PO
EN

Gefum fólki val í húsnæðismálum

Deildu 

Rík­is­stjórn­in hef­ur nú kynnt til­lög­ur sín­ar til um­bóta í skatt­kerf­inu og eru þær gott skref í átt að aukn­um jöfnuði í land­inu með þrepa­skiptu skatt­kerfi sem gagn­ast lág­tekju­fólki best. For­sæt­is­ráðherra hef­ur einnig boðað aðgerðir til að byggja upp heil­brigðan leigu­markað til fram­búðar. Það á að gera með stór­aukn­um stofn­fram­lög­um í al­menna íbúðakerfið. Hægt er að líta á þetta sem end­ur­reisn verka­manna­bú­staðakerf­is­ins, sem illu heilli var aflagt. Þannig býðst tekju­lægri hóp­um að leigja hús­næði á betri kjör­um en þeim hefði ann­ars boðist þar sem ríki og sveit­ar­fé­lög leggja til allt að 30 pró­sent af stofn­kostnaði.Þetta er afar mik­il­vægt, þar sem hækk­andi leiga hef­ur étið upp stór­an hluta kjara­bóta síðustu ára. Þá er lyk­il­atriði að með þessu er horft út fyr­ir stór­höfuðborg­ar­svæðið og til stend­ur að byggja upp al­menn­ar íbúðir víðar um land þar sem hús­næðis­skort­ur á lands­byggðinni ger­ir fólki erfiðara að búa utan Reykja­vík­ur og ná­grenn­is.

Stjórn­mála­menn verða í störf­um sín­um að horfa lengra en til næstu kosn­inga. Með því að byggja hér upp fé­lags­leg­an leigu­markað á nýj­an leik er verið að horfa til lengri tíma. Alltof lengi hef­ur op­in­ber stefna ein­skorðast við að all­ir eigi sitt eigið hús­næði, sem er ágætt fyr­ir þá sem eiga efnaða að. Fyr­ir tekju­lágt fólk og ungt fólk get­ur það hins veg­ar reynst ókleif­ur múr að safna fyr­ir út­borg­un og leigja á al­menn­um leigu­markaði á sama tíma. Það er fólkið sem þarf fé­lags­leg úrræði og fljót­lega munu liggja fyr­ir til­lög­ur stjórn­valda um stuðning við fyrstu kaup á hús­næði. Það er mik­il­vægt að gefa fólki raun­veru­legt val um að eign­ast eigið hús­næði eða leigja áfram á heil­brigðum leigu­markaði hvar sem er á land­inu.

Til að stuðla að upp­bygg­ingu heil­brigðs leigu­markaðar hef­ur for­sæt­is­ráðherra talað um að ríkið nýti Keld­ur og jafn­vel Keldna­holt sem land und­ir þró­un­ar­vinnu. Það verður skipu­lagt í sam­vinnu við borg­ina sem fyrst og þar byggt upp blandað svæði meðfram upp­bygg­ingu ann­ars áfanga borg­ar­línu. Þar get­ur ríkið notað eign­ir sín­ar til að tryggja að ákveðinn hluti verði hag­kvæm­ar leigu­íbúðir. Ég tel það góðan val­kost til að veita fólki aðgang að ódýr­ari leigu­íbúðum eft­ir þörf­um með greiðum aðgangi að hágæða al­menn­ings­sam­göng­um.

Ég vil einnig nefna að mér finnst brýnt að skoða mögu­leika á því að ungt fólk af lands­byggðinni sem sæk­ir fram­halds­skóla­nám á höfuðborg­ar­svæðinu hafi mögu­leika á hag­kvæmu hús­næði sem sér­stak­lega er ætlað þeim nem­end­um. Eins og stend­ur eru ein­ung­is til staðar nem­endag­arðar fyr­ir há­skóla­nema. Þá er auðvitað nauðsyn­legt að byggja áfram upp eins og verið er að gera. Það er mik­il þörf fyr­ir heima­vist á höfuðborg­ar­svæðinu fyr­ir fram­halds­skóla­nema af lands­byggðinni til að styðja enn frek­ar við jafn­rétti til náms.

Byggj­um upp til framtíðar og ger­um um­bæt­ur sem stand­ast tím­ans tönn.

Höf­und­ur er þingmaður Vinstri grænna og formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search