Reynsla og þekking á málefnum Norðvesturkjördæmis skiptir miklu máli þegar velja skal á milli margra ágætra einstaklinga til Alþingis. Ég hef setið á Alþingi í 12 ár og lagt mig fram við það að vinna að bættum búsetuskilyrðum um land allt og að hagsmunum þeirra sem minna mega sín. Ég sit nú í baráttusæti og treysti því að kjósendur treysti mér áfram til góðra verka.
Ég hef unnið af heiðarleika og ábyrgð í mínum störfum og notið trausts til að sinna erfiðum verkefnum og verið formaður atvinnuveganefndar síðastliðin fjögur ár þar sem okkur hefur tekist að vinna saman þvert á flokka að mörgum góðum framfaramálum eins og gjörbyltingu á strandveiðikerfinu sem mikil ánægja hefur ríkt með og mun ég leggja áherslu á að tryggja þær enn frekar og efla fjölbreytta atvinnusköpun og nýsköpun um land allt og störf án staðsetningar.
Það er mikill hugur í fólki vítt og breytt um kjördæmið og ungt fólk er að koma með sína þekkingu, kraft og hugvit og efla samfélögin. Við höfum verið að efla innviði á þessu kjörtímabili í samgöngum, heilbrigðismálum, menntun, flutningskerfi raforku og háhraðatengingum. Á þessari braut eigum við að halda áfram af fullum krafti og vinna með heimamönnum að góðum búsetuskilyrðum því tækifærin eru óteljandi úti um landsbyggðirnar ef rétt er á málum haldið.
Höldum ótrauð áfram
Við eigum að jafna orkuverð til fulls og tryggja afhendingaröryggi rafmagns með öllum ráðum. Það eru tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði sjávarútvegi og skapandi greinum og þar mun ég leggja mikla áherslu á að stjórnvöld styðji áfram við að fullum krafti.
Við lengdum fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tólf og ætlum að klára að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og skapa fjölskylduvænt samfélag. Við viljum tryggja fullt jafnrétti til náms og efla verknám og háskólastarf og rannsóknarsetur á landsbyggðunum.
Það á enginn að búa við örbirgð og það þarf strax að mæta þeim hópi aldraðra og öryrkja sem hafa ekki trygga framfærslu með raunhæfri framfærslutryggingu. Við höfum lækkað heilbrigðiskostnað, skatta á lágtekjufólk og aukið framboð á ódýru húsnæði en við þurfum að gera enn betur.
Vinstri græn eru flokkur sem er óhræddur við að taka að sér erfið úrlausnarefni eins og síðasta kjörtímabil ber með sér og að vinna með öðrum flokkum af heiðarleika og réttsýni að framfaramálum fyrir land og þjóð. Við viljum koma fram við náttúruna af virðingu og tryggja velsæld og jöfnuð með réttlátri efnahagsstefnu.
Ég treysti á ykkur kjósendur góðir að veita mér áframhaldandi umboð til þingsetu og til góðra verka. Ég mun ekki bregðast trausti ykkar. Þitt atkvæði er mikilvægt og getur ráðið úrslitum.
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður NV kjördæmis.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, skipar baráttusæti VG .