Search
Close this search box.

Ályktanir landsfundar 2003

Samþykkt:

Réttlæti án landamæra – stjórnmálaályktun

Frá stjórnmálahópi

Yfirskrift og meginstef þriðja landsfundar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er Réttlæti án landamæra. Með þessu móti vill Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggja áherslu á víðan sjóndeildarhring og baráttu fyrir réttlátum heimi.

Heimsvæðingin felst að sumu leyti í samþjöppun auðmagns og útþenslu og sífellt meiri áhrifum og yfirráðum stórfyrirtækja. Þessi þróun hefur valdið alþýðu víða um heim miklum búsifjum. Hins vegar opnar heimsvæðingin okkur einnig ný sóknarfæri jafnframt því sem hún leggur okkur skyldur á herðar. Einstaklingar og hópar í fjarlægum heimshornum geta nú kallast á, skipst á skoðunum og bundist böndum í baráttu fyrir betri heimi. Heimsvæðingin opnar þannig lýðræðinu nýja farvegi, sem nýta má til uppbyggingar og til að takast á við viðfangsefni sem eru knýjandi á heimsvísu: Að auka jafnrétti og jöfnuð í heiminum og búa í haginn fyrir framtíðina með því að stuðla að sjálfbærri þróun á öllum sviðum.

* Undir kjörorðinu Réttlæti án landamæra viljum við kveða niður hernaðarhyggju og gera heiminn friðvænlegri en hann er nú.

* Undir kjörorðinu Réttlæti án landamæra viljum við bæta stöðu þróunarlandanna með því að losa kverkatak alþjóðafjármagnsins á snauðum þjóðum.

* Undir kjörorðinu Réttlæti án landamæra einhendum við okkur í baráttu fyrir mannréttindum í heiminum.

* Undir kjörorðinu Réttlæti án landamæra viljum við vinna að kvenfrelsi og berjast af alefli gegn misnotkun og mansali.

* Undir kjörorðinu Réttlæti án landamæra viljum við leggja áherslu á samábyrgð og samhjálp þvert á öll landamæri og stuðla þannig að raunverulegu frelsi einstaklinga og þjóða

* Undir kjörorðinu Réttlæti án landamæra viljum við vinna að sjálfbærri þróun á öllum sviðum með líf komandi kynslóða í huga.

* Undir kjörorðinu Réttlæti án landamæra viljum við að Ísland leggi sitt af mörkum til að draga úr hnattrænni mengun á öllum sviðum með öflugri þátttöku í alþjóðasamningum.

Heimsvæðingin skiptir allan heiminn máli

Til þessa hafa auðvaldsöflin verið ráðandi um gang alþjóðavæðingarinnar og áhrif þeirra eru afgerandi í þeim fjölþjóðastofnunum sem mest láta hana til sín taka. Umræðunni hefur verið haldið lokaðri en Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur skipað sér í framvarðarsveit þeirra sem vinna að því að opna þessa umræðu og færa hana inn á lýðræðislegan vettvang. Þetta er umræða sem varðar líf okkar allra. Heilbrigðisþjónustan, menntakerfið, vatnið og rafmagnið, allt það sem myndar grunnþjónustu velferðarsamfélags ber að efla og bæta. Hvarvetna þar sem farið hefur verið að kröfum fjármagnsins um að einkavæða þessa þjónustu hafa afleiðingarnar verið slæmar, sums staðar hörmulegar. Ofan af þessu er nú flett í hverju landinu á fætur öðru og tala dæmin skýru máli: Hrun einkavæddra rafmagnskerfa, rándýr heilbrigðisþjónusta sem mismunar þegnunum eða vatnsveitur sem mala gull fyrir eigendur sína en er ekki haldið við í þágu notendanna. Um heim allan berjast fjöldahreyfingar nú með vaxandi styrk fyrir því að hindra frekari sókn fjármálaaflanna inn í grunnþjónustu samfélagsins og víða hefur tekist að endurheimta til almennings þjónustu sem áður hafði verið einkavædd.

Á sama hátt og fjármagnsöflin heimta alþjóðavæðingu á sínum forsendum er það hlutverk og skylda félagslegra hreyfinga að treysta lýðræðið í sessi. Þannig eiga heimsvæðingin og baráttan fyrir sjálfsákvörðunarrétti og sjálfstæði þjóðanna samleið. Þetta er kjarninn í alþjóðahyggju Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Okkar nálgun er í því fólgin að styrkja lýðræðið heima fyrir og treysta undirstöður velferðar.

Fjölbreytni í atvinnulífi

Lykilhugtak í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er fjölbreytni á sjálfbærum grunni. Búa þarf vel að hefðbundnum atvinnuvegum en jafnframt skapa nýjum greinum hagstæð vaxtarskilyrði og auka fjölbreytni þess. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að íslenskt atvinnulíf verði þróað með hliðsjón af hagsmunum landsmanna allra og því þurfa byggðasjónarmið að hafa vægi við ákvarðanatöku. Jafnframt ber að stuðla að því að atvinnulífið lagi sig að alþjóðlegri þróun og nýti þau tækifæri sem bjóðast í viðskiptum og taki þá um leið fullt tillit til réttinda launafólks í viðkomandi löndum. Því ber að fagna hve mörg íslensk fyrirtæki hafa sótt með góðum árangri á erlenda markaði.

Kjarabaráttan

Vinstrihreyfingin – grænt framboð styður af alefli baráttu launafólks fyrir bættum kjörum. Vinstrihreyfingin grænt framboð veit að kjaramisrétti verður aldrei útrýmt nema með samstöðu og baráttu fyrir stórbættum kjörum láglaunafólks. Vinstrihreyfingin grænt framboð vill fylkja sér með baráttuölflum innan verkalýðshreyfingarinnar og samtaka öryrkja og aldraðra um að koma á jöfnuði og félagslegu réttlæti í landinu.

Fjölskyldan

Íslendingar eiga að geta verið meðal fremstu þjóða á sviði velferðar og almannaþjónustu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að velferðarþjónustan sé öllum landsmönnum opin. Hvers kyns mismunun á grundvelli efnahags á ekki að líðast. Kröfum um niðurskurð og einkavæðingu ber að vísa algerlega á bug og hefja þess í stað kröftuga sókn við að byggja velferðarþjónustuna betur upp. Efla verður forvarnir, útrýma þarf biðlistum á heilbrigðisstofnunum og tryggja öryrkjum og öldruðu fólki húsnæði og aðstoð eftir þörfum þess og óskum. Styðja ber alla til að hafa þak yfir höfuðið. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að efla menntakerfið á öllum stigum þess.

Jafnréttið

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á fullt jafnrétti kynjanna og jöfnuð allra landsmanna. Markviss barátta til að útrýma fátækt á Íslandi er forgangsverkefni. Þjóðin má ekki sætta sig við að hópar sem skortir afl og stöðu til að sækja sinn rétt búi við lakari kjör en aðrir. Nýir landsmenn eiga að fá sérstakan stuðning þegar þeir setjast hér að í nýju landi með framandi tungu og menningu. Aðgengi og þátttaka fatlaðra eru sjálfsögð borgaraleg réttindi. Hvers kyns mismunun verði bönnuð með lögum og viðurlög sett við brotum á þeim. Kvenfrelsi er mikilvæg forsenda jafnréttis kynjanna og ein af grundvallarforsendum kvenfrelsis er efnahagslegt sjálfstæði. Útrýma ber kynbundnum launamun. Mikilvægt er að berjast af alefli gegn vændi og öðru kynferðislegu ofbeldi.    

Umhverfið

Ísland á enn möguleika á að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála og náttúruverndar. Framtíðarsýn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs einkennist m.a. af þeim tækifærum sem felast í nýtingu náttúruauðlinda á forsendum sjálfbærrar þróunar. Lífskjör og velferð núlifandi kynslóða mega ekki byggja á því að náttúrugæðum sé spillt og gengið á rétt þeirra sem erfa landið. Framtíð afkomenda okkar er undir því komin að skammtímahagsmunir, neysluhyggja og gróðafíkn víki fyrir verndun umhverfis og varðveislu náttúrugæða. Virkjun hugvits og þekkingar er lykillinn að farsælu atvinnulífi og samfélagi í sátt við þá náttúru sem við berum ábyrgð á.

Friðarhyggjan

Á alþjóðavettvangi eiga Íslendingar að vera málsvarar jafnréttis og friðar og jafnframt beita sér af alefli gegn heimsvaldastefnu og hernaðarhyggju stórveldanna. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að Ísland verði herlaust land og standi utan hernaðarbandalaga. Breytt viðhorf innan Nató með áherslu á svokallaðar fyrirbyggjandi aðgerðir opna enn frekar en áður á þá hættu að þessu hernaðarbandalagi verði beitt sem árásartæki í þágu bandarískrar heimsvaldastefnu.

Ekki aðeins orð, heldur aðgerðir

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lætur ekki sitja við orðin tóm, heldur setur fram skýrar hugmyndir um hvernig pólitískum markmiðum hreyfingarinnar verði hrint í framkvæmd. Við höfum þegar lagt fram tillögur um grundvallarbreytingar á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Við viljum byggðatengja veiðikvóta og greiða fyrir strandveiðum og notkun vistvænna veiðarfæra. Tillögur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eru raunhæf leið til breytinga. Við leggjum áherslu á nýjar leiðir til að styrkja íslenskan landbúnað og treysta byggð í sveitum landsins. Í því skyni hefur Vinstrihreyfingin grænt framboð sett fram tillögur um búsetutengdan grunnstuðning og eflingu lífræns landbúnaðar. Á þann hátt er opnað á fjölbreyttari möguleika til nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins auk þess sem íslenskum landbúnaði yrði auðveldað að undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga. Við höfum lagt fram tillögur um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og viljum tryggja þeim aðgang að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu, en einnig ráðgjöf og aðstoð við kynningar- og markaðsstarf. Við viljum bæta hag barna og fjölskyldna þeirra og höfum m.a. sett fram útfærðar hugmyndir um sameiginlegt átaksverkefni ríkis og sveitarfélaga til þess að tryggja megi gjaldfrjálsan leikskóla enda er leikskóli orðinn hluti af menntakerfi okkar. Við höfum sett fram tillögur um eflingu félagslegs forvarnastarfs sem lið í aðgerðum til að berjast gegn notkun ávana- og fíkniefna og bæta andlegt og líkamlegt heilbrigði fólks. Við höfum flutt fjölda tillagna um aðgerðir til þess að taka á orsökum kynbundins ofbeldis. Við höfum sett fram tillögur um skipulega samvinnu ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða um uppbyggingu félagslegs húsnæðis auk opinberra stofnstyrkja til byggingar leiguíbúða. Við viljum efla lýðræði og upplýsta umræðu og höfum ítrekað sett fram tillögur um þjóðaratkvæði um mikilvæg málefni. Við höfum sett fram tillögu um friðun ákveðinna svæða á hafsbotni til að hindra frekara tjón en orðið er á lífríki og uppvaxtarskilyrðum nytjastofna. Við höfum sett fram markvissar tillögur um þjóðgarða og friðun svæða vegna þess að í slíkum aðgerðum felst ekki aðeins varðveisla náttúruverðmæta heldur einnig ómetanleg tækifæri til framtíðar. Við höfum flutt tillögur um hvernig eigi að standa að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum við brottför bandaríska hersins.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það hvernig við viljum sjá stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á borði sem í orði.

Lokaorð

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði heitum því að standa áfram vaktina í öllu stóru og smáu. Við búum nú við ríkisvald sem er svo heillum horfið að þörf er á sterku aðhaldi. Við munum ekki aðeins veita það aðhald, heldur teflum við fram hugmyndum til breytinga og framfara á öllum sviðum. Við skulum hefja til vegs gildi innihaldsríkra lífsgæða og stuðla að hugarfarsbreytingu meðal landsmanna. Við viljum treysta í sessi þann skilning að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að virða lögmál hennar og vinna með henni í öllum sínum athöfnum. Við heitum því að standa áfram vörð um gildi friðar og lýðræðis, samkenndar og samhjálpar. Okkur má treysta í vörn og einnig í sókn til framfara – til réttlætis án landamæra.

Um Palestínu, Írak og Miðnesheiði

Burt með múrinn! Aðskilnaðarmúrinn verði rifinn og friðargæslulið sent til Palestínu

Vinstrihreyfingin – grænt framboð krefst þess að ríkisstjórn Íslands beiti sér af alefli gegn hernámi Palestínu og leggist á sveif með þeim þjóðum sem vilja að friðargæslulið á vegum Sameinuðu þjóðanna verði þegar í stað sent á vettvang til að verja saklaust fólk gegn ofbeldisverkum ísraelska hersins. Ísraelsríki hefur frá upphafi rekið útþenslustefnu, virt að vettugi mannréttindi palestínsku þjóðarinnar og beitt hervaldi sínu miskunnarlaust gegn íbúum herteknu svæðanna, jafnt börnum sem fullorðnum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir furðu yfir því að íslenska ríkisstjórnin skuli ekki skilyrðislaust fordæma brot ísraelskra stjórnvalda gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna og þá kynþáttastefnu sem ísraelsk stjórnvöld reka og birtist nú síðast í hinum alræmda aðskilnaðarmúr.

Brotthvarf Bandaríkjahers frá Írak

Vinstrihreyfingin-grænt framboð skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að Bandaríkjaher hverfi strax frá Írak og að hinar Sameinuðu þjóðir taki við uppbyggingarstarfi í landinu í samráði við heimamenn. Ástandið í Írak og Miðausturlöndum er ógn við heimsfriðinn sem aðeins verður bægt frá með virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti íbúanna og stuðningi Sameinuðu þjóðanna.

Um lokun bandarísku NATO-herstöðvarinnar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fagnar því að útlit er fyrir að dregið verði úr umsvifum Bandaríkjshers á Íslandi. Við eigum að nota þetta sögulega tækifæri til að segja upp herstöðvarsamningnum frá 1951 og loka NATO-herstöðinni á Misnesheiði fyrir fullt og allt. Við viljum að Íslendingar eigi sér ímynd sem friðsöm þjóð. Sú ímynd fer ekki saman við að hafa hér hernaðaraðstöðu fyrir árásargjarnt stórveldi sem meirihluti Evrópubúa lítur nú á sem eina helstu ógnina við heimsfriðinn.

Umræða síðustu mánaða hefur sýnt að breytingar á herstöðinni eru óhjákvæmilegar. Þær þurfa að taka mið af hagsmunum íslensku þjóðarinnar en ekki bandarískra hernaðaryfirvalda. Draga verður Bandaríkjastjórn til ábyrgðar fyrir þeirri eyðileggingu sem herinn hefur valdið á umhverfi og náttúru. Íslenskum stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að herinn hreinsi til eftir sig í samræmi við ýtrustu kröfur, þótt reikna megi með að það kosti þúsundir ársverka. Jafnframt ber að kanna réttarfarslega stöðu sveitarfélaga og einstaklinga sem orðið hafa fyrir skakkaföllum af völdum hersetunnar og rétt þeirra til skaðabóta.

Herstöðin hefur komið í veg fyrir fjölbreytta og heilbrigða atvinnuþróun á Suðurnesjum, rétt eins og herstöðvar um allan heim gera. Við brottför hersins opnast óteljandi möguleikar til nýsköpunar í atvinnulífi á Suðurnesjum.

Ályktað um kjör og aðbúnað launafólks

Lúalegri aðför að atvinnulausu fólki verið hrundið

Vinstrihreyfingin – grænt framboð tekur undir kröfur ASÍ, BSRB og annarra samtaka launafólks um að ríkisstjórnin hverfi frá áformum sínum um að skerða atvinnuleysisbætur. Atvinnulaus einstaklingur fær nú í sinn hlut 77.449 krónur á mánuði. Ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga verður þessi upphæð lækkuð um 10.722 krónur á fyrsta mánuði atvinnuleysis. Þessar hugmyndir, sem koma frá sömu ríkisstjórn og áformar að leggja niður hátekjuskatt, eru lýsandi fyrir pólitískar áherslur hennar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun af alefli beita sér gegn þessum áformum ríkisstjórnarinnar og krefst þess jafnframt að atvinnuleysisbætur verði stórhækkaðar.

