Search
Close this search box.

Ályktanir flokksráðs 13. febrúar 2016

Samþykkt:

Stjórnmálaályktun

Rík og vaxandi krafa er í samfélaginu um aukinn jöfnuð og traust velferðarkerfi. Sú krafa endurspeglast vel í áskorun tugþúsunda til stjórnmálamanna um að tryggja fjármagn til uppbyggingar og reksturs heilbrigðiskerfisins. Það verður aðeins gert með því að afla ríkinu nægjanlegra tekna í gegnum skattkerfið þar sem sanngirni og réttlætissjónarmið verða uppfyllt, þannig að hinir efnameiri leggi meira af mörkum en hinir efnaminni. Tekjuöflun þarf að byggja á verðmætasköpun og fjölbreyttu atvinnulífi á grundvelli loftslagsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna, þar sem ekki er gengið á umhverfi og auðlindir. Fyrir alþingiskosningarnar 2013 lagði Vinstrihreyfingin – grænt framboð fram raunhæfa áætlun um tekjuöflun og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, mennta- og velferðarkerfis. Þar var stefnt að því að halda áfram innheimtu auðlegðarskatts, orkuskatts og auðlindagjalda og nýta þá fjármuni annars vegar til niðurgreiðslu skulda og uppbyggingar innviða. Sú stefna er enn í fullu gildi og aldrei meiri þörf á því að ýta henni í framkvæmd en einmitt nú eftir valdasetu hægriflokkanna. Megin markmið eru að:

• auka jöfnuð í samfélaginu með sanngjarnri dreifingu skattbyrði og réttlátu velferðarkerfi. 

• byggja upp fjölbreytt atvinnulíf með sjálfbærni og hagsæld að leiðarljósi. 

• tryggja öruggt fé í uppbyggingu og rekstur heilbrigðis- velferðar- og menntakerfis og jafnan aðgang allra. 

Vinstri græn lýsa sig tilbúin til að starfa með hverjum þeim stjórnmálaflokki og stjórnmálamanni sem vilja vinna að því að auka jöfnuð og hagsæld, efla og byggja upp velferðarkerfið að norrænni fyrirmynd og auka vægi kvenfrelsis, umhverfissjónarmiða og sjálfbærni í atvinnu- og byggðamálum. Við teljum að þeim stjórnmálaflokkum og þeim stjórnmálamönnum sem eru okkur sammála um þessa forgangsröðun beri skylda til þess að stilla saman strengi og leggja sameiginlegar línur fyrir næstu kosningar þannig að kjósendur hafi skýra hugmynd um það hvaða stjórnmálahreyfingar muni vinna saman og um hvaða málefni að loknum kosningum. Þannig fá kjósendur sem vilja breytta stefnu og betra samfélag skýran valkost.

Gagnsæi við uppstokkun á fjármálakerfi

Ríkisstjórnin hefur ekki farið leynt með áform sín um að einkavæða banka og fjármálastofnanir í almannaeigu. Mikilvægt er að samfélagsleg umræða fari fram við uppstokkun fjármálakerfisins, hlutverk ríkisins í því og framtíðarskipulag enda um hagsmuni almennings að ræða. Það er með öllu óboðlegt að nú örfáum árum, eftir fall bankakerfisins og án fullnægjandi rannsóknar á einkavæðingu fjármálakerfisins í aðdraganda Hrunsins, skuli stefnt að annarri einkavæðingu fjármálastofnanna í opinberri eigu.  Flokksráðsfundur Vinstri grænna krefst þess að fram fari rannsókn á einkavæðingu bankakerfisins 2003 eins og samþykkt hefur verið af Alþingi. Borgunarhneykslið sýnir skýrt hversu mikilvægt er að söluferli á bönkum, eignum bankanna og eignarhlutum ríkisins í þeim verði gagnsætt og fyllsta jafnræðis verði gætt við það ferli. Brýnt er að rannsaka Borgunarmálið til hlítar og tekin verði ábyrgð á því sem þar fór úrskeiðis enda um gríðarlega hagsmuni að ræða er varðar almenning. Flokksráð Vinstri grænna vill að Landsbanki Íslands verði rekinn sem samfélagsbanki í eigu hins opinbera og í þágu fólksins í landinu. 

