutleysi verði náð fyrr en gert var ráð fyrir. Þá munu stjórnvöld auka til muna þróunarsamvinnu á sviði loftslagsmála, meðal annars í landgræðslu og jarðhita.
Réttlátara skattkerfi og aukinn félagslegur stuðningur
Á þessu ári hafa verið stigin stór og mikilvæg skref í átt að réttlátara samfélagi. Þar skiptir mestu máli að þriggja þrepa skattkerfi var innleitt á árinu. Nýtt lágtekjuþrep kemur að fullu til framkvæmda frá 1. janúar á næsta ári og verður þá 5,5 prósentustigum lægra en lægsta skattþrep var áður. Þessar breytingar gagnast best þeim tekjulægri og þau sem mest fá út úr skattkerfisbreytingunum munu á næsta ári hafa 120 þúsund krónum meira í ráðstöfunartekjur á ári. Barnabætur hafa einnig verið hækkaðar í nokkrum þrepum á þessu kjörtímabili og bætist í þá hækkun nú um áramót þegar skerðingarmörk barnabóta hækka um 8%. Þá hefur verið dregið úr skerðingum fyrir örorkulífeyrisþega og annað skref í þeim efnum verður einnig tekið nú um áramótin þegar dregið verður úr innbyrðis skerðingum sem gagnast tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum best. Enn er þó mikið verk fyrir höndum þegar kemur að endurskoðun örorkukerfisins.
Lenging fæðingarorlofs hefur lengi verið mikið baráttumál okkar Vinstri grænna og sá áfangi sem við höfum náð á kjörtímabilinu að lengja það úr 9 mánuðum upp í 12 er gríðarlegt framfaramál. Réttur hvors foreldris fyrir sig verður sex mánuðir en heimilt að framselja sex vikur sín á milli. Breytingin mun hafa mikil og jákvæð áhrif á líf fjölskyldna og barna sem notið geta meiri samvista á sama tíma og hún tryggir að við höldum áfram í átt til aukins jafnréttis á vinnumarkaði.
Í vor voru samþykkt lög á Alþingi um viðbótarstuðning við eldri borgara sem búsettir eru hérlendis en eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Stuðningurinn nemur að hámarki 90% af fullum ellilífeyri. Þessi nýju lög eru mikilvægt skref í að mæta þeim tekjulægstu í hópi eldri borgara og búa þeim áhyggjulausara ævikvöld. Í haust voru síðan samþykkt lög um sérstök húsnæðislán, hlutdeildarlánin, sem auðvelda ungu fólki og tekjulágu að fjárfesta í eigin húsnæði.
Öll þessi mál spanna félagslegar áherslur okkar Vinstri grænna um réttlátara samfélag. Þær kerfisbreytingar sem gerðar hafa verið á kjörtímabilinu hafa verið til aukins jöfnuðar og til þess að styðja sérstaklega tekjulægri og viðkvæmari hópa.
Mikilvæg skref í mannréttindamálum
Á tímum þar sem bakslag hefur orðið í réttindabaráttu kvenna og hinsegin fólks víða um heim þakka ég fyrir að búa í landi þar sem réttindi þessara hópa hafa verið aukin á síðustu árum. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf blöndu af ríkum pólitískum vilja, þori og seiglu og hér hafa Vinstri græn leitt vagninn. Löngu úrelt löggjöf um þungunarrof var skipt út fyrir ný og framsýnni lög í fyrra sem tryggja konum sjálfsforræði yfir eigin líkama. Lög um kynrænt sjálfræði hafa fært Ísland upp á við á regnbogakortinu. Hlutlaus kynskráningu er þar með tryggð og með nýjustu viðbótinni sem samþykkt var núna rétt fyrir jólin eru réttindi barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni aukin því vilji þeirra skal vera ráðandi varðandi varanlegar breytingar á kyneinkennum þeirra.
Vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis almennings hefur líka verið aukin jafnt og þétt á þessu kjörtímabili, meðal annars með samþykkt laga um vernd uppljóstrara, tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna, varnir gegn hagsmunaárekstrum og breytingum á upplýsingalögum.
Það er svona sem við breytum heiminum til hins betra, með jafnrétti og mannréttindi að leiðarljósi.
Ofanflóðavörnum flýtt um 25 ár
Náttúran hefur svo sannarlega minnt á ægikraft sinn á þessu ári. Mikil mildi er að ekkert manntjón varð í snjóflóðinu á Flateyri í janúar og í skriðuföllunum á Seyðisfirði núna í desember. Síðustu tvo áratugi hafa ríki og sveitarfélög unnið að auknum rannsóknum, vöktun svæða og byggingu varnarmannvirkja á þeim þéttbýlisstöðum á landinu þar sem íbúabyggð stafar hvað mest hætta af ofanflóðum.
Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun á þessu ári að flýta ofanflóðavörnum í þéttbýli um 25 ár með auknum fjárframlögum til málaflokksins. Frá og með næsta ári verður um 2,7 milljörðum króna varið árlega til ofanflóðavarna í stað 1,1 milljarðs og gera áætlanir ráð fyrir að helstu framkvæmdum geti verið lokið um 2030. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Veðurstofa Íslands munu áfram vinna ótrauð að þessum málum.
