Ályktun um innri vef á heimasíðu flokksins
Með það að markmiði að bæta og auka samskipti milli félagsmanna flokksins felur flokkráðsfundur stjórn og skrifstofu að koma upp innri vef á heimasíðu VG í anda vefsíðna eins og betrireykjavik.is og betraisland.is.
Greinargerð:
Með slíkum innri vef væri hægt að taka fyrstu umræðu um tillögur fyrir flokksráðsfundi og landsfund áður en til fundar er komið og nýta betur takmarkaðan fundartíma okkar. Einnig væri hægt að safna saman tillögum sem kjörnir fulltrúar okkar setja fram og taka innanflokksumræður um þær. Slíkur innri vefur væri einnig aðstoð fyrir hópastarf innan flokksins og gefa þeim sem eiga um langan veg að fara aukið tækifæri á að taka þátt í stefnumótun innan flokksins.
Ályktun um að aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi.
Flokksráð fagnar að ráðuneyti bankamála skuli vera komin á ábyrgð Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs og felur nýskipuðum ráðherra bankamála að flytja frumvarp til laga um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka sem þingmenn flokksins hafa flutt endurtekið á fyrri þingum.
Greinagerð:
Þetta frumvarp var áður lagt fram á a.m.k 3 löggjafarþingum fyrir hrun en
náði þá ekki fram að ganga og er því full ástæða til að endurflytja það. Svo
hafa mál reyndar skipast í íslensku fjármálalífi að nú er brýnna en nokkru
sinni að lögfesta þær breytingar á lagaumhverfi íslenskra fjármálafyrirtækja
sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Með frumvarpinu er lagt til að þrengri
skorður verði settar svokallaðri hliðarstarfsemi viðskiptabanka, sparisjóða og
lánafyrirtækja. Veigamesta breyting frumvarpsins felst þó í því að takmarka
starfsheimildir viðskiptabanka og sparisjóða með þeim hætti að þeim verði
óheimilt að kaupa verðbréf eða hlutabréf í fyrirtækjum í því skyni að
endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila, sameina hana annarri starfsemi, skrá
viðkomandi verðbréf og selja þau almenningi. Slík starfsemi hefur verið flokkuð
sem fjárfestingarbankastarfsemi og gerir frumvarpið ráð fyrir því að einungis
lánafyrirtækjum eins og þau eru skilgreind í lögunum verði heimil slík
starfsemi. Með þessu er framkallaður skýr aðskilnaður milli viðskiptabanka- og
fjárfestingarbankastarfsemi. Þá er í frumvarpinu lögð sú skylda á herðar
fjármálafyrirtækja sem stunda tímabundið aðra starfsemi skv. 22. gr. að tryggja
að aðkoma þeirra skekki ekki samkeppni á viðkomandi sviði. Í þessu felst t.d.
að banka yrði með öllu óheimilt að fjármagna taprekstur fyrirtækis á
samkeppnismarkaði og gera því kleift að keppa með ósanngjörnum hætti við
samkeppnisaðila með undirboðum eða öðrum slíkum aðferðum í skjóli hins öfluga
fjármálalega bakhjarls. Sjá má frumvarpið í heild sinni hér: http://www.althingi.is/altext/136/s/0014.html
Ályktun um landsdóm
Flokksráðsfundur lýsir yfir andstöðu sinni við þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að Alþingi grípi inn í starf landsdóms og hvetur fulltrúa sína á þingi að berjast gegn framgangi þess.
Greinargerð:
Vinstrihreyfingin Grænt framboð telur að uppgjör við ábyrgðarmenn hrunsins vera afgerandi fyrir framtíð lands og þjóðar. Tillaga Bjarna Benediktssonar er hluti af tilraun til að hindra það ferli og er í andstöðu við hagsmuni þorra íslensku þjóðarinnar.
Ályktun um hernaðarmál
Flokksráð VG áréttar að flokkurinn skuli ávallt, á vettvangi ríkisstjórnar eða á annan hátt, berjast gegn hernaðaraðgerðum eða hernaðaríhlutun. Auk þess lýsir flokksráðið andstöðu sinni við heræfingar NATO ríkja hér á landi og skorar á ráðherra flokksins að vinna að því að leggja þær af.
Ályktun um fiskveiðimál
Flokksráð VG samþykkir að VG beri að fylgja fast eftir samþykktri stefnu flokksins í fiskveiðistjórnunarmálum og breyta kvótakerfinu á þann hátt að núverandi kvótaréttindi verði aflögð samhliða því sem ný stefna verði innleidd. Jafna skal rétt fólks til að stunda útgerð, tryggja hag sjávarbyggða og skila sanngjörnu afgjaldi af nýtingu auðlindarinnar í sameiginlega sjóði þjóðarinnar.
Ályktun um lánamál
Flokksráð VG vill að VG hafi frumkvæði að því að móta leiðir til að draga úr skuldavanda heimila og fyrirtækja. Brýnt er að afnema verðtryggingu og leiðrétta þá okurvaxtabyrði og auknu skuldabyrði sem hún hefur valdið eftir hrun fjármálakerfisins. Fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins eru sérstaklega hvött til að ganga á undan með góðu fordæmi.
Ályktun um byggðakvóta
Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 24.-25. febrúar ályktar að hætt verði að úthluta byggðakvóta endurgjaldslaust. Sett verði á sanngjarnt arðgjald sem renni til þeirra sveitarfélaga sem byggðakvóta er úthlutað til.
Greinargerð: Byggðakvóta er eins og nafnið gefur til kynna ætlað að nýtast byggðum landsins og bæta upp fyrir brotthvarf kvóta úr sjávarþorpum. Hann nær hins vegar ekki fyllilega markmiði sínu þar sem takmarkaður hluti verðmætanna verður eftir í byggðunum – og í sumum tilfellum nánast enginn − en ágóðinn rennur til þeirra útgerða sem kvótann fá að nýta. Flest fyrirtækin eru einkahlutafélög sem greiða engin gjöld til sveitafélaganna.. Eðlilegt er að byggðarlögin njóti verðmætanna í ríkara mæli en nú er og er því lagt til að sett verði sanngjarnt arðgjald á byggðakvótann í samráði við sveitafélögin, sem renni beint til sveitarfélaganna sem kvótann fá.
Ályktun um stuðning við frjálst Tíbet
Flokkráðsfundur Vinstri Grænna, haldinn að Grand hóteli, Reykjavík, 24. og 25. febrúar lýsir áhyggjum vegna stöðu Tíbets og ítrekaðra mannréttindabrota gagnvart Tíbetsku baráttufólki og krefst þess að Kínversk stjórnvöld taki upp opinberar friðar- og samningaviðræður við Tíbetsku útlagastjórnina.
Ályktun um stuðning við Sýrlenska Þjóðarráðið
Flokkráðsfundur Vinstri Grænna, haldinn að Grand hótel, Reykjavík, 24. og 25. febrúar ályktar að Ísland skuli lýsa yfir stuðningi við Sýrlenska Þjóðarráðið (Syrian national council) og viðurkenna það sem réttmætan fulltrúa Sýrlensku þjóðarinnar.
Sindri Geir Óskarsson
Ályktun um Hverahlíðarvirkjun
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í
Reykjavík 24.-25. febrúar 2012, geldur mikinn varhug við framkomnum hugmyndum
um svokallaða verkefnisfjármögnun Hverahlíðarvirkjunar sem í reynd felur í sér
einkavæðingu á hluta fyrirtækisins. Orkuveita Reykjavíkur og verkefni hennar
hafa til þessa verið alfarið í eigu íbúa í Reykjavík, Borgarbyggð og á Akranesi
og hugmyndum um aðkomu einkaaðila hefur blessunarlega verið hafnað. Skemmst er
að minnast þess þegar allir flokkar í borgarstjórn Reykjavíkur undu ofanaf
vanhugsaðri sölu á hlut REI til einkaaðila.
Þótt lífeyrissjóðirnir séu vissulega í eigu almennings er eðli þeirra og
markmið ólíkt sveitarfélögunum, enda ber þeim fyrst og fremst að ávaxta fé
eigendanna á meðan sveitarfélögin verða að gæta samfélagslegra sjónarmiða og
umhverfissjónarmiða samhliða þeim fjárhagslegu. Orkuveita Reykjavíkur hefur
farið geyst í virkjun jarðhitans á Hellisheiði og hefur ekki enn getað leyst
öll þau vandamál sem fylgdu í kjölfarið. Ekki er ljóst hvernig fyrirtækið
hyggst vinna í samræmi við kröfur í reglugerð um brennisteinsvetni né heldur
hefur fundist viðunandi lausn á niðurdælingu affallsvatns frá núverandi
virkjunum. Á meðan þessi og fleiri úrlausnarefni eru enn til skoðunar er varla
réttlætanlegt að ráðast í frekari virkjanir. Auk þess er það ærið verkefni að
koma fyrirtækinu aftur á réttan kjöl eftir óábyrgar offjárfestingar
undanfarinna ára.
Flokksráð hvetur því sveitarstjórnir á svæðinu til að fara sér hægt og gera það
sem hægt er til að vinda ofanaf samningum sem krefjast frekari
virkjanaframkvæmda á svæðinu og einbeita sér að því að tryggja heilnæmt
umhverfi og lífsskilyrði á svæðinu.