Aðgerðir til afnáms misréttis kynjanna

Þrátt fyrir aldalanga baráttu fyrir bættum kjörum kvenna eru konur á Íslandi enn með aðeins um 70% af launum karla. Þegar tillit hefur verið tekið til vinnutíma, menntunar, aldurs, starfsstéttar og starfsaldurs eru konur enn með 13-18% lægri laun en karlar. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að reikna burt launamuninn með tölfræðikúnstum en mikilvægt er að líta á heildarmyndina, þ.e. konur fá 70% af launum karla til að lifa á.

Mismunun hópa í launum er möguleg í skjóli launaleyndar og því ber að afnema hana sem fyrst. Áfangi á þeirri leið gæti verið að skylda fyrirtæki til að veita til dæmis Jafnréttisstofu kyngreindar launaupplýsingar svo hægt sé að fylgjast með þróuninni og grípa til aðgerða í hverju fyrirtæki fyrir sig. Þá er mikilvægt að trúnaðarmenn hafi aðgang að launaupplýsingum, en misbrestur hefur verið á að lögum um það sé framfylgt. Þá þurfa eftirlitsaðilar eins og Kjararannsóknarnefnd og Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna að kyngreina upplýsingar frekar en nú er, meðal annars með tilliti til aukagreiðslna sem oft eru notaðar til að hygla starfsfólki og hafa frekar fallið körlum í skaut en konum.

Þar sem konur eru oftar á strípuðum launum en karlar er mikilvægt að hækka lægstu laun í baráttunni fyrir afnámi kynbundins launamunar. Það ber að taka tillit til þessa í kjarasamningum svo og kynjasjónarmiða almennt. Liður í því er að jafna kynjahlutföllin við samningaborðin en þar hafa konur ekki átt greiðan aðgang hingað til.

Það hefur sýnt sig að þau viðmið sem notuð eru til að ákvarða laun fólks koma misjafnt við karla og konur. Því er nauðsynlegt að hafa öll viðmið gegnsæ og hlutlæg hvort sem um ræðir starfsmat eða ákvörðun um persónubundin laun.

Fram fari endurskoðun á lögum um réttindi verkafólks

Í ljósi framferðis verktakafyrirtækja við Kárahnjúka telur Vinstrihreyfingin – grænt framboð brýnt að fram fari endurskoðun á lögum til að tryggja að erlendir starfsmenn sem koma á vegum starfsmannaleiga til starfa á Íslandi njóti sömu réttinda og kjara og Íslendingar á vinnumarkaði.

Jafnframt verði ákvæðum laga um atvinnuleyfi erlendra starfsmanna, sem ekki hafa fengið varanlegt atvinnuleyfi, breytt á þann veg að leyfi verði bundin einstaklingi en ekki atvinnurekanda.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að stjórnvöldum ber skylda til að taka í taumana ef brotið er á launafólki eða þeim kröfum ekki sinnt sem almennt eru gerðar hér á landi um aðbúnað á vinnustað. Þetta gildir jafnt um erlend sem innlend fyrirtæki.

Hækkun lægstu launa

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs beinir því til fulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi að styðja af alefli kröfur um stórhækkun lægstu launa. Landsfundurinn tekur undir kröfur sem fram hafa komið á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar um að markið verði sett á 150 þúsund króna lágmarkslaun.

Ályktað um náttúruvernd og umhverfismál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á að grundvallaratriði sé að líta á náttúruna sem sjálfstæðan áhrifaþátt og rétt hennar til að þróast á eigin forsendum. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar verði ætíð hluti af ákvarðanatöku í samfélaginu.

Landsfundurinn fagnar framkominni náttúruverndaráætlun en lýsir vonbrigðum með metnaðarlausa tillögu umhverfisráðherra um friðlýsingar á grundvelli áætlunarinnar. Í því sambandi minnir fundurinn á tillögur þingflokks VG um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og verndun alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Fundurinn skorar á stjórnvöld að ganga hið fyrsta formlega frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs með þeim svæðum sem liggja að jöklinum og samkomulag tekst um við rétthafa og heimamenn að verði hluti af þjóðgarðinum.

