Search
Close this search box.

Ályktanir landsfundar 2007

Samþykkt:

Stjórnmálaályktun landsfundar

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur nú setið að völdum í tólf ár. Á þeim tíma hafa miklar breytingar orðið á íslensku samfélagi. Vissulega hefur landsmönnum gengið ýmislegt í haginn á þessum tíma og margir efnast vel og jafnvel komist yfir milljarða. Hitt er því miður einnig staðreynd að misskipting gæðanna hefur vaxið hröðum skrefum í samfélaginu og tilfinnanleg og sár fátækt finnst á þúsundum íslenskra heimila mitt í öllu ríkidæminu.  Ráðist hefur verið í miklar virkjunarframkvæmdir með geigvænlegum afleiðingum fyrir íslenska náttúru og íslenskt efnahagslíf, allt til að framleiða og selja raforku á útsöluverði til erlendra álhringa í samræmi við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Verðmætar þjóðareignir hafa verið seldar eða afhentar vildarvinum gegn vægu endurgjaldi og almannaþjónusta einkavædd. Hátekju- og stóreignafólk hefur notið góðs af skattastefnu sem ívilnar hinum efnamiklu og tekjuháu á sama tíma og láglaunafólki, öryrkjum og öldruðum hefur verið gert að greiða æ þyngri skatta af tekjum sínum. Valdhroki og ólýðræðisleg vinnubrögð hafa verið fylgifiskar flokkanna tveggja, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, allar götur frá því þeir gengu í eina sæng vorið 1995. Illdeilur og málaferli sem samtök öryrkja hafa mátt standa í til að rétta sinn hlut, offorsið í fjölmiðlamálunum og hinn illræmdi stuðningur við Írakstríðið eru allt dæmi um mál sem hafa hvert á sinn hátt orðið að vörumerki fyrir starfshætti ríkisstjórnarinnar.   

Við þetta verður ekki unað lengur. Þjóðin á annað og betra skilið og nú er nóg komið. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að sannfæra kjósendur um að það er hægt að koma málefnum lands og þjóðar í uppbyggilegri og traustari farveg.  Í kosningunum 12. maí gefst þjóðinni tækifæri til þess að halda inn á nýjar brautir, þar sem áhersla verður lögð á að jafna kjör landsmanna, setja vernd náttúru og umhverfis í öndvegi og hafna eyðileggingarstefnunni, úthýsa kynbundnu misrétti úr samfélaginu, búa í haginn fyrir fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf, mannlíf og farsæla byggðaþróun. Síðast en ekki síst að fylgja  utanríkisstefnu sem byggist á réttlæti og reisn sjálfstæðrar þjóðar. Forsenda þess að þetta megi takast er að þjóðin felli ríkisstjórnina í komandi alþingiskosningum. Það verða engar breytingar ef ríkisstjórnin heldur velli. 

Kosningasigur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er ávísun á pólitískt vor á Íslandi.

Efnahagsmál, fjármál ríkis og sveitarfélaga og skattar

Eitt mikilvægasta verkefnið íslenskra þjóðmála um þessar mundir er að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur á undanförnum þingum flutt tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í því skyni þar sem stöðvun frekari stóriðju- og virkjanaframkvæmda um langt árabil er lykilaðgerð sem fylgt yrði eftir með margþættum aðgerðum í samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði og helstu hagsmunaaðila. Markmið nauðsynlegra aðgerða er að ná verðbólgu niður fyrir viðmiðunarmörk, draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun og koma á viðunandi jafnvægi í þjóðarbúskapnum og á vinnumarkaði. Sérstaklega brýnt er að bregðast við geigvænlegum viðskiptahalla og hinni hröðu skuldaaukningu þjóðarbúsins útávið sem af honum leiðir. Heildarskuldir erlendis eru nú komnar yfir 360% af vergri landsframleiðslu og hreinar erlendar skuldir nálægt 170%. Horfur hvað varðar lánshæfi landsins hafa á undanförnum misserum verið að breytast úr stöðugum í neikvæðar. Skuldir helstu máttarstoða íslensk samfélags, annarra en ríkissjóðs, þ.e. heimila, sveitarfélaga og atvinnulífs eru í öllum tilvikum með því mesta sem þekkist meðal þróaðra ríkja.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur á það sem eitt mikilvægasta forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar að endurheimta þann stöðugleika og lága verðbólgu sem náðist með þjóðarsáttinni á sínum tíma en núverandi ríkisstjórn hefur glatað. Yfirlýsing um stóriðjustopp mun þegar hafa jákvæð áhrif á væntingar í þjóðfélaginu. Eftir því sem verðbólga og þensla gengur niður og fasteignamarkaðurinn róast skapast á nýjan leik forsendur fyrir því að ráðast í nauðsynlegar opinberar framkvæmdir, t.d. á sviði samgöngumála. Með batnandi rekstrarskilyrðum og afkomu hins almenna atvinnulífs og hagstæðari skilyrðum til nýsköpunar í atvinnumálum mun kraftur færast í starfsemi á þeim sviðum. Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, útflutnings- og samkeppnisgreinar geta þá farið að fjárfesta á nýjan leik. Engin ástæða er því til að óttast samdrátt eða niðursveiflu í hagkerfinu ef rétt er á málum haldið.

Fjármál ríkis og sveitarfélaga

Afkoma ríkissjóðs hefur af eðlilegum ástæðum verið góð undanfarin ár og miklir fjármunir hafa streymt í ríkissjóð, bæði vegna sölu verðmætra eigna og tekna af miklum innflutningi og umsvifum. Þannig hefur ríkissjóður notið beint tekna af viðskiptahallanum og veltuaukningu og þenslu í þjóðfélaginu. Ríkissjóður er því sem betur fer vel í stakk búinn til að leggja sitt af mörkum til að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum á nýjan leik. Markmið Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í fjármálum hins opinbera er að hlutur ríkis og sveitarfélaga af þjóðartekjum haldist því sem næst óbreyttur sem hlutfall af landsframleiðslu eins og hann hefur verið að meðaltali á árunum 2005 til 2007. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hyggst bæta verulega afkomu sveitarfélaganna og tryggja þeim nettó tekjuauka af stærðargráðunni 5 milljarða króna. . Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga er í engu samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu, sérstaklega varðandi félagsleg velferðarverkefni, verkefni á sviði skólamála o.fl. sem flutt hafa verið frá ríki til sveitarfélaga.  Þetta veldur því að mikill meiri hluti sveitarfélaga getur ekki sinnt þessum  brýnu verkefnum og þurfa því að steypa sér í skuldir vegna nauðsynlegra  fjárfestinga.

Auk þess sem sveitarfélögunum verða, í samstarfi við ríkisvaldið, tryggðar tekjur til að mæta verkefnum á sviði umhverfis- og velferðarmála, svo sem á sviði sorpförgunar- og fráveitumála, til að auka endurvinnslu og til að koma á gjaldfrjálsum leikskóla og grunnskóla.

Landsfundurinn  skorar á alþingi og ríkisstjórn  að rétta nú þegar hlut sveitarfélaganna í landinu þannig að þau geti uppfyllt lögmætar skyldur sínar  við íbúana með nokkrum sóma.

Skattar

Áform Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í skattamálum eru:

Undið verði ofan af þeirri tilfærslu skattbyrðinnar af hærri launum yfir á lág sem átti sér stað á löngu árabili með því að skattleysismörk hafa ekki fylgt þróun verðlags hvað þá launa. Skattleysismörk verði hækkuð í áföngum og skattbyrðunum dreift með sanngjarnari hætti þannig að lægstu launum og tryggingagreiðslum verði hlíft við sköttum og skattbyrði lægri launa létt.

Skattlagningu fjármagnstekna verði breytt á þann veg að upp verði tekið frítekjumark fyrir allt að 120 þúsund kr. fjármagnstekjur, en  greidd 14 % af tekjum þar fyrir ofan. Stefnt verði að því að samræma þetta hlutfall skattlagningu af hagnaði fyrirtækja.

Þeim sem eingöngu telja fram umtalsverðar fjármagnstekjur en engar launatekjur verði gert að reikna sér endurgjald og greiða þannig til samfélagsins sanngjarnan skerf, sbr. fram komið frumvarp á Alþingi frá þingflokki VG þar um.

Tekinn verði upp sérstakur skattaafsláttur fyrir sprotafyrirtæki og ný fyrirtæki í uppbyggingu, sbr. fram komið frumvarp á Alþingi frá þingflokki VG þar um.

Stimpilgjöld verði afnumin eftir því sem aðstæður á lánamarkaði og fasteignamarkaði bjóða.

Áform um nefskatt til Ríkisútvarpsins verði lögð til hliðar.

Skattaeftirlit verði hert og gagnsæi í launa- og skattamálum aukið.

Ísland beiti sér með virkum hætti á vettvangi alþjóðastofnana sem vinna gegn skaðlegri skattasamkeppni og skattaundirboðum.

Sjávarútvegsmál

Núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi var komið á árið 1984. Meginmarkmið þess voru að stuðla að verndun, vexti og viðgangi fiskistofna við Ísland. Það dylst engum að kerfið hefur engan veginn náð þeim markmiðum og hefur sigið á ógæfuhliðina.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur óumflýjanlegt og brýnt að grípa strax til aðgerða í sjávarútvegsmálum og endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið frá grunni. Stefna VG í þeim efnum er skýr og meginmarkmið hennar eru ítarlega tíunduð í sjávarútvegsstefnu flokksins. Þar leggjum við einkum áherslu á að auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda. Sjávarútvegur lagi sig að markmiðum sjálfbærrar þróunar, treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu, Stuðli að aukinni fullvinnslu og verðmætasköpun innanlands og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa.

Tækifærin í sjávarútvegi felast ekki síst í meiri menntun og aukinni verðmætasköpun. Því þarf að tryggja að ný tækni og þekking í sjávarútvegi eflist innanlands, þannig eykst þjóðhagslegur ávinningur af umsvifum sjávarútvegsins.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur til að rannsóknir á lífríki sjávar og hafsbotninum í kringum Ísland verði stórefldar og vistfræðilegri nálgun beitt við rannsóknir og veiðistjórnun á grundvelli bestu faglegu þekkingar. Það er lífsnauðsynlegt að kortleggja hafið og hafsbotninn umhverfis Ísland með tilliti til verndunar og nytja rétt eins og afréttir landsins hafa verið krotlagðar með tilliti til gróðurs og beitar.

Landsfundurinn leggur áherslu á að endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði lokið innan þriggja ára og á grundvelli víðrækrar sáttar í þjóðfélaginu.

Sjávarútvegur á sjálfbærum grunni

Ályktun stjórnar VG byggð á umræðum um sjávarútveg á Landsfundi

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur óumflýjanlegt og brýnt að grípa strax til tiltekinna ráðstafana í sjávarútvegsmálum og leggja jafnframt grunn að heildarendurskoðun á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar og mótun heildstæðrar sjávarútvegsstefnu. Mikilvægt er að landsmenn nái að sameinast um farsæl markmið í sjávarútvegsmálum og meginlínur sem þróun greinarinnar fylgi á komandi árum. Gera verður heiðarlega og raunverulega tilraun til sátta um málefni greinarinnar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill leggja sitt af mörkum til þess að svo geti orðið en til þess verða allir, og ekki síst útgerðin sem fengið hefur aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar í formi veiðiheimilda, að leggja sitt af mörkum. Útvegurinn og sjávarútvegurinn í heild eiga einnig mikið undir því að betri sátt náist um málefni greinarinnar. Því ber að setja tímamörk inn í gildistíma laga um um stjórn fiskveiða og stefna að því að ljúka heildarendurskoðun þeirra í síðasta lagi fyrir árslok 2010.

Mikilvægustu markmið þeirrar endurskoðunar eru:

Auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.

Sjávarútvegurinn aðlagi sig markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan. 

Sjávarútvegsstefnan treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innanlands. 

Sjávarútvegsstefnan stuðli að réttlátri og jafnri skiptingu gæðanna ásamt jöfnum og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa og veita henni þjónustu. Markmiðið er að afraksturinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda dreifist með réttlátum hætti til landsmanna allra. 

Sjávarútvegurinn, ekki síst fiskvinnslan, þróist og verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standa sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti snertir. Tryggja þarf að laun og réttindi allra sjómanna, þar á meðal sjómanna á smábátum, séu samkvæmt kjarasamningum, tryggingar séu fullnægjandi og ítrasta öryggis sé ætíð gætt. 

Stuðlað verði að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum helstu aðila innan sjávarútvegsins, þ.e. útgerðar og fiskvinnslu, verkafólks og sjómanna, sjávarbyggða og samfélagsins alls.

Ákvæði gildandi laga sem setja eiga samþjöppun veiðiheimilda skorður verði styrkt. Afnotaréttareðli veiðiheimildanna verði undirstrikað og dregið úr braski með hærri nýtingarkröfu og skorðum við óhóflegum geymslumöguleikum milli ára og skiptimöguleikum milli tegunda.

Þannig verði staðið að nauðsynlegum kerfisbreytingum og aðgerðum að stöðugleiki og heilbrigt rekstrarumhverfi í greininni verði tryggt og hæfilegur aðlögunartími gefist að breytingum.

Auk þess sem hér er talið upp má nefna að skoða þarf sérstaklega aðstöðumun landvinnslu, sjóvinnslu og útflutnings á óunnum fiski með það fyrir augum að finna leiðir til að jafna ósanngjarnan aðstöðumun, auka alhliða menntun á sviði sjósóknar og fiskvinnslu og stuðla að fullvinnslu alls sjávarfangs. Þá þarf að tryggja nýliðun í greininni og huga sérstaklega að þjálfun verðandi sjómanna. 

Tillögur VG um fyrstu aðgerðir í þágu breyttrar sjávarútvegsstefnu: 

*  Aðgangur innlendrar fiskvinnslu að hráefni verði bættur með reglum um að tiltekinn lágmarkshluti alls afla sem ekki fer beint til vinnslu innanlands hjá sama aðila og veiðarnar stundar gangi yfir viðurkenndan fiskmarkað. Þannig sé fiskvinnslunni innanlands gert kleift að komast að a.m.k. hluta þess hráefnis sem ella færi beint úr landi óunnið og keppa um það

*  Undirbúnar verði hvetjandi aðgerðir, svo sem upptaka nýtingarstuðla til að örva veiðar með kyrrstæðum veiðarfærum og orkusparandi veiðiaðferðum með hliðsjón af verndarhagsmunum lífríkis og hafsbotns. Unnin verði sérstök framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að stuðla að sjálfbærri þróun sjávarútvegsins  

* Til að stemma stigu við leigubraski með veiðiheimildir og til að skapa aukið öryggi og ferstu í viðkomandi sjávarbyggðum gangi 5% þeirra veiðiheimilda sem leigðar eru á hverju fiskveiðiári til ríkisins þegar til endurúthlutunar kemur að ári. Þessar veiðiheimildir myndi sérstakan byggðatengdan óframseljanlegan grunn sem endurráðstafað verði til sjávarbyggða, einkum minni staða sem fyrst og fremst hafa byggt á sjávarútvegi.

* Fiskifræðilegar rannsóknir verði stórefldar. Sérstaklega þarf að kanna hvort einstakir nytjastofnar séu staðbundnari en áður hefur verið talið. Á grundvelli slíkra rannsókna verði skoðað hvort svæðisbinda þarf fiskveiðstjórn og ráðstöfun veiðiheimilda í meira mæli en gert hefur verið. Einnig þarf að efla fræðilegar grunnrannsóknir almennt á lífríki og vistfræði sjávar og áhrifum veiða og veiðiaðferða í samvinnu við innlenda háskóla, alþjóðlegar stofnanir og umhverfissamtök til að hægt sé að meta núverandi ástand og til að marka framtíðarstefnu um verndun og nýtingu auðlindarinnar.

* Undirbúin verði tilraun með að heimila sumarveiðar á minni bátum með handfrjálsum búnaði frá sjávarjörðum og einnig gefist upprennnandi sjómönnum sem öðlast vilja reynslu og þjálfun kostur á hinu sama á grundvelli sérstakra reynsluleyfa. Ætíð verði um staðbundna/svæðisbundna, takmarkaða og óframseljanlega möguleika að ræða og jafnframt sé fyllsta öryggis gætt.

*  Mótuð verði og lögfest fyrirfram stefna um hvernig fara skuli með veiðiheimildir þegar unnt er að auka afla kvótasettra tegunda allverulega umfram meðaltalsveiði undangenginna ára. Sérstaklega verði þá skoðað hvernig nýta megi hluta aflaaukningarinnar til að ná fram mikilvægustu markmiðum endurskoðaðrar sjávarútvegsstefnu, svo sem að treysta sjávarbyggðirnar, stuðla að endurnýjun í greininni og þróun í átt til aukinnar sjálfbærni.

Samþykkt flokksstjórnar VG um sjávarútvegsmál á grunvelli umfjöllun landsfundar 23.–25. febrúar 2007.

Að öðru leyti vísast til ályktana um sjávarútvegsmál frá fyrri landsfundum og sjávarútvegsstefnu flokksins frá árinu 2001.

Innflytjendamál

Grunnstefna

Allir sem búa á Íslandi eiga að vera jafnir fyrir lögum og hafa þar með sömu réttindi og skyldur. Innflytjendur eru manneskjur eins og Íslendingar og þeim ber að sýna sömu virðingu og hverjum öðrum íbúa þessa lands.

Útilokað er að líta á málefni innflytjenda sem afmarkað viðfangsefni. Raunhæf stefna í þessum málum hlýtur að koma inn á flest eða öll svið stjórnmálanna og vera órjúfanlegur þáttur af heildarstefnumótun til framtíðar.

Innflytjendur verða að taka þátt í uppbyggingu íslensks þjóðfélags að öllu leyti. Í því skyni er þörf á gagnkvæmri aðlögun og samþættingu innflytjenda og íslensks samfélags.

Sveitarfélög setji sér fjölmenningarstefnu og þrói hana áfram. Sú vinna fari fram í samráði við innflytjendur.

Lýðræði og mannréttindi

Rödd innflytjenda þarf að heyrast á sem flestum sviðum samfélagsins. Gera skal sérstakt átak í því að efla þátttöku innflytjenda í lista- og menningarlífi, verkalýðshreyfingu og stjórnmálum. Til að mynda kæmi til greina að skipa umboðsmann innflytjenda sem tekur á móti erindum innflytjenda varðandi stjórnsýsluna og samskipti við hið opinbera. 

Til þess að efla þátttöku innflytjenda í samfélaginu skal skipuleggja „innflytjendaráð“ á hverju svæði þar sem fulltrúar sveitarfélaga og innflytjenda funda reglulega.

Staðfesta þarf og skýra viðurlög við brotum sem byggjast á rasisma og fordómum.

Tryggja þarf einstaklingum frá löndum utan EES svæðisins sömu réttindi í íslensku samfélagi og þeim sem koma frá löndum EES svæðisins.

Taka skal aldurstakmörk út úr lögum um útlendinga, þar sem kveðið er á um að erlendur maki Íslendings verði að vera eldri en 24 ára og að foreldri innflytjanda skuli vera eldri en 66 ára til fá dvalarleyfi vegna fjölskyldutengsla. Einnig skal fella út skilyrði um eigin framfærslu 18 ára barna innflytjenda. Kröfu um lífssýnagreiningu til sönnunar skyldleika skal aðeins fullnægt að undangengnum dómsúrskurði. ( sjá. 29 gr. Almenn ákvæði í lögum um útlendinga).

Tryggja skal réttindi innflytjenda sem skilja við íslenskan maka sinn svo að þeir missi ekki þau réttindi sem þeir öðluðust við hjúskapinn.

Flytja skal staðfestingu á viðauka nr.12 við Evrópusáttmálann um mannréttindi, sjá þriðju skýrslu ECRI, Evrópunefndar gegn kynþáttamisrétti.

Tryggja skal innflytjendum nauðsynlega túlkaþjónustu.

Tryggja skal að innflytjendur fái nauðsynlegar upplýsingar um réttindi sín og skyldur ásamt upplýsingum um alla þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög veita. Einnig er brýnt að koma á verklagsreglum sveitarfélaga um móttöku innflytjenda. Félagsmálaráðuneytið skal hafa eftirlit með því að þessum reglum sé fylgt.

Velferðar- og heilbrigðismál

Móta skal og kynna stefnu varðandi almannatryggingar og lífeyri fyrir innflytjendur. Tryggja skal jafnframt samspil almannatrygginga hér á landi og þess lands sem þeir koma frá.

Tryggja skal rétt allra til heilbrigðisþjónustu strax við komuna til landsins.

Efla þarf samskipti milli fjölskyldna innflytjenda, skóla, þjónustumiðstöðva og annarra stofnana í nærsamfélaginu.

Atvinnumál

Upplýsingar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði skulu berast beint til starfsmanns á móðurmáli hans/hennar, þegar skráning inn í landið hefur farið fram.

Virða ber gagnkvæma skyldu EES ríkjanna um frjálsa för launafólks um evrópskan vinnumarkað án þess að setja erlendum starfsmönnum frekari hömlur.

Tryggja skal að innflytjendum og erlendu verkafólki sé ekki mismunað launalega eða á nokkurn annan hátt. Efla skal eftirlit með atvinnurekendum hvað þetta varðar.

Atvinnuleyfi skal ávallt veita einstaklingi en ekki atvinnurekanda.

Viðurkenning á menntun innflytjenda

Tryggja skal að menntun innflytjenda verði metin og staðfest með formlegum hætti þannig að hún megi nýtast viðkomandi sem og samfélaginu öllu. Halda skal jafngildispróf á hverju fagsviði, svo menntun og þekking innflytjenda á viðkomandi sviði fáist viðurkennd.

Tryggja skal aðgang innflytjenda að LÍN svo þeir hafi sama rétt og aðgang til að afla sér háskólamenntunar og Íslendingar.

Skólamál

Brýnt er að skólar og skólayfirvöld setji sér fjölmenningarstefnu þar sem hlutverk og staða móðurmáls er sérstaklega skilgreind. Þá er brýnt að skilgreina með hvaða hætti komið verður til móts við móðurmálsmenntun jafnt utan sem innan skóla eftir aðstæðum hverju sinni.

Efla skal menntun kennara til að þeir hafi staðgóða þekkingu til að sinna fjölmenningarlegri kennslu.

Efla skal færni kennara til að kenna íslensku sem annað mál á öllum skólastigum og innan fullorðinsfræðslu.

Veita þarf fjármagni til námsefnisgerðar á öllum skólastigum.

Efla þarf rannsóknir á sviði tvítyngis og hlúa að þeirri þekkingu sem þegar er til staðar.

Efla skal úrræði til að greina sértækan námsvanda erlendra nemenda. Gera þarf greinarmun á mállegri stöðu nemanda og þekkingu á námsefni. Tryggja þarf að þeir fái sérkennslu eða njóti annarra úrræða til jafns við innfædda nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða.

Flétta skal fjölmenningarfræðslu, trúarbragðafræðslu, siðfræði og fræðslu um fordóma inn í kennslu á öllum skólastigum.

Tryggja þarf fjármagn til íslenskukennslu á öllum skólastigum.

Íslenskukennsla

Forsenda þess að innflytjendur taki þátt í íslensku samfélagi er færni í íslensku.

Skilgreina þarf grunnmarkmið íslenskunáms fyrir innflytjendur þar sem m.a. verði sett inn ákvæði um lágmarks tímafjölda og tímaramma.

Allir innflytjendur skulu eiga rétt á ókeypis íslenskukennslu í samræmi við grunnmarkmið íslenskunáms.

Tryggja skal sérstaklega aðgengi að íslenskunámi þeim sem hvorki eru á vinnumarkaði né í skóla. 

Íslenskukunnátta skal ekki vera skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar

Tryggja skal aðstæður til íslenskukennslu á vinnutíma og að íslenskunámið sé metið sem hluti af starfi einstaklinga í tiltekinn tíma.

Efla skal kennslu í starfstengdri íslensku. 

Menntamálaráðuneytið hafi markvisst eftirlit með íslenskunámi fyrir innflytjendur.

Setja þarf skýr viðmið um námsefni og kennsluaðferðir sem henta fullorðnum.

Efling lýðræðis

Lýðræði snýst í meginatriðum um þá grunnhugmynd að almenningur geti haft áhrif á ákvarðanir sem varða umhverfi og samfélag, réttindi og skyldur. Einnig um að hver þjóðfélagsþegn hafi jöfn tækifæri til að setja mark sitt á samfélagsumræðuna og nærumhverfi með því að leggja lóð sitt á vogarskálar þegar stórar ákvarðanir eru teknar.

Því snýst lýðræði ekki nema að takmörkuðum hluta um kosningar til þings og sveitarstjórna á fjögurra ára fresti. Lýðræðisleg þátttaka er mun fjölbreyttari en svo og snýst um þátttöku á sem flestum sviðum samfélagsins.

Efla þarf grasrótarhreyfingar á Íslandi með það að markmiði að þær séu virkar í stefnumörkun og ákvarðanatöku um samfélagsmál. Til þess að starf þeirra sé sem skilvirkast þurfa stjórnvöld að gera ráð fyrir þátttöku þeirra í vinnulagi sínu t.d. með gerð samstarfsyfirlýsinga á borð við þá sem í gildi er milli umhverfisráðuneytisins og náttúruverndarsamtaka. Eðlilegt er að grasrótar-hreyfingar geti sótt fjárhagsstuðning til hins opinbera. Þörfin á slíkum stuðningi blasir ekki síst við þegar kynna þarf ólík sjónarmið í umdeildum málum, þá þurfa grasrótarhreyfingar að eiga góða möguleika á að kynna sinn málstað.

Brýnt er að fullgilda allar þrjár stoðir Árósarsamningsins og auka með því aðgengi að upplýsingum um umhverfismál, tryggja réttláta málsmeðferð og möguleika einstaklinga og frjálsra félagasamtaka til að hafa áhrif á ákvarðanatöku varðandi umhverfismál.

Tryggja þarf möguleika almennings til þátttöku í samfélaginu, hvort sem er með þátttöku í umræðu, menntun eða á vinnumarkaði. Lykilatriði í því er að fjölga tækifærum til menntunar, auka aðgengi og hvatningu til að afla sér þekkingar og færni og veita öllum jafngild tækifæri til skólagöngu og símenntunar. Rannsóknir sýna að lýðræðisleg þátttaka helst í hendur við menntunarstig þjóða. Hér þarf sérstaklega að huga að þeim sem búa við einhvers konar hindranir að því er varðar möguleika og aðgengi. Má í því sambandi nefna túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa, gögn á blindraletri fyrir blinda og túlkaþjónustu og íslenskukennslu fyrir þá sem ekki hafa náð valdi á íslensku. Gæta þarf sérstaklega að hópum sem hætt er við að verði útundan í samfélagsumræðunni, svo sem öldruðum og öryrkjum.

Gagnrýnin hugsun þarf að skipa umtalsvert hærri sess í uppeldi og menntun allt frá leikskólastigi. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagsþróunina að börn og ungmenni alist upp við þátttöku í lýðræðislegum athöfnum, samráði og rökræðu og að þau kynnist leiðum til að sætta sjónarmið og ná sameiginlegri niðurstöðu í vandmeðförnum málum.

Íbúaþing ná sífellt meiri útbreiðslu enda eru þau áhrifarík aðferð til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og er mikilvægt að sveitarfélög taki þau upp sem virkan vettvang í stefnumótun.

Lýðræðislegir og opnir starfshættir fjölmiðla hafa grundvallarþýðingu fyrir samfélags-umræðuna og réttindi borgaranna. Setja verður skorður við áhrifum fjármagns á fjölmiðla og skoðanamyndun. Tryggja þarf að ríkisútvarpið geti gegnt hlutverki sínu með reisn sem kraftmikið menningar og almannaþjónustu útvarp, ekki síst í þágu lýðræðis. Það verður einungis gert með því að breyta lögum um Ríkisútvarpið á nýjan leik.

Endurskoða þarf starfsaðferðir á Alþingi Íslendinga en því hefur ítrekað verið misboðið þegar framkvæmdavaldið þröngvar málum sínum í gegnum þingið án þess að þau fái eðlilega og þinglega meðferð eða kynningu.  Styrkja þarf stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu, því þar er hinn lýðræðislega kjörni vettvangur sem á að hafa það hlutverk að undirbúa og setja lög í landinu. Óhóflegt stjórnlyndi framkvæmdavaldsins verður að takmarka. 

Stjórnmálaflokkarnir ásamt öðrum almannasamtökum og réttindum hvers einstaklings eru hornsteinar í lýðræðissamfélagi. Það skiptir máli að flokkarnir séu virkir og stundi opna umræðu um samfélagsmál og gagnsæ vinnubrögð. Fulltrúalýðræðinu er hreint ekki ógnað af því að þjóðin greiði öðru hvoru atkvæði um tiltekin mál. Nauðsynlegt er að setja inn í almenn lög eða stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, til að mynda að tiltekið hlutfall þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum eða viðlíka hætti. Um slíkar atkvæðagreiðslur gætu gilt almenn kosningalög.

Brýnt er vegna lýðræðisþróunar að upplýsa um eðli og inntak alþjóðlegra viðskiptasáttmála sem takmarka sjálfsákvörðunarvald þjóðríkja, svigrúm staðbundins atvinnulífs og almannaþjónustu. Dæmi um slíka samninga og sáttmála eru Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) og Evrópusambandið (ESB). Gæta ber þess m.a. að almannaþjónusta sé undanskilin í öllum slíkum samningum og brýnt að hafa í huga að einkavæðing og hlutafélagavæðing opinberra stofnana og skilgreining þeirra sem stofnana á markaði ræður úrslitum um hvort framangreindir alþjóðasamningar taka til þeirra eða ekki. Mikilvægt er að huga að því að stjórnvöld varðveiti sjálfstæði sitt til aðgerða með hliðsjón af undirskrift slíkra samninga og skuldbindinga þar að lútandi.

Tímamót í menntun og vísindum

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á nýja stefnu í menntamálum þar sem fjölbreytni og metnaður haldast í hendur. Mikilvægt er að efla hið almenna skólakerfi þannig að innan þess blómstri faglegt frelsi og frumkvæði.

Meðal áhersluatriða VG í menntamálum á næstu árum eru eftirfarandi aðgerðir:

Vinstri–græn ætla að koma stefnu VG frá 2003 um gjaldfrjálsa leikskóla í framkvæmd til þess að tryggja jafnan aðgang  allra barna að þeim og leggjum áherslu á að ríkið taki þátt í þessu verkefni með sveitarfélögunum.

Við ætlum að útrýma gjaldtöku úr grunnskólunum, þ.m.t. gjaldi vegna skólamáltíða, námsefnis og frístundaheimila vegna þess að Vinstri–græn telja öll börn eiga sama rétt á þessari þjónustu, óháð efnahag.

Við ætlum að styðja skóla til þess að halda uppi metnaðarfullu starfi þar sem fjölbreytni náms og starfshátta, gagnrýnin, skapandi hugsun, lýðræði í skólastarfi og virðing fyrir nemendum, kennurum og öllum sem í skólunum starfa er í fyrirrúmi.

Við viljum að samræmd próf í grunnskóla verði lögð af í núverandi mynd vegna neikvæðra stýrandi áhrifa þeirra á skólastarfið. Vinstri–græn telja nauðsynlegt að námsmat verði fjölbreyttara og taki mið af fleiri þáttum en nú tíðkast.

Við ætlum að vinna gegn félagslegri mismunun í skólakerfinu m.a. með því að bæta aðstæður nemenda til heimanáms og leiðsagnar við það í grunnskólum.

Við ætlum að virkja þann kraft sem býr í listum og handverki og tryggja að nemendur á öllum stigum grunnskólans njóti fjölbreytni í námi sínu þannig að verknám, listnám og útikennsla skipi við hlið bóknáms sess í námi þeirra allt til loka skólaskyldu.

Mikilvægt er að tryggja jafnan rétt allra til tónlistarnáms. Í því samhengi er lykilatriði að skipting kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga verði í samræmi við aðra skiptingu kostnaðar í skólakerfinu.

Gerð verði sérstök áætlun um eflingu jafnréttisfræðslu, fræðslu um fjölmenningu og menntun til sjálfbærrar þróunar. Þessi áætlun feli í sér þá grundvallarbreytingu á réttindaskrá barna að þessir málaflokkar verði hvorttveggja í senn nýjar námsgreinar og fléttist inn í eldri námsgreinar. Sjá þarf kennurum og kennaranemum fyrir betri menntun á öllum þessum sviðum

Við ætlum að kalla til fulltrúa stéttarfélaga kennara til viðræðna til að tryggja öruggt og stöðugt kjaraumhverfi,

Við ætlum að veita fé til námsefniskaupa fyrir framhaldsskólanemendur og til þess að greiða niður mat sem nemendum er seldur í skólunum. Þetta eru áfangar á þeirri leið að jafna aðstöðu nemenda til framhaldsskólanáms.

Við ætlum að vinna markvisst að fjölgun nemenda sem útskrifast úr framhaldsskólum, m.a. með auknu og fjölbreyttara námsframboði, meiri umsjón og leiðsögn í námi og með auknum sveigjaleika um námstíma, inntak náms og námstilhögun á ábyrgð skólanna og kennara þeirra.

Vinstri–græn vilja að  framhaldsskólarnir fái aukið svigrúm til þess að skipuleggja innra starf sitt s.s. námsleiðir í bók-, list- og starfsnámi, að jafngilding alls náms verði innleidd og horfið verði frá öllum hugmyndum um einhliða styttingu framhaldsskólans.

Við ætlum að lögfesta mun ákveðnar en í gildandi lögum réttindi nemenda til náms og skyldur yfirvalda til þess að bjóða nemendum nám við hæfi og gera ráðstafanir til þess að allir nemendur gangi í skóla a.m.k. til 18 ára aldurs.

Við ætlum að vinna að því að háskólanám standi öllum til boða og að nám á háskólastigi verði fjölbreytt, bæði verklegt og bóklegt.

Vinstri–græn ætla að styrkja háskólastigið markvisst, efla háskólanám um land allt og ýta undir að háskólar landsins starfi saman og laði hingað til lands erlenda vísindamenn og nemendur til að skapa hér alþjóðlegt háskóla- og rannsóknasamfélag.

Við ætlum að endurskoða lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna og rýmka möguleika þeirra sem stunda framhaldsskólanám í öldungadeild til að fá lán til framfærslu á meðan á námi stendur.

Við ætlum að búa betur að meistara- og doktorsnámi í landinu með því að efla Rannsóknanámssjóð og gera þannig fleirum kleift að stunda rannsóknatengt framhaldsnám sem aðalstarf.

Við ætlum að efla rannsóknarsjóði sem vísindamenn sækja um styrki úr á samkeppnisgrundvelli. Með öflugum rannsóknarsjóðum þar sem umsóknir á öllum fræðasviðum eru metnar á faglegum grundvelli geta sjálfstæðir vísindamenn sótt sér fé til rannsókna og þannig er tryggt að fólk geti stundað fræði sín óháð stofnunum. Auka þarf fé til slíkra sjóða án þess að dregið verði úr rannsóknarfjármagni sem renni beint til háskólanna.

Við ætlum að gera áætlun um útflutning á listum og menningu og virkja þannig sköpunarkraftinn í þjóðinni.

Landbúnaðarmál

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur svo á að kraftmikill landbúnaður sé brýnt samfélags- og umhverfismál. Framtíð þessa atvinnuvegar á Íslandi veltur á því að víðtæk sátt ríki um starfsskilyrði landbúnaðarins og það fjölþætta hlutverk sem hann gegnir í landinu, þar á meðal að framleiða holl matvæli á viðráðanlegu verði, treysta búsetu í dreifbýli, viðhalda umhverfisgæðum, tryggja matvælaöryggi, styðja ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir eindregnum vilja til að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði, m.a. með lánasjóði ungs fólks til jarðakaupa, og hindra að verslun með bújarðir hnekki byggð í sveitum landsins. Brýnt er að endurskoða jarðalög með þetta í huga og tryggja að eignarhaldi á jörðum fylgi bæði réttindi og skyldur gagnvart umhverfi og samfélagi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill beita sér fyrir lagasetningu um hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða –magni innan hverrar búgreinar. Í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verði miðað við 1% af heildargreiðslumarki. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð álítur rétt að hefja strax á næsta kjörtímabili vinnu við að undirbúa íslenskan landbúnað fyrir væntanlega alþjóðasamninga um verslun með landbúnaðarafurðir. Markmiðið verði að greinin fái hæfilega langan aðlögunartíma til að mæta samkeppni og sækja fram á erlendum mörkuðum, t.d. með því breyta hluta núverandi framleiðslustyrkja í búsetutengdan stuðning. Í því sambandi verði gætt jafnt að ólíkum búgreinum og þeim tryggð sambærileg starfsskilyrði eftir því sem kostur er.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir vilja sínum til að stuðla að upplýstri og sanngjarnri umræðu um matvælaframleiðslu og matarverð á Íslandi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill enn fremur:

  • efla stuðning við lífrænan búskap, til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, og styrkja rannsóknir á því sviði
  • gera reglur um fullvinnslu afurða þannig úr garði að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir
  • stuðla að aukinni þátttöku bænda í landgræðslu, skjólbeltarækt og skógrækt
  • að eftirlits- og leyfisgjöld í landbúnaði verði lækkuð þannig að þau endurspegli raunverulegan kostnað vegna slíkrar starfsemi í þeim mæli sem hennar er þörf
  • tryggja fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum, innlendum jafnt sem innfluttum, m.t.t. notkunar erfðabreyttra lífvera við framleiðsluna
  • að allar landbúnaðarafurðir verði upprunamerktar, bæði íslenskar og innfluttar
  • búa ylrækt og garðyrkju á Íslandi sanngjörn starfsskilyrði og efla sérstaklega starfsmenntun í þessum fræðum
  • endurskoða löggjöf um dýravernd á heildstæðan hátt.

Utanríkis- og alþjóðamál

Landsfundur VG leggur áherslu á sjálfstæða utanríkisstefnu sem feli í sér þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi sem fullvalda ríki. Meginstoðir þeirrar stefnu eru sjálfstæði og hlutleysi Íslands, alþjóðleg umhverfisvernd, frumkvæði að og stuðningur við alla viðleitni til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar þjóða, samstaða með kúguðum þjóðum og þjóðarbrotum, barátta fyrir mannréttindum og alþjóðleg samvinna á grundvelli jafnréttis og virðingar fyrir ólíkum viðhorfum og menningu.

Innganga í Evrópusambandið ásamt tilheyrandi framsali á fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar kemur ekki til álita.

Landsfundurinn leggur áherslu á nauðsyn þess að efla  þátttöku Íslendinga í starfi Sameinuðu þjóðanna, svo og í Evrópuráðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Norðurlandaráði og öðrum lýðræðislega uppbyggðum svæðis- og alþjóðastofnunum. Utanríkisstefna Íslands skal ávallt leggja áherslu á baráttu fyrir kvenfrelsi, félagslegu réttlæti, mannréttindum og lýðræði.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir yfir stuðningi við sjálfstætt og lýðræðislegt ríki í Palestínu. Ísland á ekki að viðurkenna rétt Ísraelsríkis til hertekinna landsvæða í Palestínu. Landsfundurinn fordæmir stöðuga hersetu Ísraelsríkis í Palestínu og árásir þess á nágranna sína.

Notkun klasasprengja í árásum á Líbanon á liðnu sumri er sérstaklega fordæmd. Íslenska ríkinu ber skylda til að beita sér á alþjóðavettvangi til að stöðva notkun, framleiðslu og eign á vopnum sem fyrst og fremst er beitt gegn almennum borgurum. Þar á meðal eru klasa- og jarðsprengjur, efna- og sýklavopn, vopn sem innihalda skert úran og síðast en ekki síst kjarnorkuvopn sem eru hluti af vopnabúri NATO og eru því á ábyrgð Íslands. Landsfundurinn fordæmir notkun slíkra vopna í öllum tilvikum og harmar að mörg ríki neiti að banna notkun þeirra, heldur hagnast á framleiðslu hergagna sem notuð eru gegn fátækustu íbúum jarðar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur þá stefnu að Ísland eigi ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan. Reka þarf lýðræðislega, sjálfstæða utanríkisstefnu fyrir opnum tjöldum.  Íslenska þjóðin tryggir öryggi sitt best með því að vinna gegn allri hervæðingu og vopnasölu og sinna friðaruppbyggingu á alþjóðavísu. Nauðsynlegt er að hverfa frá þeim karllæga heimi hernaðarhyggju og vígbúnaðar sem mannkynið hefur því miður verið fangi í. Landsfundurinn ályktar að Ísland segi sig úr NATO og standi utan allra hernaðarbandalaga.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að Ísland segi upp herverndarsamningnum við Bandaríkin frá 1951 og öllum viðaukum við hann. Í því samhengi fagnar landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs brottför Bandaríkjahers frá Íslandi og því að leynd skuli hafa verið aflétt af skjölum sem tengjast veru hersins á landinu. Um leið mótmælir landsfundurinn öllum áætlunum um að leggja íslenskt landsvæði, íslenska lögsögu og lofthelgi undir stríðs- og sprengjuæfingar erlendra ríkja. Landsfundurinn lýsir vanþóknun sinni á því hvernig herinn skildi við íslenskt land og krefst þess að Bandaríkin standi straum af kostnaði við að hreinsa sprengjur og eiturefni af íslensku landsvæði.

Engar heræfingar skulu haldnar hér á landi, komur herskipa og herflugvéla bannaðar, svo og flutningur pólitískra stríðsfanga. Þá skal öll meðferð og flutningur efna-, sýkla- og kjarnorkuvopna bannaður um íslenska lofthelgi og lögsögu. VG mótmæla að íslenska ríkið leggi fram fjármagn til að flytja hergögn og hermenn til ófriðarsvæða í heiminum, eins og gerðist í upphafi Íraksstríðsins og sennilega bæði fyrr og síðar. VG mótmæla mannréttindabrotum Bandaríkjanna á föngum í Guantanamo og áréttar nauðsyn þess að farið sé eftir alþjóðasamningum um meðferð stríðsfanga.

