PO
EN

Stefnuræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á 152. löggjafarþingi

Deildu 

Kæru landsmenn.

Ný og endurnýjuð ríkisstjórn hefur nú tekið við völdum, ríkisstjórn þriggja stærstu flokkana á Alþingi. Verkefni nýs kjörtímabils eru sum stór, önnur smærri og mörg þeirra eru ófyrirséð. Ríkisstjórnin mun ganga til verka sinna full bjartsýni og ég hlakka til að eiga gott samstarf við þingmenn alla, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu.

Þessi ríkisstjórn er mynduð á breiðum grunni eins og ráða má af málefnasamningi hennar og því hversu ólíkir um margt þeir flokkar eru sem að skipan hennar standa. Vissulega kann einhverjum að þykja það veikleiki að flokkarnir séu ólíkir og væntanlega má færa fram einhver slík rök. En ég er sannfærð um að þegar horft er til þeirra verkefna sem bíða okkar, að þá sé breidd þessarar ríkisstjórnar kostur og geti jafnvel ráðið úrslitum þegar kemur að því að skapa samhljóm með þjóðinni þegar leysa þarf úr stórum og erfiðum verkefnum.

Virðulegi forseti.

Nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarflokkanna snýst um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar, efnahagslegar- og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða.

Við búum að því að hafa getað nýtt styrk ríkisfjármálanna til að styðja við efnahag og afkomu heimila og fyrirtækja í faraldrinum. Sá stuðningur hefur skilað sér í kröftugri viðspyrnu hagkerfisins. Atvinnuástandið hefur batnað hratt og horfur til framtíðar eru bjartari en áður. Þótt óvissan um framvindu faraldursins sé áfram talsverð höfum við lært æ betur að umgangast þetta ástand, þökk sé samstöðu þjóðarinnar og skilningi á því markmiði stjórnvalda að takmarka skaðann.

Verkefnið nú er að byggja upp hagkerfið og styrk ríkisfjármálanna að nýju með stuðningi við fjölbreyttara og sterkara atvinnulíf, aukinni opinberri fjárfestingu í grænum verkefnum, rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Ríkisstjórnin mun standa vörð um almannaþjónustuna og leggja áherslu á að skattkerfið fjármagni samneysluna, jafni tekjur í samfélaginu og styðji við markmið okkar í loftslagsmálum.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á samráð við aðila vinnumarkaðarins, m.a. á vettvangi þjóðhagsráðs, og mun vinna að því að samspil peningastefnu, ríkisfjármála og ákvarðana á vinnumarkaði stuðli áfram að því að bæta  lífskjör. Við þurfum að vinna saman gegn því að samningar séu iðulega lausir mánuðum saman og ekki sé sest að samningaborðinu fyrr en samningar losna og bæta þannig vinnubrögð á vinnumarkaði.

Á síðustu árum hefur Ísland verið í forystu í alþjóðlegu samstarfi um þróun velsældarmælikvarða sem byggja á því að gefa heildstæðari mynd af hagsæld, lífsgæðum og líðan landsmanna en hefðbundnir efnahagsmælikvarðar ná að gera. Við munum halda áfram að nýta okkur þá leiðsögn sem þessir mælikvarðar veita til að tryggja félagslegan stöðugleika, bæta lífskjör, efla velferðarkerfið, tryggja aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og menntun og húsnæðis- og afkomuöryggi. Allt er þetta  grundvöllur að góðu samfélagi, jöfnuði og velsæld okkar allra.

Húsnæðismál verða samþætt við skipulags- og samgöngumál sem verður sífellt mikilvægara ekki síst í ljósi loftslagsmála. Áfram verður rík áhersla á að treysta húsnæðisöryggi með nægri uppbyggingu og félagslegum aðgerðum fyrir tekjulægri hópa, fatlaða og eldra fólk. Áfram verður unnið af krafti samkvæmt höfuðborgarsáttmálanum sem byggist meðal annars á breyttum ferðavenjum í þágu umhverfis og loftslags.

Lengri lífaldur og fjölgun eldra fólks á næstu áratugum kallar á nýjar leiðir til að tryggja sem best lífsgæði og gera fólki kleift að vera virkt í leik og starfi eftir fremsta megni. Ná þarf betri sátt um lífeyriskerfið og bæta afkomu þeirra sem lakast standa í hópi eldra fólks. Frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara verður tvöfaldað um næstu áramót og ríkisstjórnin mun vinna grænbók um lífeyrismál í samvinnu við hagaðila.

