PO
EN

Nýsköpun

Landsfundur 2021.

Áhersla á nýsköpun og rannsóknir er lykilatriði í því að fjölga stoðum undir íslenskt efnahags- og atvinnulíf og því að Ísland leggi sitt af mörkum í baráttu við loftslagsvána í alþjóðlegu samhengi.

Stuðningur við nýsköpun og fjölbreytt atvinnulíf hefur verið mikilvægur þáttur í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá upphafi. Undanfarin ár hefur hreyfingin lagt áherslu á stuðning við sprotafyrirtæki og umhverfi nýsköpunar þannig að hugmyndir gætu orðið að veruleika. Jafnframt að hlúð væri sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem komin væru af sprotastigi sínu en væru enn í uppbyggingu.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja og á mikilvægi nýsköpunar í almannaþjónustu. Þá hefur verið lögð áhersla á eflingu grunnrannsókna og hlutverk þeirra sem forsendu fyrir frjóu nýsköpunarstarfi á Íslandi. Markáætlun hefur verið stórefld og henni beitt til að takast á við áskoranir vegna loftslagsvár, tæknibyltingar og áhrifa á vinnumarkað og heilbrigðistækni og lýðheilsu. Gjörbylting hefur orðið á umhverfi nýsköpunar en betur má ef duga skal.

Nýsköpun er bæði stór og smá – hún birtist í tækninýjungum, nýjum aðferðum, þjónustu og bættu verklagi. Nýsköpun drífur framþróun samfélagsins, eykur velsæld og stuðlar að fjölbreyttu atvinnulífi. Nýsköpunarstefna skal taka mið af sérstöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi, m.a. með tilliti til þekkingar, auðlinda og öflugra samfélagslegra innviða.

  • Stjórnvöldum ber að greina áskoranir og tækifæri samfélagsins hverju sinni, í samvinnu við fræðasamfélag og atvinnulíf. Á grundvelli slíkra greininga móta stjórnvöld umhverfi nýsköpunar til að efla hugvit, rannsóknir og atvinnulíf og færa okkur nýjar lausnir. Styðja þarf við nýsköpun sem er í almannaþágu.
  • Ný tækni getur haft ófyrirséðar afleiðingar, bæði neikvæðar og jákvæðar, t.a.m. með tilkomu gervigreindar. Hlutverk stjórnvalda er að sjá til þess að slík framþróun tækninnar gangi ekki á umhverfi, lífskjör eða stöðu fólks og að ávinningur vegna hennar dreifist með réttlátum hætti. Nýsköpun er verkfæri til að efla opinbera þjónustu til aukins jöfnuðar.
  • Loftslagsváin kallar á nýsköpun. Einkageirinn leysir ekki allt, samvinna hins opinbera við hann og aðra er nauðsynleg. Loftslagsváin krefst fjölbreyttra lausna svo við stöndum við skuldbindingar okkar gagnvart alþjóðasamfélaginu, umhverfinu og komandi kynslóðum. Úrræði framtíðarinnar eru ekki öll komin í ljós. Því er nauðsynlegt að stuðningur við rannsóknir og þróun grænna lausna sé verulegur. Þær verða mikilvæg stoð hagkerfis framtíðarinnar og getur orðið mikilvægur hluti af framlagi okkar til loftslagsbaráttunnar á heimsvísu.
  • Stjórnvöld þurfa að hafa forystu um að hrinda af stað þjóðfélagslega mikilvægum grænum lausnum. Orkuskipti, kolefnisbinding og hitaveita eru dæmi um slík verkefni. Þá er brýnt að sérstaklega sé stutt við tækifæri Íslands til að vera leiðandi í hátækni- og hugverkaiðnaði, t.a.m. á sviði líftækni.
  • Tryggja þarf tækifæri allra hópa þjóðfélagsins til nýsköpunar. Fjölmenningarlegur bakgrunnur fólks og skapandi hugsun eru lykilþættir í nýsköpun. Stuðningur við nýsköpun skal taka mið af fjölbreyttu þjóðfélagi og búsetu. Leiðrétta þarf augljósan halla á konur þegar kemur að tækifærum og þátttöku í nýsköpun. Huga þarf að tækifærum þeirra sem nota tæknina til að koma að mótun hennar.
  • Skil nýsköpunar, listsköpunar og frumkvöðlaanda eru óljós en allt styrkir það hvað annað. Alla þessa sköpun þarf að örva og efla þarf rannsóknir í skapandi greinum. Þá er brýnt í skólastarfi á öllum stigum að efla skapandi hugsun og hvetja til öðruvísi lausna. Aukinn hlutur skapandi greina og menningar í námskrá og kennslu skapar andrúmsloft sem örvar nýsköpun.
  • Mikilvægt er að leita tækifæra til að hugsa hlutina upp á nýtt, koma í veg fyrir stöðnun, tileinka sér nýsköpunarhugsun og þjálfa jafnt hug og hönd. Nýsköpunarhugsunin er smitandi og hvetur til skapandi úrvinnslu verkefna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að:

  • Nýsköpunarstefna og stuðningskerfi stjórnvalda taki mið af og styðji við loftslagsmarkmið Íslands
  • Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði stórefld og henni beitt markvisst til að styðja við rannsóknir á grænum lausnum og öðrum stórum áskorunum hvers tíma. Framlög til markáætlunar verði tvöfölduð á næsta kjörtímabili
  • Áfram verði haldið að auka framlög til Rannsókna-, Tækniþróunar og Innviðasjóðs ásamt Nýsköpunarsjóði námsmanna. Áfram verði haldið á þeirri braut að framlög til nýsköpunar nái a.m.k. 3% af vergri landsframleiðslu árlega
  • Mótuð verði gervigreindarstefna fyrir Ísland með samráði við almenning þar sem lögð verði áhersla á að samfélagið stjórni tækninni en ekki öfugt
  • Nýsköpunarhugsun sé ræktuð á öllum skólastigum. Öflugt menntakerfi er forsenda nýsköpunar og fjármögnun þess þarf alltaf að tryggja
  • Almannaþjónusta geti verið í sífelldri endurnýjun og svigrúm verði veitt til nýsköpunar innan hennar. Sérstök áhersla verði á að styðja við nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og velferðarþjónustu á næstu árum
  • Stuðningskerfi nýsköpunar verði eflt um allt land og brugðist verði við skekkju á dreifingu fjármagns til stuðnings nýsköpunar og rannsókna til landshlutanna
  • Hvötum verði beitt til nýsköpunar og grænna umbreytinga þvert á atvinnugreinar
  • Aðgengi hópa og kynja að tækifærum til nýsköpunar verði rétt af með markvissum aðgerðum og skekkja í dreifingu nýsköpunarfjármagns á milli landshluta verði leiðrétt

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search