Search
Close this search box.

Ályktanir landsfundar 2001

Samþykkt:

ÁLYKTUN UM ALMENNINGSSAMGÖNGUR

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, hvetur til þess að öllum ráðum verði beitt til að auka vægi almenningssamgangna á Íslandi og gera þær aðgengilegar öllum. Nýlegar hugmyndir um lestarsamgöngur milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar eru mjög athyglisverðar og ástæða er til að gefa þeim og öðrum hugmyndum af svipuðu tagi gaum. Almenningssamgöngur eru ódýr, umhverfisvænn og hagkvæmur kostur sem kemur hinum efnaminni ekki síst til góða. Þær mega ekki vera stöðugt í öðru sæti og sí og æ látnar víkja fyrir öðrum vegaframkvæmdum. 

ályktun um atvinnu- og byggðamál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, telur það mikilvæga grundvallarforsendu í velferðarsamfélagi að tryggja fulla atvinnu og störf við hæfi. Jafnframt minnir fundurinn á að næg og fjölbreytt atvinna ásamt öflugri velferðarþjónustu, traustu menningarlífi og öruggu umhverfi er grundvöllur hverrar lífvænlegrar byggðar og forsenda farsællar byggðaþróunar.

Fjölbreytni og sjálfbær þróun eru lykilorðin við uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar. Landsfundurinn minnir á þá staðreynd að meiri hluti nýrra starfa verður til í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Áhersla stjórnvalda á uppbyggingu fárra risastórra fyrirtækja gengur þvert gegn dómi reynslunnar og leiðir til einhæfni, en ekki þeirrar fjölbreytni og þess vaxtarumhverfis sem æskilegast er.

Vandi íslensk atvinnulífs felst ekki í því að það skorti tækifæri og möguleika. Fyrir landsbyggðina skiptir mestu að eytt sé þeim aðstöðumun sem er öllu atvinnu- og mannlífi þar mótdrægur að ekki sé talað um þá erfiðleika sem því eru samfara að koma þar nýjum fyrirtækjum á fót og hlúa að nýsköpun og þróun. Lélegar samgöngur, mikill flutningskostnaður, lakari fjarskipti, dýrari orka, erfiðleikar við að sækja sérhæfða þjónustu, vandkvæði á að fá lánafyrirgreiðslu og jafnvel venjulega bankaþjónustu; þetta og margt fleira, ásamt ómarkvissri og máttlausri byggðastefnu, eru erfiðustu hindranirnar í vegi nýsköpunar í atvinnu- og byggðamálum á landsbyggðinni. Stjórnvöldum væri nær að ráðast á þennan aðstöðumun en einblína á eitt álver sem lausn í byggðamálum eða öllu heldur fjarvistarsönnun frá því að aðhafastnokkuð marktækt gagnvart hinum almenna atvinnu- og byggðavanda.

Möguleikar íslensks atvinnulífs til að sækja fram og þróast, jafnt í sveit og borg, eru miklir ef rétt er á málum haldið. Ýmsir nágrannar okkar hafa sýnt að með réttum áherslum og hugarfari er hægt að hafa mikil áhrif til góðs á byggðaþróun jafnvel þó aðstæður séu erfiðar eins og í Norður- og Vestur-Noregi, á vesturströnd Írlands, á Skosku eyjunum og í Hálöndunum. Möguleikar fjölbreyttrar ferðaþjónustu, hágæða matvælaframleiðslu og matvælaiðnaðar, vatnsútflutningur, lyfja- og heilsuvöruiðnaður, vistvænn orkubúskapur, hugvits- og þekkingargreinar, listiðnaður og handverk, iðnaður og þjónusta og ýmiskonar virðisaukandi starfsemi tengd undirstöðugreinum eins og landbúnaði og sjávarútvegi; þetta allt og fjölmargt fleira býður upp á ótalmörg tækifæri. Sumar þessara atvinnugreina hafa einmitt verið að stórauka hlut sinn í útflutningstekjum og verðmætasköpun þjóðarinnar undanfarin ár. Það eru því fáar kenningarvitlausari og í raun hættulegri um þessar mundir en álnauðhyggjan, fullyrðingarnar um að ekkert annað en meiri stóriðja og ennþá meiri stóriðja geti skapað hér ný störf og aukið verðmætasköpun. Það er rangt og hættulegt að halda slíku fram. Í því er fólgin vantraustsyfirlýsing gagnvart öðrum sviðum atvinnuþróunar. Þessar áherslur eru á skjön við framsækna atvinnustefnu og það gengur gegn dómi reynslunnar um það hvaða áherslur í nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfi skili mestum árangri.

   Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt til að mótuð verði rammaáætlun um sjálfbæra atvinnustefnu í samræmi við Dagskrá 21 og Staðardagskrá 21 og henni hrint í framkvæmd með markvissum hætti. Ein helsta forsenda þess að svo geti orðið er að vinna gegn þeirri tortryggni sem oftar en ekki stafar af því að litið er á umhverfisvernd sem dragbít eða jafnvel andstæðu þróttmikils atvinnulífs. Því þarf að efla skilning og þekkingu á þeim miklu atvinnutækifærum sem í raun felast í markvissri og metnaðarfullri umhverfis- og náttúruvernd. Vernd náttúru og umhverfis er ekki einungis skylda okkar við komandi kynslóðir, heldur einnig uppspretta tækifæra, ekki síst á landsbyggðinni.

Landsfundurinn ítrekar stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í byggðamálum, sem fylgt hefur verið eftir á Alþingi með tillögum um aðgerðir. Mikilvægt er að sátt náist um leiðir til að leysa þann knýjandi vanda sem byggðaþróun undanfarinna ára hefur skapað. Sá vandi bitnar á samfélaginu öllu, jafnt þéttbýli sem dreifbýli. Hann veldur ekki aðeins fjölda einstaklinga og fjölskyldna fjárhagslegum skaða og veikir þau samfélög sem verða fyrir fólksfækkun, heldur hefur hann í för með sér mikinn kostnað vegna uppbyggingar þjónustu í öðrum samfélögum.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, skorar á Alþingi Íslendinga að samþykkja tillögu þingflokks VG um aukaþing Alþingis um byggðamál í janúar árið 2002 þar sem fjallað verði um framtíðarþróun byggðar í landinu og í framhaldi af því mótuð markviss byggðastefna til næstu tveggja áratuga. Í tengslum við þingið verði haldin almenn byggðaráðstefna með aðild sveitarstjórna, helstu stofnana sem annast byggðamál á vegum hins opinbera, svo og félagasamtaka og einstaklinga.

Landsfundurinn tekur eindregið undir tillögu þingflokks VG um sérstakt átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni, þar sem áhersla verði á fjölbreytni í atvinnusköpun og stuðning við hvers konar nýsköpun og þróun. Landsfundurinn minnir á nauðsyn þess að taka sérstakt tillit til sjónarmiða og þarfa kvenna í þessu samhengi. Einn þátturinn í byggðaþróun undanfarinna ára er einmitt sá að samfélagið hefur ekki brugðist við þeirri staðreynd að konur sjá sjálfum sér og fjölskyldum farborða ekki síður en karlar. Ekki síst þess vegna er svo nauðsynlegt að stuðla að sem mestri fjölbreytni í atvinnulífinu svo að allir finni þar störf við hæfi.

Ályktun um fjölmenningarsamfélag

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, ályktar að hinu opinbera beri að hlúa að því að hér þrífist fjölmenningarsamfélag, byggt á jöfnuði og réttlæti. Allt skólastarf taki mið af fjölmenningarsamfélaginu og þar ræktað umburðarlyndi og víðsýni, en barist gegn fordómum og kynþáttahatri. Jafnframt getur Ríkisútvarpið verið öflugt tæki í þessari viðleitni og því ber að hlúa að menningu Íslendinga sem eru af erlendu bergi brotnir. Ríkisútvarpinu ber þannig að kynna markvisst menningu og þjóðararf landa á borð við Pólland, Víetnam, Filippseyjar, Taíland og þjóða Balkanskagans. Góð þekking á menningu Íslendinga af erlendum uppruna er besta leiðin til að stuðla að þeirri víðsýni og því fordómaleysi sem einkennir raunverulegt fjölmenningarsamfélag.

Tillögur starfshóps um flokksstarf og félagslega uppbyggingu.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, samþykkir að fela stjórn að skipa ritstjórn Málefnahandbókar. Ritstjórnin fari ítarlega yfir Málefnahandbók flokksins og bæti við frekari köflum og frekari umfjöllun um einstök atriði í samræmi við samþykktir, útgáfu, greinagerðir þingmála og önnur gögn sem hafa fengið formlega umfjöllun innan flokksins frá því að Málefnahandbókin kom fyrst út. Sérstaklega skal unnið að því að ný útgáfa  Málefnahandbókarinnar sé vel aðgengileg, bæði í netútgáfu og í prentútgáfu. Ný Málefnahandbók liggi fyrir eigi síðar en haustið 2002.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, samþykkir að fela ritstjórn Málefnahandbókar að setja inn kafla um kvenfrelsi í handbókina. Skal ritstjórnin styðjast við og vinna úr tillögu hugmyndasmiðju VG um kvenfrelsi að kafla um kvenfrelsi í Málefnahandbók Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, samþykkir að fela stjórn flokksins að skipa starfshóp sem fjalla á um kynningarmál flokksins á netinu í víðum skilningi. Sérstaklega verði hugað að því hvort rétt sé að skipa heimasíðu VG ritstjórn og/eða ráða sérstakan ritstjóra til verksins í hlutastarf. Þá skal starfshópurinn vinna í nánu samstarfi við ritstjórn Málefnahandbókar og leita leiða til að sníða nýja útgáfu að vefnum, en jafnframt fyrir prentaða útgáfu.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, telur mjög mikilvægt að efla norrænt samstarf og miðla þeirri reynslu og þekkingu sem vettvangur Norðurlandaráðs bíður upp á til yngra fólks í flokknum. Fundurinn telur því mikilvægt að fólk innan UVG verði stutt til norðurlandasamstarfs innan æskulýðsstarfs Norðurlandaráðs.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, samþykkir að fela stjórn flokksins að leita eftir fullri aðild að samstarfi vinstri-sósíalisku flokkanna á Norðurlöndum.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, samþykkir að fela stjórn flokksins að stuðla að því að á komist formleg og reglubundin tengsl milli vest-norrænu vinstri flokkanna t.d. með árlegum fundum forystumanna þeirra og gagnkvæmum boðum um að sækja landsfundi.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, samþykkir að fela stjórn flokksins að vinna að því að koma á samskiptum við valda  erlenda vinstri flokka og flokka umhverfisverndarsinna (græna flokka).

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, telur að gæta verði ýtrasta hófs í sambandi við útgjöld samfara þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og velja verði mjög vandlega þau samskipti, fundi og ráðstefnur sem réttlætanlegt sé að verja fjármunum í.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, samþykkir að fela stjórn flokksins að stofna starfshóp sem komi á fót VG-smiðju, sem hafi það að markmiði að fræða almenning og flokksfélaga um málefni, sem tengjast stefnu og markmiðum flokksins í anda þeirra smiðja, sem flokkurinn stóð fyrir í aðdraganda seinustu alþingiskosninga. VG-smiðjan verði einnig þannig upp byggð að hægt sé að einhverju eða öllu leyti að ferðast með hana milli kjördæma. Starfshópurinn hugi að þörf og forsendum fyrir stjórnmálaskóla/félagsmálaskóla á vegum VG og geri tillögu um það mál til flokksstjórnar.

 Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-21. október 2001, samþykkir að hvetja til eðlilegrar endurnýjunar í flokknum með því að styðja ungt fólk til áhrifa. Við skipan í trúnaðarstöður á að hafa til hliðsjónar að hver stjórn innan flokksskipulagsins hafi innanborðs að minnsta kosti tvo ungliða.

Ályktun um friðlýsingu Íslands

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, hvetur til þess að Ísland og íslensk efnahagslögsaga verði friðlýst fyrir umferð með kjarnorku-, sýkla- og efnavopn í lofti, á láði og á legi. Brýnt er að skip, flugvélar og kafbátar sem vitað er til að geti borið slík vopn, geri grein fyrir farmi sínum áður en þau fara inn í íslenska lögsögu.

            Þá hvetur landsfundurinn íslensk sveitarfélög til að leggja baráttunni fyrir friðvænlegri veröld lið sitt með friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum og undirritun alþjóðlegra yfirlýsinga á borð við  „Abolition 2000“.  Allmörg sveitarfélög hafa þegar sent frá sér slíka yfirlýsingu og er framtaki því fagnað.

ÁLYKTUN UM HÁSKÓLA ÍSLANDS

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-21. október 2001, ályktar að Háskóli Íslands sé og eigi að vera þjóðskóli. Allir stúdentar eiga að fá að stunda þar nám óháð efnahag, búsetu og félagslegum aðstæðum. Skólagjöld eru andstæð jafnréttishugsjóninni og mega aldrei líðast, hvort sem þau eru kölluð innritunargjöld eða nefnd öðru dulnefni. Þá á Háskóli Íslands að vera fræðileg rannsóknamiðstöð, óháð duttlungum stjórnvalda á hverjum tíma. Háskóli Íslands er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á markaði og á hann ber ekki að leggja mælikvarða auðgildisins.

ÁLYKTUN UM HERLAUST LAND

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-21. október 2001, áréttar að Ísland eigi að vera herlaust land.

Íslenskum stjórnvöldum ber að ganga þegar til samninga við Bandaríkin um brottför setuliðsins á Miðnesheiði. Jafnframt því á Ísland að ganga úr Atlantshafsbandalaginu.

Ísland úr NATO, herinn burt.

Jöfnuður og fjölbreytni í byggð landsins

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vinnur að jöfnuði og fjölbreytni í byggð landsins, sem grundvallast á öflugu velferðarkerfi, samfélagi samábyrgðar, umhverfisvernd og sjálfbærri þróun, lýðræði og réttlæti. Til að ná þessum markmiðum hvetur landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, flokksmenn til virkrar þátttöku í komandi sveitarstjórnar­kosningum hvar sem því verður við komið, annaðhvort í nafni flokksins eða í samstarfi við aðra eftir því sem aðstæður og vilji manna á hverjum stað býður.

Baráttan fyrir jöfnuði og félagslegu réttlæti og sjónarmið náttúruverndar þurfa að eiga sér öfluga málsvara í sveitarstjórnum um allt land. Þetta er þeim mun mikilvægara sem verkefni sveitarfélaganna meðal annars á sviði velferðar-,  umhverfis- og menntamála hafa verið að aukast með flutningi verkefna frá ríkinu og með nýjum viðhorfum og viðfangsefnum. Þörf er fyrir kröftuga sókn gegn einstrengingslegri sérhyggju og kaldrifjaðri markaðshyggju, andstæðu velferðar og samábyrgðar.  Átök um grundvallarviðhorf til hlutverks opinberra aðila og spurningar um félagslegan rekstur og ábyrgð eða einkarekstur og einkavæðingu hafa í auknum mæli færst yfir á sveitarstjórnarstigið.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð berst fyrir því að staða sveitarstjórna verði styrkt og fjárhagsgrundvöllur þeirra treystur til að inna sem best af hendi þá þjónustu sína sem sveitarfélögunum ber. Leiðir að markmiðum hreyfingarinnar er að finna á heimasíðunni vg.is, handbók flokksins um sveitarstjórnarmál og í málefnahandbók.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð fylgir stefnumiðum sínum eftir með virku, lýðræðislegu starfi í sveitarstjórnum, er tilbúin til að axla ábyrgð og hyggst beita sér á þeim vettvangi í þágu baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

ÁLYKTUN UM KOSNINGARÉTT

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn 19. – 21. október 2001, ályktar að jafna beri kosningarétt þannig að þeir erlendir ríkisborgarar sem sannanlega hafa í þrjú ár búið á Íslandi öðlist kosningarétt til sveitarstjórna.

Ályktun um launastefnu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, ályktar að kjaramál séu eðlilegur hluti af stjórnmálum. Stjórnvöldum á hverjum tíma getur ekki liðist að firra sig ábyrgð á launastefnu með því að skýla sér á bak við samninganefndir og embættismenn.  Brýnt er að stefna félagshyggjumanna komi fram í verki þegar þeir eru við völd, hvort sem er á landsvísu eða í einstökum sveitarstjórnum. Jafnframt hvetur landsfundurinn til þess að þegar í stað verði gengið til samninga við sjúkraliða og tónlistarkennara, sem allt of lengi hafa haft lausa samninga.

ÁLYKTUN UM MENNINGAR OG MENNTAMÁL

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, minnir á að fjölbreytt og lifandi menning er undirstaðan í sjálfsvitund þjóðarinnar. Því ber að hlúa sem best að hvers konar menningu, listsköpun og listiðkun og vinna gegn hættu á menningarlegri stéttaskiptingu. Menning á ekki að vera séreign útvalinna, heldur sameign allra og nauðsynleg starfsemi í nútímaþjóðfélagi. Öflugt, frjótt og innihaldsríkt lista- og menningarlíf eflir gagnrýna hugsun og þjóðfélagsumræðu. Því má heldur ekki gleyma að menning og listsköpun er ekki aðeins lífsfylling og ánægjuvaldur, heldur skapar mikinn fjölda atvinnutækifæra og færir einstaklingum og þjóðarbúinu í heild bæði fjárhagsleg og menningarleg verðmæti. Þetta framlag ber að meta að verðleikum.

Landsfundurinn leggur áherslu á öfluga sókn í menntamálum þar sem öllum verði tryggðir jafnir möguleikar til þess náms og þroska sem efni standa til. Fjölbreytni í menntun ber að tryggja með því að gera ólíkum leiðum jafn hátt undir höfði. Mikilvægt er að gefa nemendum kost á samfelldu námi í heimabyggð allt til 18 ára aldurs og hagnýta möguleika fjarkennslu  til framhalds – og háskólanáms til hins ýtrasta til að bæta aðstöðu landsbyggðafólks. Sporna þarf við þeirri þróun að allt iðnnám sé skipulega flutt af landsbyggðinni í móðurskóla á höfuðborgarsvæðinu. Styrkja ber grunnskóla og framhaldsskóla í fámennum byggðarlögum. Dekur núverandi ríkisstjórnar við einkarekstur í skólakerfinu ógnar þeirri jafnréttishugsun sem hafa ber að leiðarljósi þegar grunnmenntun þjóðarinnar er annars vegar. Fundurinn leggur áherslu á að fjárframlög ríkis og sveitarfélaga til skólastarfs skerðist ekki vegna stuðnings við einkaskóla hvort sem er á grunnskólastigi eða framhaldsskólastigi. Auknar álögur á nemendur í framhaldsskólum og háskólum ganga einnig á svig við þessa jafnréttishugsun og ber að leggja áherslu á nauðsyn þess að öll framhaldsmenntun sé rekin á ábyrgð samfélagsins alls.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur óhjákvæmilegt að stórefla rannsóknir og vísindastarfsemi í landinu á breiðum grundvelli og leggja þannig grunn að fjölbreyttum möguleikum atvinnu- og mannlífs og allrar samfélagsþróunar í framtíðinni.  

Landsfundurinn leggur áherslu á að Ríkisútvarpið sé áfram í eigu þjóðarinnar allrar og varar eindregið við hugmyndum um að stofna til hlutafélags um rekstur þess. Ríkisútvarpið á að vera undirstaða menningarlífs í landinu. Það hefur ríkum skyldum að gegna um varðveislu og eflingu íslenskrar tungu og menningar. Það er skylda stjórnvalda að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti sinnt metnaðarfullri íslenskri dagskrárgerð og boðið upp á fjölþætt menningarefni.

Landsfundurinn gagnrýnir harðlega þá atlögu að svæðisstöðvunum sem nú er hafin og krefst þess að henni verði hrundið. Þjónusta svæðisstöðvanna hefur aukið fjölbreytni í dagskrá og fréttaflutningi og styrkt stöðu Ríkisútvarpsins sem útvarps allra landsmanna. Því uppbyggingarstarfi ber að halda áfram. Landsfundurinn lýsir eindreginni andstöðu við fram komnar hugmyndir um að leggja niður Rás 2 undir því yfirskini að hún skuli flutt til Akureyrar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á mikilvægt hlutverk Ríkisútvarpsins í íslensku menningarlífi og gagnrýnir harðlega hvernig stjórnvöld undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa hneppt það í fjárhagslega fjötra og þrengt verulega möguleika þess til að gegna lögboðnu hlutverki sínu.

Landsfundurinn vekur athygli á áfellisdómi er fréttastofa sjónvarps hlaut nýverið hjá siðanefnd Blaðamannafélags Íslands er fréttastofan þáði boðsferð Ísraelsstjórnar. Niðurstaðan var alvarlegt brot á siðareglum BÍ. Krefjast verður þess að fréttastofa sjónvarps hlíti lögum og gæti óhlutdrægni í umfjöllun um alþjóðamál, en hún hefur í of ríkum mæli einkennst af gagnrýnislausum stuðningi við bandaríska utanríkisstefnu og stríðsrekstur.

            Landsfundurinnn lýsir áhyggjum sínum vegna neikvæðra afleiðinga á lífshætti, menningu, heimssýn og tungu, sem stafa af drottnun engilsaxneskra myndmiðla, einkum kvikmynda og myndbanda. Það er skylda ábyrgra stjórnvalda að stuðla að fjölbreyttara aðgengi og neyslu myndmiðla í þágu heimsfriðar og aukins skilnings milli menningarheima í samræmi við ályktanir allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

SAMRÁÐSHÓPUR UM SVEITARSTJÓRNARMÁL

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, samþykkir að fela stjórn flokksins að skipa samráðshóp um sveitarstjórnarmál. Hlutverk hópsins verði að undirbúa málþing VG um sveitarstjórnarmál sem einkum verði ætlað frambjóðendum úr röðum flokksmanna í komandi sveitarstjórnarkosningum. Samráðshópurinn getur líka veitt svæðisfélögum og deildum stuðning við undirbúning kosninga ef eftir því verður leitað.

Ályktun um stofnun þjóðgarða og friðlanda

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 2001 fagnar tilkomu Snæfells­jökuls­þjóðgarðs og fyrirheita um formlega stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á Alþjóðaári fjalla 2002. Vatnajökulsþjóðgarður þarf hinsvegar frá byrjun að tengjast sem flestum óbyggðasvæðum allt í kringum jökulinn, þar á meðal víðernunum norðan hans. Stofnun og rekstur þjóðgarða og annarra náttúruverndarsvæða þarf að verða  í sem bestri samvinnu við  rétthafa og heimamenn sem haft geta margvíslegt hagræði af nýtingu svæðanna til útivistar og ferðaþjónustu. Jafnframt þarf að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Gæta þarf þess að náttúra friðlýstra svæða bíði ekki hnekki af ferðamennsku eða öðrum útivistarnotum.

            Landsfundurinn styður eindregið framkomnar tillögur þingflokks VG um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, stofnun Snæfellsþjóðgarðs og um tilnefningu Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsarsamningsins.

            Landsfundurinn heitir á náttúruverndarfólk og almenning um allt land að láta til sín taka í baráttunni fyrir verndun ómetanlegra svæða í óbyggðum Íslands. Hernaðinum gegn hálendinu verður að linna.

STJÓRNMÁLAÁLYKTUN

Inngangur

Vinstrihreyfingin – grænt framboð kemur nú saman til reglulegs landsfundar í annað sinn í sögu sinni.  Liðlega tvö og hálft ár eru liðin síðan hreyfingin var stofnuð í aðdraganda Alþingiskosninganna 1999.  Á þessum tíma hefur hin unga stjórnmálahreyfing fengið sína eldskírn í hverri stjórnmálasnerrunni á fætur annarri, hún hefur fest sig í sessi og kynnt stefnumál sín þannig að eftir hefur verið tekið.  Sá hljómgrunnur sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur fengið er í senn hvatning til að halda áfram á sömu braut og sönnun þess að mikill fjöldi fólks vill að hér starfi og eflist róttækur, umhverfisverndarsinnaður flokkur.

Hlutverk Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í íslenskum stjórnmálum er þeim mun mikilvægara sem ljóst er að naprir hægri vindar hafa að undanförnu skekið undirstöður samfélagsins. Leiðarljós síðustu ríkisstjórna undir forystu Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokknum og nú með Framsóknarflokknum, er blind trú á fjármagnið og markaðinn, nýfrjálshyggjan með sínum hörðu gildum.  Annars vegar hefur þetta leitt til vaxandi auðsöfnunar fárra og hins vegar til versnandi lífskjara þeirra sem minnst hafa efnin og til stórfelldrar byggðaröskunar. Heyja þarf kröftuga baráttu fyrir félagslegum réttindum og jöfnuði og fyrir varðveislu náttúru og umhverfis.

            Framundan eru tvennar kosningar, fyrst til sveitarstjórna á vori komanda og til Alþingis ári síðar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð stefnir ótrauð að því að gera sig gildandi á vettvangi sveitarstjórna og hafa þar áhrif til mótunar samfélagsins og umhverfis mannsins. Á vettvangi landsmálanna verður sótt fram í baráttunni fyrir gjörbreyttum áherslum, þar sem snúa verður af braut kaldrar markaðshyggju og einkavæðingar almannaþjónustunnar til stefnu jafnaðar, kvenfrelsis,  félagslegs réttlætis og samábyrgðar í þjóðfélaginu. Ekki síst þarf að leiða til öndvegis öfluga íslenska atvinnustefnu með fjölbreytni að leiðarljósi, stefnu sem virðir lögmál sjálfbærrar þróunar og þar sem  náttúru landsins og auðlindum er sýnd tilhlýðileg virðing.

Fjölbreytni

Yfirskrift og eitt meginstef þessa landsfundar er hugtakið fjölbreytni. Þetta hugtak vísar í okkar samhengi til margs í senn. Það vísar til þjóðfélags þar sem reynsla og hæfileikar kvenna eru virtir og nýttir til jafns við reynslu og hæfileika karla. Það vísar til fjölmenningarlegs þjóðfélags þar sem fólk af ólíkum uppruna og litarhætti sýnir hvert öðru virðingu, skilning og umburðarlyndi hvað varðar mismunandi menningarlegan bakgrunn, trúarbrögð, tungumál o.s.frv. Um leið er verið að vísa til fjölbreytni í menningu og mannlífi og allri samfélagsgerð. Samfélögin stór og smá, í sveit og borg, eiga öll að fá að njóta sín og blómgast á sínum eigin forsendum.

Orðið vísar ennfremur til þeirrar áherslu sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur á fjölbreytni í atvinnulífinu og til þeirra fyrirvara sem við höfum á vanhugsuðum risalausnum á sviði efnahags- og atvinnumála. Fjölbreytni er nátengt hugtökunum um sjálfbæra þróun samfélaga og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun krefst þess að hafnað sé einhæfum lausnum og gagnrýnislausum kröfum um svokallaða hagræðingu og stækkun eininga til þess að fjármagnið geti tekið meira til sín og eins þótt það sé á kostnað almennings og umhverfisins. Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur svo á að verndun líffræðilegrar fjölbreytni og allt sem lýtur að varðveislu náttúru og umhverfis í öllum sínum fjölbreytileika sé eitt af brýnustu viðfangsefnum mannkynsins á nýhafinni öld.

Einhæfni er andstæða fjölbreytninnar. Einhæfni í félagslegu og menningarlegu tilliti birtist okkur í lagskiptu og stéttskiptu eða aðgreindu þjóðfélagi þar sem búseta fer eftir menntun, efnahag, trúarbrögðum, litarhætti o.s.frv. Einhæfni í atvinnulífi birtist okkur í sérhæfingu og verkaskiptingu sem komin er út í öfgar. Slíkt færir samfélögin frá því að geta talist sjálfbær, veldur auknu og óþörfu álagi á umhverfið og dregur úr stöðugleika og aðlögunarhæfni. Áhrif alþjóðavæðingar, sem svo mjög er til umræðu um þessar mundir, eru mótsagnakennd í ljósi spurninga um fjölbreytni eða einhæfni. Auknum ferðalögum, búferlaflutningum og samskiptum af ýmsum toga fylgir sumpart aukin fjölbreytni eða blöndun. Miskunnarlausum kröfum um hagræðingu, sérhæfingu og aukna verkaskiptingu, svo og vaxandi fákeppni víða á mörkuðum vegna markaðsráðandi stöðu stórfyrirtækja, fylgir á hinn bóginn aukin einhæfni.

            Áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á fjölbreytni og sjálfbærni birtast með skýrum hætti í stefnu okkar á sviði atvinnu- og byggðamála. Þar kveður við allt annan tón en í stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Í landbúnaði leggjum við áherslu á sjálfbæra búskaparhætti. Við  vörum hins vegar við þróun í átt til aukinnar samþjöppunar og verksmiðjubúskapar.

Í sjávarútvegi leggjum við áherslu á að fiskimiðin eru sameign þjóðarinnar. Við viljum efla vistvænar strandveiðar, tryggja stöðu sjávarbyggðanna, vinnslunnar í landi og fólksins sem þar býr með byggðatengingu ákveðinna grunnréttinda til auðlindanýtingar. Þannig er stuðlað að fjölbreytni og betra jafnvægi og þróunarmöguleikum innan greinarinnar í senn. Núverandi kvótakerfi ber að fyrna með byggðatengingu og vistvænni nýtingu fiskimiðanna.

Á sviði orkunýtingar og í iðnaði höfum við sömu grundvallaratriði fjölbreytni og sjálfbærni að leiðarljósi. Sjálfbær orkustefna tekur í senn til þess að umhverfisröskun sé í lágmarki við alla frekari orkuöflun og að orkunni sé ráðstafað til verkefna sem koma fólki og almennri atvinnustarfsemi sem mest til góða.

Í iðnaði og þjónustu er mikilvægast að hlúa að nýsköpun og þróun og hvers kyns vaxtarsprotum framfara og fjölbreytni. Úr lausu lofti er gripið allt nauðhyggjutal um að ekki séu hér forsendur til að bæta lífskjör nema með því að ráðstafa orkulindum landsmanna til erlendra auðhringa og jafnvel almenningsþjónustufyrirtækin líka. Reynslan hérlendis sem erlendis sýnir að yfirgnæfandi meirihluti nýrra starfa verður til í nýjum fyrirtækjum eða smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru að vaxa. Áherslan á uppbyggingu fárra risastórra og óheyrilega kostnaðarsamra fyrirtækja er þess vegna röng. Hún gengur gegn dómi reynslunnar og leiðir til einæfni en ekki þeirrar fjölbreytni og þess vaxtarumhverfis sem við viljum skapa. Landsfundurinn hafnar blindri stóriðjustefnu núverandi ríkisstjórnar í þágu mengandi stóriðju og við höfnum óafturkræfum náttúruspjöllum sem henni eru samfara.

Landsfundurinn leggur áherslu á að framtíðarsýn okkar er samábyrgt, fjölmenningarlegt þjóðfélag þar sem við njótum góðs af heilnæmu umhverfi og fjölbreytileika mannlegrar tilveru. Í samábyrgðinni felst að við látum okkur hvert annað varða og berum sameiginlega ábyrgð hvert á öðru, á mannlegu samfélagi og umhverfi okkar. Ekki síst er sameiginleg ábyrgð okkar fólgin í því að spilla í engu möguleikum komandi kynslóða til sem bestra lífsgæða. Núlifandi kynslóð hefur engan siðferðilegan rétt til að ana áfram í blindri græðgi, auka sífellt neyslu sína og ganga æ nær umhverfinu, en ætla svo börnum sínum og barnabörnum að sitja upp með reikninginn, þ.e. mengun, sjúkdóma, auðlindaþurrð og almennt skert lífsgæði.

Alþjóðahyggja á forsendum félagslegs réttlætis og lýðræðis

Alþjóðamál varða fyrst og fremst hag og mannvirðingu allra jarðarbúa. Mesta hindrun í vegi þess að hvert mannsbarn geti notið grundvallar réttinda til lífs, heilsu, menntunar og friðar er sívaxandi bil milli ríkra og snauðra. Þetta bil hefur aukist á síðastliðnum tuttugu árum bæði hnattrænt og innan einstakra ríkja. Afleiðingar þessa ranglætis birtast í varanlegri fátækt, auknum barnadauða, misrétti kynja, ólæsi, skipulagðri glæpastarfsemi, auknu flæði eiturlyfja, vændi og kynlífsþrælkun, sem er hið eiginlega þrælahald og mansal nútímans. Þeir sem bera meginábyrgð á hnattrænu ranglæti eru þeir sem hagnast mest á því. Hinir ríku og voldugu viðhalda drottnun sinni yfir þorra mankyns með hervaldi, efnahagsþvingunum og pólitískri kúgun. 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar -græns framboðs hvetur til upplýstrar og gagnrýninnar umræðu um kosti og galla þeirra breytinga í alþjóðamálum sem gengið hafa yfir heiminn á undanförnum árum og standa enn yfir.

Hnattvæðing sú sem hefur verið mótmælt í Seattle, Prag, Genúa og víðar er hnattvæðing á forsendum fjármagnsins þar sem fjölþjóðlegir auðhringar, ríkisstjórnir voldugustu ríkja heims og yfirþjóðlegar stofnanir sem starfa á þeirra vegum, ráða ráðum sínum án þess að leita til lýðræðislegra stofnana eða hins fátæka meirihluta jarðarbúa. Eðlilegt er að mótmæla þess konar hnattvæðingu. Hnattvæðing sem bætir hag allra verður að vera á forsendum lýðræðis, jöfnuðar og félagslegs réttilætis og með þeim hætti að frelsi og tækniframfarir verði sameign allra. Miklir möguleikar eru fólgnir í tækniþróun, auðveldari ferðalögum og möguleikum í upplýsingasamfélaginu svo dæmi séu tekin. Þessi tækifæri verða að standa öllum jarðarbúum til boða.

Berjast verður gegn ofurvaldi alþjóðlegra auðhringa og fjármagns, ólýðræðislegum stjórnarháttum og ákvarðanatöku. Styrkja verður lýðræði og tryggja að umhverfisvernd, mannréttindi og jöfnuður milli norðurs og suðurs, þróunarríkja og iðnríkja verði alls staðar hafður að leiðarljósi. Stefna ber að alþjóðasamningum og alþjóðlegum leikreglum sem tryggja þróunarlöndunum vaxtarmöguleika og batnandi lífskjör. Tryggja þarf að hinar ríku þjóðir leggi sitt af mörkum, hemji græðgi sína og setji skorður við óhóflegri neyslu til þess að umhverfinu og lífsskilyrðum á jörðinni verði ekki spillt frekar en orðið er.

Landsfundurinn leggur áherslu á að markmið þeirra sem berjast gegn neikvæðum þáttum hnattvæðingarinnar er ekki að koma í veg fyrir alþjóðlega samvinnu, heldur þvert á móti að tryggja að hún fari fram á réttlátum og sanngjörnum grundvelli og leikreglurnar séu þannig að allir fái notið sín.  Sífellt fleiri gera sér ljóst að vaxandi gjá í lífskjörum milli ríkra þjóða og fátækra sem og í lífskjörum innan landa er ein helsta ógnunin við frið og farsæld í heiminum. Aukinn skilningur og aðgerðir á þessu sviði eru ein mikilvægasta forsenda þess að takast megi að efla stöðugleika og skapa friðsamlegri framtíðarhorfur í heiminum.

Staða þjóðmála

Ef litið er til aðstæðna í íslenskum þjóðmálum og þjóðarbúskap um þessar mundir er ljóst að horfur hafa dökknað til muna. Jafnvægisleysið sem skapast hefur í efnahagsmálum og neikvæðar afleiðingar hagstjórnarmistaka á undanförnum misserum blasa nú við. Skýrustu dæmin eru gengishrun íslensku krónunnar og vaxandi verðbólga á undangengnum mánuðum eftir langvinnan viðskiptahalla og jafnvægisleysi í þjóðarbúskapnum. Gríðarleg skuldaaukning heimila, sveitarfélaga og margra greina atvinnulífs gerir það enn brýnna en ella að vextir hér á landi lækki. Rétt er að hafa í huga að tekjuminnstu heimilunum er þröngvað til að taka lán sem bera þyngsta vexti. Vaxtaokrið bitnar því harðast á þeim. Samsvarandi mynd blasir við í atvinnulífinu. Fjárvana fyrirtæki eru mörg að sligast undan þungri vaxtabyrði og stafar atvinnulífinu veruleg hætta af þeirri hávaxtastefnu sem hér er við lýði. Á hinn bóginn varar Vinstrihreyfingin – grænt framboð við áformum ríkisstjórnarinnar um stórfelldar skattalækkanir hjá þeim sem síst þurfa á þeim að halda. Leiðarljós við ákvarðanatöku og stefnumótun í ríkisfjármálum og efnahagsmálum á næstunni á að vera að verja velferðarkerfið, samneysluna og kjör þeirra sem standa höllustum fæti. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að margir hópar, sem einmitt þurftu mest á að halda, nutu ekki sem skyldi aukinna þjóðartekna á undangengnum árum.  Hinu svokallaða góðæri var allan tímann sorglega misskipt. Ljóst er að sumir hafa hirt til sín óheyrilegan gróða og m.a. notið góðs af skattalækkunum sem komu eigna- og hátekjufólki sérstaklega til góða. Tekjurnar sem ríkissjóður hefur þannig orðið af væru nú betur komnar í minni skuldum og sterkari stöðu ríkissjóðs til að axla byrðarnar þegar harðnar á dalnum.

