Search
Close this search box.

Ályktanir flokksráðs 17. – 18. október 2014

Samþykkt:

Stjórnmálaályktun flokksráðsfundar

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, hvetur þjóðina til órofa baráttu gegn þeirri hörðu hægristefnu sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi næsta árs og ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára. Eftir ríflega árssetu er ríkisstjórn hægriaflanna rúin trausti þorra þjóðarinnar. Aðgerðir hennar í efnahagsmálum eru endur-tekning á þekktum aðgerðum frá fyrra samstarfi þessara tveggja flokka sem olli samfélaginu á endanum miklu og langvarandi tjóni. Öll teikn eru á lofti um alvarlegar afleiðingar af stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem ber að taka alvarlega ekki síst í ljósi fyrri reynslu. Ríkisstjórnin hefur ekki sinnt samráði við verkalýðshreyfinguna og hörð átök blasa við á vinnumarkaði.

Í fjárlagafrumvarpinu birtist skýr sýn ríkisstjórnarinnar um að færa Ísland frá því að vera norrænt velferðarsamfélag af því tagi sem best gerist á hinum Norðurlöndunum yfir í að verða að nokkurskonar tilraunaverkefni fyrir hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar með sílækkandi hlutfalli samneyslunnar.

Fundurinn telur brýnt að horfið verði af þessari óheillabraut  og fjárlög næstu ára verði nýtt til að byggja aftur upp öflugt velferðarsamfélag á Íslandi. Meðal brýnustu verkefna að þessu leyti eru að bæta kjör launafólks ekki síst í menntakerfis og velferðarþjónustu. Mikilvægt er að þær breytingar verði gerðar í samhengi við kjarabætur annarra hópa þannig að sá hagvöxtur sem framundan er nýtist til að bæta kjör þeirra sem lægri tekjur hafa og tryggi þannig jafna dreifingu gæðanna. Sérstaklega þarf að bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja og grípa til aðgerða gegn vaxandi kynbundnum launamun og versnandi stöðu kvenna á vinnumarkaði. Atvinnuleysi eykst meðal kvenna þegar kreppunni er að ljúka og verður langvinnara.

Löngu tímabært er að hefja uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu með byggingu nýs Landspítala og eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Eðlilegast og hagkvæmast er að byggja nýjan spítala á hefðbundin hátt sem opinbera framkvæmd og hana er hægt að fjármagna með tekjuöflun án þess að selja grunnstoðir ríkisins.

Þá er ljóst að í fjárlagafrumvarpinu felst aðför að framhaldsskólunum þar sem ætlunin er að útiloka eldri nemendur úr kerfinu. Auk þess er stórlega skorið niður í verk- og starfsnámi þrátt fyrir yfirlýst markmið um annað og leynt og ljóst er stefnt að því fækka kennurum með áformum um einhliða styttingu náms í stað sveigjanleika. Þá eru því miður engin skref stigin til að leiðrétta stöðu innlendra háskóla sem eiga langt í land með að ná meðaltali háskóla í OECD hvað varðar fjárframlög á nemanda.

Flokksráðsfundurinn gagnrýnir harðlega yfirvofandi breytingar á skattkerfinu sem létta álögur stóreignafólks  og stórútgerða og færa þyngri byrðar á barnafjölskyldur, aldraða, öryrkja og aðra sem verja stærri hluta ráðstöfunartekna sinna í mat og aðrar lífsnauðsynjar. Fundurinn krefst þess að virðisaukaskattur verði ekki hækkaður á matvæli og bækur og að þvi þrepaskipta skattkerfi sem tekið var upp að norrænni fyrirmynd í kjölfar efnahagshrunsins verði viðhaldið. Það gegndi lykilhlutverki í að verja kjör lág- og millitekjufólks og vinna þannig gegn ójöfnuði eins og alþjóðlegar rannsóknir sýna. 

Flokksráðsfundurinn varar við því andvaraleysi sem ríkisstjórnin sýnir í loftslags- og umhverfismálum. Í stað þess að fylgja fordæmi nágrannaríkja sem hafa ráðast í umfangsmiklar grænar skattabreytingar og eflingu loftslagsrannsókna, hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að lækka kolefnis- og losunargjöld og skera niður til rannsókna og þróunar í loftslagsmálum. Loftslagsmálin eru stærsta mál okkar samtíðar og krefjast tafarlausra aðgerða í stað þess afturhvarfs til fortíðar sem ríkisstjórnin boðar.

Ástand alþjóðamála kallar á gagngera endurskoðun á utanríkisstefnu Íslands og fleiri vestrænna þjóða. Ljóst er að sú hernaðarhyggja sem ráðið hefur för á alþjóðavettvangi undanfarna áratugi, með tilheyrandi átökum í Írak, Afganistan, Sýrlandi, Líbýu og nú síðast í Palestínu og Úkraínu, er ekki að skila árangri. Hernaðarbrölt vestrænna ríkja hefur því miður alið af  sér enn meiri ófrið. Vænlegri leið fyrir Ísland til að skapa friðvænlegri heim væri að fylgja settum markmiðum í samþykktri þróunarsamvinnuáætlun í stað þess að leggja hundruð milljóna í nýjar höfuðstöðvar NATÓ eins og ríkisstjórnin leggur til. Þá geta Íslendingar lagt sitt af mörkum til friðvænlegri heims með því að berjast gegn mansali og nauðungarflutningum kvenna og barna milli landa og heimsálfa.

Ríkisstjórn Íslands hefur í hverju málinu af öðru tekið ákvarðanir og lagt fram tillögur sem auka á ójöfnuð, félagslega aðgreiningu og færa samfélagið í áttina frá velferð til frjálshyggju.  Blikur eru á lofti hvað varðar einkavæðingu almannaþjónustunnar og sölu ríkiseigna, hvert tækifæri er nýtt til að ráðast að opinberum starfsmönnum auk þess sem gamaldags vinnubrögð dúkka upp þegar ráðherrar taka einhliða ákvarðanir um flutninga á stofnunum eða sameiningar þeirra án nokkurs samráðs. 

Núverandi ríkisstjórnin hefur ekkert umboð til slíkra aðgerða og þarf að endurskoða stefnu sína í þessum efnum. Ef þessari þróun verður ekki snúið við er heiðarlegra fyrir ríkisstjórnina að skila inn umboðinu en að ráðast í grundvallarbreytingar á samfélaginu sem enginn meirihlutavilji er fyrir í meðal almennings.

Tillaga um stofnun stjórnarskrárhóps Vinstri grænna

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, ályktar að stofnaður verði stórnarskrárhópur Vinstri grænna til að fjalla um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Hópurinn taki til umfjöllunar fyrirliggjandi tillögu stjórnlagaráðs sem og fleiri tillögur sem félagar Vinstri grænna kunna að leggja fram/óska eftir umræðu um.

Ályktun um lágmarksviðmið fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, beinir því til þingflokks Vinstri grænna að beita sér gegn öllum hugmyndum um að heimila skerðingar á fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur það hlutverk að vera öryggisnet fyrir þá sem engar aðrar bjargir hafa. Einnig skorar fundurinn á þingflokkinn að beita sér gegn fyrirhugaðri skerðingu á hámarksrétti til atvinnuleysisbóta úr þremur í tvö og hálft ár. Sá gjörningur mun hafa skelfilegar afleiðingar fyrir langtímaatvinnulausa og skerða réttindi launafólk svo um munar. Mikilvægt er að hverfa frá ríkjandi ölmusuhugarfari og hækka bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur þannig að þau endurspegli raunverulegan framfærslukostnað. Á sama tíma skal breyta lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að framfærslustyrkur sveitarfélaga sé skilgreindur sem fast hlutfall af umræddum bótum og hækki árlega.

Tillaga um frelsi fjölmiðla

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, vill að stutt verði við frjálsa fjölmiðlun í dreifðri eignaraðild með styrkjum til útgáfu eins og gert er í löndum sem við berum okkur saman við. Fundurinn vill að fylgt verði eftir lögum um fjölmiðla þar sem gert er ráð fyrir að fjölmiðlar setji sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði, þar sem starfsskilyrði fjölmiðlafólks eru tryggð. Fundurinn vill að sérstakur stuðningur verði við svæðisbundna fjölmiðlun og fjölmiðlun frá jaðarsvæðum. Fjárhagslegur stuðningur komi einnig fram í því að hið opinbera beini áskriftum sínum og auglýsingum að fjölmiðlum sem uppfylli skilyrði um gagnsæja eignaraðild. Flokksráðfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs skorar á Alþingi að verja fjárhag Ríkisútvarpsins í fjárlagafrumvarpinu og skila útvarpsgjaldinu heilu og óskertu þangað til framtíðar.

Flokksráðið hvetur einnig til þess að leitað verði samstarfs út fyrir landsteinanna til að efla menntun og sjálfstæði blaða- og fréttamanna. Norræni Blaðamannaháskólinn verði hvattur til að halda málþing og ráðstefnur á Norðurlöndum um ritstjórnarlegt frelsi og komið verði upp norrænni vefsíðu sem miðlar upplýsingum um stöðu fjölmiðla og flytji fréttir af fjölmiðlunum sjálfum í því skyni að verja sjálfstæði þeirra og efla. Tillaga svipuð þessari verður lögð fram í Norðurlandaráði nú í haust.

Ályktun um mikilvægi samfélagslegs rekstrar

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, ályktar að mikilvægt sé að fyrirtæki og stofnunir sem sinna grunnþjónustu okkar samfélags, svo sem að tryggja fólki neysluvatn, heitt vatn, rafmagn og grunnvirki fjarskipta verði í samfélagslegri eigu og öllum landsmönnum aðgengilegt. Jafnframt hafnar fundurinn hugmyndum núverandi ríkisstjórnar um frekari einkavæðingu skóla og velferðarþjónustu. Arður af rekstri slíkra fyrirtækja og stofnana er fólginn í mikilvægi þeirra fyrir samfélagið, en ekki krónum í arðgreiðslum til eigenda. Verði peningalegur arður af rekstri slíkra fyrirtækja, þá er brýnt að hann renni til sameiginlegra verkefna. Því ber að sporna gegn einkavæðingu innviða samfélagsins. Reynslan sýnir að einkavæðing hefur jafnan í för með sér aukin kostnað almennings og lakari þjónustu. Almannaþjónusta í samfélagseigu er einn af hornsteinum velferðarsamfélagsins.

Ályktun um atvinnulífið

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, skorar á Alþingi að bregðast þegar við hringamyndun í íslensku
atvinnulífi. Aðgerðir í þessar veru gætu t.d. falist í en yrðu ekki takmarkaðar við:

  • að samkeppnislöggjöf verði styrkt og skýrð til þess að koma í veg fyrir hringamyndun
  • að ákvæði um tengda aðila t.d. í lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, fjármál stjórnmálahreyfinga og lög um stjórn fiskveiða verði styrkt til muna.
  • að ákvæði verði sett inn í áðurnefnd lög um að fyrirtækjum sé skylt að birta upplýsingar um þá einstaklinga sem reynd eiga umrædd fyrirtæki
  • að sett verði í lög um fjölmiðla, skýr mörk um hámarkseign aðila í óskyldum rekstri,

starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka verði aðskilin.

Náttúran skal njóta vafans

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, leggst eindregið gegn þeirri nýtingarhyggju sem fram kemur í orðum og gerðum ríkisstjórnarinnar.

Vinstri græn krefjast þess að ekki verði hróflað við Þjórsárverum og að horfið verði frá öllum áformum um veitulón við Norðlingaöldu hverju nafni sem nefnist og náttúruperlum eins og Dynk, Kjálkaversfossi og Gljúfurleitarfossi verði þyrmt.

Vinstri græn mótmæla harðlega áformum um að færa  Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk á grundvelli gamals umhverfismats. Hvorki  er tekið tillit til athugasemda um samfélagsleg áhrif virkjunar, áhrifa á landslag, náttúru né annarra sjónarmiða er varða sjálfbærni, og sumar athugasemdanna eru raunar ekki einu sinni teknar til umfjöllunar við úrvinnslu tillögunnar. Fundurinn krefst þess að aðferðafræði Rammaáætlunar verði virt við allar ákvarðanir og að við endurskoðun náttúruverndarlaga verði ekki hvikað frá grundvallarsjónarmiðum um almannarétt, varúðarreglu og vistkerfisnálgun sem er að finna í þeim lögum sem samþykkt voru í tíð síðustu ríkisstjórnar og bíða gildistöku.   Engin sátt verður um aðra leið en að  – náttúran  njóti vafans!

Um verkfallsréttinn

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, mótmælir harðlega árásum Alþingis á verkfallsréttinn sem launafólk hefur ítrekað verið svift með lagasetningu síðustu ár. Verkföll eru öflugasta og eitt fárra baráttutækja launafólks fyrir bættum kjörum í borgaralegu og kapítalísku samfélagi.

Lágmarkslaun í landinu eru undir fátækramörkum og leggjast ríkisstjórnin og aðrir atvinnurekendur á eitt að halda þessum launum niðri og jafnvel skerða afkomu venjulegs launafólks. Vinstri grænna stendur heilshugar með baráttu láglaunafólks í komandi samningaviðræðum og þeirri baráttu sem framundan er í vetur.

Innanríkisráðherra segi af sér

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, telur ljóst að innanríkisráðherra sé ekki sætt í embætti. Fundurinn telur með öllu óviðunandi að viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitanda hafi verið lekið frá skrifstofu innanríkisráðherra í fjölmiðla. Fundurinn gagnrýnir einnig harðlega  að ráðherra hafi ekki farið rétt með gagnvart þinginu í málinu og að ráðherra hafi haft bein afskipti af rannsókninni í samskiptum sínum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Þannig eru í raun fleiri en eitt sjálfstætt tilefni fyrir ráðherra til að segja af sér embætti. Loks átelur fundurinn þær kauðalegu tilfæringar ríkisstjórnarinnar að flytja dómsmálin til annars ráðherra án þess að fagleg eða efnisleg rök liggi til grundvallar.

Um Íbúðalánasjóð

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, vill að þingflokkur Vinstri grænna beiti sér fyrir því að Íbúðalánasjóður geti nýtt húseignir sínar til að  efla félagslegt húsnæðiskerfi sveitarfélaga.

Þingsályktunartillaga um NATO

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, fylgi fast eftir þingsályktunartillögu þingflokks Vinstri grænna um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu, NATO. Í ljósi þess að utanríkisráðherra hefur lýst yfir vilja til að ná þverpólitískri samstöðu um þjóðaröryggisstefnu Íslands er ráð að vísa til þjóðarinnar veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu og marka þess í stað stefnu um borgaraleg þjóðaröryggismál sem ætla má að náist breiðari samstaða um.

Stöndum á bakvið þingsályktunartillögu um auðlegðarskattinn

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, hvetur Vinstri græn til að fylgja fast eftir þingsályktunartillögu Steingríms J. Sigfússonar, Svandísar Svavarsdóttur og Steinunnar Þóru Árnadóttur um að lagður verði á tímabundinn og réttlátur auðlegðarskattur sem renni óskiptur í byggingarsjóð Landsspítala háskólasjúkrahúss. Jafnframt er áréttað að það er ekki nóg að byggja hús ef launakjör starfsfólksins eru svo bág að það kýs umvörpum að flytja til útlanda og vinna þar á hærra kaupi.

Ályktun um griðasvæði hvala

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, ályktar að stofna skuli á nýjan leik og stækka griðasvæði hvala í Faxaflóa sem afmarkist af línu sem dregin sé frá Eldey í suðri og að Öndverðarnesi í norðri. Þetta griðasvæði mun tryggja vernd hvalanna frá veiðum og styðja við hvalaskoðun sem er mikilvægur vaxtarsproti í ferðaþjónustu.

Ályktun um Palestínu

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, fordæmir glæpsamlegt framferði Ísraelsríkis gegn íbúum Gazasvæðisins í 51 dags árásarstríði í júlí og ágúst síðastliðnum. 2200 manns voru drepnir, þar af 510 börn, eða 10 börn á dag. Eyðileggingin er ógurleg og um 100 þúsund manns eru heimilislaus. Þúsundir barna og fullorðinna eru örkumla. Ky-Moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna og fleiri hafa lýst óhugnaðinum sem við augum blasir á Gaza sem ólýsanlegum. Draga verður þá sem ábyrgð bera á stríðglæpum fyrir dómstóla.

Landránið heldur áfram á Vesturbakkanum og þar með er talin Austur-Jerúsalem þar sem nýlega voru tilkynnt áform um 2610 nýjar íbúðir með landtöku.

Fundurinn fagnar því að loks skuli einhver viðbrögð verða á Vesturlöndum við ofbeldisstefnu Ísraels gegn nágrönnum sínum. Ný stjórn í Svíþjóð hefur tilkynnt að viðurkenna eigi sjálfstæði Palestínu og breska þingið samþykkti nánast einróma ályktun í sömu veru.

Þrjú ár eru síðan Ísland viðurkenndi Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá 1967. Alþingi áréttaði einnig rétt palestínsks flóttafólks til að snúa heim aftur. Þessi stefnumótun er lofsverð og einsdæmi ef litið er til annarra þjóðþinga á Vesturlöndum. Henni þarf að fylgja eftir, bæði með öflugri samstöðu, hjálparstarfi og þátttöku í uppbyggingu sem fyrir dyrum stendur.

Flokksráðsfundurinn fagnar myndun einingarstjórnar í Palestínu og að nú er stefnt að kosningum í landinu á grundvelli sátta og gagnkvæmrar virðingar helstu stjórnmálaafla.

Fundurinn áréttar stuðning Íslands við sjálfsákörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar sem felur meðal annars í sér að viðurkenna hver þau stjórnvöld sem Palestínumenn kjósa sér.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search