Search
Close this search box.

Að geta farið heim …

Deildu 

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar lögðum við Vinstri græn ríka áherslu á stórtækari uppbyggingu í félagslegu húsnæðiskerfi samhliða uppbyggingu hins almenna og óhagnaðardrifna húsnæðismarkaðar. Það varð til þess að við gerð núverandi meirihlutasáttmála ákváðum við að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 500 á kjörtímabilinu.

Til samanburðar er talið að árleg fjölgun íbúða í Reykjavík þurfi að vera 1.000 til að anna eftirspurn og fólksfjölgun.Félagslegar leiguíbúðir eru hugsaðar fyrir tekjulága íbúa, fatlaða og heimilislaust fólk með margvíslegar þjónustuþarfir. Sveitarfélögum ber lagaleg skylda til að tryggja félagslegt húsnæðisöryggi.

Í Reykjavík höfum við Félagsbústaði sem sjá um að leigja út húsnæði á viðráðanlegu verði. Þannig eigum við að geta uppfyllt grunnskyldu hvers samfélags: að fólk eigi öruggt heimili og sér í lagi þau sem hafa hingað til haft fá eða engin tækifæri til þess að eignast heimili á annars rándýrum og oft óstöðugum markaði.

Reglulega skapast mikil umræða um húsnæðismarkaðinn. Oftar en ekki er Reykjavík í brennidepli enda búa hér flestir landsmenn. Í þeirri umræðu fáum við oft að heyra rangfærslur um að Reykjavík sé eftirbátur annarra sveitarfélaga, að hér ríki neyðarástand og að stefna borgaryfirvalda hafi orðið til þess að sprengja upp húsnæðisverð og hægja á uppbyggingu.

Slíkar fullyrðingar eru rangar og oft settar fram í annarlegum flokkspólitískum tilgangi. Fyrir utan þá staðreynd að aldrei hafa verið byggðar jafn margar íbúðir í Reykjavík undanfarin ár og að aldrei hafa verið skipulagðar jafn margar íbúðir til næstu tíu ára, stendur Reykjavík sig best sveitarfélaga í uppbyggingu félagslegs leigumarkaðar.

Stigvaxandi fjölgun félagslegra íbúða í öllum hverfum ætti einnig að vera eitt af forgangsverkefnum annarra sveitarfélaga.Að skapa sanngjarnan, fjölbreyttan og aðgengilegan húsnæðismarkað og fjölga íbúðum fyrir tekjulágt og heimilislaust fólk á ekki að vera einvörðungu á ábyrgð Reykjavíkur.

Þótt borgin geri vel og gott betur hlýtur það að vera samvinnuverkefni okkar allra að fólk eigi athvarf og geti farið heim – þegar því sýnist.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG í Reykjavík

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search