Skuldaaukning þjóðarbúsins í heild erlendis er mikið áhyggjuefni. Þótt heldur dragi nú úr halla á vöruskiptajöfnuði dugar það lítið upp í viðskiptahallann í heild vegna þess að afborganir og vextir af ört vaxandi erlendum skuldum koma þar upp á móti. Endalaust sjálfshól forustumanna ríkisstjórnarinnar um hina farsælu efnahagsstjórn og góðæri er því miður innihaldslaust í ljósi gríðarlegs uppsafnaðs viðskiptahalla, gengishruns krónunnar, verðbólgu sem mælist þreföld til fjórföld á við það sem gerist í nágrannalöndunum og einhverra hæstu vaxta sem þekkjast á byggðu bóli. Góðærið var að miklu leyti tekið af láni. Reikningurinn er ennþá ógreiddur og hleður á sig dráttarvöxtum.

Annað stórfellt þjóðfélagsvandamál er hin alvarlega byggðaröskun sem nú blasir við íslenskri þjóð. Einkavæðing og stórfelld afturför í almannaþjónustu, kvótasetning og samdráttur í hefðbundnum atvinnugreinum, erfiðleikar sveitarfélaga þar sem fólki hefur fækkað og tekjur lækkað, allt þetta og margt fleira er mótdrægt landsbyggðinni og því fólki sem þar heyr sína lífsbaráttu. Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur reynst ófær um að bregðast við með marktækum hætti. Landsfundurinn leggur áherslu á að raunhæfar aðgerðir til að koma byggðaþróun í jafnvægi snúast ekki síst um að hafa fjölbreytni að leiðarljósi. Ýmsar nágrannaþjóðir hafa náð miklum árangri með því að styrkja undirstöður og innviði samfélaganna, bæta samgöngur og fjarskipti, efla menntun, hlúa að fjölbreytni í atvinnulífi o.s.frv. Staðreynd er að Ísland leggur minna af mörkum til byggðamála en nágrannalöndin, þó að vandamálið sé hrikalegra hér en annars staðar.

Með einkavæðingu almannaeigna hefur framganga ríkisstjórnarinnar verið með endemum og nú síðast hefur steininn tekið úr í málefnum Landsímans. Þar þjösnast ríkisstjórnin áfram með eitt af verðmætustu og mikilvægustu almenningsþjónustufyrirtækjum landsins í andstöðu við vilja almennings og hlustar ekki á nein varnaðarorð. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs krefst þess að fallið verði frá áformum um einkavæðingu Landsímans. Einkavæðing innan velferðarþjónustunnar verði tekin af dagskrá og áskilur Vinstrihreyfingin – grænt framboð sér rétt til að færa einkavædda almannaþjónustu til opinberra aðila á nýjan leik.

Stóriðjuáform og umhverfismál þeim tengd eru enn eitt sviðið þar sem ríkisstjórnin hefur klofið þjóðina í herðar niður með offorsi sínu. Ekki hafði hún fyrr tapað orustunni um Eyjabakkana en allt var sett á fulla ferð að undirbúa ennþá hrikalegri framkvæmdir norðan Vatnajökuls. Með Kárahnjúkavirkjun væri efnt til mestu umhverfisröskunar og meiri þjóðhagslegrar áhættu en nokkurri framkvæmd hefur nokkru sinni fylgt. Jafnframt er nú unnið að því að virkja í efri – Þjórsá og þar með raska neðsta hluta friðlandsins í Þjórsárverum, sem menn héldu að búið væri að kaupa grið. Afstaða ríkisstjórnarinnar til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er líka dæmigerð fyrir einsýni og skilningsleysi gagnvart einum stærsta umhverfisvanda okkar tíma. Ríkisstjórnin virðist hvorki heyra né skilja gjörbreytt viðhorf landsmanna til umhverfismála og náttúruverndar.

Framganga núverandi ríkisstjórnar á mörgum sviðum velferðarmála hefur verið metnaðarlítil og í mörgu tilliti gert illt verra. Helsta undantekningin er lenging fæðingarorlofs, sem vissulega var þarft skref í rétta átt. Ófremdarástand blasir við í húsnæðismálum í kjölfar þess að félagslega kerfið var lagt niður og er brýnt að ráðist verði í stórfellt endurreisnarstarf á því sviði. Kjör og aðstæður öryrkja og margra aldraðra eru til skammar og þarf að stórbæta þau. Skólakerfið er fjársvelt og í sífelldri vörn gegn kröfum um skólagjöld.  Grafið hefur verið undan heilbrigðiskerfinu á ýmsum sviðum, þannig að ekki er unnt að uppfylla þarfir þeirra er heilbrigðisþjónustu þurfa að njóta. Þetta birtist í verri þjónustu og vaxandi biðlistum. Þegar sjást þess merki að gjaldtaka hefur leitt til þess að efnalítið fólk á þess ekki kost að leita sér lækninga. Ýmis samfélagsleg vandamál þarfnast úrlausnar, svo sem aukin vímuefnaneysla og hrikalegar afleiðingar hennar á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið allt.

Það er því ljóst að á fjölmörgum sviðum þarf að taka til hendi og breyta í grundvallaratriðum frá stefnu núverandi ríkisstjórnar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur þegar lagt til á Alþingi að gerð verði áætlun um markvissar umbætur í velferðarmálum og þróun velferðarsamfélags til framtíðar.

Framtíðin björt í fjölbreyttu samfélagi

Þrátt fyrir að horfur í íslenskum þjóðarbúskap hafi versnað til skemmri tíma litið er enginn vafi á því að Íslendingar eru gæfusöm þjóð og eiga  mikla möguleika á að skapa hér á landi þróað og farsælt velferðarsamfélag í fremstu röð. Styrkur Íslands felst í mörgu, í stórbrotinni náttúru og auðlindum lands og sjávar, í menntun og mannauði, í legu landsins og friðsæld samfélagsins, í sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar, í sterkum menningarlegum rótum og samheldni þegar á reynir.

Vinstrihreyfingin-grænt framboð vill bæta menntun og skilyrði til menningar- og listsköpunar, efla á breiðum grundvelli hvers kyns rannsóknar- og þróunarstarf og taka sér þar til fyrirmyndar þau lönd sem skara fram úr í þeim efnum.  Á komandi árum eiga það að vera forgangsverkefni að byggja upp og efla innviði samfélagsins á landinu öllu. Bæta þarf samgöngur og fjarskipti, tryggja nauðsynlega almannaþjónustu í öllum byggðarlögum, standa vörð um öflugt samábyrgt velferðarkerfi og hafa fjölbreytni og sjálfbærni að leiðarljósi í allri atvinnuuppbyggingu. Með því móti eiga Íslendingar fágæta möguleika til að skapa skilyrði fyrir blómlegt og fjölbreytt mannlíf um land allt. Réttindum okkar, sem hefur hlotnast að byggja þetta land nú um stundir, fylgja einnig skyldur. Við erum gæslumenn landsins og okkur ber skylda til að skila því af okkur í hendur þeirra sem við taka þannig að þeirra möguleikar til lífsgæða, ekki síst til að njóta náttúrunnar, sé engu síðri en okkar.  

Lokaorð

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-21. október 2001, hvetur landsmenn til að taka höndum saman á þeim afdrifaríku mánuðum sem framundan eru og efla þann flokk sem einn heldur á lofti fánum róttækrar vinstri stefnu og umhverfisverndar. Leiða þarf til öndvegis virðingu fyrir manninum og umhverfi hans, standa vörð um náttúru landsins, sjálfstæði, menningu og tungu þannig að hér megi þróast fjölmenningarlegt og samábyrgt velferðarsamfélag.

Stjórnmálaályktun þessari fylgja sérstakar ályktanir m. a. um: sveitastjórnarmál,  menningar- og menntamál, velferðar-, efnahags- og kjaramál, umhverfismál, atvinnu- og byggðamál, utanríkis- og friðarmál, alþjóðamál.

Ályktun um stóriðju og virkjanir

Umhverfismál og náttúruvernd ber nú hátt í þjóðmálaumræðunni. Tilkoma Vinstrihreyfingar­innar – græns framboðs á ríkan þátt í þeirri þróun eins og stefnuyfirlýsing og ítarleg málefnahandbók flokksins um umhverfismál ber vott um.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð styður sjálfbæra orkustefnu og leggst gegn mengandi stóriðju og stórvirkjunum sem valda myndu mikilli röskun á náttúru landsins. Andstæða þessa er stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem fer nú hamförum í stóriðju- og stórvirkjanastefnu sinni. Áform ríkisstjórnarinnar jafngilda yfirlýsingu um stjórfelld spjöll á náttúru Íslands og hálendinu sérstaklega. Í þeim felst að fjórfalda skuli álframleiðslu hérlendis á næstu 10-12 árum og virkja í því skyni sem svarar 12 teravattstundum, en nú nemur raforkuframleiðsla á Íslandi samtals um 8 teravattstundum. Kárahnjúkavirkjun í tengslum við risaálver á Reyðarfirði er þannig aðeins um 40% af þessum virkjanaáformum sem ætlað er að standa undir stórfelldri aukningu álframleiðslu á Grundartanga og í Straumsvík.

            Kárahnjúkavirkjun ein og sér hefði í för með sér meiri umhverfisspjöll, jarðrask og óafturkræfar breytingar á landslagi og náttúrufari en nokkru sinni hefur verið efnt til hér á landi og þó víðar væri leitað. Virkjunaráformin byggja á stórfelldum vatnaflutningum milli byggðarlaga með tilfærslu Jökulsár á Dal austur í Lagarfljót og skerðingu á meira en 100 fossum auk risastíflu í Hafrahvammagljúfri. Við mat á umhverfisáhrifum fékk Kárahnjúkavirkjun algera falleinkunn hjá Skipulagsstofnun. Framhaldið er í höndum umhverfisráðherra. Ef svo fer gegn öllum efnislegum rökum að ráðherrann úrskurði Landsvirkjun í vil og gangi þannig þvert gegn niðurstöðu Skipulagsstofnunar, faglegri ráðgjöf annarra stofnana og einróma afstöðu náttúruverndarsamtaka myndi það leiða til ófyrirsjáanlegra átaka í landinu. Slíkt yrði landi og þjóð til stórfellds álitshnekkis og skaða. Ósennilegt verður að telja að Norsk Hydro taki orðstírs síns vegna þátt í byggingu álvers í slíku samhengi.

            En hér ætlar ríkisstjórnin ekki að láta staðar numið. Vegna ráðgerðrar stækkunar Norðuráls í Hvalfirði hafa nú verið sett í mat áform Landsvirkjunar um miðlun í sjálfum Þjórsárverum, sem njóta nú sérstakrar verndar, bæði sem friðland og sem mikilvægt votlendi á heimsvísu samkvæmt Ramsarsáttmála. Stórt uppistöðulón við Norðlingaöldu hefði í för með sér skerðingu þessa einstæða vistkerfis og óbætanlega röskun á náttúru Þjórsárvera. Það má aldrei verða.

Fjölmörg önnur virkjunaráform eru í undirbúningi, sem hafa myndu ófyrirséðar afleiðingar á náttúru og ásýnd landsins, þar á meðal bygging Villinganesvirkjunar og að Langisjór verði tekinn undir miðlun frá Skaftá.

            Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs skorar á þjóðina að halda vöku sinni og rísa upp gegn eyðileggingu hálendis og óbyggða landsins stig af stigi. Beislun orkulinda til almennra nota hérlendis af framsýni og varúð þarf ekki að leiða til óbætanlegra spjalla á náttúrufari og víðernum eins og nú horfir vegna stóriðjustefnunnar. Svar okkar er sjálfbær orkustefna og hófsöm orkunýting til margháttaðra þarfa vaxandi þjóðar.

Ályktun um umhverfismál í þéttbýli

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 2001 telur brýnt að umhverfis­mál á þéttbýlissvæðum verði meira á dagskrá sveitar­stjórna með virkri þátttöku almennings.

 Samþætta þarf starf að sjálfbærri þróun öllum verkefnum sveitarfélaganna með hliðsjón af Staðardagskrá 21 í hverju byggðarlagi. Brýnt er að sveitarfélög endurskoði skipulag sitt og aðrar áætlanir með hliðsjón af umhverfismálum og náttúruvernd, einnig með tilliti til atvinnumála, verslunar og viðskipta svo og skólamála og fjölskyldustefnu.

Skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins þarf að taka heildstæðum tökum út frá umhverfissjónarmiðum og með þátttöku almennings. Á það ekki síst við um skipulag samgangna, uppbyggingu nýrra hverfa og fyrirkomulag samfélagsþjónustu.

Snúa þarf frá úthverfastefnu og samsöfnun viðskipta og þjónustu í risamiðstöðvar en hlúa þess í stað að smærri skipulagsheildum í hverfum sem verði sjálfbærar einingar á sem flestum sviðum. Þannig má draga úr bílaumferð, hljóðmengun og orkusóun og skapa bætt skilyrði fyrir gangandi umferð og hjólreiðar.

 Svæði til útivistar og náttúruskoðunar þarf að tengja við byggðahverfi og skóla- og uppeldisstarf. Eins þarf sérstaklega að huga að varðveislu strandsvæða og lífríkis fjörunnar og tryggja þarf aðgang almennings að þessum svæðum til útivistar og náttúruskoðunar. Draga þarf úr mengun frá atvinnurekstri og umferð og koma sorpförgun og fráveitumálum í viðunandi horf. Eðlilegt er að krefjast aukinnar þátttöku ríkisins í kostnaði við umbætur í sorpförgun og fráveitumálum til að hraða framkvæmdum á þessu sviði. Varðveita þarf skilyrði til að njóta náttmyrkurs og skoða himintungl og stjörnur í grennd þéttbýlisstaða. Stórátaks er þörf til að draga úr loftmengun og losun gróðurhúsalofts, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars með vistvænum lausnum í samgöngumálum á lengri og skemmri leiðum.

            Skapa þarf friðsælt og fjölskylduvænt umhverfi sem víðast með tengsl við menningar- og búsetuminjar og tryggja sem best skilyrði til fjölþætts menningarstarfs. Herstöðvar og hernaðarbrölt eiga ekki heima við þéttbýli eða annars staðar í íslensku umhverfi sem friðlýsa þarf gegn umferð með kjarnorku- og eiturefnavopn.

ÁLYKTUN UM UTANRÍKISMÁL, FRIÐARMÁL OG ALÞJÓÐAMÁL

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, lýsir harmi vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl. Jafnframt fordæmir fundurinn harðlega loftárásir Bandaríkjamanna og Breta í Afganistan og stuðning ríkisstjórnar Íslands við þær. Árásirnar hafa þegar kostað marga saklausa og varnarlausa borgara lífið og stefnir í tvísýnu lífi heillar þjóðar sem þegar býr við hungurmörk. Þær aðgerðir eru ekki til framdráttar alþjóðlegri baráttu gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Þvert á móti eru þær til þess eins fallnar að æsa upp hatur og ofbeldi. Leita á allra friðsamlegra leiða til þess að koma í veg fyrir hryðjuverk og láta þá svara til saka fyrir alþjóðlegum dómstólum sem gerast sekir um slíka glæpi. Hryðjuverk eru í reynd tilræði, ekki aðeins við fórnarlömbin hverju sinni heldur við siðað samfélag. Sú eldraun sem við stöndum frammi fyrir er að bregðast þannig við að okkur takist að varðveita réttarríkið og þær grundvallarreglur um mannréttindi sem mannkynið hefur sameinast um.  

