Þann 10. desember 2020 tók gildi reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar af völdum Covid-19. Síðan sú reglugerð tók gildi hefur staða faraldursins hérlendis verið tiltölulega góð. Samstaða meðal almennings og gildandi sóttvarnaaðgerðir báru árangur og komu í veg fyrir að faraldurinn færi vaxandi hér innanlands yfir jól og áramót. Nú er svo komið að mat sóttvarnalæknis er að mögulegt sé að aflétta takmörkunum á samkomum að einhverju leyti. Þó er mikilvægt að við höfum í huga að staðan er viðkvæm.
Faraldurinn er á uppleið í löndunum í kringum okkur, auk þess sem nýtt og bráðsmitandi afbrigði veirunnar hefur greinst. Breytingar á reglum um aðgerðir á landamærum eru í skoðun þessa dagana í heilbrigðisráðuneytinu með hliðsjón af vexti faraldursins erlendis. Við þurfum sem fyrr að fara varlega og megum ekki gleyma mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna. Nýjar reglur um takmarkanir á samkomum innanlands taka gildi 13. janúar nk. og og gilda til 17. febrúar næstkomandi. Sóttvarnalæknir setur tillögur sínar fram með fyrirvara um að þróun faraldursins snúist ekki á verri veg.
Meginefni nýju reglnanna er að fjöldatakmarkanir verða 20 manns í stað tíu, heilsu- og líkamsræktarstöðvum verður gert kleift að hefja starfsemi á ný en með ströngum skilyrðum og skíðasvæðunum sömuleiðis. Íþróttastarf barna og fullorðinna verður heimilað að uppfylltum skilyrðum og sömuleiðis íþróttakeppnir án áhorfenda. Fjöldamörk í sviðslistum verða aukin þannig að 50 manns mega vera á sviði og í sal 100 fullorðnir og 100 börn. Sama gildir um aðra menningarviðburði. Þessar afléttingar eru mikilvægar og eru enn eitt skref í átt að því að við nálgumst það að samfélagið okkar komist í eðlilegra horf.
Á milli jóla og nýárs hófum við bólusetningar gegn Covid-19, þegar fyrstu skammtar bóluefnis frá framleiðandanum Pfizer bárust okkur. Sá áfangi var merkilegur og markaði þáttaskil í baráttunni okkar við veiruna. Ísland hefur þegar tryggt sér bóluefni sem dugar fyrir alla þjóðina og rúmlega það og á grundvelli samstarfs okkar við Evrópusambandið um bóluefni er okkur tryggt hlutfallslega sama magn af bóluefnum og aðrar þjóðir í Evrópusamstarfinu fá miðað við höfðatölu. Á næstu vikum og mánuðum halda bólusetningar áfram, um leið og okkur berast bóluefni hingað til lands. Bóluefni frá framleiðendunum Moderna er væntanlegt hingað til lands í næstu viku og meira af bóluefni frá framleiðandanum Pfizer í seinni hluta janúarmánaðar.
Á vefnum boluefni.is birtast nýjustu fréttir af bóluefnamálum, framkvæmd bólusetninga, af forgangshópum og samningum og ég hvet öll til að fylgjast með þeirri síðu.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra