PO
EN

Fjárfesting í rannsóknum er fjárfesting í framtíðinni

Deildu 

Vísindarannsóknir hafa það meginmarkmið að afla nýrrar þekkingar og eru mikilvæg undirstaða framþróunar. Þær eru hluti af menntun vísindamanna, skapa ný verkfæri og aðferðir til þekkingaröflunar, hagnýtingar og nýsköpunar fyrir atvinnulíf og getu samfélagsins til að leysa margvíslegar áskoranir og geta haft mikil jákvæð áhrif á efnahag.

Fjármögnun rannsókna á Íslandi

Rannsóknir á Íslandi hafa verið vanfjármagnaðar í áratugi, og ekki nægur stuðningur við reynslumikið vísindafólks, ungt fólk í doktorsnámi og þau sem koma heim eftir nám og þjálfun erlendis og vilja taka þátt í eflingu vísindastarfs hér heima. 

Í nýlegri skýrslu Vísindafélags Íslands, ReykjavíkurAkademíunnar og félags doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands um grunnrannsóknir á Íslandi segir „Síðastliðið ár hafa vonir vaknað um að þetta gæti færst til betri vegar, til dæmis vegna aukinna framlaga til rannsókna og þróunar á grundvelli nýsköpunarstefnu stjórnvalda en þó vantar sterkari skuldbindingu af hendi stjórnvalda svo grunnrannsóknir megi eflastMikilvægt er að þessu sé fylgt eftir á næstu árum þannig að grunnrannsóknir á Íslandi hljóti nauðsynlegan stuðning.“AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-g1/banner123157.htmlMarkmið Vísinda- og tækniráðs er að heildarfjármögnun rannsókna og þróunar verði 3% af vergri landsframleiðslu, eins aðildarlönd Evrópusambandsins stefna að. Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu var 2,1% af vergri landsframleiðslu varið í rannsóknir og þróun 2018, þar af 0,45% til grunnrannsókna.  Fjárfesting í rannsóknum og þróun var 2,35% af vergri landsframleiðslu 2019 og hefur aldrei verið hærri.  Umsóknum í Rannsóknasjóð sem fengu styrki fækkaði árlega frá 2015 til 2019 en fjölgaði aftur verulega 2020 og 2021. Þrátt fyrir auknar fjárveitingar til sjóðsins, m.a. með aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs COVID-19, var aðeins um helmingur þeirra umsókna í Rannsóknasjóð sem fengu hæstu einkunn sem hlaut styrki árið 2020. Þótt fjármagn til Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Innviðasjóðs hafi aukist verulega á kjörtímabilinu, þarf meira til.

Samkeppnissjóðir reknir af sjálfseignarstofnunum gegna víða mikilvægu hlutverki í  fjármögnun rannsókna, s.s. Wallenberg stofnunin í Svíþjóð, Novo Nordisk og Carlsberg-sjóðurinn í Danmörku og Wellcome Trust í Bretlandi. Slíkir rannsóknasjóðir eru fáir og smáir hérlendis og þyrfti að liðka fyrir stofnun slíkra sjóða með skattaafslætti til þeirra sem leggja fé til rannsókna.

Vísinda- og tækniráð undir forystu Katrínar Jakobsdóttur hefur aukið fjárfestingar í vísindum og nýsköpun 

Í nýsköpunarstefnu stjórnvalda frá 2019 og stefnu ríkisstjórnarinnar í Vísindum og tækni 2020-2022 var boðuð aukning á fjármögnun rannsókna og þróunar. Vísinda- og tækniráð hefur aukið verulega fjármagn til grunnrannsókna, tækniþróunar, uppbyggingar rannsóknainnviða og nýsköpunar á kjörtímabilinu:

  • Framlög á fjárlögum til nýsköpunar og rannsókna jukust um 130% á kjörtímabilinu, úr 12 milljörðum króna 2017 í 28 milljarða kr. 2021.
  • Með stefnumörkun og áherslum Vísinda- og tækniráðs voru samkeppnissjóðir í rannsóknum, nýsköpun og þróun efldir; Rannsóknasjóður, Innviðasjóður og Tækniþróunarsjóður. 
  • Þrjár markáætlanir rannsókna á sviði samfélagslegra áskorana voru styrktar með a.m.k. 300 m.kr. á ári í þrjú ár; umhverfi, lífríki og loftslag, heilsa og velferð, líf og störf í heimi breytinga.
  • Sérstakur matvælasjóður var stofnaður til að styðja við nýsköpun og þróun í matvælaiðnaði, með 637 m.kr. framlagi  2021.
  • Endurgreiðslur á rannsóknar og þróunarkostnaði jukust um 3,7 milljarða kr. milli áranna 2020 og 2021.
  • Hvatasjóðurinn Kría var stofnaður til að tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar, með 1,35 milljarða kr. framlagi 2021. 
  • Rannsóknarinnviðir hafa verið efldir með vegvísi að rannsóknainnviðum, innleiðingu upplýsingakerfa og opnum aðgangi að rannsóknarniðurstöðum og rannsóknargögnum.

Fjármögnun háskóla

Háskólanám er grundvöllur vísindamenntunar og þjálfunar. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur aukið fjárframlög til háskólastigsins verulega á kjörtímabilinu:

  • Framlög á fjárlögum til háskólastigsins jukust úr 32,4 milljörðum kr. 2017 í 42,5 milljarða kr. 2021 (um 31%).
  • Framlag til háskóla og Nýsköpunarsjóðs námsmanna var aukið til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins, og gefa ungu fólki tækifæri til að auka þekkingu og hæfni á vinnumarkaði.

Háskólaráð Háskóla Íslands lýsti því yfir í febrúar 2020 að fjármögnun á hvern nemanda skólans hefði náð meðaltal OECD landa, og lagði áherslu á mikilvægi áframhaldandi aukinnar fjármögnunar skólans til að ná sambærilegri fjármögnun við aðra háskóla á Norðurlöndum.

Fjármögnun rannsókna á Íslandi með styrkjum úr erlendum samkeppnissjóðum

Íslenskir vísindamenn hafa náð miklum árangri í sókn í erlenda samkeppnissjóði eins og samstarfsáætlun Evrópusambandsins Horizon 2020. Fjárfesting ESB í verkefnum styrktum af Horizon 2020 sem íslenskir aðilar hafa tekið þátt í nemur um 1,1 milljarði evra, þar af námu beinir styrkir til íslenskra styrkþega 130 milljónum evra. Um 20% umsókna (289 af 1397) með íslenskri þátttöku voru styrktar af Horizon 2020, sem er 4-5% hærra árangurshlutfall en hjá öðrum Norðurlandaþjóðum og meðalárangri Evrópulanda. Nokkrir íslenskir vísindamenn hafa fengið mjög stóra rannsóknastyrki frá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna (National Institute of Health, NIH), Vísindastofnun Bandaríkjanna (National Science Foundation, NSF) og ýmsum erlendum styrktarsjóðum og stofnunum. Þá hafa hafa íslenskir vísindamenn verið virkir í norrænu rannsóknasamstarfi styrktu af NordForsk.

Þessi sóknarárangur hefur skilað mikilvægum tækifærum fyrir vísindamenn og nemendur, miklum fjárhagslegum ávinningi, þekkingu og nýsköpun. 

Stefna Vinstri grænna í rannsóknum og nýsköpun er metnaðarfull og raunhæf:

  • Áfram verði aukin framlög til Rannsókna-, Tækniþróunar- og Innviðasjóðs og  Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Framlög til nýsköpunar nái a.m.k. 3% af vergri landsframleiðslu árlega, sem er það markmið sem ESB löndin hafa sett sér.
  • Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði stórefld með tvöföldun framlaga á næsta kjörtímabili. Markáætlun verði markvisst beitt til að styðja við rannsóknir á grænum lausnum og öðrum stórum samfélagslegum áskorunum. 
  • Nýsköpunarstefna og stuðningskerfi stjórnvalda taki mið af og styðji við loftslagsmarkmið Íslands.
  • Almannaþjónusta geti verið í sífelldri endurnýjun og svigrúm veitt til nýsköpunar innan hennar. Sérstök áhersla verði á að styðja við nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og velferðarþjónustu á næstu árum.
  • Hvötum verði beitt til nýsköpunar og grænna umbreytinga þvert á atvinnugreinar.
  • Mótuð verði gervigreindarstefna fyrir Ísland í samráði við almenning og lögð áhersla á að samfélagið stjórni tækninni en ekki öfugt.
  • Nýsköpunarhugsun verði ræktuð á öllum skólastigum. Öflugt menntakerfi er forsenda nýsköpunar og fjármögnun þess þarf alltaf að tryggja. 

Mikilvægt er að næsta ríkisstjórn haldi áfram að auka fjárfestingar í vísindarannsóknum og nýsköpun, til þekkingaröflunar og hagnýtingar fyrir atvinnulíf og getu til að leysa mikilvægar samfélagslegar áskoranir.

Mynd 1.

Ingileif Jónsdóttir er prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hún er í 19. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík suður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search