PO
EN

Almannavarnir einu sinni enn

Deildu 

Ég ræddi nokkrum sinnum um náttúruvá á Alþingi, líka í undirbúnum fyrirspurnum. Hef talað um nýjan og öflugan Hamfarasjóð og efldar flóðavarnir, vöktun eldgosa o.fl. Flutt sérstaka tillögu að þingsályktun að frumkvæði Umhverfis- og samgöngunefndar (í heild) um vandaða endurskoðun á tilhögun flestra þátta í rannsóknum og forvörnum vegna náttúruvár. Hún var samþykkt og nefnd er að störfum. Náttúruvá hefur aukist og mun aukast á næstunni. Af nógu er að taka undanfarin fáein ár. Fimm til sex megineldstöðvar sýna merki um óróleika og jafnvel kvikusöfnun. Eldgos er uppi á Reykjanesskaga af óvissri lengd. Hætta er á að  ofanflóðum fjölgi með breyttri úrkomu og hlýindum. Ágangur jökulvatna eykst af sömu orsökum og sjávarborð hækkar hraðar en áður.

Eins og allir vita starfar almannavarnadeild undir embætti ríkislögreglustjóra. Spurning er um hvort umsvif allra hlutaðeigandi og undirbúningur að viðbrögðum við alvarlegum atburðum séu eins og vera ber. Ég vil hvetja til þess að lokið verði sem fyrst við að meta stöðuna í heild, allt verklag og skipulag skoðað og yfirfarið, fjármagn til vöktunar verði endurskoðað, að viðbragðsáætlunum og brottflutningsáætlunum sé lokið og þær æfðar og þeir sjóðir sem eiga að vera til taks verði efldir og sameinaðir. Styrkja ber sérþekkingu og mannafla almannavarnadeildarinnar og kanna þarf, sem er einna mikilvægasti liðurinn, hvort færa skuli almannavarnadeildina undir forsætisráðuneytið og þar með efla alla samhæfingu í þeim geira. Einnig þarf að fjölga í því sem kalla mætti launaðan miðkjarna björgunarsveitanna. Það bíða okkar mörg verkefni sem þarf að taka til endurmats og inna af hendi. Reynslan sýnir að best eru ráðin sem í tíma eru tekin. Í þeim efnum er tíminn nefnilega alls enginn sérstakur vinur okkar.

Ari Trausti Guðmundsson, jarðvísindamaður og þingmaður VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search