PO
EN

Konur hafa aldrei verið í meirihluta í Fjarðabyggð

Deildu 

.Laugardaginn 5. mars kynnti VG í Fjarðabyggð framboðslista sinn til sveitarstjórnarkosningar sem fram fara 14. maí. Listinn hefur vakið töluverða athygli einkum vegna þess að hann er skipaður 17 konum og einum karlmanni.

Eins og við var að búast þá loguðu samfélagsmiðlar og í flestum athugasemdum mátti sjá fólk hneykslast á kynjahlutfallinu sem þarna birtist. Hvers vegna teflir hreyfing sem kennir sig við jafnrétti fram svona lista?

Það er rétt að taka það fram að haft var samband við fjölda karla og þeim boðið sæti á listanum. Einnig var auglýst eftir áhugasömum frambjóðendum í Dagskránni sem borin er í hvert hús í sveitarfélaginu. Aðeins einn þáði sæti á listanum. Félagar í VG í Fjarðabyggð stóðu nú frammi fyrir þeirri ákvörðun að tefla fram lista með sterkum konum eða bjóða ekki fram.

En er þessi kynjahalli listans raunverulegt vandamál? Hefur almennt hallað á karla í stjórnmálum í Fjarðabyggð? Þegar saga Fjarðabyggðar er skoðuð virðist svo alls ekki vera. Það hefur alltaf hallað á konur.

Skoðum nú fjölda bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð frá upphafi:
• 1998, 3 konur og 8 karlar (27% konur)
• 2002, 1 kona og 8 karlar (10% konur)
• 2006, 3 konur og 6 karlar (33% konur)
• 2010, 3 konur og 6 karlar (33% konur)
• 2014, 4 konur og 5 karlar (44% konur)
• 2018, 4 konur og 5 karlar (44% konur)

Það er því ljóst að karlar hafa alla tíð verið meirihluti bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð.

Ekki batnar hlutfall kvenna þegar oddvitar lista sem boðið hafa fram í Fjarðabyggð frá upphafi er skoðað:
• 1998, 0 konur og 4 karlar (0% konur)
• 2002, 0 konur og 4 karlar (0% konur)
• 2006, 0 konur og 4 karlar (0% konur)
• 2010, 0 konur og 3 karlar (0% konur)
• 2014, 0 konur og 3 karlar (0% konur)
• 2018, 1 kona og 3 karlar (25% konur)

Aðeins ein kona hefur fram til dagsins í dag skipað efsta sæti lista í Fjarðabyggð.

Niðurstaða okkar er því sú að þetta eru óþarfa áhyggjur. Það er þörf á fleiri konum í stjórnmálum, sérstaklega í Fjarðabyggð. Þið sem hafið áhyggjur af stöðu karla getið því sofið róleg. Þið hin sem viljið efla hlut kvenna í stjórnmálum getið svo kosið VG í maí.

Höfundar eru Anna Margrét Arnarsdóttir, oddviti VG í Fjarðabyggð og Helga Björt Jóhannsdóttir, sem skipar 4. sæti listans.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search