Borgarlína verður að veruleika
Með ákvörðun Alþingis síðastliðið vor er ljóst að Borgarlínan verður að veruleika. Borgarlínan er risastórt hagsmunamál okkar allra, ekki síst íbúa höfuðborgarsvæðisins, og mun auka loftgæði og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Í samgönguáætlun er almennt aukin áhersla á almenningssamgöngur, hjóla- og göngustíga. Á sama tíma hafa verið innleiddir skattaafslættir á reiðhjól, rafhjól og rafhlaupahjól en þetta auðveldar fólki að stunda daglega hreyfingu til og frá vinnu sem og í frítíma, sem skilar sér í margþættum ávinningi, þar með talið bættri heilsu fólks, minni mengun og auknum loftgæðum. Og, þetta er gott í samhengi loftslagsbreytinga. Allt endurspeglar þetta grænar áherslur í starfi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Styrkjakerfi í stað lánakerfis fyrir námsmenn
Alþingi samþykkti líka í sumar ný lög um Menntasjóð námsmanna þar sem mikilvæg skref eru stigin í átt að auknu jafnrétti til náms. Tekinn verður upp beinn stuðningur vegna framfærslu barna í stað lána og útgreiðsla námslána verður mánaðarlega. Námsstyrkur upp á 30% niðurfærslu af höfuðstóli námsláns fyrir námsmenn sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma er líka stórt skref í átt að styrkjakerfi í stað lánakerfis. Þessar áherslur eru í takti við stefnu okkar Vinstri grænna og í takti við það sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Námslán eru oft þungur baggi fyrir ungar fjölskyldur að loknu námi. Styrkir minnka því greiðslubyrðina meðan ungt fólk er að koma undir sig fótunum.
Átta ný svæði friðlýst og Hálendisþjóðgarður kominn í þingið
Á þessu ári voru fimmtíu ár frá tímamótaatburði í Íslandssögunni, þegar Þingeyingar í samfélagslegri nauðvörn sprengdu stífluna í Miðkvísl í Laxá og björguðu þannig Mývatni og Laxá frá glötun. En atburðurinn vakti líka fólk til umhugsunar um náttúruvernd og gaf því von um að hægt væri að koma í veg fyrir óafturkræf spjöll á íslenskri náttúru.
Þegar ég settist í stól umhverfis- og auðlindaráðherra var eitt af mínum fyrstu verkum að koma af stað átaki í friðlýsingum. Það átak snýst auðvitað um það að koma náttúruperlum í var og stuðla að sjálfbærri atvinnusköpun á grundvelli lítt spilltrar náttúru. Þannig hafa 12 ný svæði verið friðlýst á þessu kjörtímabili, þar af átta á þessu ári, þar með talin Geysir, Goðafoss og Gjástykki. Yfir 20 svæði eru í undirbúningi.
Ég mælti síðan fyrir frumvarpi um Hálendisþjóðgarð í byrjun desember. Með því gefst okkur Íslendingum einstakt tækifæri til að vernda um ókomna tíð ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og ómetanlegt landslag – og á sama tíma að búa til efnahagsleg tækifæri og verðmæti fyrir byggðirnar á láglendi.
Atvinnuleysi stóra áskorunin
Að minnka atvinnuleysi verður eitt af stóru verkefnunum á næstu misserum. Efling opinberrar fjárfestingar og fjölgun menntaúrræða eru á meðal aðgerða sem gripið hefur verið til á þessu ári, en mestar vonir eru auðvitað bundnar við bólusetningar vegna kórónuveirunnar á næsta ári og að efnahagslífið rétti úr kútnum sem allra fyrst. Það skiptir máli að stjórnvöld hafa stutt við launafólk meðal annars með hlutabótaleiðinni og styrkt fyrirtæki til að halda velli og ráðningarsamböndum við starfsfólk með ýmsum úrræðum. Þetta mun skipta sköpum í að ná skjótari efnahagslegri viðspyrnu en ella.
Í núverandi ástandi skiptir líka miklu máli að atvinnuleysisbætur voru hækkaðar árið 2018 og hækka aftur núna um áramótin, meðal annars verður sérstakt viðbótarálag lagt á grunnbætur á næsta ári vegna kórónuveirufaraldursins. Þá munu grunnatvinnuleysisbætur vera orðnar 80 þúsund krónum hærri en þær voru áður. Þá skiptir einnig máli að tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta hefur verið lengt úr þremur í sex mánuði og að álag vegna framfærslu barna verður 18.000 á mánuði í stað 12.000 fyrir hvert barn á meðan á atvinnuleysi stendur. Kraftar ríkis og sveitarfélaga þurfa á næstu misserum að beinast áfram að þessum málum.
Lokaorð
Á þessu kjörtímabili hafa verið stigin mikilvæg skref í átt að réttlátara samfélagi þó margt sé enn óunnið. Við þurfum að vaxa út úr efnahagsþrengingum á komandi árum þar sem mikilvægt er að verja og styrkja grunnstoðir til framtíðar: loftslagsmálin, heilbrigðis- og menntakerfið, félagslegt réttlæti og mannréttindi. Við Vinstri græn munum halda ótrauð áfram að vinna að réttlátara og umhverfisvænna samfélagi.
Ég óska landsmönnum öllum alls hins besta á komandi ári.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og varaformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs