PO
EN

Umhverfisráðherra kynnir 24 aðgerðir í átt að hringrásarhagkerfi

Deildu 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2032. Drögin hafa verið sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda undir heitinu Í átt að hringrásarhagkerfi.

Meginmarkmið stefnunnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, vinna að kolefnishlutleysi Íslands og að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs. Markmiðið er að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.

Magn heimilisúrgangs á hvern íbúa hér á landi er með því mesta sem gerist meðal EES-ríkja og er endurvinnsla heimilisúrgangs of lítil og of mikið af honum urðað. Nýrri stefnu er ætlað að bæta úr þessu. Árið 2018 féllu til hér á landi um 1.300 þúsund tonn af úrgangi í heild og þar af voru 216 þúsund tonn urðuð. Þetta sama ár var samanlögð losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs, sorpbrennslu og jarðgerð hér á landi tæp 5% af heildarlosun Íslands og má rekja 95% af þeirri losun til urðunar úrgangs.

Árið 2016 kom út fyrri hluti stefnunnar undir heitinu Saman gegn sóun, sem kveður á um aðgerðir til úrgangsforvarna. Í stefnunni sem nú er til kynningar er mælt fyrir 24 aðgerðum og er stefnt að því að 12 þeirra verði lögfestar á þessu ári, m.a. skylda til flokkunar heimilisúrgangs og rekstrarúrgangs, samræming merkinga fyrir úrgangstegundir, bann við urðun úrgangs sem hefur verið safnað sérstaklega til endurvinnslu og að innheimta gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs verði sem næst raunkostnaði við meðhöndlun hans. Meðal annarra aðgerða sem fara á í eru álagning urðunarskatts, bann við urðun lífbrjótanlegs úrgangs, stuðningur við heimajarðgerð og stuðningur við uppbyggingu innviða til meðhöndlunar úrgangs sem samræmast hugmyndum um hringrásarhagkerfi. Jafnframt er í drögunum að finna aðgerðir sem styðja eiga sérstaklega við sveitarfélög við að innleiða bætta úrgangsstjórnun. 

„Framtíðarsýnin er skýr: Sjálfbær nýting auðlinda, þar sem hugað er að góðri nýtingu hráefna og löngum endingartíma vöru strax við hönnun og smíði. Úrgang þurfum við að umgangast sem verðmæti sem hægt er að búa til eitthvað nýtt úr. Ný úrgangsstefna innleiðir kerfi sem ýtir undir viðgerðir, endurnotkun og endurvinnslu. Þetta er það sem kallað er hringrásarhagkerfi, þar sem hráefnin eru notuð hring eftir hring. Slíku hagkerfi þarf að koma á í stað línulegs framleiðsluferlis, þar sem vörur eru notaðar, oft í stuttan tíma, og þeim síðan einfaldlega hent. Hættum slíkri sóun. Með þessari stefnu sem nú er lögð til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda eru stigin gríðarlega mikilvæg skref í átt að innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Stefnan tekur við af Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013–2024 og er það í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um meðhöndlun úrgangs árið 2014.

Frestur til að senda inn umsagnir er til 23. febrúar nk.

Í átt að hringrásarhagkerfi: Stefna umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search