PO
EN

Vaktin sem svaf

Deildu 

Í lok nóvember birtist grein eftir mig í blaði þessu þar sem ég lýsti vonbrigðum mínum með andvaraleysi Kópavogsbæjar í loftslagsmálum. Yfirskrift greinarinnar var ,,Enginn í bæjarstjórn Kópavogs stendur vaktina í umhverfismálum í Kópavogi“ Tilefnið var nýleg kaup bæjarins á þjónustubílum. Keyptir voru bílar knúnir jarðefnaeldsneyti í stað umhverfisvænni bifreiða eins og kveðið er á um í umhverfisstefnu bæjarins. Tilgangur greinarinnar var augljós; ákall til bæjarbúa að vera bæjaryfirvöldum aðhald í umhverfismálum, þar sem bæjarfulltrúar stæðu ekki vaktina.

Frá aldamótum og fram til vorsins 2018 átti ég aðkomu að bæjarmálum í Kópavogi, lengst af með setu í umhverfis- og samgöngunefnd og síðast í bæjarstjórn og skipulagsráði, sem fulltrúi Vinstri grænna, sem nú eiga ekki lengur fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs. Umhverfismálin og þá ekki síst loftslagsmálin hafa verið mín helstu baráttumál, enda brýn og aðkallandi.

Bæjarfulltrúi Pírata Sigurbjörg Erla Eigilsdóttir og Hjördís Ýr Johnsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar svara báðar grein minni og segir Sigurbjörg í grein sinni að Píratar standi vaktina og Hjördís segir vaktina fullmannaða. Þær telja telja til ýmislegt sem er verið að vinna að og í bænum og annað sem þær hafa lagt áherslu á. Það er gott og vel og ánægjulegt að heyra, en breytir þó því ekki að þær komu ekki í veg fyrir þessi kaup á bifreiðum sem verða næsta áratuginn í það minnsta á götunum með tilheyrandi útblæstri. Vaktin sem þær segjast standa, svaf á verðinum.

Orkuskipti í samgöngum er eitt brýnasta velferðar- og umhverfismál næstu ára og áratuga og á sveitarfélag eins og Kópavogur á að ganga á undan með góðu fordæmi í verki, ekki bara orði. Kópavogur á að gera kröfur á alla þá aðila sem þjónusta Kópavog, s.s. með sorphirðu eða akstur skólabarna að nota umhverfisvæn samgöngutæki. Það er ekki einungis umhverfismál heldur einnig lýðheilsumál. Ég vona svo sannarlega þetta standi til bóta.

Bæjarfulltrúi Pírata nefnir reyndar reynsluleysi sitt í grein sinni og að hún sé sammála mér að umhverfismálin þurfi að taka alvarlega og þá ekki síst loftslagsmálin. Hún býður mér líka aðkomu að málinu. Ég þakka henni það boð.

Ég og bæjarfulltrúinn hittumst á förnum vegi fyrir nokkru og tókum tal saman um bæjarmálin og áttum gott spjall. Ég bauð henni að hún gæti alltaf leitað til mín ef hún vildi og vil ég ítreka að það tilboð stendur enn.

Margrét Júlía Rafnsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi Vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search