Almenn stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Hlégarði, Mosfellsbæ 4. mars 2017.
Víða um heim eru blikur á lofti í stjórnmálum og félagslegu réttlæti er ógnað. Ríkisstjórn Íslands er skipuð flokkum sem sameinast um hægristefnu, hafna því að sækja meira fjármagn til auðugasta fólksins í landinu og víkja sér undan að byggja upp þá innviði sem samfélagið þarf svo sárlega á að halda. Í stað skatta á fjármagn og auðlindanýtingu er stefnt að aukinni gjaldtöku á almenning. Samgöngukerfið verður vanrækt líkt og hjá fyrri ríkisstjórn, heilbrigðisþjónustuna á að nýta til aukins einkagróða, þar sem fjármagn verður sótt í sameiginlega sjóði okkar – sjúkratryggingar, með aukinni einkavæðingu og einkarekstri, menntakerfið býr áfram við þrengingar og húsnæðismál liggja í láginni. Vinstrihreyfingin – grænt framboð stendur vaktina í stjórnarandstöðu ásamt öðrum félagslega sinnuðum öflum innan þings og utan og kallar eftir samstöðu þeirra afla til að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á íslensku samfélagi. Mannréttindi, sjálfbærni og jöfnuður eru í fyrirrúmi, hér eftir sem hingað til, við viljum tryggja réttlæti og félagslegan jöfnuð öllum til handa, óháð aldri, kyni, búsetu, þjóðerni, lífsskoðun, heilsu og efnahag. Stærstu viðfangsefni nýrrar aldar eru að stemma stigu við ójöfnuði og hlúa að lýðræði um allan heim, verja náttúruna fyrir gráðugum peningaöflum og berjast gegn loftslagsbreytingum sem ógna lífi á jörðinni. Vinstrihreyfingin grænt framboð heldur þessum sjónarmiðum til haga og mun sjá til þess að þessar stóru spurningar verði á dagskrá stjórnmálanna. Ísland á að vera sterk rödd í alþjóðasamfélaginu í þágu friðar og jöfnuðar.
Ályktun um samgöngumál
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Hlégarði, Mosfellsbæ 4. mars 2017, lýsir megnri óánægju með vinnubrögð samgönguráðherra og nýrrar ríkisstjórnar í vegamálum. Ógagnsæ og geðþóttakennd vinnubrögð við val verkefna sem sum fá fullan framgang meðan önnur eru skorin niður við trog eru ekki boðleg. Sveltistefna í vegamálum frá tíð fyrri ríkisstjórnar heldur áfram í tíð þessarar. Það er í hróplegu ósamræmi við málflutning flestra ef ekki allra flokka fyrir kosningar þar sem uppbygging innviða var leiðarstef. Flokksráð VG krefst þess að ný, endurskoðuð samgönguáætlun verði lögð fyrir Alþingi og þar verði auknum fjármunum varið til að tryggja framgang brýnustu nýframkvæmda.