PO
EN

Besta leiðin

Deildu 

Það er bara geggjað að vera í strætó. Maður fær ógeðslega mikinn tíma og svo er frítt wi-fi. Bara alger læfseifer,“ sagði 11 ára dóttir mín þegar við vorum að ræða fyrirkomulagið á gítartímanum hennar. Hún hefur lært á gítar í tvö ár og í fyrstu skutlaði pabbi hennar henni með tilheyrandi vinnuraski og umhverfisálagi. Frá því í janúar hafa börn 11 ára og yngri fengið frítt í Strætó. Síðan þá hefur hún sjálf séð um að koma sér í og úr gítartímum.

Dóttir mín hefur ekki látið staðar numið við gítartímana heldur fer hún miklu víðar, stundum ein en oftar í félagsskap vina sinna, til að sinna sínum ýmsu hugðarefnum. Nútímakrakkar eru þaulvanir farsímum og eiga auðvelt með að skipuleggja ferðir sínar og komast þangað sem þau vilja. Hún og aðrir krakkar í kringum hana upplifa því frelsið sem fylgir því að komast ferða sinna sjálf með almenningssamgöngum sem gerir þau vonandi að framtíðarnotendum.

Smávægilegar breytingar á þjónustu eða verkefnum geta orðið til stórra breytinga á umhverfi okkar og hegðun. Ákvörðun Strætó um að niðurgreiða ferðir 11 ára og yngri hefur fjölgað notendum í þeim hópi. Það er mín skoðun að við eigum að niðurgreiða almenningssamgöngur og aðra vistvæna ferðamáta og halda gjaldtöku í lágmarki, ekki síst fyrir þau sem nýta sér þær að staðaldri.

Við þurfum að vinda ofan af áratugalangri áherslu á einkabílinn sem okkar helsta samgöngumáta. Hingað til hefur niðurgreiðsla á öllu sem að honum snýr numið milljörðum króna í formi ókeypis bílastæða, mislægra gatnamóta, vegaframkvæmda og annarrar þjónustu. Ofan á allan þann kostnað úr almannasjóðum bætist svo annar kostnaður sem bíleigendur greiða úr eigin vasa.

Það er pólitísk ákvörðun að niðurgreiða samgöngur og morgunljóst að sú niðurgreiðsla á að beinast að almenningssamgöngum, innviðum göngu- og hjólastíga og fjölbreyttari ferðamátum. Sú fjárfesting skilar sér margfalt til umhverfisins og ánægðari íbúa „sem elska að vera í strætó þegar byrjar að dimma“, eins og hún dóttir mín.

Líf Magneudóttir er borgarfulltrúi VG í Reykjavík

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search