Landsfundurinn fordæmir hernám Ísraelsríkis á palestínsku landi og árásir ísraelska hersins á íbúa herteknu svæðanna, ólöglegt landrán og eyðileggingu heimila og eigna. Fundurinn krefst þess að íslensk stjórnvöld fari fram á alþjóðlega vernd til handa íbúum Palestínu og að Ísraelsríki standi við gerða samninga, fari að samþykktum Sameinuðu þjóðanna og hlíti alþjóðalögum.

Landsfundurinn áréttar þá stefnu hreyfingarinnar að þegar í stað skuli aflétt viðskiptabanni á Írak sem valdið hefur dauða og ómældum þjáningum milljóna manna.

Landsfundur VG leggur áherslu á sjálfstæða utanríkisstefnu sem feli í sér þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi sem fullvalda ríki. Meginstoðir þeirrar stefnu eru sjálfstæði og hlutleysi Íslands, alþjóðleg umhverfisvernd, stuðningur við alla viðleitni til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar þjóða, samstaða með kúguðum þjóðum og þjóðarbrotum, barátta fyrir mannréttindum og alþjóðleg samvinna á grundvelli jafnréttis og virðingar fyrir ólíkum viðhorfum og menningu.

            Landsfundurinn ítrekar þá afstöðu flokksins að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið standi utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Sjálfstæð og óháð staða landsins verði nýtt til að treysta samskiptin við ríki og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta. Vegna EES samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.

Landsfundurinn leggur áherslu á nauðsyn þess að efla  þátttöku Íslendinga í starfi Sameinuðu þjóðanna, svo og í Evrópuráðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Norðurlandaráði og öðrum lýðræðislega uppbyggðum svæðis- og alþjóðastofnunum. Í öllu slíku starfi ber Íslendingum að leggja áherslu á baráttu fyrir félagslegu réttlæti, mannréttindum og lýðræði.

  Landsfundur VG leggur áherslu á að Íslendingar stórauki framlag sitt til þróunarstarfs og leggi fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Íslendingar beiti sér af alefli gegn því að stofnunum á borð við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn séu notaðar í þágu auðhringa, sem á undanförnum árum hafa sölsað undir sig almannaeignir í kjölfar einkavæðingar, iðulega að undirlagi þessara stofnana.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur þá stefnu að Ísland eigi ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan, og þjóðinni sé fyrir bestu að standa utan allra hernaðarbandalaga. Ísland á að vera boðberi friðar og mannréttinda, afvopnunar og friðsamlegra lausna í deilumálum. 

ÁLYKTUN UM VELFERÐAR-, EFNAHAGS OG KJARAMÁL

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19. – 21. október 2001, lýsir yfir samstöðu með sjúkraliðum og tónlistarkennurum í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og skorar á ríkisstjórnina að ganga þegar í stað til lausnar á þessum kjaradeilum sem koma hart niður á þeim sem þessar stéttir veita þjónustu.

Barátta almenns launafólks fyrir bættum kjörum hefur kostað miklar fórnir og harðar aðgerðir á undanförnum vikum og mánuðum. Áberandi er hversu erfið sóknin er hjá þeim sem starfa við uppeldi og umönnun, en í þeim störfum eru konur fjölmennar. Í raun er það svo að konur bera uppi heilbrigðiskerfið, menntakerfið og alla almenna þjónustu þannig að samfélagið fær ekki staðist án vinnuframlags kvenna. Fjarri fer því að það sé virt í raun. Landsfundurinn leggur áherslu á brýna nauðsyn þess að slík störf séu metin að verðleikum og launuð samkvæmt því.  Jafnframt minnir fundurinn á nauðsyn þess að útrýma kynbundnum launamun, hækka verulega lægstu laun og hefja markvissa baráttu fyrir styttingu vinnuvikunnar. Ísland sker sig úr í samanburði milli Norðurlanda með lægstu dagvinnulaunin og lengstu vinnuvikuna. Þann vítahring lágs tímakaups og langrar vinnuviku sem við sitjum föst í verður að rjúfa með samstilltu átaki eigi að skapa hér sambærilegar aðstæður fyrir vinnandi fólk og gerist í nálægum löndum. Takist það ekki er ekki síður hætta á að fólk en fyrirtæki flytji sig til annara landa.

Landsfundurinn leggur þunga áherslu á nauðsyn þess að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja sem eru blettur á íslensku samfélagi eins og málum er nú háttað. Það verður að hverfa frá þeim “bóta- og ölmusuhugsunarhætti” sem gætir alltof mikið í almenna tryggingakerfinu. Þess í stað ber að taka upp hugtakið “samfélagslaun” og vinna markvisst að því að þau tryggi mannsæmandi tekjur. Landsfundurinn lýsir yfir eindregnum stuðningi við mannréttindabaráttu fatlaðra og fordæmir harðlega viðbrögð ríkisvaldsins við dómi Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalags Íslands. 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs krefst þess að gert verði stórátak í uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis og komi að því máli ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir en almannasamtök, verkalýðshreyfing og Leigjendasamtökin eigi aðild að allri stefnumótun. Vandinn í húsnæðiskerfinu er alvarlegri en hann hefur verið um áratugaskeið. Biðlistar eftir húsnæði lengjast og einstaklingar og fjölskyldur eru á götunni. Við þetta ófremdarástand verður ekki unað og mun Vinstrihreyfingin grænt framboð leggja þunga á tafarlausar úrbætur á þessu sviði, alls staðar sem kjörnir fulltrúar hreyfingarinnar koma því við, á Alþingi og á vettvangi sveitarstjórna.  

Landsfundurinn fagnar því að nú er loks í sjónmáli afnám skattlagningar á húsaleigubætur, en gagnrýnir að öðru leyti harðlega tillögur ríkisstjórnarinnar til breytinga á skattalögum sem fyrst og fremst koma til góða hátekju- og eignafólki og gróðafyrirtækjum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að skattkerfið verður í senn að afla hinu opinbera nægra tekna til að standa undir samneyslu og öflugu velferðarkerfi, fela í sér tekjujöfnun og dreifa byrðunum á sanngjarnan hátt. Landsfundurinn minnir á stefnu flokksins um hækkun skattleysismarka, þrepaskiptan tekjuskatt, breytta skattlagningu á fjármagnstekjur, skatta á hreinan hagnað fyrirtækja, sem tækju mið af skattlagningu launatekna, og umhverfisskatta til að mæta auknum kostnaði vegna umhverfismála, s.s. vegna brennslu kolefniseldsneytis, mengunar, jarðrasks, efnistöku og meðferðar spilliefna.

Landsfundurinn lýsir eindreginni andstöðu við einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar og fjársveltistefnu á því sviði. Kannanir benda til þess að farið sé að gæta félagslegrar mismununar innan velferðarþjónustunnar og við það verður ekki unað. Þvert á móti skal hefja sókn og uppbyggingastarf. Landsfundurinn fagnar og styður eindregið tillögu þingflokksins um umbætur í velferðarmálum og þróunvelferðarsamfélagsins. Þar er m.a. lögð áhersla á  afnám sjúklingaskatta og komugjalda á heilsugæslustöðvar, endurskoðun lyfjakostnaðar, réttarbætur fyrir langveik börn, aukið rými á sjúkrastofnunum, endurskoðun reglna um þátttöku hins opinbera í greiðslu ferðakostnaðar sjúklinga, umbætur í geðheilbrigðismálum og aukið forvarnarstarf á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á mannvænt samfélag gagnkvæmrar virðingar, umhyggju og samhjálpar og minnir á að góð samfélagsþjónusta gagnast samfélaginu öllu, atvinnulífinu ekki síður en einstaklingum og fjölskyldum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search