Tilefni þessarar greinar eru óróamerki og ýmsir nýliðnir atburðir í allmörgum af eldstöðvakerfum landsins. Ég dreg saman upplýsingar héðan og þaðan og renni stuttlega yfir það helsta.
FAGRADALSFJALL
Afgösun úr Geldingadala-eldborginni hefur minnkað en ekki stöðvast að mestu. Skjálftavirkni hefur verið þrálát en minnkað S við Keili og lítillega grynnkað á hana. Landlyfting mælist þar og lengra til suðurs og merki er um þenslu, sennilega á 15-20 km dýpi (í kvikuþró?). Haldi þróunin áfram aukast líkur á frekari umbrotum í nánd við Fagradalsfjall. Hins vegar má telja nokkuð öruggt að eldborgin sé þögnuð, sbr. yfirlýsingu þar um.
HEKLA
Hekla hefur risið og bólgnað langt umfram stöðuna fyrir gosið 2000. Smáskjálftavirkni hefur mælst árum saman en ekki tíðar hræringar. Áratugur er liðinn umfram tíu ára gostíðina milli 1970 og 2000. Skjálftavirkni í Vatnafjöllum, sem er eldvirkt svæði með skyld efnafræðileg fingraför við Heklu, er talin til virkni á Suðurlandsskjálftabeltinu.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-midjufleki-1/banner133609.htmlEkki hefur tekist að para saman þar skjálfta og Heklugos, en ekki unnt að útiloka að stundum geti gætt áhrifa af stórum eða meðalstórum jarðhræringum af þessu tagi á eldfjallið. Það eitt má segja um stöðuna að Heklugos getur hafist hvenær sem er – og aðdragandinn er stuttur.
GRÍMSVÖTN
Í Grímsvötnum hefur verið lífleg gosvirkni sbr. eldsumbrotin 1983, 1998, 2004 og 2011, auk Gjálpargosins 1996 fyrir norðan þau. Allmikil jökulhlaup, flest vegna jarðhitavirkni, hafa verið regluleg en smá á 20. öld (stærðargráða 1.000 rúmm/sek), eftir stóra Gjálparhlaupið. Síðla sl. nóvember hafði um 1 milljarður rúmmetra vatns safnast í Vötnin, skv. mæligögnum. Þá var 17 ferkílómetra stöðuvatn undir fljótandi jökulhellunni í öskju eldstöðvarinnar. Vatnshæðin náði „lyftigetu“ í lok nóvember og tók þá rennsli í Gígjukvísl að aukast. Stefnir í meðalstórt hlaup. Kvika rís til megineldstöðvarinnar, nú sem undanfarna áratugi. Töluverð skjálftavirkni hefur verið ár hvert, undanfarið. Sum Grímsvatnagos leiða beinlínis til Skeiðarárhlaupa en jökulhlaup geta líka leyst Grímsvatnagos úr læðingi eins og árið 2004. Staðan gæti bent til að líkur á eldsumbrotum vaxi verulega á næstunni, jafnvel í kjölfar nýjasta jökulhlaupsins.
ÖRÆFAJÖKULL
er virk og mjög stór megineldstöð. Gosin tvö á sögulegum tíma eru vel kunn. Það fyrra (1362) var harkalegt og olli miklu tjón, m.a. vegna öskuflóða og öflugs jökulhlaups. Undanfarin ár hafa komið fram ummerki um aukna virkni í fjallinu: Nýtt jarðhitasvæði undir miðjum jökulbunkanum, jarðhitavatn í afrennsli og aukin skjálftavirkni undir fjallinu, þó ekki sívaxandi. Atburðrás sem þessi getur staðið árum, sennilega áratugum saman, án eldsumbrota en einnig mögulegt að hún stigmagnist, m.a. með kvikuinnskotum sem kynnu að vera undanfari eldgoss.
ASKJA
Askja á sér langa og fjölbreytta eldgosasögu. Hún er sú megineldstöð, með stóru öskjusigi og án jökulþekju, sem er einna skýrust í landslagi hjá okkur. Sveinagjáreldar og öfluga gjóskugosið síðla á 19. öld og röð miklu minni gosa 1920 til 1930, auk gosins 1961, bera virkni hennar vitni. Hægt minnkandi landsig í Öskju mældist 1983 til 2020. Frá því snemma í ágúst 2021 hefur mælst næstum 20 cm landhækkun, með rismiðju á vesturbakka Öskjuvatns. Töluverð skjálftavirkni er samtímis, en austanvert við vatnið, og hefur hún eflst undanfarna rúma tvo mánuði. Líkanreikningar benda innflæðis kviku, svo nemur yfir 6 milljón rúmmetrum. Frekari mælingar og víðtækari reikningar gefa skýrari mynd. Atburðarásin getur orðið alllöng og stöðvast án eldsumbrota, en líka farið svo að gos hefjist í Öskju eða utan Dyngjufjalla. Teikn um að í það stefni ættu að verða nokkuð skýr.
BÁRÐARBUNGA
Bárðarbunga sýnir engin merki þess að hún leggist í langan dvala eftir Holuhraunselda 2014-2015, þvert á móti: Landris, mælt utan í eldfjallinu, viðvarandi skjálftavirkni, m.a. stóra skjálfta á hringlaga öskjujaðrinum, litla skjálfta á miklu dýpi austan fjallsins (ættardýpi kviku), og aukinn jarðhita í öskjunni. Eldstöðvakerfi Bárðarbungu er stórt og vel virkt í sögunni. Það nær inn í sprungukerfi Torfajökuls-eldstöðvarinnar og langleiðina vestur fyrir Öskju. Telja má töluverðar líkur á að upp úr sjóði í eldfjallinu, eða fjær, á næstu árum eða áratugum.
TORFAJÖKULL
Einkenni Torfajökulsmegineldstöðvarinnar, auk stórrar öskju, eru útbreiddar myndanir úr kísilríku (súru) bergi. Sprungukerfi Bárðabungu og norðurhluti öskju Torfajökuls skarast og gliðnunarhrinur í því fyrrnefnda kalla fram óróa og jafnvel eldgos í því síðarnefnda. Þannig var með jarðeldana í kringum árið 100 og 877. Einnig 1477 en þá gaus hressilega þar sem nú eru Veiðivötn (í Bárðarbungukerfinu) og í litlum mæli á Torfajökulssvæðinu (m.a. rann þá Laugahraun). Alltíðar jarðskjálftahrinur ganga yfir Torfajökulssvæðið og vísa til þess að við verðum að gera þar ráð fyrir eldsumbrotum fyrr eða síðar.
KATLA
Að meðaltali hefur liðið um hálf öld á milli svo öflugra, sögulegra eldgosa í Kötlu að þau hafa bæði gatað jökulinn yfir öskjunni og sent jökulhlaup til sjávar. Miðað við gosið 1918 hefur sú tilhneiging verið rofin. Um smágos undir jökli á umliðnum 100 árum skal ekki fjölyrt.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-midjufleki-1/banner130129.htmlKatla hefur sýnt af sér hefðbundin merki aukinnar en bylgjóttrar virkni, svo sem tímabundið landris, fjölgun háhitasvæða, minni háttar jökulhlaup og nokkuð þráláta jarðskjálftavirkni í öskjunni og undir Goðabungu vestan hennar. M.a. skilar farglétting vegna sumarbráðnunar á jökli sér í aukinni tíðni skjálfta á haustin. Skýr ummerki yfirvofandi eldgoss, m.a. öflugir jarðskjálftar eða skyndilegt landris, munu vafalítið vera undanfari eldsumbrota, en nú sem stendur er ekki unnt að bæta neinu við setninguna: – Fylgst er vandlega með eldstöðinni.
HENGILL
Eldstöðvakerfi Hengilsins er stærst kerfanna á Reykjanesskaga og Hengillinn stækkandi eldfjall með kvikuhólfi. Síðast gaus þar fyrir um 1.900 árum úr slitróttri sprungu, frá Hellisheiði og Stóra-Meitli yfir að Nesjavöllum og úti í Þingvallavatni (Sandey). Miklir jarðskjálftar, m.a. á Þingvöllum, og sennilega innskotavirkni settu mark sitt á árið 1789. Árin 1994 til 1999 mældust fjölmargir skjálftar í Hengli og nágrenni og landris varð á miðsvæði kerfisins, vegna innskots í rætur fjallsins. Ástæða er til að fylgjast vel með Hengilskerfinu og er það gert, m.a. vegna skjálfta sem tengjast niðurdælingu jarðhitavökva en hún er þó ekki talin hafa nein áhrif á ástand kvikugeyma á miklu meira dýpi en dælingin nær til.
