PO
EN

Án heilsunnar er enginn ríkur

Deildu 

Það er okkur öllum mikilvægt að eiga öflugt og gott heilbrigðiskerfi sem kemur til móts við þarfir okkar að hverju sinni. Heilbrigðiskerfi eru og verða að vera í stöðugri þróun eftir því hvernig samfélagið breytist. Ein af stærstu áskorununum sem íslenska heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir núna er breytt aldurssamsetning þjóðarinnar. Framfarir í lækningum hafa lengt lífslíkur, hlutfall eldri Íslendinga hefur hækkað mikið og mun sú þróun halda áfram næstu áratugi. Ný meðferðarúrræði standa til boða, skilningur okkar á þörfum eldri borgara hefur breyst og stofnanavæðing hjúkrunarheimila hefur blessunarlega minnkað.

Fjölbreytileiki er framtíðin

Í tíð sinni sem heilbrigðisráðherra hefur Svandís Svavarsdóttir lagt áherslu á að að bæta öldrunarþjónustu og dreifa betur því álagi sem nú leggst hvað helst á hjúkrunarheimili og Landspítala. Með því að fjölga og efla önnur úrræði höfum við tekið fyrstu skrefin í átt að skilvirkara heilbrigðiskerfi. Þar má nefna heilsugæslu, heimahjúkrun, heilsueflingu, dagdvöl aldraðra og nýtt milliþjónustustig á Sólvangi í Hafnarfirði.

Ný heilbrigðisstefna er leiðarvísir í átt að heildrænu kerfi sem tryggir fólki samfellda þjónustu á réttu þjónustustigi en með því tryggjum við aukinn sveigjanleika. Með fjölbreyttri nálgun getum við tryggt að búsetuúrræði og heilbrigðisþjónusta taki mið af þörfum og getu fólks. Á sama tíma er að sjálfsögðu mikilvægt að fjölga áfram hjúkrunarrýmum. Núverandi ríkisstjórn fór í stórátak í þeim málum og hefur þeim fjölgað hratt á kjörtímabilinu. Þannig fjölgaði hjúkrunarrýmum einungis um 84 á árunum 2009-2018. Síðustu fjögur ár hefur þeim aftur á móti fjölgað um 140 og í lok árs verður framkvæmdum við 60 rýma hjúkrunarheimili í Árborg lokið.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-g1/banner123157.html

Rót vandans liggur djúpt

Ómögulegt er þó að mæta hækkandi hlutfalli eldra fólks einungis með uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það þarf að endurskoða hvernig við getum þjónustað betur þá einstaklinga sem kjósa að búa lengur í eigin húsnæði. Mikilvægt er að tryggja eldra fólki öruggt aðgengi að fjölbreyttum búsetuúrræðum og þjónustuvettvöngum sem mæta bæði þörfum þess og óskum. Þrátt fyrir að útgjöld til Landspítalans hafi á kjörtímabilinu aukist um 14% á föstu verðlagi hefur nýtingarhlutfall legurýma á spítalanum haldist hærra en æskilegt er. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á kjörtímabilinu munu vonandi verða til þess að hlutfallið lækki smám saman. Þessi fráflæðisvandi stafar að miklu leyti af aðgerðarleysi og skorti á fyrirbyggjandi uppbyggingu innan heilbrigðiskerfisins síðastliðin 20 ár. Uppbyggingarátak núverandi ríkisstjórnar í heilbrigðismálum og stóraukin framlög til heilbrigðismála hafa enn ekki náð utan um rót vanda heilbrigðiskerfisins sem erfst hefur frá ríkisstjórn til ríkisstjórnar.

Við höfum tekið fyrstu skrefin

Það er flókið verkefni að byggja upp heilbrigðiskerfi sem mætir þörfum allra sem best og öll hafa jafnan aðgang að. Því hefur Svandís svo sannarlega unnið að í tíð sinni sem heilbrigðisráðherra og er því verkefni hvergi nærri lokið. Efling heilsugæslunnar sem fyrsti viðkomustaður innan heilbrigðiskerfisins er til dæmis aðgerð sem skiptir miklu máli. Þá veit fólk alltaf hvert það á að leita sem dregur úr álagi á bráðadeildir. Samhliða því hafa framlög til heilsugæslunnar aukist um 23%, almenn komugjöld lækkað og lögð niður fyrir aldraða og öryrkja. Á sama tíma hefur aukinn stuðningur við fjarheilbrigðisþjónustu og nýsköpun í tæknilausnum gert þjónustuna aðgengilegri. Einnig höfum við fjárfest í framtíðinni, markað nýja heilbrigðisstefnu og lagt 26 milljarða til byggingu nýs Landspítala. Fyrr á árinu var komið á fót landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu með það eitt að markmiði að tryggja til framtíðar nægan fjölda hæfs starfsfólks og að menntun þess fullnægi þörfum heilbrigðisþjónustunnar hverju sinni. Heilsugæslan undirbýr nú í samráði við heilbrigðisráðherra tilraunaverkefni um sérstaka móttöku fyrir konur en vísbendingar gefa til kynna að þörfum þeirra sé ekki mætt sem skyldi. Við erum því vel nestuð og á réttri leið, en framundan er enginn spássertúr. Við í Vinstri grænum viljum halda áfram á þeirri vegferð, með bættan hag bæði notenda og starfsfólks heilbrigðiskerfisins að leiðarljósi.

Una Hildardóttir skipar 2 sæti á lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search