Search
Close this search box.

Ályktanir landsfundar 1999

Samþykkt:

Atvinnu- og byggðamál

Mikilvægt er að breyta þeirri þróun sem á undanförnum árum hefur orðið í atvinnu- og byggðamálum á Íslandi, nota þær leiðir sem til eru  til að styrkja byggð um land allt og leita af hyggindum og hugkvæmni fleiri tækifæra til að skapa fjölbreytta atvinnumöguleika, jafna laun og lífskjör, bæta möguleika til menntunar og tryggja jafnrétti Íslendinga hvar á landinu sem þeir búa.

Byggðaröskun á borð við þá sem orðið hefur á Íslandi á undanförnum árum er alvarlegt vandamál samfélagsins alls en ekki eingöngu viðkomandi byggðarlaga eða fólksins sem þar býr. Ástæðurnar eiga sér m.a. rætur í óhagstæðri stjórnarstefnu, niðurskurði opinberrar þjónustu, miðlægri stjórnsýslu og þeirri einkavæðingar- og markaðshyggju sem ráðið hefur ríkjum á Íslandi undanfarin ár. Með því m.a. að breyta þessum þáttum verða stigin mikilvæg skref til betri vegar.

Alvarlegt atvinnuástand í mörgum byggðarlögum og skortur á virðingu fyrir náttúruauðlindum eru bein afleiðing af röngum áherslum og úreltum vinnubrögðum þar sem hagsmunir stórfyrirtækja og fjármagnseigenda hefa gengið fyrir hagsmunum fólks og náttúru.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að mikilvægasta auðlind framtíðarinnar er fólgin í fólkinu sem í landinu býr verði því sköpuð tækifæri til blómlegrar búsetu þar sem fjölbreytt gæði íslenskrar náttúru til lands og sjávar eru nýtt af virðingu og skynsemi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að markvisst verði unnið að því að tryggja viðhald og viðgang fjölbreytts mannlífs og lifandi samfélags um allt land.

 Leiðir að því markmiði eru m.a. að

 • gert verði sérstakt átak  til nýsköpunar í atvinnulífi á landsbyggðinni. Sérstök áhersla verði lögð á störf fyrir konur
 • tryggja að aðgerðir í byggðamálum nái til einstaklinga og fyrirtækja í viðkomandi byggðarlögum. Það má t.d. gera með breytingum í skattkerfinu
 • styrkja mikilvæga grunnþjónustu samfélagsins um land allt s.s. með því að fjölga framhaldsskólum, efla fjarnám, bæta heilsugæslu og tryggja mönnun heilbrigðis­stofnana
 • flýta fyrirhuguðum framkvæmdum í samgöngumálum og hefja framkvæmd við ný og mikilvæg verkefni sem yrðu til að bæta samgöngur bæði innan byggðarlaga og milli byggða, einkum á Austurlandi, Norðurlandi og á Vestfjörðum
 • bæta fjarskipti og auka flutningsgetu grunnnetsins til að tryggja að öll byggðarlög landsins njóti sambærilegra möguleika í fjarskiptaþjónustu.
 • hefja þegar í stað framkvæmdir við að koma 3ja fasa rafmagni í öll byggðarlög og um allar sveitir landsins
 • efla vistvænar strandveiðar og byggða- eða búsetutengja veiðiréttindi og fiskvinnslu

Efnahagsmál

Á undanförnum árum hefur misskipting farið vaxandi á Íslandi.  Hún stafar af djúptækum breytingum á efnahagslegri og félagslegri byggingu þjóðfélagsins.  Félagsleg úrræði á ýmsum sviðum hafa verið skert og dregið hefur verið úr öryggi velferðarkerfisins.  Á sama tíma hafa lögmál óheftra markaðsafla styrkst mjög í sessi. Allan þennan áratug hafa stjórnvöld á Íslandi kynt undir þessari þróun, einkavætt mörg fyrirtæki sem voru í eigu hins opinbera og breytt rekstrarformi annarra í því augnamiði að gera þau að söluvöru.  Stjórnarstefnan hefur veikt félagslegar stoðir samfélagsins og ýtt undir misskiptinguna með þeim afleiðingum að láglaunafólk, barnafólk, atvinnulausir, öryrkjar og fleiri hópar eiga erfiðara um vik að bæta stöðu sína í samfélaginu.