Þá minnir fundurinn á að nýverið hefur verið lokið við gerð áfanga í Rammaáætlun um virkjanahugmyndir sem nú bíður kynningar. Með fyrirvara um niðurstöðu þeirrar vinnu í einstökum atriðum er nauðsynlegt að henni verði fram haldið, m.a. könnun og mati á jarðhitasvæðum með tilliti til nýtingar og verndunar.

Samþætta þarf frekari vinnu og úrvinnslu nefndra áætlana og vinnu að skipulagi á öllum stigum og leita eftir sem bestu samstarfi við sveitastjórnir og frjáls félagasamtök sem um víðtækasta verndun. Mikilvægt er að fjárframlög til slíkra félaga séu tryggð til þess að þau geti sinnt hlutverki sínu. Til þess að auðvelda sveitarfélögum að standa við Staðardagskrá 21 og til að leggja grunn að sjálfbærum samgöngum er mikilvægt að koma ákvæðum um hjólreiðabrautir í vegalög sem tryggi að hjólreiðar verði raunverulegur valkostur í samgöngum í þéttbýli.

Fundurinn áréttar mikilvægi verndunar líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa og leggur áherslu á verndun fjölbreytileika innan og á milli stofna sömu tegunda. Í ljósi umræðu síðustu vikna áréttum við að núverandi löggjöf um verndun villtra laxastofna er algerlega ófullnægjandi. Því krefjumst við þess að tryggt verði að laxeldi leiði ekki til blöndunar framandi stofna við náttúrlega íslenska laxastofna. Slíkt getur valdið óbætanlegu tjóni.

Verndum Langasjó

Langisjór er ein dýrmætasta perla í náttúru Íslands sem varðveita þarf óskerta í þágu komandi kynslóða. Þetta næststærsta stöðuvatn landsins við suðvesturjaðar Vatnajökuls er umlukið stórbrotnum fjallgörðum, fágæt náttúrusmíð og óspillt af manna völdum. Langisjór og umhverfi hans ætti að vera sjálfsagður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Nú eru hins vegar blikur á lofti yfir Langasjó vegna virkjunaráforma, þar eð fyrirhugað er að veita Skaftá í þetta kristaltæra stöðuvatn og nýta það sem miðlunarlón fyrir virkjanir í Tungnaá og Þjórsá. Það má ekki verða. Skaftárveita mundi auk þess valda miklum og ófyrirsjáanlegum breytingum á rennsli Skaftár, grunnvatni og ferskvatnsrennsli á láglendi og við byggð í Skaftárhreppi. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skorar á stjórnvöld og heimamenn að friðlýsa Langasjó og umhverfi hans hið fyrsta.

Eflum heilbrigðisþjónustuna

„Ertu tryggður“ Hver er réttur fólks til velferðar? voru meðal spurninga sem lagðar voru fyrir málefnahóp um heilbrigðishóp á landsfundi Vinstri grænna 7. – 9. nóvember sl. Verkefni hópsins var ekki smátt í sniðum og ljóst að áfram verða allir þættir þess ræddir og betur skýrðir. Ekki skortir áhugann og vilja til að taka á málum, ekki síst nú þegar hugmyndir um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu sækja að úr öllum áttum. Rétt er að benda lesendum á að fara inn á vefsíðu Ögmundar Jónassonar www.ogmundur.is og lesa fróðlega grein hans um skýrslur og umræður á ráðstefnu Public Service International (PSI) – Alþjóðasambands starfsfólks í almannaþjónustu sem hann hefur setið undanfarna daga.

Landsfundur VG samþykkti einróma eftirfarandi ályktun:

Eflum heilbrigðisþjónustuna

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hvetur til átaks til að efla og treysta heilbrigðisþjónustuna í landinu. Markið verði sett á að útrýma biðlistum og laga þær brotalamir sem er að finna í kerfinu. VG hefur sett fram tillögur um að efla heilsugæsluna sem grundvöll heilbrigðisþjónustunnar. Reynslan sýnir að heilbrigðisþjónusta sem rekin er af samfélaginu er markvissari og hagkvæmari en heilbrigðiskerfi sem rekið er á markaðsforsendum. Þar sem heilbrigðisþjónustan hefur verið markaðsvædd hefur það leitt til aukins kostnaðar og félagslegrar mismununar. VG telur mikilvægt að heilbrigðiskerfið sæti stöðugri endurskoðun til að tryggja markvissari nýtingu fjármuna í því skyni að efla heilsu þjóðarinnar.  

