Á miðnætti féllu úr gildi allar takmarkanir á samkomum innanlands. Þetta er gert í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Reglugerðir um samkomutakmarkanir innanlands hafa gilt frá því um miðjan mars í fyrra, með misströngum takmörkunum eftir stöðu faraldursins á hverjum tíma. Nú er það svo að í fyrsta sinn í rúma 15 mánuði eru ekki í gildi neinar takmarkanir á samkomum innanlands. Reglur um sýnatökur á landamærum taka breytingum 1. júlí. Ísland er það með fyrsta Norðurlandaþjóðin til að aflétta öllum takmörkunum innanlands. Bólusetningar hafa gengið vel; um 88% landsmanna hafa fengið fyrri eða báða skammta bóluefnis gegn Covid-19 og um 60% eru fullbólusett.
„Við höfum öll sýnt seiglu, dugnað, úthald og hlýju í þessu stóra verkefni – og það hefur skilað okkur á þann stað sem við erum í dag,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sagði þetta á blaðamannafundinum í gær:
Þegar horft er um öxl yfir síðustu sextán mánuði koma stolt og þakklæti fyrst og síðast upp í hugann. Ég er stolt af því að tilheyra samfélagi þar sem samtakamátturinn og umhyggjan fyrir samferðafólkinu er jafn mikil og raun ber vitni. Þar sem fólk sýnir í verki að það er tilbúið að færa fórnir í þágu annarra og leggja mikið á sig lengi með velferð allra hinna í huga. Sá árangur sem hefur náðst hingað til í baráttunni við faraldurinn er fyrst og fremst íslenskum almenningi að þakka.
Undanfarnir sextán mánuðir hafa verið erfiðir. En þeir hafa líka verið lærdómsríkir – einmitt vegna þess að þeir hafa minnt á að samfélag er ekki aðeins orð heldur okkar aðferð við að vera til ásamt öðrum. Hvernig við náum árangri þegar við stöndum saman og hver og einn leggur sitt af mörkum. Við höfum öll gert okkar til að halda samfélaginu gangandi þrátt fyrir heimsfaraldur og fordæmalausar aðstæður.
Stundum er rétt að staldra aðeins við og hugsa hlýlega hvert til annars og muna að við getum öll verið þakklát fyrir samfélagið sem við eigum og fyrir hvert annað. Og vonandi getum við öll notið sumarsins framundan um leið og við höldum áfram að passa okkur sjálf en ekki síður passa upp á okkur öll. Þó að ráðstöfunum sé aflétt þá skulum við halda því áfram.