Helstu einkenni þessara breytinga eru:

 • að alþjóðavæðing fjármagnsins þrengir stöðugt að lýðræðinu og möguleikum til að beita félagslegum úrræðum
 • fyrirtæki sem áður voru í þjóðareign hafa verið einkavædd
 • óheyrileg auðsöfnun á sér stað í tengslum við verslun með veiðiheimildir
 • skattkerfinu er breytt þannig að skattbyrði fólks með lágar tekjur og meðaltekjur eykst á sama tíma og dregið er úr sköttum á fyrirtæki og fjármagnseigendur
 • heilbrigðis- og skólakerfi er svelt með þeim afleiðingum að aðgangur að grunnþáttum velferðarþjónustunnar ræðst í vaxandi mæli af fjárhag einstaklingsins
 • hagsmunir fjármagnseigenda hafa stöðugt meiri áhrif á mótun samfélagsins og staða þeirra gagnvart launafólki og styrkist
 • markaðsvæðing húsnæðiskerfisins og stórfelld skerðing félagslegra úrræða veldur ófremdarástandi hjá tekjulági fólki

Framtíðarsýn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er þjóðfélag þar sem allir landsmenn njóta sömu réttinda og búa við sem jafnasta aðstöðu þannig að allir geti notið sín og lifað mannsæmandi lífi.  Á meðal þeirra úrræða sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að gripið verði til þegar í stað eru eftirfarandi:

 • að velferðarþjónustan verði stórefld og rekin af hinu opinbera
 • að gripið verði til markvissra aðgerða til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins
 • að stuðningur við barnafólk verði stóraukinn
 • að kjör öryrkja verði bætt og skerðingar vegna tekna maka lagðar af
 • að lægstu laun verði hækkuð stórlega og kynbundnu launamisrétti útrýmt
 • að kjör aldraðra verði bætt, m.a. með hækkun grunnlífeyris
 • að tekið verði sérstakt tillit til náttúruverndarsjónarmiða við stjórn efnahagsmála, m.a. með því að taka upp græna þjóðhagsreikninga


Samþykktir Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um flokksstarf

Um sveitarstjórnarmál og sveitarstjórnarkosningar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs telur mikilvægt að hefja þegar undirbúning fyrir næstu sveitastjórnarkosningar. Markmiðið verði að Vinstrihreyfingin-grænt framboð geti látið til sín taka og rödd sína heyrast með myndarlegum hætti á vettvangi sveitastjórnarmála eftir atvikum með framboðum í eigin nafni eða í samstarfi við aðra.

Fundurinn felur flokksstjórn að koma á fót starfshópi um sveitastjórnarmál sem fái það verkefni að móta áherslur í sveitastjórnarmálum og koma á samstarfi og tengslum sveitastjórnarmanna og áhugafólks um sveitastjórnarmál.

Um kjara- og verkalýðsmál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur mikilvægt að hefja sérstaka umræðu um kjara- og verkalýðsmál innan flokks.  Fundurinn felur flokksstjórn að koma á laggirnar verkalýðsmálaráði innan flokksins.

Um hugmyndavinnu

Fundurinn samþykkir að stöðugt verði unnið að hugmyndafræðilegri vinnu innan flokksins.  Öllum tilögum þar að lútandi er vísað til stjórnar en jafnframt lögð áhersla á að jafnréttismál verði tekin fyrst fyrir í þessari vinnu.

Um útgáfumál

Fundurinn samþykkir að leggja til við flokksstjórn að hún skipi starfshóp til að vinna að útgáfu vefrits og að miðla pólitísku fræðsluefni á netinu.

Um starf ungs fólks innan flokksins

Fundurinn samþykkir að stjórn gangist nú þegar fyrir stofnun starfshóps ungs fólks sem móti tillögur um starf á vettvangi ungs fólks í flokknum.