Kvenfrelsi og alþjóðahyggja

Á stofnfundi Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs í febrúar 1999 var samþykkt stefnuyfirlýsing þar sem fram koma meginþættir og áherslur í stefnu flokksins. Þar kemur skýrt fram að Vinstrihreyfingin- grænt framboð telur sígildar áherslur vinstristefnu um jöfnuð og félagslegt réttlæti, róttæk umhverfisverndarsjónarmið og kröfur um sjálfbæra þróun eiga og verða að fara saman. Þessir málaflokkar auk sjálfstæðrar utanríkisstefnu eru fyrst og fremst þær stoðir sem stefna Vinstri grænna byggir á. Hún hefur í hvívetna reynst okkur vel í starfi fyrstu ár hreyfingarinnar. Á síðasta stjórnarfundi fyrir landsfundinn 7. – 9. nóvember var engu að síður samþykkt að leggja fram eftirfarandi tillögu sem landsfundur samþykkti einróma:

Tillaga stjórnar VG um endurskoðun Stefnuyfirlýsingar

 Fundur í flokksstjórn Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs, haldinn laugardaginn 1. nóvember 2003, samþykkir að leggja til við landsfund að nýrri stjórn verði falið að skipa starfshóp til að hafa umsjón með endurskoðun á stefnuyfirlýsingu flokksins sem samþykkt var á stofnfundi hreyfingarinnar í febrúar 1999. Einnig samþykki fundurinn að það verði haft sérstaklega að leiðarljósi við endurskoðun stefnuyfirlýsingarinnar að styrkja enn frekar og samþætta áherslur kvenfrelsis og alþjóðahyggju stefnumálum flokksins.

Um kvenfrelsi er vísað til stefnumörkunar hugmyndasmiðju VG um kvenfrelsi sem lögð var fyrir landsfund 2001, en sú stefnumörkun gengur út frá því að einungis sú vinstri stefna sem byggir á hugmyndum um frelsi kvenna og karla undan hvers kyns kúgun og misrétti sé innihaldsrík vinstri stefna. Hún kallar á breytt hugarfar og uppstokkun ríkjandi hefða í anda hugmynda femínismans sem verður að vera sameiginlegt viðfangsefni kvenna og karla. Jafnframt er vísað til samninga Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um að hvers kyns mismunun gagnvart konum brjóti í bága við grundvallarreglur um jafnrétti og virðingu fyrir manngildi.  

Með alþjóðahyggju er vísað til samstöðu með öllum þeim sem berjast fyrir gildum félagshyggju og umhverfisverndar, algildra mannréttinda, afvopnunar og friðar. Víðsýn og félagslega sinnuð alþjóðahyggja felur einnig í sér stuðning við sjálfstæðisbaráttu og sjálfsákvörðunarrétt undirokaðra þjóða og þjóðarbrota og kröfur um að kostir tækniframfara og bættra samgangna séu nýttir í þágu betri lífskjara og meiri möguleika þróunarríkja að teknu tilliti til umhverfisverndar. Um leið er því andæft að hnattvæðingin sé knúin áfram með þröng gróðasjónarmið fjölþjóðafyrirtækja og fjármagnsins að leiðarljósi.     

Ályktun um aðgengi – í tilefni Árs fatlaðra

Vinstri græn á landsfundinum 7. – 9. nóvember voru almennt afskaplega ánægð með aðstöðuna á Hótel Örk. Þó bar þar skugga á þar sem aðgengi fyrir fatlaða er þar alls ekki í lagi og er það furðulegt með svo tiltölulega nýbyggt hótel sem leggur talsverða áherslu á að laða til sín stóra fundi og einnig stóra hópa til dvalar, m.a. aldraðra. Stjórnendur hótelsins leggja sig vissulega fram um að leysa hvers manns vanda, hækka rúm fyrir fatlaða og hafa tiltæk skáborð þar sem þess er þörf. En við urðum áþreifanlega vör við annmarkana t.d. þegar félagi okkar Guðmundur Magnússon flutti okkur ávarp í tilefni árs fatlaðra og þegar nýkjörin stjórn var kölluð upp á svið. Það gekk ekki beinlínis greiðlega og hljóðalaust.

