PO
EN
Search
Close this search box.

Ályktanir flokksráðs 17.-18. ágúst 2013

Samþykkt:

Uppbygging til framtíðar

Í aðdraganda síðustu þingkosninga var á brattann að sækja fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð en á lokametrum kosningabaráttunnar náði hreyfingin ágætu skriði og er enn í sókn. Þátttaka flokksins í ríkisstjórn í kjölfar hrunsins þar sem tekist var á við risavaxin verkefni til að koma Íslandi aftur á fætur, reyndi vissulega mjög á innviði flokksins en málefnastaðan er sterk og öll efni til þess að halda uppbyggingu og öflugri sókn áfram í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Við lögðum fram ábyrga stefnu í kosningabaráttunni meðan þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn fóru mikinn í óraunhæfum loforðum og fyrirheitum sem örðugt mun reynast að uppfylla.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar hafi skapað mikla óvissu um stöðu efnahags- og ríkisfjármála og óvíst sé hvaða áhrif þær hafi á hag almennings til framtíðar. Sú ráðstöfun núverandi ríkisstjórnar að skerða mjög tekjur ríkisins, t.d. með því að lækka sérstakt veiðigjald og að falla frá ákvörðunum um skatta á ferðaþjónustu.  eykur enn á halla ríkissjóðs og ójöfnuð meðal landsmanna. Fráleitt er að grípa til niðurskurðar á móti í grunnþjónustu samfélagsins, á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun, eða að draga úr fjárfestingu í samfélaginu með því að falla frá fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar sem ætlað var að stuðla að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu.

Ríkissjóður varð fyrir gríðarlegu áfalli í hruninu og samfélagið er mjög skuldsett þess vegna. Stærstu verkefnin framundan eru því að styrkja rekstur ríkisins með því að treysta enn frekar tekjugrunninn og þróa nýja möguleika á tekjuöflun með fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu og skattlagningu á auðlindarentu á nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Mikilvægt er einnig að viðhalda því þrepaskipta skattkerfi sem komið var á í tíð síðustu ríkisstjórnar sem tryggir réttlátari dreifingu byrðanna og jafnar kjör. Sú hefðbundna hægristefnaríkisstjórnarflokkanna að draga úr tekjum ríkisins, „einfalda“ skattkerfið og skera niður í opinberri þjónustu veikir grunnstoðir samfélagsins og leiðir aftur til vaxandi mismununar sem við höfum barist gegn í samfélagi okkar.

Sífellt fleiri fræðimenn benda á að erfiðleikar á Evrusvæðinu eigi rætur sínar að rekja til of harkalegs niðurskurðar og þá sérstaklega í velferðamálum. Þannig er Bretland oft nefnt sem dæmi þar sem niðurskurður er að leiða hagkerfið í gegnum þrefalda efnahagsdýfu. Gagnstætt leið Breta er almennt viðurkennt að sú forgangsröðun í þágu velferðar sem átti sér stað á Íslandi í gegnum kreppuna hafi reynst árangursrík og skýri að hluta til hvers vegna landið komst með skjótvirkum hætti undan ofvöxnu hruni. Það er því afar nauðsynlegt að áfram verði haldið á þeirri braut og ef með þarf með aukinni tekjuöflun ríkissjóðs.

Félagshyggja og jafnaðarhugsjón er farsælasta leiðarljósið þegar verið er að reisa samfélög úr efnahagslægð. Þetta sannaðist í tíð síðustu ríkisstjórnar þótt árangurinn sé sannarlega í hættu við þann harkalega hægri viðsnúning sem nú blasir við með stóraukinni áherslu á niðurskurð, tekjuskerðingar ríkissjóðs og aðgerðir sem auka ójöfnuð og misskiptingu í samfélaginu.

Þrátt fyrir að staða ríkisfjármála sé enn og verði áfram þröng á næstu árum þá mun vera hægt að skapa svigrúm í ríkisrekstri til uppbyggingar á innviðum samfélagsins. Flokksráðsfundurinn vill að gerð verði áætlun um eflingu samfélagsins í þverpólitískri samvinnu um að byggja upp og efla opinbera heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og velferðarþjónustu.

Brýnt er að ráðist verði í ábyrga áætlanagerð og að hún byggist á vexti sem reistur verði á fjölbreyttri atvinnusköpun sem tekur tillit til umhverfis- og náttúrugæða. Þannig eru möguleikar á að byggja hér upp sjálfbært samfélag hvort sem er á sviði efnahags, samfélags eða umhverfis. Í þeim anda á að stuðla að fjárfestingu í ólíkum atvinnugreinum og efla vöxt sem byggist á hugviti og sköpunarkrafti. Efling samneyslunnar tryggir ennfremur aukinn jöfnuð og jafnrétti kynja þar sem niðurskurður í velferðarkerfinu kemur ekki síst niður á kvennastörfum.

Framundan eru tímar þar sem stjórnmálamenn munu glíma við mörg erfið verkefni og eiga þar val um hvert þeir vilja leiða samfélagið. Í átt til aukins jafnaðar eða aukins misréttis. Í átt að sjálfbærni eða einhæfri umhverfisspillandi atvinnuuppbyggingu. Í átt til aukinna mannréttinda eða skerðingar þeirra. Í átt að samneyslu og samábyrgð eða einkahagsmuna. Í átt að þröngri þjóðhyggju eða víðsýni og alþjóðahyggju. Efnahagshrunið og kreppa undanfarinna ára hafa dregið fram muninn á vinstri og hægri á sviði stjórnmálanna og sýnt að það skiptir máli hvaða leið er valin.

Það er nú mikilvægara en oftast áður að vinstrimenn hvar sem þeir í flokki standa gangi saman fram við mótun samfélagsins. Þegar stóru málin knýja að dyrum – svo sem einkavæðing í heilbrigðis- og menntakerfi, niðurskurður á grunnþjónustu, stóriðja í stað fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar, metnaðarleysi í umhverfismálum og getuleysi þegar kemur að frelsi og mannréttindum – verða vinstrimenn að horfa á það sem sameinar fremur en það sem sundrar og vinna saman að því að góðar ákvarðanir verði teknar fyrir íslenskt samfélag. Ábyrgðin er gríðarleg og viðfangsefnin stór. Hlýnun jarðar og loftslagsvandinn, fátækt og misrétti og baráttan fyrir lýðræði og mannréttindum eru viðfangsefni sem markaðshyggjan leysir ekki. Einungis með sjálfbærni, jöfnuð og frelsi að leiðarljósi verða slík mál til lykta leidd og einungis með samfélagslegum lausnum verður framtíð mannkynsins tryggð.

Ályktun um sveitarstjórnarmál

Sveitarfélögin hafa, eins og samfélagið allt, gengið í gegnum miklar þrengingar í kjölfar efnahagshrunsins. Þær hafa komið niður á starfsfólki, þjónustu og íbúum sveitarfélaganna. Víða er grunnþjónusta á borð við leik- og grunnskóla í járnum og nauðsynlegt að efla og styrkja velferðarþjónustuna.

Nú þegar hægrisinnuð ríkisstjórn sérhagsmuna hefur tekið við völdum á landsvísu og ójöfnuður er aftur farinn að aukast er afar brýnt að sveitarfélögunum verði stýrt með félagshyggju og græna framtíð að leiðarljósi. Það verður farsælla fyrir íbúana, umhverfið og efnahaginn.
Flokksráðsfundur Vinstri grænna leggur áherslu á að svæðisfélög hefji nú þegar undirbúning að öflugum framboðum í öllum sveitarfélögum í vor, þar sem stefnumál og forgangsröðun hreyfingarinnar skipta sköpum fyrir samfélagið allt á næstu fjórum árum.

Ályktun um umhverfismál

Flokksráðsfundur VG haldinn 17.-18. ágúst 2013 mótmælir virkjanastefnu ríkisstjórnarinnar. Yfirlýsingar ráðherra gefa til kynna að ekki standi til að virða þá sögulegu niðurstöðu sem í rammaáætlun er fólgin. Varað er við því að mikilvæg náttúrusvæði verði færð úr verndarflokki rammaáætlunar og að hætt verði við friðlýsingar ómetanlegra svæða. Skipting ráðuneyta gefur enn fremur til kynna að ríkisstjórnin líti á umhverfismál sem afgangsstærð. Náttúran á alltaf að njóta vafans. Bregðast verður við öllum hættumerkjum af ábyrgð. Okkur ber að ganga vel um landið okkar og nýta auðlindir okkar og náttúru af skynsemi og stefna að náttúrvernd, okkar sjálfra vegna og komandi kynslóða.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search