PO
EN

Framsýnn landbúnaður

Deildu 

Framsýnn landbúnaður er yfirskrift Búnaðarþings sem fram fór í dag. Fyrsta búnaðarþings eftir sameiningu Bændasamtaka Íslands. Yfirskriftin rímar vel við þann tón sem ég hef þegar slegið á mínum fyrstu vikum sem matvælaráðherra. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að vita að vita hvernig við viljum haga málum til lengri tíma.

Sýnin er að efla landbúnaðinn

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að finna kjarngott nesti fyrir mig sem matvælaráðherra um hvert skal stefna í landbúnaðarmálum. Við viljum setja metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra matvæla. Um að auka sjálfbærni og fæðuöryggi. Auka lífræna framleiðslu. Um hvernig við styrkjum og fjölgum stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar. Sýn þessarar ríkisstjórnar er að efla landbúnaðinn.

Fæðuöryggi á dagskrá

Heimsfaraldur og stríð hefur sett umræðu um fæðuöryggi í nýtt samhengi og þarna þurfum við að gefa í. Fæðuöryggi er grundvöllur sjálfstæðra þjóða. Þannig eru stefnumið þessarar ríkisstjórnar tímanlegri í dag heldur en fyrir hálfu ári. En jafnframt er ekkert sem ógnar fæðuöryggi Íslendinga meir til lengri tíma heldur en loftslagsbreytingar. Það bætist sífellt í staflann af skýrslum vísindamanna sem sýna fram á að með vályndari veðrum mun uppskera á stórum kornræktarsvæðum verða ótryggari og þannig aukist líkurnar á áföllum.

Landbúnaður á að vera í sókn

Á tímum sem þessum er landbúnaðurinn miðlægur í að takast á við breyttar aðstæður. Landbúnaðurinn hér á landi sér þjóðinni fyrir mestu því kjöti og mjólkurvörum sem við neytum en sóknarfæri eru víðar. Við þurfum að spyrja okkur hvað við getum gert meira. Grænmetið, kornið og áburðurinn. Landbúnaðurinn er of mikilvægur til þess að vera í vörn. Hann verður að vera í sókn og hefur til þess alla burði.

Græn skref í átt að fæðuöryggi

Ég hef þá trú að til þess að við náum árangri í loftslagsmálum þurfa stuðningskerfin að verðlauna árangur. Þannig virkjum við búvit bænda til þess að ná árangri betur en með boðum og bönnum. Við þurfum græn skref í átt að fæðuöryggi. Í dag mun ég veita þrenn verðlaun fyrir góðan árangur á sviði landbúnaðar. Verðlaunahafar endurspegla öll þau stefnumið sem matvælaráðuneytið hefur sett sér og nefni ég hér nokkur; öflug nýsköpun, lífræn framleiðsla, sjálfbærni, rannsóknir, og heilbrigði dýra.

Íslenskir bændur hafa oft tekist á við áskoranir, ég nefni framlag bænda til þjóðarsáttarinnar og eftir efnahagshrunið. Lausnirnar eru í framtíðinni, í nýsköpun og hugkvæmni, með rannsóknum og þróun.

Höfundur er matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search