Málefni örorkulífeyrisþega verða tekin til endurskoðunar með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsgetu. Einkum verður horft til þess að bæta afkomu þeirra sem lakast standa og auka möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Ég legg á það þunga áherslu að við náum árangri í að rétta af stöðu örorkulífeyrisþega. Ríkisstjórnin mun jafnframt setja á fót nýja Mannréttindastofnun og lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Mikilvægi öflugrar heilbrigðisþjónustu er okkur ofarlega í huga eftir undanfarin misseri. Marga lærdóma verður hægt að draga af faraldrinum – fagmennska og fumleysi hefur einkennt skipulag bólusetninga hjá heilsugæslu og heilbrigðisstofnunum, upplýsingagjöf landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna hefur tryggt ábyrga umfjöllun. Raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar eru mikilvægt framlag til þekkingar heimsbyggðarinnar á útbreiðslu veirunnar. Ég vil, virðulegi forseti,  nota þetta tækifæri til að ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem hafa staðið í framlínu baráttunnar við veiruna nú í hátt á annað ár.

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hefur verið grundvallaratriði í árangri okkar í heimsfaraldri. Ríkisstjórnin mun áfram leggja áherslu á að draga úr kostnaði sjúklinga og styrkja stöðu og hlutverk Landspítalans. Heilbrigðisstofnanir um landið verða styrktar og geðheilbrigðisþjónusta efld.  Aðbúnaður og réttindi barna verða áfram í fyrirrúmi og ríkisstjórnin einsetur sér að halda áfram að efla barnabótakerfið.

Kæru landsmenn.

Um það verður ekki deilt að loftslagsváin er stærsta áskorun samtímans. Ísland á að vera fremst meðal jafningja í loftslagsmálum, standa fast við skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsamningnum og gott betur en það. Við byggjum aðgerðir okkar og stefnumótun á vísindalegri þekkingu og félagslegu réttlæti þar sem enginn er skilinn eftir.

Allar aðgerðir okkar og áætlanir miða að því marki að Ísland verði lágkolefnishagkerfi sem nái kolefnishlutleysi ekki síðar en árið 2040.  Ný ríkisstjórn hefur tekið þá ákvörðun að setja sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands og skýr, áfangaskipt markmið um samdrátt í losun í einstaka geirum í samstarfi við atvinnulífið og sveitarfélögin. Það á ekki að koma neinum á óvart að þessi ríkisstjórn mun ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands, enda væri slík vinnsla í hrópandi ósamræmi við stefnu okkar sem hvílir á hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum. Þá verður stofnaður þjóðgarður á friðlýstum svæðum og jöklum á hálendinu í samvinnu við heimamenn og lokið verður við þriðja áfanga rammaáætlunar.

Sóknarfæri í hugverkaiðnaði eru óþrjótandi á fjölbreyttum sviðum eins og í heilbrigðis- og lífvísindum, hugbúnaðarþróun, grænni tækni og skapandi greinum. Það sama á við um tækifærin hér á landi í matvælaframleiðslu en hér getum við framleitt heilnæman mat, stutt við loftslagsmarkmið, tryggt fæðuöryggi og betri lýðheilsu allt í senn.

Virðulegi forseti.

Við munum leggja til breytingar á stjórnarráðinu til að takast betur á við þær áskoranir sem við okkur blasa.  Það fyrirkomulag sem við búum við hér á Íslandi er um margt ólíkt kerfinu víða annars staðar á Norðurlöndum þar sem ríkisstjórn hverju sinni skipuleggur ráðuneytin út frá pólitískum áherslum sínum. Mér hefur fundist það kerfi auka hreyfanleika í opinberri stjórnsýslu – umfram það sem verið hefur hér á landi og um margt vera vel til þess fallið að stefnumótun ríkisstjórnar og þings gangi vel fram. Samhliða þingsályktun um þessar breytingar hef ég því hug á að hefja endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands og mun ég leita eftir góðu samráði við alla flokka á Alþingi.

Ég hef skipað aðgerðahóp um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks voru mikilvægt skref í þá átt að koma til móts við stórar kvennastéttir. Nýleg rannsókn Hagstofu Íslands sýndi minnkandi launamun á undanförnum árum hjá ríki, sveitarfélögum og hinum almenna markaði og bendir könnunin til þess að sá munur sem enn er fyrir hendi tengist einkum hinum kynskipta vinnumarkaði.

Baráttan gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni verður áfram forgangsmál, forvarnaáætlun fylgt eftir af krafti og frumvarp til að bæta réttarstöðu brotaþola verður lagt fram aftur. Þá verður unnið að sérstakri aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks.

