Í nýendurskoðaðri norðurslóðastefnu er vikið að Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Ísland og eflingu hennar. Fjölmargar stofnanir, vinnuhópar og samtök á sviði norðurslóðamála á Akureyri eru virkir þátttakendur í innlendu og alþjóðlegu samstarfi. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hefur unnið mikilvægt starf í áratugi sem lýtur að sjálfbærri þróun á norðurslóðum. Háskólinn á Akureyri er einn af stofnendum Háskóla norðurslóða og hefur sinnt málaflokknum, m.a. með námsframboði í yfir tvo áratugi, þ.m.t. meistaranámi í heimskautarétti. Norðurslóðanet Íslands hefur unnið náið með formennskuteymi Íslands í norðurskautsráðinu og leiðir formennskuverkefni um jafnréttismál á norðurslóðum undir vinnuhóp ráðsins um sjálfbæra þróun, jafnframt því að leiða sérfræðihóp um samfélags-, efnahags- og menningarmál. Enn fremur hefur norðurslóðanetið stuðlað að samstarfi á milli aðila norðurslóðanetsins og annarra sérfræðinga í heimshlutanum. Heimskautaréttarstofnun á Akureyri stendur fyrir málþingum um allan heim um heimskautarétt og gefur árlega út Polar Law Yearbook. Vinnuhópar norðurskautsráðsins, þ.e. vinnuhópur um lífríkisvernd (CAFF) og verndun hafsvæða (PAME), eru með starfsstöðvar sínar á Akureyri. Þá hefur alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin (IASC) verið með skrifstofu á Akureyri síðan 2016.
Allir þessir aðilar hafa lengi unnið að málefnum norðurslóða með einum eða öðrum hætti og byggt upp miðstöð þekkingar á samfélögum norðurslóða, t.a.m. með félagsvísindalegum rannsóknum á sjálfbærni og sjálfsstjórn, jafnrétti, félagslegri velferð, jöfnuði og aðlögunarhæfni á tímum loftslagsbreytinga.
Fleira kemur við sögu
Sveitarfélagið Akureyri hefur lengi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum, t.a.m. með þátttöku í Northern Forum og Youth Eco Forum, og nú nýlega gegnt lykilhlutverki í stofnun alþjóðlegs samráðsvettvangs bæjar- og borgarstjóra á norðurslóðum.
Tvær rannsóknastöðvar hafa verið í uppbyggingu á Norðausturlandi, China-Iceland Arctic Observatory (CIAO) á Kárhóli í Reykjadal og Rif Rannsóknastöð á Raufarhöfn, sem er mjög ákjósanlegur vettvangur til að fylgjast með breytingum á vistkerfi norðurslóða á Íslandi.
Samstarf um Grænlandsflug, heilbrigðisþjónustu við íbúa á austurströnd Grænlands og ýmiss konar atvinnurekstur tengdan Grænlandi hefur einnig litað stöðu Akureyrar.
Við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Landbúnaðarháskólann og aðrar stofnanir í höfuðborginni og víðar um land fer fram ýmiss konar öflug og mikilvæg starfsemi að málefnum norðurslóða.
Allt þetta norðurslóðastarf þarfnast yfirlits, almennrar og sértækrar kynningar og frekara samstarfs. Það er við hæfi að haldið sé utan um slíkt á Akureyri um leið og fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið leggja sín lóð á vogarskálar enn öflugara norðurslóðastarfs þar á bæ og annars staðar í landinu. Það gerist með enn betri aðstöðu og auknu fjármagni, eftir því sem við á, til viðbótar við rannsóknasjóði, og ekki síst með markáætlun rannsókna sem lögð er til í hinni nýju norðurslóðastefnu. Fjölbreytni, samhæfing, dreifing og upplýsingamiðlun eru allt lykilhugtök í norðurslóðastarfinu.
Hringborð norðurslóða
Í nýju norðurslóðastefnunni er einnig vikið að Hringborði norðurslóða (Arctic Circle) sem mikilvægum, alþjóðlegum samræðu- og upplýsingavettvangi. Þar er lagt til að skapa hringborðinu umgjörð með stofnun norðurslóðaseturs á Íslandi. Það hlýtur að gerast án beinnar aðildar ríkisins að fjármögnun og rekstri, í samræmi við eðli hringborðsins, þ.e. það nýtur sjálfstæðrar fjáröflunar án tilkomu nokkurra stjórnvalda. Enn fremur er ljóst, að mínu mati, að vönduð umræða og þarfagreining þarf að fara fram á því hvað slíkt setur innifelur umfram að vera fast aðsetur stofnunar sem heldur árlega stóra ráðstefnu í Hörpu en minni ráðstefnur og fundi víðsvegar um heiminn – og hvar slíkt aðsetur skuli staðsett. Norðurslóðarannsóknir fara fram annars staðar en tengdar hringborðinu og þar með ljóst að aðsetur sérfræðinga sem hingað koma er jafnan vítt og breitt um land. Menntun í norðurslóðafræðum tengist mörgum menntastofnunum hér og í öðrum löndum. Ísland allt og margur vettvangur í sérhverju hinna landanna sjö er í raun kjarninn í almenningsfræðslu og þekkingarleit á norðurslóðum í allri sinni margbreytni. Þess vegna ber að vanda vel allar ákvarðanir er varða Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála annars vegar og hins vegar Hringborð norðurslóða sem helsta alþjóðlega samræðuvettvang allra er áhuga hafa á málefnum norðurslóða.