Opnara Ísland – áskorun til stjórnvalda

Vinstrihreyfingin – grænt framboð skorar á stjórnvöld að veita fleira flóttafólki hæli á Íslandi. Fjöldi fólks á flótta í heiminum hefur ekki verið meiri frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Það er skylda Íslands sem öflugs velferðarríkis að gera allt sem í valdi þjóðarinnar stendur til að bjarga mannslífum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fagnar komu hóps frá Sýrlandi og telur mótttöku hans upphafið að frekari aðgerðum í þágu flóttafólks. Vegna legu Íslands og landamærastefnu er nær útilokað fyrir flóttafólk að komast til landsins af eigin rammleik, án viðkomu í öðrum löndum. Rýmka þarf reglur um hælisumsóknir hér á landi. Brottvísanir með vísan í Dyflinnareglugerðina eiga ekki að koma fyrir. Móttöku hælisleitenda þarf að styrkja verulega, með auknum fjármunum og fleiri úrræðum í þágu hælisleitenda. Mikilvægt er að tryggja að fólk sem er nýkomið til landsins, getið tekið fullan þátt í samfélaginu, styrkja það til náms til dæmis með gjaldfrjálsri íslensku- og samfélagskennslu og hjálpa því að komast í vinnu. Taka þarf af festu á vandanum sem reglulega birtist í afgreiðslu Útlendingastofnunar. Formenn Vinstriflokka á Norðurlöndum lýstu í upphafi árs yfir vilja til Norðurlönd vinni saman í að lausn á neyð flóttamanna með sameiginlegri yfirlýsingu sem birt var í öllum löndunum. Áhrif öfga hægriflokka í norrænum ríkisstjórnum gera hins vegar flóttamönnum erfitt að nýta rétt sinn til að sækja um hæli. Vinstri græn telja að Ísland geti orðið fyrirmynd annarra ríkja í móttöku flóttafólks og krefjast þess að stjórnvöld hefji strax vinnu við að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Herstöðvalaust Ísland

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn þann 13. febrúar 2016 leggst alfarið gegn auknum umsvifum Bandaríkjahers á Íslandi. Gildir þar einu hvort um tímabundna dvöl er að ræða eða til langframa. Aukin hernaðarumsvif á Íslandi eru ekki til þess fallin að draga úr spennu í okkar heimshluta, heldur geta þvert á móti leitt til stigmögnunar. Umræddar breytingar á flugskýlum á Miðnesheiði kynda undir ófriði og eru glöggt dæmi um þá geigvænlegu sóun sem fylgir hervæðingu og vopnaskaki. Svo dæmi sé tekið er áætlaður breytingakostnaður meira en fimmfalt hærri en ríkisstjórn Íslands tilkynnti á dögunum að varið yrði til neyðaraðstoðar við Sýrland og nágrannaríki þess á árinu 2016 vegna borgarastyrjaldarinnar þar í landi. Ekki þarf lengi að velta því fyrir sér hvor útgjöldin væru betur til þess fallin að stuðla að friði og öryggi í heiminum.  Vinstri græn árétta friðarstefnu sína og minna á mikilvægi þess að stuðla að pólitískum lausnum í stað þess að stuðla að stigmögnun vígbúnaðar. Til að Ísland geti tekið frumkvæði í því er nauðsynlegt að varnarsamningi við Bandaríkin og aðildinni að NATO verði sagt upp.  

Höldum Íslandi herlausu og utan hernaðarbandalaga!

Ríkisstjórnin ræðst á rammaáætlun

Fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem auglýstar er eru á vef umhverfisráðuneytisins eru augljóslega settar fram í því skyni að hafa að engu niðurstöðu rammaáætlunar 2. Þannig verður með breytingunum hægt að meta að nýju svæði í verndarflokki sem ekki hafa enn verið friðlýst. Núverandi ríkisstjórn hefur enga áherslu lagt á friðlýsingar þannig að sú vinna hefur legið niðri allt kjörtímabilið. Þótt ráðherra sé skylt samkvæmt lögum um rammaáætlun að hefja friðlýsingar á öllum svæðum í verndarflokki hefur engin áhersla verið lögð á þau verkefni. Með breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar verður unnt að meta öll þessi svæði að nýju með það að markmiði að færa einhver þeirra í nýtingarflokk. Áform Landsvirkjunar um að virkja í Norðlingaöldu sem er í verndarflokki með því að kalla svæðið Kjalölduveitu og breyta lítillega útmörkum svæðisins liggja greinilega meðal annars til grundvallar tillögum ráðuneytisins. 

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir þessi vinnubrögð umhverfisráðuneytisins og ráðherra umhverfismála og telur þau fara í berhögg við lög um rammaáætlun. Ljóst er að verndarsjónarmið eru að engu höfð og mæta afgangi í öllum verkum núverandi ríkisstjórnar.

Framtíðarsýn í ferðaþjónustu

Vinstri græn telja stórátak þurfa til að byggja upp ferðaþjónustu í sátt við bæði samfélag og náttúru. Stjórnvöldum ber skylda til að stórbæta öryggi ferðamanna, aðgengi að ferðamannastöðum, tryggja vernd viðkvæmrar náttúru og löglega starfsemi allra sem hafa ferðaþjónustu að lifibrauði. Það er hagsmunamál allra að ferðaþjónustuaðilar fari að lögum, verndi náttúru, umhverfi og samfélag og bjóði starfsfólki sæmandi aðbúnað og laun samkvæmt kjarasamningum. Efla þarf eftirlit, fræðslu, menntun og rannsóknir í ferðaþjónustu.

Gegn matarsóun

aFlokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Reykjavík 13. febrúar 2016, skorar á Alþingi að fylgja fordæmi neðri deildar franska þingsins sem lagði bann við óábyrgri sóun matvöruverslana, þar sem gífurlegu magni matvæla, sem kæmu víða að góðum notum, er hent reglulega á meðan margir í heiminum búa við hungur og skort.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search