VG hefur snúið við blaðinu í loftslagsmálum
Á þessu kjörtímabili höfum við aukið bein framlög til loftslagsmála um meira en 700%. Við höfum ráðist í fjölda aðgerða á grunni fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunarinnar í loftslagsmálum, tvöfaldað umfang landgræðslu og skógræktar og tífaldað endurheimt votlendis. Við höfum klárað fyrstu stefnu Íslands um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum, lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 og sett fram ný og efld landsmarkmið um samdrátt í losun. Við höfum stóreflt rannsóknir, vöktun, nýsköpun og stjórnsýslu loftslagsmála, komið á fót loftslagsráði og loftslagssjóði og stutt mynduglega við orkuskipti í samgöngum. Við erum þegar farin að sjá samdrátt í losun. Kórónuveiran hafði veruleg áhrif á síðasta ári en samdrátturinn var samt hafinn áður en faraldurinn hófst.
VG boðar meiri metnað og frekari aðgerðir
Það eru risavaxin verkefni fram undan í loftslagsmálum sem teygja anga sína inn í allt samfélagið. Við Vinstri-græn viljum áfram takast á við þau af festu. Við viljum að Ísland setji sér sjálfstætt markmið um 60% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030 og að landið verði orðið óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi árið 2045. Við viljum banna olíuleit og olíuvinnslu við Ísland, efla almenningssamgöngur og hjólreiðar og tryggja orkuskipti án þess að gefa afslátt af náttúruvernd – og það er vel hægt! Við viljum halda áfram að efla endurheimt votlendis, auka landgræðslu og skógrækt í sátt við náttúruna og tryggja sjálfbæra nýtingu lands. Við í VG sjáum tækifærin sem felast í breyttum heimi með minni losun, sterku hringrásarhagkerfi, grænum störfum og loftslagsvænni nýsköpun. Við sjáum tækifærin í svokölluðu lágkolefnishagkerfi.
Næstu ár skipta sköpum
Það þarf úthald og vilja til þess að ná árangri, því það tekur tíma að innleiða aðgerðir sem draga munu stórkostlega úr losun hjá heilu samfélagi. Slíkt gerist ekki yfir nóttu. Eftir nokkurra ára pólitískan doða í þessum málaflokki lögðu Vinstri græn nauðsynlegan grunn að framförum í loftslagsmálum á kjörtímabilinu. Við erum farin að sjá árangur í loftslagsmálum og Vinstri-græn bjóða fram krafta sína til að halda áfram, taka stærri skref og hlaupa hraðar til að ná tökum á loftslagsvánni.
Það skiptir máli hver stjórnar, sérstaklega í loftslagsmálum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er umhverfis- og auðlindaráðherra og oddviti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Suðvesturkjördæmi.