Ef til vill höfðu sum okkar gott af því að sjá með eigin augum þá mismunun sem fatlaðir verða oft og iðulega fyrir. Landsfundurinn samþykkti einróma eftirfarandi ályktun:

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Ári fatlaðra 2003 bendir á:

mikið skortir á fullt jafnrétti til handa fötluðum í íslensku samfélagi

aðgengi og samfélagsleg þátttaka hreyfihamlaðra, sjón- og heyrnarskertra og fólks með hvers kyns fötlun, snýst um sjálfsögð borgarleg réttindi

þegar fatlað fólk er, er á meðvitaðan eða ómeðvitaðan hátt, útilokað frá þátttöku í samfélaginu, þá er um mismunun og réttindabrot að ræða.

Kröfur okkar eru:

réttur allra til þátttöku á mismunandi sviðum mannlífsins sé virtur, án tillits til fötlunar

sett verði lög sem banni mismunun og viðurlög sett við brotum á þeim lögum, þannig að hið allra fyrsta verði rutt úr vegi hindrunum og útilokun fólks með hvers kyns hömlun

viðurkennt sé í löggjöfinni að skerðing á aðgengi, jafnt að byggingum sem og tækifærum til mannsæmandi lífs jafngildi mismunun.

Ályktun landsfundar VG um menntamál

Ályktun landsfundar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Hveragerði 7. – 9. nóvember 2003 um menntamál.

Fundurinn lýsir yfir stuðningi við öflugt menntakerfi sem byggist á metnaðarfullri menntastefnu. Um leið og lýst er yfir mikilvægi þess að stöðugt fari fram öflug pólitísk og fagleg umræða um menntun og skólastarf á öllum skólastigum er varað við fljótfærni og flausturskap við ákvarðanatöku í málaflokknum.

Fundurinn ályktar eftirfarandi:

*    Skýrsla menntamálaráðuneytisins um styttingu náms til stúdentsprófs er einhliða og illa ígrunduð.  Hún gerir ráð fyrir að gengisfella nám til stúdentsprófs með því að skerða námstíma. Engin fagleg rök styðja þessar hugmyndir sem lykta af sparnaði ríkisins.  Stytting námsins vinnur gegn gildandi skólastefnu, gerir námið fábreyttara, minnkar val nemenda og gerir skólana einsleita.  Þá er dregið úr sveigjanleika framhaldsskólans sem nú gerir ráð fyrir að nemendur geti tekið námið á 3 – 5 árum.

*    Skólagjöldum við opinbera háskóla er hafnað. Nauðsynlegt er að ríkið sinni skyldum sínum við opinbera háskóla af myndarskap sem komi meðal annars fram í fjárframlögum sem taki mið af raunverulegum þörfum skólanna. Kostnaður við öfluga ríkisháskóla má ekki lenda á nemendum. Sú upphæð sem sjálfseignarstofnanir innheimta með skólagjöldum komi til frádráttar framlagi ríkisins.

*    Tryggja þarf framkvæmd gildandi skólastefnu og auka námsframboð að loknum grunnskóla til að mæta margvíslegum þörfum nemenda og samfélagsins alls. Einkum þarf að leggja áherslu á starfs-, verk- og listnám. Hrinda þarf í framkvæmd raunhæfum aðgerðum til að draga úr brottfalli á öllum skólastigum.

*    Leikskólar verði gjaldfrjálsir. Ríkið og sveitarfélögin fari í sameiginlegt átaksverkefni í þeim efnum. 

Fundurinn gerir kröfu um jafnrétti til náms. Í því felst greiður aðgangur að námi á öllum skólastigum án tillits til búsetu, efnahags eða fjölskylduaðstæðna og líkamlegrar og andlegrar getu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search