Þá verður haldið áfram vinnu við endurskoðun laga um eignarhald á landi og fasteignum. Mikilvægi þess að stjórnvöld hafi stjórntæki þegar um er að ræða ráðstöfun á landi rennur upp fyrir æ fleirum enda ljóst að land mun verða æ eftirsóttari auðlind á komandi árum og áratugum.

Mikilvægir grundvallarinnviðir eru best geymdir í almannaeigu en þegar slík fyrirtæki eru á markaði skiptir máli að stjórnvöld hafi ákveðin stýritæki. Frumvarp um rýni á fjárfestingum erlendra aðila á mikilvægum innviðum kemur til þingsins á nýju ári. Löggjöf um tækni-innviði er eðli máls samkvæmt í stöðugri þróun, ýmis nýmæli eru á leið í íslenska löggjöf sem eru til þess fallin að auka öryggi slíkra innviða með heildstæðum hætti óháð eignarhaldi þeirra.

Kæru landsmenn.

Fyrir fjórum árum lagði ég til áætlun um hvernig mætti vinna að breytingum á stjórnarskrá á tveimur kjörtímabilum. Ég mun halda áfram undirbúningsvinnu við breytingar samkvæmt þeirri áætlun sem lögð var fram og síðar á kjörtímabilinu mun ég ræða við formenn flokka um það hvort raunverulegur vilji er til þess að eiga áframhaldandi samráð um tillögur til breytinga. Mín afstaða er áfram sú að afar mikilvægt sé að Alþingi geri breytingu á stjórnarskránni þannig að ný ákvæði, ekki síst um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd öðlist gildi.

Það er eðlilegt að það taki tíma að breyta stjórnarskránni og þó að ég hefði svo sannarlega viljað að Alþingi hefði komist lengra á síðasta kjörtímabili, þá skiptir mestu máli að við vöndum okkur og náum niðurstöðu sem sátt ríkir um. Stjórnarskráin geymir sameiginleg réttindi okkar og vanda þarf í alla staði þær breytingar sem gera þarf.

Það eru forréttindi að starfa í stjórnmálum, ekki síst um lengri tíma. Ég hef nú setið á þingi í tæp 15 ár. Á þeim tíma hefur Ísland gengið í gegnum hrun og endurreisn, ólíkar ríkisstjórnir, sveiflur í stjórnmálum fyrir utan ýmis utanaðkomandi áföll, og er þar heimsfaraldurinn nærtækt dæmi. Íslenskt samfélag hefur breyst og þróast á þessum tíma og þó að manni finnist stundum miða hægt er það nú svo að okkur hefur miðað áfram á flestum sviðum eins og nýlegar rannsóknir stjórnmálafræðinga hafa m.a. dregið fram. Ekki myndi ég vilja skipta á Íslandi dagsins í dag og Íslandi ársins 2007 þegar ég horfi á stjórnkerfi, atvinnulíf og samfélag. Við gengum í gegnum erfiða tíma eftir hrun, drógum af þeim lærdóm og það urðu raunverulegar breytingar á ýmsum sviðum eins og fram kom í skýrslu þeirri sem ég lagði fyrir Alþingi í fyrra. Mér hefur fundist sérstaklega ánægjulegt hve ólíkir og jafnvel andstæðir hópar hafa samt náð að sameinast um að feta ekki sömu braut aftur.

Kæru landsmenn.

Við sem hér sitjum erum kjörin á þing af tilteknu fólki fyrir tiltekna flokka. En hlutverk okkar er ekki bundið því hverjir kusu okkur til setu hér á Alþingi. Í stjórnarskránni er skýrt tekið fram að við alla afgreiðslu mála ber okkur að fara að eigin sannfæringu. Þessi regla er mikilvæg og ekki að ófyrirsynju að hún er fest í stjórnarskrá með skýrum hætti. Hún ber með sér þá forsendu að þingmenn geti verið ósammála, þótt þeir stefni að sama marki, að efla þjóðarhag. Rökræða og jafnvel stöku rifrildi eru mikilvæg forsenda þess að við leiðum fram kosti og galla hvers máls. Við þurfum því að sýna skoðunum annarra meiri virðingu en stundum er gert í hanaslag netsins og hollt að muna að það er enginn sem er handhafi alls hins rétta og góða í samfélaginu.

Það er skylda okkar, óháð því í hvar í flokki við stöndum hér á þingi – og það er úr ansi mörgum flokkum að velja, átta þegar síðast var talið –  að vinna allt sem við getum til að efla og bæta hag almennings. Við viljum tryggja jöfnuð og réttindi allra, við sitjum hér á þingi fyrir hönd allra landsmanna. Látum það endurspeglast í störfum okkar á nýju þingi og nýju kjörtímabili.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search