PO
EN

Þau gefa kost á sér í Suðurkjördæmi

Deildu 

Átta gefa kost á sér í fimm efstu sætin í forvali VG í Suðurkjördæmi. Almar Sigurðsson, ferðaþjónustubóndi og formaður svæðisfélags Vg í Árnessýslu, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarmaður í Skaftárhreppi, Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri og formaður svæðisfélags Vg á Suðurnesjum, Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður, Róbert Marshall, leiðsögumaður, bjóða sig fram í fyrsta sæti.

Að auki bjóða Sigrún Birna Steinarsdóttir, háskólanemi og formaður Ungra Vinstri grænna sig fram í 2. – 3. sæti, Helga Tryggvadóttir náms- og starfsráðgjafi í 2. – 5.  sæti og Anna Jóna Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur í 3. – 5. sæti.  

Kjörstjórn heldur þrjá formlega kynningarfundi með frambjóðendum á zoom og eru þeir auglýstir á vg.is.

Fyrstu tveir fundirnir eru opnir öllum, en sá síðasti er fundur ætlaður félögum í VG sem eru kjósendur í forvalinu.

Fyrsti fundurinn verður haldinn 16. mars, annar fundurinn verður 25. mars,  31. mars verða síðustu forvöð að skrá sig í VG til að taka þátt í forvalinu. Síðasti fundur kjörstjórnar með frambjóðendum sem er eingöngu ætlaður félögum í VG verður haldinn 8. apríl.

Forval VG í Suðurkjördæmi hefst klukkan 00.01 á miðnætti 10. apríl og lýkur klukkan 17.00 þann 12. apríl. Úrslit verða kunngjörð sama dag.

Forvalið verður rafrænt og hægt verður að kjósa með rafrænum skilríkjum eða íslykli á hér á heimasíðu VG.

Úrslit forvalsins eru bindandi, að öðru leyti en því, að tryggja skal að ekki halli á konur á listanum. Þá skal tryggt að ekki séu færri en tvö af hvoru kyni í fimm efstu sætum listans. Kjörstjórn Suðurkjördæmis stillir svo upp 20 manna framboðslista að teknu tilliti til aldursdreifingar, kyns, búsetu, uppruna, starfs osfrv. þannig að listinn endurspegli samfélagið sem best. Framboðslisti VG í Suðurkjördæmi verður lagður fram til samþykktar á kjördæmisþingi í maí.

Von bráðar fer í loftið heimasíða fyrir Suðurkjördæmi þar sem hægt verður að nálgast allar upplýsingar um forvalið sem og frambjóðendur. Þangað til er hægt að hafa samband með því að senda tölvupóst: sudur@vg.is

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search