Um alþjóðlegt samstarf

Fundurinn leggur áherslu á að ákvarðanir um samstarf við stjórnmálaflokka og samtök erlendis verði vandlega undirbúnar.  Fundurinn felur stjórn og þingflokki að móta tillögur um slíkt samstarf og kynna stöðu þeirra mála á næsta landsfundi.

Skóla- og menntamál

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að mannúð og mannauður séu lykilorð öflugrar mennta- og menningarstefnu og lítur svo á að tryggja beri öllum börnum og unglingum þau skilyrði til náms að tekið sé tillit til sérstöðu hvers og eins, þroska einstaklingsins og hæfileika. Menntun, vísindi og listir eru sameign manna og eiga að vera sameiginlegt viðfangsefni þjóðarinnar. Listirnar, menningararfurinn og skólastarfið þurfa að mynda órofa heild.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hvetur ríki og sveitarfélög til að standa fyrir fjölbreyttu nýbreytni og þróunarstarfi í skólum sínum og auka tækifæri skólafólks til að vinna að þróunarverkefnum á öllum skólastigum. Hreyfingin hafnar hugmyndum sem að undanförnu hafa skoðið upp kollinum um útboð í skólastarfi og leggur áherslu á að skólastjórnendur verða að vera uppeldislegir og faglegir leiðtogar skólanna. Á sama hátt er ítrekað að mikilvæg tengsl atvinnulífs og skólastarfs verða að vera á faglegum forsendum skólanna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð varar við fjölgun samræmdra prófa í grunnskólum og telur þau fjötra skólastarfið og hindra eðlilega samvinnu nemenda og kennara. Hins vegar er mikilvægt að skólar nýti sér til hins ýtrasta tækifæri skólanámskrárgerðar til að tengja öðru skólastarfi nýjar námsgreinar og námsgreinar sem hingað til hefur verið ætlaður takmarkaður tími, s.s. umhverfisfræðslu, útikennslu og alþjóðavitund. Leggja þarf sérstaka áherslu á kennslu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og undirbúa kennara á öllum skólastigum undir að sinna þörfum slíkra nemenda. Ennfremur er brýnt að tryggja að allir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum fái góða menntun í verk- og listgreinum og í því sambandi er nauðsynlegt að leggja grunn að öflugu samstarfi listamanna og skóla þannig að listamenn geti starfað innan skólanna af reisn og á forsendum sinna listgreina.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill auka möguleika til framhaldsnáms á landsbyggðinni og fjölga framhaldsskólum þannig að ungt fólk eigi sem lengst kost á að stunda nám í sinni heimabyggð. Hreyfinginn telur mikilvægt að efla Lánasjóð íslenksra námsmanna og varar við þeirri þróun að sjóðurinn verði markaðsvæddur og fluttur yfir í bankakerfið, því hlutverki LÍN verður aldrei sinnt af sanngrini eigi lögmál markaðarins að ráða starfseminni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að allt sé gert til að efla menntun á háskólastigi, en mótmælir þeirri fjárhagslegu spennitreyju sem háskólar verða að undirgangast vegna þjónustusamninga við stjórnvöld. Á þann hátt er verið að pína stofnanirnar til að leggja á skólagjöld í auknum mæli og það eykur enn á misrétti til náms. Sömuleiðis eru stofnanir hraktar út á þá braut að leita fjárstuðnings frá atvinnulífinu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er hlynnt tengslum milli menntastofnana og atvinnulífs á jafnréttisgrundvelli, en telur hættu felast í því að gera menntastofnanir háðar fjárframlögum einstakra atvinnufyrirtækja. Vísindarannsóknir í þágu atvinnulífs munu verða máttlausar ef hendur vísinda- og fræðimanna eru bundnar af fjárframlögum fyrirtækja.

