Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri í Suðurnesjabæ, leiðir lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi, en listinn var samþykktur á fjölsóttum fundi á Hótel Fljótshlíð í dag. Hólmfríður sagði í ræðu á fundinum að nú þyrfti að halda á lofti góðum verkum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og byggja á þeim grunni sem lagður hefur verið. Verkefnin framundan væru mörg og stór, mikilvægt væri að vinna gegn fátækt, kynbundnu ofbeldi, mismunun og atvinnuleysi í kjölfar covid. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður VG og sérstakur gestur fundarins tók í sama streng og Hólmfríður, minnti á þriggja þrepa skattkerfi og ýmsar aðgerðir til jöfnunar sem hrint hefur verið í framkvæmd í ríkisstjórn undir forystu VG og Katrínar Jakobsdóttur. Guðmundur Ingi ræddi einnig styttingu vinnuvikunnar, lengingu fæðingarorlofs, réttlátara heilbrigðiskerfi og stór skref á vinnumarkaði. Þetta er grunnur sem við byggjum á og segir fólkinu í landinu hvert við viljum fara, sagði Guðmundur Ingi meðal annars í ræðu sinni. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarmaður í Skaftártungu er í öðru sæti listans, Sigrún Birna Steinarsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna frá Hornafirði er í þriðja sæti og Rúnar Gíslason, lögregluþjónn er nýr inn í fjórða sæti listans. Helga Tryggvadóttir, námsráðgjafi er í fimmta sæti. Ný stjórn kjördæmisráðs Suðurkjördæmis var kosin á fundinum og var Valgeir Bjarnason á Selfossi endurkjörinn formaður með lófataki.
Listinn:
- Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri
- Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarmaður
- Sigrún Birna Steinarsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna
- Rúnar Gíslason, lögreglumaður
- Helga Tryggvadóttir, náms- og starfsráðgjafi
- Almar Sigurðsson, ferðaþjónustubóndi
- Anna Jóna Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur
- Sigurður Torfi Sigurðsson, verkefnisstjóri
- Pálína Axelsdóttir Njarðvík, félagssálfræðingur
- Ásgeir Rúnar Helgason, lýðheilsufræðingur
- Linda Björk Pálmadóttir, félagsfræðingur
- Þorsteinn Kristinsson, kerfisfræðingur
- Hörður Þórðarsson, leigubílsstjóri
- Valgerður María Þorsteinsdóttir, nemi
- Guðmundur Ólafsson, bóndi og vélfræðingur
- Kjartan Ágústsson, bóndi og kennari
- Gunnhildur Þórðardóttir, myndlistarmaður
- Linda Björk Kvaran, kennari og náttúrufræðingur
- Sæmundur Helgason, kennari og sveitarstjórnarmaður
- Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður