- Eftir Katrínu Jakobsdóttur: „Við Vinstri-græn leggjum á það áherslu að atvinnuuppbyggingin framundan verði fjölbreytt og stjórnvöld styðji með markvissum hætti við aukna verðmætasköpun með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar.“atrín Jakobsdóttir
Kosningarnar snúast um framtíðina. Við stöndum á tímamótum eftir langa glímu við heimsfaraldur kórónuveiru, glímu þar sem náðst hefur markverður árangur með skynsamlegum sóttvarnaráðstöfunum á grundvelli bestu fáanlegra gagna og vísinda. Efnahagslegar og félagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að takast á við afleiðingar faraldursins hafa skilað árangri og íslenskt samfélag er núna að spyrna við af krafti eftir þetta þunga högg.
Það skiptir máli hvaða framtíðarsýn verður ofan á hjá fólkinu í landinu í þessum kosningum – ekki síst vegna þess að við erum stödd á tímamótum. Verður staðinn vörður um almannaþjónustuna þrátt fyrir þrönga stöðu ríkissjóðs? Verður atvinnuuppbyggingin græn, fjölbreytt og byggð á þekkingu? Verður tryggt að uppbygging samfélagsins stuðli að árangri í loftslagsmálum? Og verður velsæld og afkoma fólksins í landinu forgangsmál að kosningum loknum?
Fjölbreytt og græn atvinna
Við Vinstri-græn leggjum á það áherslu að atvinnuuppbyggingin fram undan verði fjölbreytt og stjórnvöld styðji með markvissum hætti við aukna verðmætasköpun með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar. Við höfum góða sögu að segja af kjörtímabilinu sem nú er að lokum komið og sjáum árangurinn, meðal annars í auknum útflutningi á hugviti og auknum áhuga á fjárfestingum í þessum geira. Við eigum að halda áfram á sömu braut – tryggja góða fjármögnun háskólanna sem eru mikilvægustu aflstöðvar þekkingargeirans og sama má segja um framhaldsskólana. Rekstur háskóla og framhaldsskóla hefur verið styrktur á kjörtímabilinu svo að eftir er tekið.
Við eigum að tryggja áframhaldandi styrkingu Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Matvælasjóðs, gera fjölgun listamannalauna varanlega og efla faglega listgreinasjóði. Við eigum að viðhalda endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar og tryggja það að sá góði árangur sem hefur náðst verði enn betri á komandi árum.
Tökum forystu í loftslagsmálum
Við Vinstri-græn vitum að næsta kjörtímabil mun skipta sköpum í baráttunni við loftslagsvána. Fyrsta fjármagnaða aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum fór af stað á kjörtímabilinu en eftir þá góðu byrjun þarf enn að gefa í. Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir okkur með skýrum hætti að við þurfum að hreyfa okkur hraðar í aðgerðum okkar. Við eigum að setja okkur sjálfstætt markmið um 60% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Til þess að ná því þarf að hraða orkuskiptum í öllum geirum og innleiða rétta hvata í efnahagskerfið þannig að atvinnulífið taki fullan þátt í þessu mikilvæga verkefni fyrir okkur öll. Við vitum líka að Ísland hefur tækifæri til að taka forystu í þessum málum með róttækum og raunhæfum aðgerðum – og þar skiptir máli að nýta þá þekkingu og hugvit sem við eigum, til dæmis á sviði landgræðslu og skógræktar, og nýrrar tækni eins og niðurdælingar kolefnis sem getur markað tímamót í loftslagsbaráttunni á heimsvísu.
Bætum lífskjörin
Við Vinstri-græn leggjum skýra áherslu á að félagsleg sjónarmið þurfa alltaf að vera leiðarljós okkar við uppbyggingu. Við vitum að velsæld almennings er lykilatriði fyrir almenna velsæld og samfélög þar sem jöfnuður er mikill eru líka þau samfélög sem vegnar best efnahagslega. Við viljum ekki samfélag þar sem örfáir sitja á öllum auði á kostnað fjöldans. Þess vegna innleiddum við þrepaskipt tekjuskattskerfi fyrir einstaklinga sem eykur jöfnuð og þess vegna viljum við þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt. Við vitum að ríkið hefur hlutverki að gegna á húsnæðismarkaði og öflugt félagslegt húsnæðiskerfi eykur líka stöðugleika á hinum almenna fasteignamarkaði. Þess vegna á ríkið að styðja áfram við almenna íbúðakerfið og hlutdeildarlán og tryggja þannig að þau sem eru verr sett hafi tryggt þak yfir höfuðið. Við vitum að það þarf að hækka grunnframfærslu almannatrygginga með sérstakri áherslu á þá tekjulægstu í þeim hópi. Og aukinn stuðningur við barnafjölskyldur með öflugra barnabótakerfi skilar sér í aukinni velsæld fjölskyldna í landinu.
Eflum almannaþjónustu
Við Vinstri-græn erum sá stjórnmálaflokkur sem mun verja þann árangur sem hefur náðst í uppbyggingu almannaþjónustunnar og byggja hana áfram og enn frekar upp. Rekstur heilbrigðiskerfisins hefur verið styrktur verulega á kjörtímabilinu, dregið úr kostnaði sjúklinga, samningar náðust um styttri vinnutíma vaktavinnufólks sem er ekki síst mikilvægt mál fyrir stórar kvennastéttir innan heilbrigðiskerfisins og lagt af stað í löngu tímabærar framkvæmdir. Þessum árangri má ekki fórna heldur þarf að viðurkenna að öflug almannaþjónusta eykur velsæld allra og tryggir jöfnuð í samfélaginu. Við Vinstri-græn boðum ekki aukna áherslu á einkarekstur ólíkt flestum öðrum flokkum sem skera sig þannig frá yfirgnæfandi meirihluta landsmanna sem vill einmitt öflugt opinbert heilbrigðiskerfi.
Útrýmum kynbundnu ofbeldi
Jafnrétti kynjanna er ein vísasta leiðin til að ná aukinni velsæld og jöfnuði. Mikilvæg framfaraspor voru stigin á kjörtímabilinu þegar fæðingarorlof var lengt í heilt ár með jafnri skiptingu á foreldra og sex framseljanlegum vikum. Það er líka ánægjulegt að sjá að samkvæmt nýrri launarannsókn Hagstofunnar hefur dregið úr launamun kynjanna á kjörtímabilinu. Mest hefur dregið úr honum hjá ríkinu og enn er launamunurinn minnstur hjá sveitarfélögunum. Næstu verkefni snúa að hinum kynskipta vinnumarkaði. Þar þarf að leggjast í að meta virði ólíkra starfa eftir því hvort karlar eða konur eru í meirihluta. Og stíga þarf næstu skref í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi – sem er í senn orsök og afleiðing misréttis í samfélaginu.
Framtíðin er í okkar höndum
Við Vinstri-græn lítum svo á að hlutverk stjórnmálanna sé að tryggja velsæld og lífsgæði allra. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við tökum réttar ákvarðanir á næsta kjörtímabili, ákvarðanir sem tryggja jöfnuð og jöfn tækifæri allra. Við eigum að halda áfram að bæta lífskjör á Íslandi með sjálfbærni að leiðarljósi og setja okkur metnaðarfull markmið og ráðast í róttækar og raunhæfar aðgerðir gegn loftslagsvánni. Stíga þarf stór skref í að auka verðmætasköpun í öllum greinum með aukinni áherslu á þekkingargeirann og skapandi greinar. Við vitum að með Vinstri-græn í forystu verður velsæld og afkoma almennings í forgangi.
X-V 25. september
Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og skipar 1. sæti á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi norður.