Search
Close this search box.

Ályktanir flokksráðs 15. febrúar 2015

Samþykkt:

Styðjum baráttu launafólks

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs styður framkomnar launakröfur  verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst réttlátar kröfur um hækkun lægstu taxta, og leggur áherslu á að í góðu samfélagi verður fólk að geta lifað af dagvinnulaunum sínum. Nýjar kannanir ASÍ hafa sýnt að lægstu laun á Íslandi eru um 30% lægri en laun í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Lágmarkslaun dagvinnu á Íslandi duga einfaldlega ekki fyrir brýnustu þörfum.

Tekjuskipting hefur jafnast lítillega á síðustu árum en sá árangur er í hættu. Rannsóknir sýna að æ færri einstaklingar í samfélaginu sitja að auði og afrakstri þjóðarinnar og misskipting fer hraðvaxandi. Það er ekki fátækt íslensks samfélags sem veldur of lágum launum og sárri fátækt þúsunda landsmanna heldur misskipting auðsins. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar miða allar að því að auka þessa misskiptingu, m.a. með afnámi auðlegðarskatts, hækkun matarskatts og boðuðum aðgerðum um að afnema þrepaskipt skattkerfi.

Láglaunastefnan er grundvallarþáttur í bágum kjörum almennings. Í komandi kjarasamningum verður tekist á um hana og stefnir í hörð átök. En ýmislegt fleira kemur til, svo sem ófremdarástand á húsnæðismarkaði, aukin kostnaðarþátttaka í heilbrigðis- og menntakerfinu og stytting atvinnuleysisbótatímabilsins og ófullnægjandi lífeyrir. Úrbætur í þeim efnum eru brýnar en eiga þó ekki að verða skiptimynt í kjarasamningum.



Gegn einkavæðingu opinberra háskóla

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs varar við stefnu menntamálaráðherra um að breyta rekstrarfyrirkomulagi Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) og Háskólans á Hólum og sameina þessa skóla Háskólanum á Bifröst undir hatti einnar sjálfseignarstofnunar. Ekki hafa verið færð nein fagleg rök fyrir þessari sameiningu og í raun virðist hún fyrst og fremst eiga að fækka opinberum stofnunum og einkavæða tvo opinbera háskóla. Landbúnaðarháskóli Íslands  er ein af grunnstoðum landbúnaðar í landinu auk þess að hafa á undanförnum áratugum skapað sér sérstöðu með kennslu í umhverfis- og náttúrufræði. Mikilvægt er að stjórn hans og umsýsla sé í höndum ríkisins en ekki einkaaðila. Sömu rök eiga við um Hólaskóla, eina elstu menntastofnun landsins.


Orkustofnun fari að lögum og virði niðurstöðu rammaáætlunar

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vekur athygli á þeim vinnubrögðum Orkustofnunar, að vísa nú nýlega 50 virkjanahugmyndum til verkefnisstjórnar um rammaáætlun.  Orkustofnun er ríkisstofnun og ber að fara að lögum og samþykktum Alþingis.  Í staðinn velur hún að gerast erindireki orkugeirans, með því að endurlífga fjölda virkjanahugmynda, sumar gamlar en í nýjum búningi, með nýtt nafn og kennitölu. Óþolandi er að stofnun á vegum ríkisins leyfi sér að vísa gömlum virkjanahugmyndum sem búið er að hafna og færa í verndarflokk Rammaáætlunar,  í nýtt ferli sem stefnir að virkjun. 

Kjalölduveita er einn af þeim 50 virkjanahugmyndum sem Orkustofnun vísaði til rammaáætlunar.  Við fyrstu sýn virðist hún vera ný virkjunarhugmynd sem aldrei hefur verið fjallað um áður á vettvangi Rammaáætlunar.

Eins og kemur fram í gögnum Landsvirkjunar og Orkustofnunar er hins vegar um að ræða nýja útfærslu,  verkhönnun eða lausn, á hluta af Norðlingaölduveitu sem var í verndarflokki rammaáætlunar. Þá friðlýsingu afboðaði  umhverfisráðherra fyrirvaralaust.  Kjalölduveita á að færa vatn úr Þjórsá í Þórisvatn.  Nýtt lón, Grjótakvíslarlón á að tengjast Kvíslaveitu í Illugaveri.  Þá hverfur vatn úr Þjórsá á svæði allra stórfossa hennar á hálendinu.  Með því fara Dynkur, Kjálkaversfoss og Gljúfurleitarfoss aftur í afvötnun og verða ekki svipur hjá sjón.

Að vísa Kjalölduveitu til verkefnastjórnar athugasemdalaust sem nýrri hugmynd,  er dæmi um vinnubrögð sem verður að breyta.  Verið er að brjóta leikreglur sem fulltrúar allra flokka á Alþingi komu sér saman um. Að endurlífga hugmyndir um virkjanir sem búið er að hafna og setja svæðin sem þær áttu að vera á í verndarflokk, er að rjúfa sátt um vinnubrögð.  Sáttin er rofin með milligöngu Orkustofnunar, til að komast hjá því að virða niðurstöðu rammaáætlunar.


Til varnar almannaþjónustunni

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafnar frekari einkavæðingu og einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu og almennt í velferðarkerfinu. Rétt eins og á bóluárunum fyrir hrun eru allar líkur á að aukin einkavæðing færi tiltölulega litlum hópi auknar tekjur á kostnað almennings og ýti þannig undir enn meiri misskiptingu. Það er ljóst að margir hafa mikinn áhuga á að komast þar í mögulegar matarholur í framhaldi af þeirri einkavæðingu og braski sem átti sér stað á þensluárunum fyrir hrun. Almennt er einkarekstur í velferðarkerfinu ekki samfélagslega hagstæður og víða hefur einkavæðing að lokum fært reksturinn í hendur alþjóðlegra fyrirtækja, sem fyrst og fremt eru rekin í hagnaðskyni, og skilið söluhagnað eftir í höndum einkaaðila.


Til varnar almannaréttinum

Fundurinn leggst eindregið gegn náttúrupassa þeim sem iðnaðarráðherra boðar enda felur hann í sér markaðsvæðingu náttúrunnar og aðför að almannaréttinum. Þess í stað verði skattkerfið nýtt til að afla fjár til framkvæmda á ferðamannastöðum í því skyni að koma í veg fyrir náttúrueyðileggingu og greiða götu ferðamanna. Samsett tekjuöflun er sú leið sem vænlegust er til að skapa sem breiðasta samstöðu um þetta mikilvæga úrlausnarefni.

Gögn um viðræður verði gerð opinber

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs telur ástæðu til að taka alvarlega til athugunar hvort Ísland eigi að halda áfram þátttöku í viðræðum um TISA-samninginn . Auk þess krefst  fundurinn þess að gögn sem varða viðræðurnar verði gerð opinber að fullu. Fundurinn varar eindregið við áformum um aukið viðskiptafrelsi í heilbriðisþjónustu. Á sínum tíma var mjög reynt að auka viðskipti með ýmisskonar almannaþjónustu gegnum GATS-samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Hér virðist sá þráður tekinn upp með það að markmiði að stórauka markaðsvæðingu almannaþjónustunnar þvert á landamæri. Óásættanlegt er að Ísland taki þátt í slíkum viðræðum um grundvallarbreytingar á samfélaginu án þess að um þær fari fram opin og lýðræðisleg umræða þar sem ekkert er dregið undan.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search