VG mótmælir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um stuðning Íslands við stríðið í Írak og hvernig staðið var að henni. Landsfundurinn krefst þess að ríkisstjórnin axli ábyrgð og biðjist afsökunar á þessum ólýðræðislegu vinnubrögðum og hinum skelfilegu afleiðingum þeirra.

Í heimi þar sem allt gengur kaupum og sölum er ekkert undanskilið, þar með talin börn og konur sem seld eru í kynlífsþrælkun á Íslandi, sem og annars staðar. Öll Norðurlöndin hafa skrifað undir samninginn gegn skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi ásamt bókuninni við hann um baráttu gegn mansali, einkum kvenna og barna. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á ábyrgð stjórnvalda í því að berjast gegn þessum mannréttindabrotum og einnig að standa vörð um hagsmuni fórnarlambanna.

Samstarf Íslands við nágrannaþjóðir sínar hefur almennt verið gott og tryggja þarf að svo verði áfram. Norðurslóðasamstarf sem nær til Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands auk frændþjóða okkar á Norðurlöndum getur tekið á þeim umhverfisvám sem vænta má að ógni öryggi okkar í framtíðinni, t.d. vegna hlýnunar andrúmsloftsins og hækkunar sjávarborðs, fyrir utan það að opnun nýrra siglingaleiða eykur líkurnar á mengunarslysum nálægt landinu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að Íslendingar axli ábyrgð í loftslagsmálum. Stefnt skal að því að Ísland verði til fyrirmyndar í loftslagsmálum í framtíðinni bæði á sviði rannsókna og lausna og taki virkan þátt í alþjóðasamstarfi um loftslagsvernd. Íslendingar eiga að taka virkan þátt í að semja um næsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar svo tryggja megi markmið loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og að hafnað verði sérkjörum fyrir stóriðjufyrirtæki um losun gróðurhúsalofttegunda.

Þróunarsamvinna og verslun við þróunarlönd

Landsfundur VG fagnar aukningu í fjárveitingum til þróunarmála á Íslandi. Í ljósi aukinna tekna ríkissjóðs má þó telja að betur mætti gera til þess að ná settu marki um að veita a.m.k. 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunaraðstoðar í fátækari ríkjum heimsins. Framlag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands nemur um 1200 milljónum fyrir árið 2007, eða 0,22% af vergri landsframleiðslu, en áætlað er að framlagið verði 0,35% árið 2009.

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) nr. 43 frá 1981 verði endurskoðuð og kannað verði hvort þörf sé á breyttu skipulagi þróunarsamvinnu og -aðstoðar af hálfu Íslands. Í ljósi þess áréttar landsfundurinn mikilvægi þess að núverandi starfsemi Íslensku friðargæslunnar verði ekki skilgreind sem þróunarstarf og fjárveitingum til hennar verði haldið aðskildum frá starfsemi ÞSSÍ. Þetta er grundvallaratriði til þess að sátt geti staðið um fjárveitingar til málaflokksins.

VG telja að íslenskir friðargæsluliðar megi aldrei bera vopn í starfi sínu og aldrei eigi að senda þá til ófriðarsvæða, nema deiluaðilar séu því samþykkir.

VG telur að áfram skuli fylgt því fyrirkomulagi að Alþingi kjósi stjórn ÞSSÍ í hlutbundinni kosningu og að ÞSSÍ sinni áfram þróunarverkefnum í tvíhliða og marghliða samvinnu. Jafnframt er það vilji landsfundar að í endurskoðuðum lögum verði aðgangur frjálsra félagasamtaka að opinberu fjármagni til þróunarmála bættur.

Landsfundur VG hvetur eindregið til aukinna viðskipta við þróunarlönd. Besta og árangursríkasta efnahagsaðstoðin sem Íslendingar geta veitt fátækari ríkjum er að opna markaði sína og afnema verndartolla. Slíkt er forsenda þess að fátækari lönd geti hjálpað sér sjálf með því að framleiða vörur til útflutnings án slíkra hafta. Því ber að veita þróunarríkjum óheftan aðgang að okkar mörkuðum.

Frelsum ástina – höfnum klámi!

Vinstrihreyfingin grænt framboð fagnar þeirri einörðu samstöðu sem í ljós kom þegar klámframleiðendur hugðust standa fyrir ráðstefnu á Íslandi dagana 7.-11. mars 2007. Samstöðu sem hafin var yfir pólitíska flokkadrætti, bandalög, vinahópa og hugmyndafræðileg átök. Samstöðu samfélags sem tók undir með kvennahreyfingu undanfarinna alda, reis upp og mótmælti klámvæðingu af krafti. Samstöðu sem leiddi til þess að þinginu var aflýst.

Órjúfanlegt samhengi ríkir milli kláms, vændis og annars kynferðisofbeldis. Enginn á að þurfa að taka þátt í kynferðislegum athöfnum gegn vilja sínum. Einstaklingur sem starfar í klámiðnaðinum vegna neyðarinnar einnar og/eða gegn vilja sínum er því beittur kynferðisofbeldi. Ljóst er að sú er raunin með stóran hluta þeirra sem starfa í klámiðnaðinum.

Klámvæðingin hefur auk þess ótvíræð neikvæð áhrif á samfélagið og hegðan einstaklinga innan þess. Rannsóknir kynjafræðinga hafa sýnt fram á sterkt samband milli neyslu kláms og ofbeldis gagnvart konum og börnum. Í kjölfar klámvæðingarinnar eru nauðganir orðnar grófari og hópnauðganir alvarlegri, í fullu samræmi við þróun klámvæðingarinnar.

Vinstrihreyfingin grænt framboð mun halda vegferðinni áfram. Enn er klám fyrir augum okkar daglega, vændi þrífst hérlendis sem aldrei fyrr og kynferðisofbeldi gagnvart konum og börnum er daglegt brauð. Pólitískur vilji er forsenda breytinga, ásamt bættu réttar- og dómskerfi og eflingu kynjafræðimenntunar á öllum skólastigum með sérstakri áherslu á lykilfólk í samfélagslegri umræðu, s.s. í uppeldisgreinum, heilbrigðisgreinum, lögfræði, fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði o.s.frv.

Sterk sjálfsmynd einstaklinga sem bera virðingu hver fyrir öðrum og njóta kynlífs á eigin forsendum er forsenda samfélags án ofbeldis. Til þess er mikilvægt að bæta velferðarsamfélagið í heild sinni og brjóta upp kynjakerfið. Það ætla Vinstri græn að gera.

Samgöngumál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs haldinn í Reykjavík 23. – 25. febrúar 2007 telur að líta beri á siglingaleiðina milli Vestmannaeyja og lands sem þjóðveg og þess vegna eigi ekki að skattleggja umferð á þeim þjóðvegi umfram það sem gert er á öðrum þjóðvegum landsins.

Það er því krafa landsfundarins að stjórnvöld sjái til þess að skattlagning þessi verði lögð af og þeir sem fara á milli lands og Eyja greiði aðeins sambærileg gjöld og aðrir sem fara um þjóðvegi landsins.

Jafnframt krefst fundurinn þess að nú þegar verði bætt úr því ófremdarástandi sem ríkir í samgöngumálum Vestmannaeyinga og fundið hentugt skip til að fullnægja hraða, flutningsþörf og þeim kröfum sem gerðar eru í nútímasamgöngum. Ekki er lengur hægt að fresta samgöngubótum með sífelldi skírskotun til þess að verið sé að leita efir heildarlausn í samgöngumálum milli lands og Eyja. Sú leit hefur tekið allt of  langan tíma og á meðan hefur í raun ekkert gerst. Afleiðingin er m.a. sú að Vestmannaeyjar dragast aftur úr enda eru fullnægjandi samgöngur ein grunnforsenda þess að þar verði blómleg byggð til frambúðar.

Þá bendir landsfundurinn á að flugsamgöngur landsmanna eru svo dýrar að ekki er í raun unnt að tala um þær sem almenningssamgöngur. Full þörf er því að taka þann þátt til gagngerrar endurskoðunar í þeim tilgangi að tryggja landsmönnum flugsamgöngur á sanngjörnu verði.

Meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 2007 telur brýnt að hið opinbera viðurkenni skýlausan rétt áfengis- og vímuefnasjúklinga til meðferðar og heilbrigðisþjónustu á við aðra sjúklinga. Meðferðarstarf skal skilyrðislaust vera í höndum fagfólks með formlega faglega menntun. Virða skal rétt áfengis- og vímuefnasjúklinga til stjórnmála- og trúarskoðana.

Fangelsismál

Það er mikilvægt verkefni nýrrar ríkisstjórnar að tryggja fjármagn til að framfylgja þeirri stefnu sem mótuð hefur verið af fangelsismályfirvöldum þar sem lögð er rík áhersla á meðferðarúrræði og menntun í afplánun fanga, og opna þeim þannig ný tækifæri í lífinu. Með þessu móti má rjúfa þann vítahring sem verður hlutskipti margra einstaklinga og þannig draga úr tíðni síbrota. Um það bil 50% þeirra sem hafna í fangelsi koma þangað oftar en einu sinni. Markmiðið með fangelsisvist ætti að vera endurhæfing en ekki einungis refsing með frelsisskerðingu.

Sérstaklega er mikilvægt fyrir þá sem eru að afplána dóm í fyrsta sinn að eiga kost á meðferðarúrræðum, menntun og markvissum undirbúningi fyrir frekara nám og stöf.

Löggjafinn og dómskerfið þurfa að vinna saman að því að meðferðarúrræði seú hluti af afplánun, t.d. fyrir kynferðisafbrotamenn og aðra þá em haa gerst sekir um alvarlega ofbeldisglæpi.

Fjölbreytt atvinnulíf án álvers í Helguvík

Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs haldinn í Reykjavík 23. – 25. febrúar 2007 mótmælir áformum stjórnvalda um byggingu álvers við Helguvík.

Í stað stóriðjuframkvæmda á Reykjanesskaga viljum við:

  • Styrkja og efla iðnað á Suðurnesjum með ódýrri raforku í stað þess að afhenda hana einokunarfyrirtækjum í stóriðju á útsöluverði. Lítil og meðalstór fyrirtæki skapa margfalt meiri og áhugaverðari atvinnu en stóriðja.
  • Styðja sjávarútveg, landbúnað, íslenskan iðnað, verslun og þjónustu í stað þess að niðurgreiða raforku til stóriðju.
  • Efla hátækni- og þekkingariðnað. Nýtum möguleikana sem gefast á svæðinu fyrir háskóla- og rannsóknarstarfsemi m.a. á sviði jarðvísinda.
  • Tryggja fjölbreytt atvinnulíf sem ekki er háð erlendum stóriðjufyrirtækjum.
  • Virkja mannauð en hlífa náttúruperlum.
  • Tryggja að Reykjanesið haldi áfram að vera ferðamannasvæði, svæði sem kemur til með að eflast með fyrirhuguðum eldfjallagarði og fólkvangi. Höfum það hugfast að Reykjanesið er forstofa Íslands, það fyrsta sem ferðamenn sjá við komuna til landsins.
  • Vernda þær náttúruperlur sem er að finna á Reykjanesskaga og munu spillast ef til stóriðju á svæðinu kemur. Alvarleg, óafturkræf umhverfisáhrif eru óhjákvæmilegir fylgifiskar stóriðju og tilheyrandi virkjana.
  • Leggja áherslu á þau gæði sem fólgin eru í ósnortinni náttúru. Hugsum til komandi kynslóða, öll viljum við að afkomendur okkar njóti þessara ómetanlegu gæða.
  • Gera það að okkar verkefni að stóriðjuframkvæmdum linni, við viljum stóriðjustopp!

Hugsum á heimsvísu – tökum til heima:

Um kynjafræði, fjölmenningu og menntun til sjálfbærrar þróunar á öllum skólastigum

Gerð verði sérstök áætlun um kynjafræðikennslu, fræðslu um fjölmenningu og menntun til sjálfbærrar þróunar. Áætlunin feli í sér þá grundvallarbreytingu á aðalnámskrá/réttindaskrá barna að þessir málaflokkar verði ekki aukamál heldur hvorttveggja í senn nýjar námsgreinar og fléttist inn í eldri námsgreinar sem hluti af fræðslu um lýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð. Sjá þarf kennurum og kennaranemum fyrir betri menntun á öllum þessum sviðum, bæði um málefnin og í vinnubrögðunum, en þó sérstaklega í því að takast á við viðkvæm og eldfim málefni.

Komið verði á skipulegu ráðstefnuhaldi um málaflokkana þannig að ráðstefna um hvern þeirra verði haldin þriðja hvert ár. Fyrsta ráðstefnan verði í nóvember 2007 um kynhneigð og skólastarf. Leitað verði eftir samstarfi um ráðstefnurnar við framsækin samtök kennara, t.d. Samtök áhugafólks um skólaþróun sem héldu ráðstefnu um lýðræði sl. haust.

Kynjafræðin á öllum skólastigum byggi á þeim vísum að jafnréttisfræðslu sem fyrir eru. Tekið verði tillit til kynjafræðilegrar þekkingar í hvers konar þróunarstarfi í skólum, t.d. þegar styrkjum er úthlutað að þá sé betur gert við þá skóla sem taka best tillit til kynjasjónarmiða. Skrifa þarf sérstakt námsefni sem auðveldar kennurum að takast á við hamlandi ímyndir um karlmennsku og kvenleika. Rannsóknir á sviði kynjafræði og skólastarfs verði efldar.

Fjölmenningarfræðsla feli í sér jafnt þau viðfangsefni sem eru viðkvæm og pólitísk og önnur sem eru ópólitískari. Þannig verði fjölmenningarfræðslan tengd við fræðslu um hnattvæðingu, alþjóðastjórnmál og fólksflutninga en einnig við menningarlega þætt á borð við klæðaburð, hátíðahöld og matarvenjur. Trúarbragðafræðsla og almenn fræðsla um menningu, þar með talda íslenska menningu, verði tengd fjölmenningarfræðslu. Taka þarf sérstaklega fyrir stöðu karla og kvenna í ólíkum menningarsamfélögum.

Menntun til sjálfbærrar þróunar verði tengd þeim vísum að umhverfismennt sem eru til staðar en jafnframt litið til þróunarþáttarins og þess að efla skilning á andstæðum norður og suðurs á heimsvísu. Mikilvægt markmið sjálfbærrar þróunar er að börn og unglingar verði fær um að ræða hvernig þau vilja sjá samfélagið þróast — þau þurfa að læra að takast á við ágreiningsmál samtímans til að geta tekist á við úrlausnarefni framtíðarinnar. Fræðsla um lýðræði og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum er mikilvægur hluti menntunar til sjálfbærrar þróunar.

Loftslagsmál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að Íslendingar eigi að vera í fararbroddi á sviði náttúru- og umhverfisverndar. Hér þarf að taka upp sjálfbæra orkustefnu, draga markvisst úr orkusóun og gera marktækar áætlanir um samdrátt stig af stigi í losun gróðurhúsalofttegunda. Stóriðja og stórvirkjanir í þágu mengandi iðnaðar samrýmast ekki sjálfbærum orkubúskap. Íslendingar þurfa að axla ábyrgð í loftslagsmálum og leggja sitt af mörkum til að hægja á yfirstandandi loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þegar horfið hefur verið frá stóriðjustefnunni er raunsætt að stefna að því að Ísland verði til fyrirmyndar í loftslagsmálum, bæði á sviði rannsókna og lausna og taki aukinn þátt í alþjóðasamstarfi um loftslagsvernd.

Landsfundurinn skorar á Alþingi að samþykkja tillögu þingflokks VG um að stofnað verði Loftslagsráð sem fjölskipaður samstarfsvettvangur til að móta tillögur um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, meta  líkleg áhrif loftslagsbreytinga á þjóðarhag og þjóðaröryggi og vera til ráðgjafar um rannsóknaþörf og viðbrögð á sviðum sem mestu varða.

Landsfundurinn skorar einnig á sveitarfélögin að vinna að úrbótum í loftslagsmáum með því að fylgja eftir staðardagskrá 21 og með öðrum tiltækum aðferðum.

Réttur sjúklinga, persónuvernd og heilsufars-upplýsingar

Auðvelda ber heilbrigðisstofnunum að hagnýta sem best hraðstígar framfarir í upplýsingatækni í þágu þeirra sem njóta heilbrigðisþjónustu og þess heilbrigðisstarfsfólks sem þjónustuna veitir. Jafnframt verður að tryggja að lögum og reglum um persónuvernd sé stranglega framfylgt við söfnun og hagnýtingu heilsufarsupplýsinga, t.d. þegar stjórnvöld og fyrirtæki óska eftir upplýsingum úr gagnasöfnum heilbrigðisstofnana. Einnig sé tryggt að heilbrigðisstofnunum og starfsmönnum þeirra sé gert kleift að framfylgja lögum um réttindin sjúklinga. Stefna ber að því að nema úr gildi Lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði nr. 139/1998 enda hafi þau bæði reynst óþörf og fara í bága við ákvæði stjórnarskrár Íslands um friðhelgi einkalífs.

Stórátak í geðheilbrigðismálum

Stórauka þarf áherslu á geðheilbrigðismál og koma á heildrænni stefnu þar að lútandi. Mannréttindasjónarmið, jafnrétti, og sjálfsefling notenda og aðstandenda skulu höfð að leiðarljósi. Brýnt er að vinna gegn fordómum og útskúfun.

Geðheilbrigðisþjónustu á að veita úti í samfélaginu. Áhersla verði lögð á sameiningu heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu, svo og aðkomu frjálsra félagasamtaka. Byggja þarf upp þverfaglega þekkingu og þjálfun á heilsugæslustöðvum og félagsþjónustu um land allt á öllum stigum þjónustunnar. Sjúkratryggingakerfið tryggi aðgengi að fjölbreyttri þjónustu fagaðila. Rannsóknir á sviði geðheilbrigðismála ber að nýta til þess að bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari. Notendur eiga að geta metið reglulega viðtöl og aðra þjónustu sem þeir fá. Vinna verður að því að því að hækka menntunarstig og laun þeirra sem starfa að umönnun í geðheilbrigðis- og félagsþjónustu.

Móta þarf heildarstefnu í forvörnum og félagslegum úrræðum, strax frá barnæsku, og tryggja réttindi fólks með geðraskanir, s.s. til viðunandi húsnæðis, félagslegs stuðnings, atvinnuþátttöku, menntunar og þátttöku í samfélaginu. Tryggja þarf aðgengi að fjölbreyttum og sveigjanlegum meðferðar- og endurhæfingarúrræðum. Þjónustu við börn/unglinga, aldraða og heimilislaust fólk með geðraskanir þarf sérstaklega að bæta m.a með aukinni fjölskyldu- og tengslanetavinnu. Leggja ber áherslu á stutta sjúkrahúsdvöl þar sem meðferð einkennist af mannúð og virðingu. Ríkið þarf að tryggja fjármagn til sveitarfélaganna svo þau geti sinnt þessum brýnu verkefnum. Við fjárveitingar til málaflokksins þarf að tryggja jafnræði og sjá til þess að það fjármagn sem fékkst við sölu Símans nýtist þegar í stað.

Stöðvun stóriðjuframkvæmda

Vinstrihreyfingin – grænt framboð bendir á að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gefst nú síðasta tækifærið til að hverfa frá stóriðjustefnunni. Ekkert annað dugar en afdráttarlaus yfirlýsing um að fallið verði frá áformuðum stóriðjuframkvæmdum.. Allt tal um þjóðarsátt samtímis því að undirbúin er af krafti bygging 3-4 álvera í viðbót með tilheyrandi stórvirkjunum og áframhaldandi hervirkjum í náttúru landsins er út í hött og móðgun við kjósendur. Stóriðjustopp er alger forsenda þess að tryggja megi á nýjan leik efnahagslegan og félagslegan stöðugleika, auk þess sem þá skapast svigrúm til að vinna heildstæða náttúruverndaráætlun, sem setur frekari raforkuvinnslu með vatnsafli og jarðvarma fastmótaðar skorður. Þar til slík áætlun liggur fyrir, samþykkt af Alþingi, eru frekari áform um uppbyggingu stóriðju útilokaðar. 

Nóg er komið af þeirri landeyðingarstefnu sem hér hefur ríkt. Nú þarf að forgangsraða í þágu náttúruverndar og tryggja að sem stærstur hluti íslenskrar náttúru, lífríki, jarðmyndanir og landslag, fái að þróast eftir eigin lögmálum. Meta þarf verndargildi íslenskrar náttúru í staðbundnu og hnattrænu samhengi og setja náttúruverndaráætlun, ásamt skuldbindingum okkar samkvæmt alþjóðasamningum um loftsagvernd, ofar öllum hugmyndum um virkjanir og stóriðju.

Stóriðjuframkvæmdir hafa nú þegar valdið mikilli þenslu í efnahagslífinu og til að slá á hana, ná niður verðbólgu og draga úr viðskiptahalla, þarf að falla frá þeim virkjana- og stóriðjuframkvæmdum sem nú eru á teikniborðinu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur í staðinn áherslu á að mörkuð verði stefna þar sem skapaður sé hagstæður jarðvegur fyrir almenna atvinnuþróun, ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki og sérstaklega verði hlúð að sprotafyrirtækjum hvers konar, auk þess sem lagður verði grunnur að sjálfbærum orkubúskap. Uppbygging af þessu tagi er líkleg til að renna stoðum undir sjálfbært og fjölskrúðugt atvinnulíf um land allt. Við viljum hagnýta þekkingu og nýsköpun, láta hugvit og sköpunargleði ráða för.

Táknmál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs haldinn að Grand hóteli 23.-25.febrúar gerir kröfu til þess að íslenska táknmálið verði viðurkennt af stjórnvöldum sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Í samræmi við viðurkenningu táknmálsins verða stjórnvöld að tryggja réttindi heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra til að njóta aðstoðar táknmálstúlks við að sinna sínum daglegu félagslegu þörfum með því að stórefla túlkaþjónustu.

Fundurinn krefst þess einnig að íslenskum sjónvarpsstöðvum, framleiðendum og dreifingaraðilum innlends sjónvarpsefnis verði gert skylt að sjá til þess að allt innlent efni sé textað til að tryggja að heyrnarlausir og heyrnarskertir hafi sama aðgengi og heyrandi fólk að upplýsinga-, fræðslu og afþreyingarefni.

Trúfrelsi

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn að Grand Hótel 23-25. febrúar, ályktar að fullt trúfrelsi og jöfn staða trúar- og lífsskoðunarfélaga sé grundvallaratriði. Öll löggjöf og stjórnsýsla þarf að miðast við það.

Landsfundurinn telur mikilvægt að í skólum sé gætt fyllsta hlutleysis gagnvart trúarbrögðum og afstöðu til trúar. Fundurinn leggur áherslu á jafnan rétt einstaklinga og hópa sem aðhyllast mismunandi lífskoðanir og trúarbrögð.

Landsfundurinn telur að trúfélögum eða öðrum þeim aðilum sem hafa heimild til að gefa hjón saman með tilheyrandi samfélagslegum skuldbindingum beri skylda til að mismuna ekki fólki á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar eða lífsskoðana.

Um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík og virkjanir í neðri hluta Þjórsár

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skorar á Hafnfirðinga að hafna stækkun álbræðslunnar í Straumsvík í atkvæðagreiðslu 31. mars næstkomandi. Alcan ráðgerir að nær þrefalda framleiðslugetu verksmiðjunnar sem yrði að því búnu fjórða stærsta álbræðsla í Evrópu. Ljóst er að stækkun álbræðslunnar mun draga úr lífsgæðum Hafnfirðinga í bráð og lengd. Loftmengun mun aukast verulega og verður losun gróðurhúsalofttegunda meiri en öll losun frá samgöngum á Íslandi árið 2004. Sjónmengun af völdum stærri álbræðslu verður veruleg, línumannvirki og sjálf verksmiðjan munu taka verulegt rými við bæjarmörk Hafnarfjarðar og verða gríðarlegt lýti á umhverfinu. Hafni Hafnfirðingar deiliskipulaginu eru það ekki aðeins skýr skilaboð til stjórnvalda um þessa tilteknu framkvæmd heldur einnig um að stóriðjustefnan sé gjaldþrota og réttast sé að fylgja hér eftir almennri atvinnustefnu á sjálfbærum grunni.

Landsfundurinn lýsir einnig fullum stuðningi við jarðeigendur og heimamenn á Suðurlandi sem berjast nú gegn virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Fráleitt er að ráðast í gerð þessara virkjana með tilheyrandi landspjöllum til að afhenda rafmagn til stærri álbræðslu í Straumsvík eða annarrar stóriðju. Ekkert kallar á þær umhverfisfórnir sem óhjákvæmilega hljótast af þessum framkvæmdum.

Hækkum lægstu laun, styttum vinnutíma og útrýmum fátækt

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs haldinn í Reykjavík helgina 23.–25. febrúar bendir á að lægstu laun í landinu eru langt undir þeim mörkum að þau dugi til framfærslu og það er brýnt að þau verði stórhækkuð. Landsfundurinn lýsir yfir stuðningi við baráttu launafólks fyrir bættum kjörum og hvetur til þess að sérstök áhersla verði lögð á að bæta afkomu þeirra sem hafa lægst launin og jafna kjörin í landinu. Efnahafslegur jöfnuður og góð afkoma allra er forsenda velmegunar og almennrar velferðar í landinu. Sérstaklega þarf að tryggja réttindi erlends launafólks hér á landi. Kjaramisrétti verður ekki útrýmt nema með samstöðu og baráttu fyrir stórbættri afkomu láglaunafólks óháð þjóðerni.

Vinna þarf markvisst að því að stytta vinnutíma og gera hann sveigjanlegri en um leið þarf að tryggja að laun fyrir styttri vinnutíma dugi til lífsviðurværis.

Skattkerfið á að stuðla að tekjujöfnun og að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar stuðlað að vaxandi misskiptingu, t.d. með skattalækkunum sem einkum gagnast þeim sem mest hafa á milli handa. Fátækt er smánarblettur í samfélagi sem elur af sér milljarðamæringa. Reynsla allra þjóða sýnir að þar sem velferð og jöfnuður eru mest er velmegun líka mest. Öflugt velferðarkerfi er kjölfestan í samfélagi sem virðir manngildi og jafnrétti allra og þeir sem eru háðir velferðarkerfinu um afkomu sína, s.s. vegna örorku, aldurs eða atvinnuleysis, eiga að hafa möguleika á að lifa góðu og innihaldsríku lífi og hafa aðstöðu til að geta lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

Velferðarmál og almannaþjónusta hins opinbera

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs haldinn í Reykjavík helgina 23.–25. febrúar leggur áherslu á öfluga velferðar- og almannaþjónustu og telur að opinberum aðilum beri skylda til að annast og ábyrgjast heilbrigðis-, mennta-, og öryggismál, opinbert eftirlit og vernd, alla grunnþætti á sviði fjarskipta- og samgöngumála svo og veitustarfsemi, hvort sem er rafmagns- eða vatnsveitur. Reynslan sýnir að þetta er ekki aðeins hagkvæmasta fyrirkomulagið heldur tryggir það best að landsmönnum öllum verði tryggð sambærileg þjónusta á sömu kjörum.

Vinstrihreyfingin–grænt framboð leggur áherslu á að eftirlitsstarfsemi með atvinnulífi, heilbrigðis- og öryggisþáttum í samfélaginu sé hafin yfir viðskiptahagsmuni og eigi því að vera rekin af ríki og sveitarfélögum.

Almannaþjónusta þarf að vera í stöðugri endurnýjun og veita þarf svigrúm til nýsköpunar innan þjónustunnar. Almannaþjónusta á að vera góð og hagkvæm og leggja skal áherslu á skapandi samstarf milli stofnana og fyrirtækja hins opinbera. Hún á að vera til fyrirmyndar í rekstri, kjörum, starfsumhverfi starfsmannasamskiptum, umhverfisáherslum og kynjajafnrétti en þannig er tryggt að starfsfólk þjónustunnar fær góðar aðstæður til að sinna störfum sínum af kostgæfni. Í stefnumörkun um opinber innkaup ber að leggja áherslu á umhverfissjónarmið og félagsleg og siðræn gildi.

Almannaþjónustan er ekki hefðbundinn þjónustumarkaður þar sem hægt er að gera kröfur um fjárhagslegan ágóða. Lög og reglur um samkeppnisfyrirtæki á almennum markaði eiga ekki alltaf við um almannaþjónustu og brýnt að þar sé skilið á milli. Almannaþjónusta stjórnast af samfélagslegum markmiðum og því er mikilvægt að hún sé rekin af opinberum aðilum með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Börnin í öndvegi

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 23.–25. febrúar 2007 telur löngu tímabært að íslensk stjórnvöld móti markvissa stefnu í málefnum barna og fylgi þar fordæmi annarra Norðurlanda. Það skiptir börnin okkar miklu að við eflum velferðarkerfið og mótum markvissa stefnu í málefnum barna því að börnin eru viðkvæmt fólk sem þarf að gæta vel að. Þau eru valdalítil í samfélaginu og þurfa að reiða sig á fullorðna fólkið um velferð sína.

Það er sameiginleg skylda okkar allra að hlú að öllum börnum og gæta þess að ekkert barn falli milli skips og bryggju. Við höfum efni á því að reka slíka barnapólitík, ekki síst vegna þess að til lengri tíma skilar hún arði hvernig sem á málið er litið. Eitt barn sem villist af beinu brautinni kostar samfélagið ómælda fjármuni og ekki verða þeir minni ef viðbrögðin eru að níðast á því. Þá er ekki litið á þær tilfinningar sem eru undir hjá stórum hópi fólks í kringum hverja manneskju. Því má alveg eins segja að við höfum ekki efni á því að láta það eiga sig að móta markvissa stefnu í málefnum barna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur sett fram nokkur undirstöðuatriði um barnapólitík til framtíðar. Þau eru eftirfarandi:

Samfélag fyrir börn – Samfélag samtímans er búið til af fullorðnum og að mestu leyti hannað fyrir fullorðna. Það þarf vilja og kjark til að breyta samfélaginu í þá veru að það verði sniðið meir að þörfum barna. Það er nauðsynlegt að skapa samfélag þar sem hlustað er á börn og þarfir þeirra virtar.

Bernskan hefur sjálfstætt gildi – Börn eru ekki bara fullorðnir framtíðarinnar. Æskan og unglingsárin hafa sjálfstætt gildi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill setja börnin í brennidepil. Sérhvert barn er einstakt og á rétt á því að vera meðhöndlað með virðingu af stofnunum samfélagsins. Öll börn eiga á rétt á umönnun, kærleika og skilningi.

Börn eiga að hafa áhrif – Börn og unglingar þurfa að eiga kost á bestu mögulegu skilyrðum til vaxtar og þroska. Þeirra rödd þarf að heyrast þegar verið er að ráða ráðum í samfélaginu ogstofnunum þess. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur það algjöra nauðsyn að horft sé á málefni barna á heildstæðan hátt, hvort sem um er að ræða skólamál, fjölskyldumál, félagsleg mál eða aðbúnað barna. Forsenda þess að börn geti lært og þroskast er að þau hafi áhrif á umhverfi sitt og taki þátt í því.

Öll börn í öndvegi – Börnin okkar eiga að búa við bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði sama hvernig þau eru úr garði gerð. Börn sem líða fyrir fátækt, fötlun, og hvers kyns mismunun þurfa á því að halda að á þau sé hlustað og þau njóti skilnings. Í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði eru öll börn sett í öndvegi.

Börn og foreldrar saman: Foreldrar og börn þurfa aukin tækifæri til að vera saman. Slík nálgun krefst hugarfarsbreytingar atvinnurekenda, stjórnmálamanna og almennings í landinu og sátt um sveigjanlegri og styttri vinnutíma eftir atvikum.

Meðferðarúrræði fyrir átröskunarsjúklinga á landsbyggðinni

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs haldinn í Reykjavík helgina 23.–25. febrúar telur það brýnt að koma á laggirnar meðferðarúrræðum fyrir átröskunarsjúklinga víðar en í Reykjavík. Eins og málum er nú háttað eru sjúklingar hvaðanæva af landinu sendir til Reykjavíkur til að fá nauðsynlega þjónustu en þar er álagið mikið og mörgum erfitt um vik að sækja sér aðstoð langar leiðir. Mikilvægt er að boðið sé upp á sams konar úrræði og það sem nú býðst á BUGL að minnsta kosti á einum öðrum stað á landinu til að létta álagi og bæta þjónustu við átröskunarsjúklinga.

Ályktun um lækkun lyfjakostnaðar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs haldinn í Reykjavík helgina 23.–25. febrúar telur að skoða eigi leiðir til að lækka lyfjakostnað sjúklinga enda eru lyf ekki munaðarvara og oft eru það félitlir einstaklingar sem þurfa á ríkri lyfjagjöf að halda. Aukum endurgreiðslu lyfjakostnaðar, lækkum lyfjaverð, drögum úr fákeppni og stefnum að lækkun eða niðurfellingu virðisaukaskatts á lyfjum.

Húsnæðismál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs haldinn í Reykjavík helgina 23.–25. febrúar leggur áherslu á að húsnæðislöggjöfin verði endurskoðuð á komandi kjörtímabili með samráði við hagsmunaaðila, s.s. sveitarfélög, samtök launafólks og lífeyrissjóðina, með það að markmiði að bæta kjör leigjenda og auðvelda tekjulágu fólki að eignast húsnæði.

Lagt er til að Íbúðalánasjóður taki upp félagsleg íbúðalán til tekjulágra fjölskyldna og þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Þá þarf einnig að huga sérstaklega að stöðu kvenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi og orðið að yfirgefa heimili sitt. Auðvelda þarf félagasamtökum á borð við Öryrkjabandalagið og samtökum námsmanna að byggja leiguíbúðir fyrir sína skjólstæðinga. Mikilvægt er að styrkja stoðir Íbúðalánasjóðs svo hann standi undir því hlutverki að tryggja landsmönnum sanngjörn lán til að kaupa íbúðarhúsnæði. Sjóðurinn er nauðsynleg kjölfesta í lánakerfinu og tryggir t.d. jafnan aðgang að lánsfé óháð búsetu. Má telja víst að húsnæðiskjör landsmanna myndu versna mjög ef hans nyti ekki við.

Aðgerðaáætlun í atvinnumálum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 23.–25. febrúar 2007 vísar til aðgerðaætlunar í byggðamálum og ályktana um málefni sjávarútvegs og landbúnaðar, fjármál sveitarfélaga og annað það sem segir í ályktunum fundarins um aðgerðir á sviði atvinnu- og byggðamála en leggur sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði sem brýnustu þættina í aðgerðaáætlun í atvinnumálum komandi mánaða og ára á þessu sviði.

Atvinnumál

1.Allar áherslur í atvinnumálum séu í samræmi við hugmyndafræði um sjálfbæra þróun.

2.Fjölbreytni verði ætíð höfð að leiðarljósi í allri stefnumótun og þróunarvinnu á sviði atvinnumála.

3.Aukinn kraftur verði lagður í nýsköpun og stuðning við tækni- og þekkingargreinar og hlúð verði sérstaklega að nýjum fyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í uppbyggingu.

4.Sérstök áhersla verði lögð á greinar sem tengjast umhverfistækni, þ.m.t. sjálfbærri þróun í orkumálum, hvers kyns endurvinnslu og endurnýtingu. Horfum til nýrra möguleika og tækifæra á þessu sviði.

5.Vaxtarmöguleikar innan hefðbundinna atvinnugreina verði nýttir markvisst. Einnig verði efld hvers kyns úrvinnsla og fullvinnsla afurða, þjónustuiðnaður og afleidd umsvif sem þessum greinum geta tengst á landsbyggðinni og stuðlað að því með margvíslegum hætti að virðisauki út frá höfuðatvinnugreinum landsbyggðarinnar falli til þar.

6.Gripið verði til markvissra aðgerða og skilyrði til atvinnurekstrar jöfnuð í landinu með sérstakri áherslu á það sem snýr að landsbyggðinni, s.s. jöfnun flutningskostnaðar, orkuverðs, möguleika í fjarskiptum o.s.frv.

7.Ferðaþjónusta og aðrar greinar sem tengjast náttúru, sögu, menningu og ímynd landsins verði sérstaklega styrktar og ferðaþjónustunni sé búin sú umgjörð í stjórnskipun og lögum sem henni ber sem mestu vaxtargrein íslensks atvinnulífs undanfarna áratugi.

8.Hvers konar listsköpun, handverk og smáiðnaður verði efld og stutt við bakið á handverkshópum og einyrkjum með verkstæði eða annars konar starfsemi á því sviði.

9.Greinar sem byggja á náttúrulegum og lífrænum auðlindum verði efldar.

10.Hugað verði sérstaklega að möguleikum Íslands á sviði vatns- og drykkjarvöruiðnaðar og aðilum sem þar hyggja á að markaðssetja vörur og reyna fyrir sér í útflutningi standi til boða öflugur bakstuðningur í formi ráðgjafar og aðstoðar við markaðssetningu og landkynningu í leiðinni.

11.Með markvissum aðgerðum í efnahagsmálum og með því að innleiða stöðugleika verði hagstætt umhverfi til nýsköpunar og þróunar og til reksturs útflutnings- og samkeppnisgreina almennt tryggt. Stóriðjustopp og efnahagslegur stöðugleiki í kjölfarið eru, ásamt raunhæfu gengi á krónunni og lægri vöxtum, lykilatriði í þessu sambandi.

12.Gerð verði sérstök framkvæmdaáætlun um stuðning við frumkvæði kvenna í atvinnumálum.

Efling byggða landsins

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 23.–25. febrúar 2007, telur að grípa eigi til eftirfarandi aðgerða til efla byggðir landsins:

1.Gert verði stórátak til að bæta fjárhag og aðstöðu sveitarfélaganna til að sinna sínum verkefnum með verulega auknum tekjum og breiðari tekjustofnum. Sveitarfélögin fái a.m.k. 5 milljarða króna í rauntekjuaukningu til að bæta stöðu sína auk fjármuna til að hrinda í framkvæmd umbótaverkefnum á sviði umhverfismála og velferðarmála.

2.Markvissar jöfnunaraðgerðir á aðstöðu og skilyrðum í atvinnulífinu verði liður í nýrri sókn byggðanna. Flutningskostnaður verði jafnaður með endurgreiðslukerfi sem taki bæði til framleiðslustarfsemi og verslunar. Endurskoðum orkuverð þannig að landsmenn allir greiði sanngjarnt verð fyrir orkuna og bætum fjarskipti.

3.Allir þurfa að eiga jöfn tækifæri á að njóta heilbrigðisþjónustu, sækja skóla og hvers kyns almannaþjónustu, óháð búsetu.

4.Bættir möguleikar almennings til menntunar, starfsmenntunar og símenntunar, og bætt aðgengi að framhaldsskóla- og háskólastigi á landsbyggðinni verði sérstakt forgangsverkefni.

5.Gert verði verulegt átak í samgöngumálum, einkum í almennri vegagerð sem ríkisstjórnin hefur vanrækt. Lokið verði við hringveginn innan fjögurra ára, einbreiðar brýr heyri sögunni til á sama tíma og þá verði þeir landshlutar orðnir tengdir við vegakerfið með nútímavegum sem enn eru útundan, einkum Vestfirðir og Norðausturland. Loks verði gert verulegt átak í að byggja upp tengivegi og ferðamannavegi.

6.Breiðbandsvæðingu landsins verði lokið á næstu þremur árum þannig að jafn aðgangur allra landsmanna án tillits til búsetu sé tryggður með sömu gæðum og sama verði.

7.Leitum hagkvæmra leiða til að koma aftur á stransiglingum og létta þungaflutningum af vegum.

8.Aukið fé verði sett í almennt atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni með eflingu atvinnuþróunarfélaga og fjármagni í staðbundna nýsköpunarsjóði.

9.Hlutdeild landsbyggðarinnar í nýjum störfum í þjónustu og á vegum hins opinbera verði tryggð með lögum.

10.Þjónustukvaðir sem taki til landsins alls verði lagðar á einkarekin þjónustufyrirtæki með markaðsráðandi eða einokunaraðstöðu.

Stórsókn í ferðaþjónustu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur til að hafin verði stórsókn til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu í landinu. Í þeirri vinnu verði lögð höfuðáhersla á að styðja frumkvæði heimamanna á hverjum stað ásamt því að efla og treysta grunnstoðir ferðaþjónustunnar.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hraðast hér á landi undanfarin ár og skilað þjóðarbúinu gríðarlegum efnahagslegum ávinningi. Ferðaþjónustan skapar fjölbreytt störf um land allt og að sama skapi hefur hún í för með sér fjölbreyttari og arðbærari þjónustu og aukna afþreyingarmöguleika fyrir heimamenn. Félagsleg áhrif ferðaþjónustu eru lítt könnuð og miklu skiptir að efla rannsóknir í þessari atvinnugrein. Þó má ætla að þau geti verið veruleg og í flestum tilfellum jákvæð ef horft er til hinna dreifðu byggða.

Miklu skiptir að efla nýsköpun og þróun í ferðaþjónustu. Leggja þarf áherslu á fjölbreytta vaxtarsprota ferðaþjónustunnar og má þar nefna nýja möguleika í náttúruskoðun, heilsutengda ferðaþjónustu og menningartengda ferðaþjónustu. Þá eru miklir möguleikar á að efla vetrarferðamennsku hér á landi og treysta samspil náttúruskoðunar, menningarferða og borgarlífs.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tryggja ferðaþjónustunni sambærilega stöðu í lögum og stjórnskipun og öðrum atvinnugreinum og lítur á hana sem vænlegan kost í framtíðar atvinnuuppbyggingu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search