Um áramótin tók gildi breytt fyrirkomulag skimana vegna legháls- og brjóstakrabbameina, þegar heilsugæslan tók við framkvæmd skimana fyrir krabbameinum í leghálsi og Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri framkvæmd skimana fyrir krabbameini í brjóstum. Nú geta konur farið í leghálsskimun á sinni heilsugæslustöð, og gjaldið fyrir skimunina lækkar úr tæpum 5.000 krónum í 500 krónur. Kvensjúkdómalæknar á stofum geta einnig framkvæmt leghálsskimanir eins og verið hefur.
Þess er vænst að greitt aðgengi að þessari þjónustu í heilsugæslunni og lágur kostnaður fyrir notendur muni auka þátttöku í skimunum hér á landi, en góð þátttaka í skimun er forsenda árangurs. Þátttaka í leghálsskimun hefur verið innan við 70% á liðnum árum en stefnt er að því að hún verði um eða yfir 85% þegar fram líða stundir. Einnig má nefna að eðilegast er að skimun sé hluti af hinu opinbera heilbrigðiskerfi, eins og víðast hvar í nágrannalöndunum. Markmiðið er einnig að færa verklag nær því skipulagi sem mælt er með í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum til að tryggja enn frekar öryggi og gæði þjónustunnar.
Til að leitast við að tryggja sem best öryggi og gæði frumurannsókna, uppfylla alþjóðleg gæðaviðmið og ákvæði skimunarleiðbeininga embættis landlæknis var ákveðið að undirrita samning við rannsóknarstofu opinberra sjúkrahússins Hvidovre í Kaupmannahöfn um greiningu leghálssýna. Rannsóknarstofan í Hvidovre hefur nú lokið greiningu nær allra þeirra sýna sem fóru ógreind frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar heilsugæslan tók við ábyrgð á framkvæmd skimana um áramótin og heilsugæslan sagði frá því í gær að nú væru aðeins tvær vikur þar til tekist hefur að vinna upp alla seinkun. Þessi töf á svörum úr leghálssýnatökum skýrist annars vegar af því að við yfirfærsluna til heilsugæslunnar var nokkur fjöldi sýna ógreindur, og hins vegar af því að Covid-19-faraldurinn tafði samningagerð við dönsku rannsóknarstofuna. Þessi töf á svörum er einungis tímabundin og heilsugæslan er þess fullviss að þjónustan muni á næstunni verða bæði betri og hraðvirkari en fyrr. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að þessi töf hafi orðið en ég er viss um að við erum á réttri leið. Samhæfingarstöð krabbameinsskimana veitir upplýsingar um framkvæmd skimana fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum, boðun og tímapantanir. Skimanir eru öflug forvörn gegn krabbameinum og með þessum breytingum verða skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum aðgengilegri, ódýrari og öruggari en áður. Heilsa kvenna og öryggi er tryggt á öllum stigum.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.