PO
EN

Jöfnuður og félagslegt réttlæti

Landsfundur 2024.

Jafnaðarhugtakið felur í sér tilvísun í efnahagslegan jöfnuð, í jafnrétti og jafnræði auk þess markmiðs að jöfnuður ríki m.a. óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, búsetu, stétt eða stöðu að öðru leyti. Jöfnuður og félagslegt réttlæti eru tvö grunnstef í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Samfélagið á þannig að fagna fjölbreytileikanum og ekki líða mismunun. Mikilvægt er að styðja sérstaklega við þá sem hallar á í samfélaginu til að jafna stöðu þeirra gagnvart öðrum hópum samfélagsins. Til þess má beita sértækum aðgerðum á borð við jákvæða mismunum þar sem við á.

Mikilvægt er að vinna gegn ofbeldi í öllum birtingarmyndum. Samfélagið skal styðja og valdefla þolendur ofbeldis og tryggja áhrifaríkar leiðir til að fyrirbyggja ofbeldi.

Íslenskt samfélag á að vera velferðarsamfélag sem byggir á öflugu mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfi þar sem öllum er tryggður jafn aðgangur og jöfn tækifæri. Slík kerfi, auk réttláts skattkerfis og öruggs húsnæðis, eru hornsteinn jöfnuðar í samfélaginu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun standa vörð um þessa innviði samfélagsins nú sem endranær.

  • Tryggja þarf jöfn tækifæri allra til menntunar, heilsu og þátttöku í samfélaginu og vinna gegn stéttaskiptingu af öllu tagi. Að uppræta fátækt er lykilatriði enda er fátækt brot á mannréttindum.
  • Því þarf að tryggja gjaldfrjálsa menntun til 18 ára aldurs, þar með talið að námsgögnum og að öllum sé tryggt heilnæmt fæði í leik-, grunn- og framhaldsskólum án endurgjalds.
  •  Veikist börn skulu þau eiga fullan og jafnan rétt á umönnun foreldra eða forsjáraðila sinna, óháð stétt eða stöðu þeirra. Stjórnvöld skulu vinna heildstæða stefnu um aðgerðir gegn fátækt og félagslegri einangrun, sér í lagi meðal barna og fjölskyldna þeirra. Tryggja skal innleiðingu og fjármögnun stefnunnar.
  • Tryggja þarf að loftslagsbreytingar, náttúruhamfarir og samfélagsleg, heilsufarsleg og efnahagsleg áföll stuðli ekki að ójöfnuði og félagslegu óréttlæti. Viðkvæmir hópar samfélagsins eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir áföllum og ber okkur að huga að stöðu þeirra í hvívetna og tryggja félagslegt net sem grípur alla þegar áföll dynja á.
  • Hlutverk opinberrar þjónustu, mennta- og velferðarkerfisins í að stuðla að jöfnuði og félagslegu réttlæti er mikilvægt. Tryggja skal jafnan aðgang að þeirri þjónustu og að gæði hennar séu mikil. Að meginstefnu skal almannaþjónusta vera á hendi hins opinbera og aldrei í hagnaðarskyni. Heilbrigðis- og félagsþjónusta skal vera aðgengileg öllum hópum samfélagsins og stefnt að því að hún verði gjaldfrjáls. Einnig skal stefna að því að menntun á öllum skólastigum frá leikskólastigi verði gjaldfrjáls, enda er jafnrétti til náms ein forsenda félagslegs réttlætis í samfélaginu. Tryggja þarf nægilegan stuðning í skólum, þannig að mismunandi staða heimila eða mismunandi aðstaða í fjölskyldum stuðli ekki að mismunun meðal barna. Skólinn á að vera hornsteinn jafnaðar og réttlætis í samfélaginu.
  • Þá skiptir einnig miklu máli að gera fólki kleift að stofna og starfrækja samtök til að berjast fyrir jöfnuði og félagslegu réttlæti í samfélaginu. Slík samtök gegna þýðingarmiklu hlutverki í að viðhalda þeim réttindum sem þegar hafa áunnist, veita stjórnvöldum aðhald og gæta að því að mannréttindi séu tryggð. Tryggja þarf að það sé ekki bara fólk í forréttindastöðu sem geti þátt í slíku starfi. Lykilatriði í því er að fólk hafi tíma og þrek til að sinna félagsstörfum, t.a.m. með frekari styttingu vinnuvikunnar.
  • Verkalýðshreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja launafólki sanngjarnan skerf af verðmætasköpun samfélagsins sem og að byggja upp réttlátan vinnumarkað sem helst í hendur við uppbyggingu réttláts samfélags. Fyrirsjáanlegt er að tækniþróun muni hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn og er mikilvægt að starfsfólk og fulltrúar þess sé haft með í þróun tækninnar og innleiðingu hennar. Almenningi skal tryggður sanngjarn hluti af þeirri verðmætasköpun sem hlýst af tæknibreytingum en þær breytingar mega ekki stuðla að auknum ójöfnuði í samfélaginu. Brýnt er að tækninni verði beitt til að bæta lífskjör og jafna stöðu fólks. Tryggja skal að tæknin og arður af henni fari ekki á fárra hendur og það sé á allra valdi að tileinka sér hana.
  • Tryggja skal rétt okkar allra til öruggs og heilsusamlegs húsnæðis með skýrri stefnu hins opinbera, öflugu eftirliti, fjölgun úrræða og fjárhagslegum og félagslegum stuðningi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search