PO
EN

Friðlýsing #19 – Stækkun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls

Deildu 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag reglugerð um stækkun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Þjóðgarðurinn á 20 ára afmæli  á morgun  og hefur verið efnt til ýmissa viðburða að því tilefni.

Með viðbótinni stækkar þjóðgarðurinn um 9% og bætist við þjóðgarðinn svæði sem liggur norðan við jökulhettu Snæfellsjökuls og austan við núverandi þjóðgarðsmörk, frá jökli að Búrfelli og norður fyrir Dýjadalsvatn. Nær nýja svæðið m.a. yfir gamla þjóðleið, Prestagötu. Hluti landsins í Gufuskálum var áður í eigu Mílu og Símans sem gáfu það þjóðgarðinum.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi og var fyrsti þjóðgarður landsins sem náði að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda. Hann var stofnaður árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar.  

Gestum þjóðgarðsins hefur farið ört fjölgandi undanfarin ár og sækir nú um hálf milljón gesta þjóðgarðinn heim árlega. Á síðasta ári heimsóttu um 200 þúsund gestir þjóðgarðinn, langflestir Íslendingar, þar sem fáir erlendir ferðamenn komu til landsins vegna kórónuveirufaraldursins. Umfangsmikil uppbygging innviða hefur farið fram á undanförnum árum og á síðasta ári hófust framkvæmdir við gestastofu þjóðgarðsins á Hellissandi sem mun ljúka á því næsta.

Ráðherra mun á grundvelli reglugerðar um þjóðgarðinn skipa þjóðgarðsráð en það er í fyrsta skipti sem það er gert á grundvelli laga um náttúruvernd. Í þjóðgarðsráði munu eiga sæti fulltrúar sveitarfélagsins, Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, ferðaþjónustusamtaka á Snæfellsnesi og umhverfisverndarsamtaka. Ráðið verður Umhverfisstofnun og þjóðgarðsverði til ráðgjafar í málefnum þjóðgarðsins, s.s. um framkvæmdaáætlun, áherslur fyrir þjóðgarðinn, gerð stjórnunar- og verndaráætlunar og önnur stefnumarkandi mál er varða þjóðgarðinn. Þjóðgarðsráðið mun stuðla að breiðari þátttöku hagaðila í mótun þjóðgarðsins.

„Ég er afskaplega stoltur og ánægður með uppbyggingu í þjóðgarðinum á síðustu árum, hvort sem horft er til fjölgunar heilsársstarfa og sumarstarfa landvarða, innviða á borð við göngustíga og palla sem vernda náttúruna, nú eða aðstöðu og fræðslu fyrir ferðamenn sérlega með nýju gestastofunnar sem verður opnuð á næsta ári. Þá er það sérstakt gleðiefni að nú í tilefni af 20 ára afmæli þjóðgarðsins, stækkum við hann umtalsvert með náttúruvernd og eflingu samfélagsins á Snæfellsnesi að leiðarljósi. Til hamingju Ísland“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

Frétt: Stjórnarráðið

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search