BRENNISTEINSFJÖLL
Vestan við Hengilskerfis nær virkt eldstöðvakerfi yfir Brennisteinsfjöll, Bláfjöll og nágrenni þessa hálendis. Þar ganga yfir gliðnunar- og eldgosahrinur eins og annars staðar á Reykjanesskaga. Síðast gerðist það á síðari hluta 10. aldar og inn í þá 11. Hraunið austan Litlu kaffistofunnar (Svínahraunsbruni eða Kristnitökuhraun) er frá þessum tíma. Einnig hraunflæmi nálægt skíðasvæðum Bláfjalla og úr gosstöðvum í Brennisteinsfjöllum. Jarðskjálftar M6+ geta orðið á N-S sprungum í kerfinu. Allsnarpar skjálftahrinur, t.d. í Þrengslum, eru nýleg dæmi um óróleika og alls óvíst hvernig eldstöðvakerfið bregst við umbrotatímabilinu sem kann að vera í uppsiglingu á öllum skaganum.
KRAFLA
Þriðja gliðnunar- og goshrinan á sögulegum tíma í Kröflukerfinu gekk yfir 1975-1984 með yfir tuttugu kvikuhlaupum (innskotahrinum) og níu eldgosum. Þar á undan upplifðu menn Mývatnselda 1724-1729 og enn fyrr Dalselda, sennilega nálægt 950. Land seig í Kröflu, a.m.k. fram undir síðustu aldamót, og hefur ekki risið að neinu marki á stóru svæði. Stutt er aftur á móti i glóheit kvikuinnskot, sbr. nýlega borholu sem endaði í hálfstorkinni kviku á 2,1 km dýpi. Gera má ráð fyrir aldalöngu goshléi í Kröflukerfinu en þó er aldrei unnt að fullyrða um hegðan eldstöðva, eingöngu miðað við fyrri sögu.
REYKJANESHRYGGUR
Plötuskilin á Norður-Atlantshafhryggnum næst Íslandi kallast Reykjaneshryggur. Úti á Reykjaneshrygg liggja skástæðar hálendisskákir norðaustur eftir plötuskilunum. Þar eru sigdalir, gosbergsmyndanir, eldstöðvar og eyjar hlaðast upp og hverfa af völdum sjávarrofs, sumar hratt en aðrar hægt. Dæmi um skammlífa eyju er Nýey frá 1783 en Eldey er dæmi um langlífa eyju (aldur óþekktur). Heimildir eru um gos á þessu slóðum, t.d. 1830, og vitað er um að gjóskugos urðu skammt undan landi á Reykjanesi (Reykjanestá) snemma í Reykjaneseldum 1210-1240. Nýlegir skjálftar, tilfærslur háhitasvæða og möguleg innskotavirkni benda til þess að telja beri Reykjaneskerfið virkt svæði sem getur opnast fyrir kviku að neðan, úti á hafi eða inni á landi.
SNÆFELLSNES
Snæfellsnes skera þrjú eldstöðvakerfi með stefnu NV/SA. Tvö þeirra eru áberandi: Snæfellsjökull (megineldstöð/eldkeila) og nágrenni og svo Ljósufjallakerfið sem liggur frá Hraunsfirði í NV yfir Hnappadal, Hítardal og að Grábrók í Norðurárdal. Jökullinn og nágrenni bærðu síðast á sér fyrir um 1.700 árum með litlu hraungosi (Væjuhran rann í hlíðum eldkeilunnar). Nokkru áður, fyrir um 1.800 árum, varð allöflugt gjóskugos ásamt hraunflæði í eldfjallinu með tilheyrandi jökulhlaupi. Í Ljósufjallakerfinu gaus síðast skömmu eftir landnám, í Rauðhálsum í Hnappadal. Þar á undan urðu Rauðamelskúlur til fyrir um 2.600 árum. Grábrók er þúsund árum eldri en þeir gígar og hin þekkta Eldborg er enn eldri. Mjög lítil skjálftavirkni er í og við Snæfellsjökul en ástæða til að að rannsaka innviði eldstöðvarinnar betur og auka vöktun hennar. Heldur meiri skjálftavirkni hefur verið um miðbik Ljósufjallakerfisins, einkum í Hítardal. Af henni verða þó ekki dregnar neinar ályktanir um hættu á eldgosi en full ástæða til árvekni og góðrar vöktunar.
Önnur eldstöðvakerfi í landinu en hér koma fram geta breytt og aukið virkni sína hvenær sem er. Þess vegna hefur verið byggt upp öflugt rannsókna- og vöktunarkerfi.
Ari Trausti Guðmundsson, rithöfundur og jarðvísindamaður og fyrrv. þingmaður VG