Fullorðinsfræðsla, símenntun og endurmenntun fullorðinna á framhalds- og háskólastigi er þegar orðinn snar þáttur í þjóðfélaginu og verður æ brýnni eftir því sem tækniþróun verður örari. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur mikla áherslu fjölbreytta símenntun fyrir alla, bæði til þess að fólk eigi þess kost að þróa og endurnýja eldri menntun, takast á við ný menntunarsvið og að fólki gefist kostur á fjölbreyttri menntun til almennrar lífsfyllingar.

Leiðir til að ná fram þessum markmiðum skóla- og menntamála eru m.a.:

 • að tryggt verði að sérhvert sveitarfélag sé fjárhagslega fært um að standa að skólastarfi í samræmi við ákvæði í lögum og aðalnámskrá
 • að leikskólastig verði eflt og tryggt að öll börn eigi kost á námi í leikskóla
 • að framhaldsskólum og framhaldsnámsleiðum á landsbyggðinni verði fjölgað
 • að Lánasjóður íslenskra námsmanna verði efldur og gert kleift að veita nemendum jafnan aðgang að námi óháð efnahag og búsetu
 • að grunnnám kennara í leikskólum og grunnskólum verði fjögurra ára háskólanám
 • að horfð verði frá öllum hugmyndum um útboð í skólastarfi, þjónustusamninga og einkavæðingu skólastarfs, s.s. einkavæðingu einstakra námsbrauta bæði í iðnnámi og háskólanámi
 • að fjölgað verði tækifærum fólks um allt land til ódýrrar símenntunar, endur- og viðbótarmenntunar.

Umhverfismál

Íslendingar standa eins og aðrar þjóðir frammi fyrir vali á milli raunverulegrar umhverfisverndar og óheftrar sóknar í aukin lífsgæði.  Þessi staða birtist okkur bæði í innlendri stjórnmálaumræðu og alþjóðlegu samstarfi á sviði umhverfisverndar.  Sú ríkisstjórn sem nú situr á Íslandi hefur afráðið að láta áframhaldandi efnahagsvöxt hafa algeran forgang umfram náttúruverndarsjónarmið og hunsa markmið um sjálfbæra þróun.  Afleiðingar stjórnarstefnunnar eru m.a. eftirfarandi:

harðar deilur um virkjanaframkvæmdir á Fljótsdal

Ísland hefur málað sig út í horn í alþjóðasamstarfi um loftslagsvernd með því að undirrita ekki Kyoto-bókunina

lög um mat á umhverfisáhrifum hafa ekki verið endurskoðuð þrátt fyrir lagaákvæði þar að lútandi og alþjóðlegar skuldbindingar

framtíð verkefnisins Staðardagskrár 21, sem miðar að sjálfbærri þróun, er í uppnámi vegna fjárskorts

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nauðsynlegt að gera heildaráætlun um verndun og nýtingu vatnsfalla og jarðhitasvæða þar sem allir stærri virkjanakostir séu metnir með tilliti til hagkvæmni og náttúruverndarsjónarmiða.  Brýnt er að þróa íslenskt atvinnulíf í átt til sjálfbærrar nýtingar auðlinda og vistvænna framleiðsluferla.  Þá er mikilvægt að gera átak í frárennslismálum og skolphreinsun víða um landið og efla flokkun og endurvinnslu á sorpi.  Jafnframt er það skylda íslenskra stjórnvalda á hverjum tíma að axla sömu ábyrgð og ríkisstjórnir annarra iðnvæddra ríkja í alþjóðlegu samstarfi um umhverfisvernd.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á

 • að fram fari lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar
 • að Ísland verði þegar aðili að Kyoto-bókuninni um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda
 • að öll áform um virkjanir í þágu mengandi stóriðju verði lögð til hliða
 • að nýir orkugjafar leysi innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi
 • að teknir verði upp grænir þjóðhagsreikningar til að meta fórnarkostnað náttúruverðmæta í samhengi við efnahagslegan ávinning stórframkvæmda
 • að skattkerfið verði notað til að hvetja til umhverfisverndar, m.a. með grænum sköttum og skattaívilnunum
 • að auknu fjármagni verði veitt til gróðurverndar á Íslandi
 • að tryggðar verði fjárveitingar til áframhaldandi vinnu við Staðardagskrá 21

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search