Stytting vinnuvikunnar
Flokksráðsfundur Vinstri grænna haldinn á Akureyri 30. september til 1. október 2016 fagnar jákvæðri niðurstöðu úr tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar og áform um að útvíkka tilraunina. Jafnframt hvetja Vinstri græn fleiri sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir til að feta í fótspor Reykjavíkurborgar. Tilraunaverkefnið var unnið að frumkvæði Vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur og sýna niðurstöður jákvæð áhrif á starfsfólk, framleiðni og þjónustu. Það er mat stýrihóps verkefnisins sem Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG fór fyrir, að niðurstöðurnar séu almennt jákvæðar og það sé vel þess virði að halda áfram með frekari tilraunir á þessu sviði. Framleiðni á Íslandi er minni en í nágrannalöndunum og álag í starfi hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér á heilsu og líðan starfsfólks. Það er eitt stærsta skrefið í auknum lífsgæðum að stytta vinnuvikuna án þess að skerða laun og leið til að launafólk fái notið ávaxta aukinnar velmegunar.
Gleymum ekki spillingu í tíð núverandi ríkisstjórnar
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Akureyri 30. september til 1. október 2016, vill halda til haga að ástæðan fyrir því að nú er gengið til kosninga eru endurtekin spillingarmál á kjörtímabilinu.
Íslendingar sýndu í verki með því að fjölmenna á Austurvöll eftir birtingu Panamaskjalanna að stjórnarhættir og spilling ríkisstjórnarinnar verði ekki liðin og að þjóðin léti þetta ekki yfir sig ganga. Þrátt fyrir að það hafi unnist stórsigur þegar ákveðið var að flýta kosningum má ekki gleyma því að ekki var orðið við kröfum þjóðarinnar um að til kosninga yrði boðað strax. Boðað hefði átt til kosninga strax og aðilar sem voru beintengdir við spillinguna hefðu átt að verða við kröfum þjóðarinnar og segja strax af sér.
Gleymum ekki fyrir næstu kosningar!
Réttindabarátta hinsegin fólks
Flokkráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 30. september til 1. október 2016, harmar voðaverkið í Orlando sem átti sér stað í júní. Það minnir okkur á það ofbeldi, fordóma og hatur sem enn ríkir gagnvart hinsegin fólki út um heim allan. Baráttan gegn þessu hatri er gríðarlega mikilvæg. Mannréttindabrot gagnvart hinsegin fólki eiga sér ennþá stað víða í heiminum og margir lifa í hræðslu við það að sýna sitt rétta sjálf af ótta við ofbeldi eða útskúfun. Það er gríðarlega sorglegur raunveruleiki sem fjöldi fólks býr við.
Vinstri græn munu halda áfram að berjast fyrir og standa vörð um mannréttindi og berjast gegn fordómum og hatri gegn hinsegin fólki.
Ungt fólk til áhrifa
Flokkráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Akureyri 30. september til 1. október 2016 fagnar aukinni þátttöku ungs fólks í stjórnmálum, en ungt fólk hefur orðið meira áberandi í stjórnmálaflokkum undanfarin ár. Það er tími til kominn að næsta kynslóð taki þátt í stjórnun landsins. Það er mjög mikilvægt að auka sýnileika ungs fólks í pólitík og þar með hvetja til frekari stjórnmálaþátttöku ungs fólks og mætingar á kjörstað. Raddir unga fólksins verða að fá að heyrast!
Ungt fólk á landsbyggðinni
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Akureyri 30. september til 1. október 2016, telur að brýn þörf sé á betri þjónustu fyrir ungt fólk á landsbyggðinni. Ungt fólk á landsbyggðinni á erfiðara að sækja sér menntun og atvinnu en þeir sem að búa á höfuðborgarsvæðinu. Heilbrigðisþjónusta er ekki nægilega aðgengileg og samgöngur misgóðar. Námsmenn sem koma af landsbyggðinni standa höllum fæti. Í frumvarpi menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna er lagt til að tekjutengingar afborgana námslána verði afnumdar og þak sett á lánsupphæðina. Ef það nær fram að ganga mun aðstöðumunurinn verða ennþá meiri, þar sem ungt fólk utan af landi tekur gjarnan hærri lán heldur en ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu.
Það er brýnt að huga betur að ungu fólki á landsbyggðinni. Jafnrétti óháð búsetu verður ekki raunhæft nema með róttækum aðgerðum svo sem búsetustyrk, skattaívilnunum auk aukins framboðs á tækifærum til náms og atvinnu.
Umhverfisvænni matvælaframleiðsla
Ísland hefur burði til að vera að mestu sjálfbært um mat og er það mikilvægt bæði út frá umhverfislegum og lýðheilsulegum sjónarmiðum. Flokkráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Akureyri 30. september til 1. október 2016, vill standa vörð um innlendan landbúnað. Innflutt matvæli geta haft gríðarstórt vistspor hvort sem þau eru flutt með flugi eða skipum til landsins, auk þess sem notkun sýklalyfja og skordýraeiturs í landbúnaði er hverfandi á Íslandi miðað við mörg þeirra landa sem við kaupum matvæli frá. Því hvetjum við til þess að stórlega verði dregið úr innflutningi á matvælum sem hægt er að rækta eða framleiða á Íslandi.
Á Íslandi er hægt að fara í framsæknar aðgerðir til að auka nýsköpun í landbúnaði, til að mynda með því að lækka raforkuverð til grænmetisbænda og styðja tilraunir til ávaxtaræktunar. Sérstaklega mætti þar styðja lífrænan og vistvænan landbúnað.
Framleiðsla og neysla á dýraafurðum skilur eftir sig stórt vistspor. Grípa ætti til aðgerða til þess að styðja betur við innlenda grænmetis- ávaxta, bauna- og kornframleiðslu og styðja við leiðir til að auka grænmetis-, bauna- og kornneyslu þjóðarinnar.
Einnig viljum við koma á lögum sem taka á matarsóun, þar sem gríðarlegu magni matar er sóað á Íslandi á ári hverju. Banna ætti heildsölum og stærri verslunum að henda neysluhæfum mat, líkt og gert hefur verið í Frakklandi. Með því að draga stórlega úr matarsóun er tekið stórt skref í átt að umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Takmarkanir ætti einnig að setja á það sem að veitingastaðir og mötuneyti mega henda.
Stöndum vörð um fjölskyldubúin
Flokkráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Akureyri 30. september til 1. október 2016, vill að staða fjölskyldubúa verði styrkt með öllum ráðum og unnið gegn þeirri þróun að landbúnaður á Íslandi verði verksmiðjubúskapur þar sem framleiðsla á kjöti og mjólk safnist á fáar hendur. Í Bandaríkjunum og í Suður-Ameríku má sjá skelfilegar afleiðingar verksmiðjuvæðingar landbúnaðar, það bitnar ekki aðeins á dýrunum heldur einnig á neytendum þar sem mikil sýklalyfjanotkun fylgir oft og tíðum verksmiðjubúskap. Hvatt er til framsækinna aðgerða með dýraverndunarsjónarmið að leiðarljósi, þar sem skoðað verði að setja þak á fjölda dýra sem hver og einn lögaðili má halda. Landbúnaður er ein af grundvallarstoðum samfélagsins og það þarf að vera mögulegt að lifa af því að reka býli sem er innan eðlilegra stærðarmarka.
Gegn plasti
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 30. september – 1. október, vill að stjórnvöld grípi til lagasetningar og aðgerða sem miða að því að útrýma notkun einnota plasts og geri einnig ráðstafanir til að hefta útbreiðslu þess. Þá þarf sérstaklega að huga að því að koma í veg fyrir útbreiðslu örplasts í vistkerfið en örplast má finna í ýmsum hversdagslegum vörum.
Samkvæmt nýlegri samnorrænni rannsókn er ljóst að skólphreinsikerfi á Íslandi eru mun verr í stakk búin til að skilja örplast frá skólpi sem veitt er til sjávar en á hinum Norðurlöndunum. Hefur það vægast sagt varhugaverðar afleiðingar fyrir vistkerfið og er plastmengun í hafi grafalvarlegt og umfangsmikið mál. Ljóst er að ráðast þarf tafarlaust í endurbætur á skólphreinsikerfum á landsvísu til að sporna við vandanum. Örplastsmengun í hafi er mikið áhyggjuefni en við henni þurfa sveitarfélög að bregðast, m.a. með því að takmarka útbreiðslu þess í fráveitukerfum sínum.
Einnig þarf að ráðast að rótum vandans og koma í veg fyrir óþarfa plastnotkun. Í því skyni leggur fundurinn til að stefnt verði markvisst að því að draga úr plastnotkun í framleiðslu og neyslu á öllum sviðum samfélagsins. Hvetur fundurinn ríki og sveitarfélög til að láta hendur standa fram úr ermum svo framleiðendur og neytendur geti fetað braut ábyrgrar framleiðslu og vistvænna innkaupa.
Stórátak í þrífösun rafmagns í dreifbýli
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að ef stefna VG í atvinnu-, byggða- og efnahagsmálum sem og í landbúnaði eigi að standast og hafa raunverulega merkingu þurfi að gera stórátak í að tryggja aðgang að þriggja fasa rafmagni í dreifbýli. Sú staða sem er uppi í dag hamlar verulega nýsköpun, sem og uppbyggingu ferðaþjónustu víða um land. Matvælaframleiðsla er undirstöðuatvinnugrein í dreifbýli og öll tæki sem framleiðslan krefst eru hönnuð fyrir þriggja fasa straum. Sama gildir um ferðaþjónustu, þar sem eldunartæki og þvottavélar sem sú þjónusta krefst eru þriggja fasa. Samkvæmt núverandi skipulagi stjórnvalda eiga allir bæir landsins að hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni árið 2035. Fundinum þykir þetta það víður tímarammi að búsetu sé stefnt í hættu á stórum hluta þeirra 1700 lögbýla sem um ræðir. Leggur fundurinn til að hafið verði stórátak með það fyrir augum að þriggja fasa rafmagn verði komið á stærstan hluta þessara bæja strax á næsta kjörtímabili.
Málefni barna með fjölþættan vanda
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur afar brýnt að ríkisstjórn og Alþingi leysi úr þeim ágreiningi sem ríkt hefur milli ríkis og sveitarfélaga í málefnum barna með fjölþætta vanda. Það liggur fyrir að kostnaðurinn við málaflokkinn ætti að koma í hlut ríkisins og það er ótækt að togstreita og ágreiningur milli þjónustuaðila og stjórnsýslukerfa bitni á börnum með fjölþættan vanda og fjölskyldum þeirra. Úr þessu þarf að leysa tafarlaust með skýru lagafrumvarpi.