Það er mikilvægt að standa með þolendum. Það er jafnréttismál og kvenréttindabarátta í hnotskurn þótt vissulega séu þolendur af öllum kynjum.
Hvert einasta fyrirtæki og stofnun á að gera áætlun og vera með skýra verkferla um hvaða aðgerða er gripið til komi upp kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreitni eða ofbeldi hafi átt eða eigi sér stað. Það verða alltaf að fylgja aðgerðir þegar slík mál koma upp og þær aðgerðir að vera skýrar og skilvirkar. Lögreglu ber að upplýsa um refsivert athæfi og alltaf skal þolandi njóta vafans, alltaf.
Byltingin er hafin, gerendur mega vara sig. Ég mun alltaf trúa og standa með þolendum. Ég mun alltaf og sannarlega segja mína skoðun um málefni þolenda nú sem og hingað til. Í slíkum málum er nefnilega ekki hægt að vera hlutlaus, það er ekki hægt að sitja hjá og gera ekki neitt. Það er afar erfitt að horfa upp á þær þungu byrðar sem þolendur eru látnir sitja uppi með. Við þurfum að tryggja miklu betri réttarstöðu þeirra með lagabreytingum, markvissum aðgerðum og um leið efla lögregluna til að taka á þessum málum af mannúð, virðingu og vandvirkni. Það á enginn að þurfa að opinbera sín viðkvæmustu mál á samfélagsmiðlum til að ná fram réttlæti og málsumfjöllun. Að samfélagið ýti undir slíkt og það sé það eina sem þolendur sjá í stöðunni er fáránlegt og engri manneskju bjóðandi.
Nú er kominn tími þolenda, að við virðum þeirra upplifanir, fordæmum ofbeldi og það óréttlæti sem þolendur hafa búið við árum og öldum saman með aðgerðum. Þolendur, ég veit þið eruð þreytt en umfram allt ekki þagna. Við erum ótalmörg sem stöndum með ykkur.
Hólmfríður Árnadóttir er menntunarfræðingur, bandamaður og VG félagi.