PO
EN

Hálfur milljarður til orkuskipta: stærsta úthlutun sögunnar til orkuskipta

Deildu 

Dregið úr losun um 5.500 tonn af CO2 og olíunotkun minnkuð um 2 milljónir lítra á ári

470 milljónum króna hefur verið úthlutað úr Orkusjóði til yfir 100 fjölbreyttra verkefna í orkuskiptum, og er það stærsta úthlutun sögunnar úr sjóðnum.

Vegna mikils fjölda styrkhæfra umsókna ákváðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra orkumála, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra umhverfis- og auðlindamála, að hækka áður auglýsta upphæð þessarar úthlutunar um 150 m.kr., úr 320 í 470. Þetta gerir kleift að styrkja tvö stór verkefni á sviði þungaflutninga í samræmi við tillögu starfshóps fimm ráðuneyta sem starfaði í umboði ráðherranna.

Nýjar áherslur birtast nú í úthlutun sjóðsins í samræmi við gildandi aðgerðaáætlanir um orkuskipti og loftslagsmál. Er nú einkum horft til orkuskipta í framleiðslugreinum, eldsneytisframleiðslu, þungaflutningum og vinnuvélum. Auk þess eru veittir styrkir til uppbyggingar hleðslustöðva fyrir rafbíla við gististaði og fjölsótta ferðamannastaði, líkt og undanfarin ár.

Áætlað er að orkuskiptaverkefnin – að frátöldum hleðslustöðvum – dragi úr þörf á notkun olíu um 2,1 milljón lítra árlega og með því er dregið úr losun á koltvísýringi um 5.500 tonn á ári. Samkvæmt varlega áætluðu mati þá fela þessi verkefni í sér að þjóðarbúið spari liðlega 100 m.kr. af gjaldeyri á ári, vegna minni eldsneytiskaupa.

„Með þessari úthlutun er tekið tímamótaskref í orkuskiptum, bæði hvað varðar fjárhæð styrkja og tegund verkefna. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá okkur taka markviss skref í að ryðja burt jarðefnaeldsneyti á fleiri sviðum en hingað til, enda er markmið okkar að verða óháð jarðefnaeldsneyti,“ segir Þórdís Kolbrún.

Samgöngur eru uppspretta stærsta hluta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands og styrkir úr Orkusjóði leika stórt hlutverk í því“ segir Guðmundur Ingi. „Það er sérstaklega ánægjulegt að geta styrkt verkefni á sviði þungaflutninga, en þar hefur þróunin verið hægari en í orkuskiptum fólksbíla og við verðum að herða róðurinn á því sviði. Styrkir til framleiðslugreina þýða umtalsverðan samdrátt sem annars hefði ekki orðið og það er mjög mikilvægt að geta tekið á því ð draga úr þeirri losun..

Tveir hæstu styrkirnir, að fjárhæð 52 m.kr. hvor, eru annars vegar til innviða fyrir rafknúna flutningabíla á Norðurleið (N1) og hins vegar til orkuskipta í þungaflutningum frá Vestfjörðum ( RST Net).

Af öðrum hærri styrkjum má nefna:

  • 32,5 m.kr. til Malbikstöðvarinnar: „Metankerfi Malbikstöðvarinnar á Esjumelum“
  • 19,5 m.kr. til Síldarvinnslunnar: „Landtenging uppsjávarskipa“
  • 19,5 m.kr. til Gunnars Páls Stefánssonar: „Sandþurrkun í steinullarframl. með rafmagni í stað olíu“
  • 18,4 m.kr. til Sæplast Iceland: „Breyta orkugjafa á framleiðsluvél úr dísel í rafmagn“
  • 18,0 m.kr. til Neyðarlínunnar: „Ammóníak sem eldsneyti“
  • 17,3 m.kr. til Elkem Ísland: „Rafmagnshitari fyrir eldfasta steypu“
  • 15,0 m.kr. til Laxar fiskeldis: „Rafvæðing fóðurpramma við sunnanverðan Reyðarfjörð“
  • 15 m.kr. til Íslensks textíliðnaðar: „Orkuskipti í þurrkunarferli ullarþvottastöðvar á Blönduósi“
  • 13,7 m.kr. til Lýsis: „Orkuskipti í lifrarbræðslu“
  •  
Tegund verkefna:Hlutfall affjölda verkefnaHlutfall af fjárhæð styrkja
Framleiðslugreinar, matvælaiðnaðurog sjávarútvegur21%49%
Þungaflutningar7%23%
Vinnuvélar24%17%
Hleðslustöðvar við gististaði ogfjölsótta ferðamannastaði43%14%
Líf- eða rafeldsneytisframleiðsla5%2%

Þrátt fyrir aukin framlög náðist ekki að styrkja mörg hæf verkefni í þessari lotu. Ber þar sérstaklega að nefna verkefni tengd rafeldsneytisframleiðslu. Nú er unnið að gerð Vegvísis um rafeldsneyti og vetni og verður í framhaldinu skoðað með hvaða hætti verði hægt að styðja betur við verkefni á því sviði hér á landi.

Yfirlit yfir verkefnin má finna hér.

Efnisorð

ATVINNUVEGIRAUÐLINDIRLOFTSLAGSMÁLNÁTTÚRUVERNDNÝSKÖPUNORKAORKUSJÓÐURUMHVERFI OG NÁTTÚRUVERNDVÍSINDI NÝSKÖPUN OG RANNSÓKNIR

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search