Ríkisstjórnin hefur nú kynnt tillögur sínar til umbóta í skattkerfinu og eru þær gott skref í átt að auknum jöfnuði í landinu með þrepaskiptu skattkerfi sem gagnast lágtekjufólki best. Forsætisráðherra hefur einnig boðað aðgerðir til að byggja upp heilbrigðan leigumarkað til frambúðar. Það á að gera með stórauknum stofnframlögum í almenna íbúðakerfið. Hægt er að líta á þetta sem endurreisn verkamannabústaðakerfisins, sem illu heilli var aflagt. Þannig býðst tekjulægri hópum að leigja húsnæði á betri kjörum en þeim hefði annars boðist þar sem ríki og sveitarfélög leggja til allt að 30 prósent af stofnkostnaði.Þetta er afar mikilvægt, þar sem hækkandi leiga hefur étið upp stóran hluta kjarabóta síðustu ára. Þá er lykilatriði að með þessu er horft út fyrir stórhöfuðborgarsvæðið og til stendur að byggja upp almennar íbúðir víðar um land þar sem húsnæðisskortur á landsbyggðinni gerir fólki erfiðara að búa utan Reykjavíkur og nágrennis.
Stjórnmálamenn verða í störfum sínum að horfa lengra en til næstu kosninga. Með því að byggja hér upp félagslegan leigumarkað á nýjan leik er verið að horfa til lengri tíma. Alltof lengi hefur opinber stefna einskorðast við að allir eigi sitt eigið húsnæði, sem er ágætt fyrir þá sem eiga efnaða að. Fyrir tekjulágt fólk og ungt fólk getur það hins vegar reynst ókleifur múr að safna fyrir útborgun og leigja á almennum leigumarkaði á sama tíma. Það er fólkið sem þarf félagsleg úrræði og fljótlega munu liggja fyrir tillögur stjórnvalda um stuðning við fyrstu kaup á húsnæði. Það er mikilvægt að gefa fólki raunverulegt val um að eignast eigið húsnæði eða leigja áfram á heilbrigðum leigumarkaði hvar sem er á landinu.
Til að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar hefur forsætisráðherra talað um að ríkið nýti Keldur og jafnvel Keldnaholt sem land undir þróunarvinnu. Það verður skipulagt í samvinnu við borgina sem fyrst og þar byggt upp blandað svæði meðfram uppbyggingu annars áfanga borgarlínu. Þar getur ríkið notað eignir sínar til að tryggja að ákveðinn hluti verði hagkvæmar leiguíbúðir. Ég tel það góðan valkost til að veita fólki aðgang að ódýrari leiguíbúðum eftir þörfum með greiðum aðgangi að hágæða almenningssamgöngum.
Ég vil einnig nefna að mér finnst brýnt að skoða möguleika á því að ungt fólk af landsbyggðinni sem sækir framhaldsskólanám á höfuðborgarsvæðinu hafi möguleika á hagkvæmu húsnæði sem sérstaklega er ætlað þeim nemendum. Eins og stendur eru einungis til staðar nemendagarðar fyrir háskólanema. Þá er auðvitað nauðsynlegt að byggja áfram upp eins og verið er að gera. Það er mikil þörf fyrir heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema af landsbyggðinni til að styðja enn frekar við jafnrétti til náms.
Byggjum upp til framtíðar og gerum umbætur sem standast tímans tönn.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar.