PO
EN

Ályktanir landsfundar 2005

Samþykkt:


Ályktun um fyrirhugaða einkavæðingu Landsvirkjunar

Raforkuframleiðsla fyrir almennan markað á áfram að vera samfélagslegt verkefni. Vatnsaflið og jarðhitinn eru auðlindir sem eiga áfram að vera í sameign þjóðarinnar og nýting þeirra á höndum sveitarfélaga og ríkisins. Aðeins þannig er hægt að tryggja jöfnuð í verðlagningu á þessari grunnþjónustu í nútíma samfélagi. Aðeins þannig er hægt að tryggja að nýting auðlindanna verði sjálfbær og byggist á virðingu fyrir náttúrunni.

Alls staðar þar sem raforkufyrirtæki hafa verið einkavædd hefur raforkuverð til heimila snarhækkað um leið og öryggi í raforkuafhendingu hefur snarminnkað. Þetta hefur gerst bæði austan hafs og vestan. Hætt er við að slíkt myndi einnig gerast hér í kjölfar einkavæðingar, þegar menn fara að reka raforkuiðnaðinn með hagnaðarvonina eina að leiðarljósi.

Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu orkufyrirtækja og Landsvirkjunar sérstaklega sýnir svo ekki verður um villst að það þjónar hvorki  hagsmunum Reykvíkinga, Akureyringa né annarra landsmanna að þessi sveitarfélög selji ríkinu nú eignarhlut sinn í Landsvirkjun, eins og komið hefur til álita. Í ljósi áforma ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar leggst Vinstrihreyfingin – grænt framboð gegn því að Reykjavíkurborg og Akureyri selji nú hlut sinn í Landsvirkjun.

Ályktun um rannsókn á orsökum og áhrifum náttúrufars-breytinga

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur til þess að heildstæð rannsókn verði gerð á orsökum og áhrifum náttúrufarsbreytingar í vistkerfi lands og sjávar.

Samþætta þarf þá sérfræðiþekkingu sem til er með það að augnamiði að geta brugðist við í verndun, nýtingu og umgengni okkar við náttúru lands og sjávar.

Ályktun landsfundar um umhverfisvænar samgöngur

Mikilvægt er að almenningur hafi val um vistvænar og heilbrigðar samgöngur. Greiðar og öruggar almenningssamgöngur, hjólreiðarbrautir, og notkun vistvænna orkugjafa í samgögnum munu draga úr hávaða- og loftmengun og bæta lýðheilsu.

Ályktunartillaga um málefni tónlistarskólanna

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Grand hótel í Reykjavík 21.-23. október 2005 felur stjórn flokksins að skipa nefnd til að gera tillögu um stefnu flokksins í málefnum tónlistarskóla.

Ályktun landsfundar um trúfrelsi og rétt til trúleysis

Landsfundur VG haldinn í Reykjavík 21.-23. október 2005 ályktar að fullt trúfrelsi og jöfn staða trúar- og lífsskoðunarfélaga sé grundvallaratriði. Öll löggjöf og stjórnsýsla þarf að miðast við það. Eðlilegt er að taka mið af því að kristin trú er samofin menningu og sögu þjóðarinnar sem einnig enduspeglast í íslenskri löggjöf. En einnig verður að líta til þess að Ísland þróast óðfluga í þá átt að vera fjölmenningarlegt samfélag þar sem önnur trúarbrögð skipa sinn sess. Auk þess kýs stór hópur fólks að aðhyllast engin trúarbrögð. Fundurinn leggur áherslu á að réttur einstaklinga og hópa sem tilheyra öðrum trúarbrögðum en kristni eða aðhyllast engin trúarbrögð sé ekki fyrir borð borinn og er þá meðal annars mikilvægt að í skólum sé gætt fyllsta hlutleysis gagnvart trúarbrögðum og afstöðu til trúar. Landsfundur VG telur að afnám stjórnarskrárákvæðis um samband ríkis og kirkju hljóti að koma til skoðunar fyrr eða síðar og hvetur til að því verði hraðað en þó þannig að um það verði sem mest sátt.

Ályktun um áform Landsvirkjunar um samkeppni í grunnskólum

Landsfundur Vinstrhreyfingarinnar – græns framboðs mótmælir harðlega þeim áformum Landsvirkjunar að efna til samkeppni í grunnskólum landsins um orkumál og Kárahnjúkavirkjun.

Ályktun landsfundar um geðheilbrigðismál

Góð geðheilsa er grundvöllur góðs heilsufars og undirstöðuatriði varðandi mannauð, félagslega og efnahagslega innistæðu þjóða. Þörf er á heildrænni stefnumótun í geðheilbrigðismálum og aðgerðum sem auka velferð og draga úr geðrænum vanda, með áherslu á að notendur þjónustunnar séu ábyrgir þátttakendur í meðferð og ákvarðanatöku sem þá varðar. Auka þarf aðkomu notenda, ábyrgð þeirra, val og völd. Heilbrigðisþjónustan byggist á réttindum notenda og að þeir séu með í ákvarðanatöku. Setja þarf gæðastaðla á alla þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Aukinn geðheilbrigðisvandi, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, og þunglyndi verður annað stærsta heilbrigðisvandamálið 2020. Styrkja og bæta þarf geðheilbrigðisþjónustu á öllum sviðum með því að auka fjármagn til hennar, leggja áherslu á forvarnir og endurhæfingu sem stuðlar að bættri velferð geðsjúkra og þeirra sem vinna í þeirra þágu. Við forvarnir verði lögð áhersla á líkams- og geðrækt jöfnum höndum.

Áherslu þarf að leggja á forvarnir á öllum sviðum og heildræn tilboð í nærsamféalginu. Börn og unglingar eiga rétt á meðferð innan þriggja vikna hvort sem er um að ræða líkamleg eða geðræn veikindi eða kvilla tengda neyslu. Sett verði lög um geðheilsugæslu unglinga. Allir unglingar eiga rétt á að fá betri heilbrigðisþjónustu. Gleymst hefur að aldraðir eigi við geðheilbrigðisvanda að stríða. Þar þarf að gera stórátak til að veita þeim þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.

Tryggja þarf að félagsmála- og heilbrigðisráðuneytið samþætti þjónustu við geðfatlaða. einnig þarf menntamálaráðuneyutið að koma til svo þeir sem eiga við geðraskanir að stríða fái bæði menntun og félagsleg úttæði. Uppfylla þarf þann rétt fólks, sem á við geðræn vandamál að stríða, að það hafi þak yfir höfuðið.

Laun margra þeirra sem vinna að umönnun geðfatlaðra eru of lág. Tryggja þarf að þeim sem vilja vinna við þennan málaflokk sé gert kleift að mennta sig, og einnig að launastefnu verði breytt þannig að þeir sem við umönnun geðfatlara vinna fái betri kjör.

Ályktun um aðild Íslands að árásinni á Afganistan

Landsfundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands að leggja fram þau sönnunargögn um meinta ábyrgð aðila í Afganistan á hryðjuverkunum 11. september 2001, sem hún lagði til grundvallar ákvörðun sinni að styðja loftárásir Bandaríkjanna á Afganistan og hernám landsins. Fundurinn hvetur þingflokk VG til að beita sér í þessu máli.

Þessi hryðjuverk voru glæpur gegn mannkyninu sem nýttur var af stjórnvöldum ákveðinna ríkja til að hrinda af stað stríðum, auka eftirlit með borgurum, réttlæta pyntingar og stórauka vígbúnaðinn.

Landsfundurinn lýsir samstöðu með baráttu ættingja þeirra sem létu lífið í hryðjuverkunum 11. september 2001, í sannleiksleit þeirra og styður kröfuna um óháða, alþjóðlega rannsókn á þessum hryðjuverkum.

Ályktun gegn samræmdum stúdentsprófum

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggst gegn samræmdum stúdentsprófum í framhaldsskólum. Eins og orðalagið gefur til kynna gera samræmd próf námið í framhaldsskólunum einsleitara auk þess sem aðeins er prófað í fáum greinum sem fá þá aukið vægi á kostnað annarra.

Þetta mun njörva skólana niður í sama far og reynslan sýnir að brátt gæti kennslan farið að snúast um prófin en ekki öfugt. Vinstri græn krefjast þess að horfið verði af braut miðstýringar og samræmingaráráttu sem einkennt hefur menntastefnu núverandi ríkisstjórnar.

Ályktun landsfundar um skerðingu á námi til stúdentsprófs

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir andstöðu við fyrirhugaða skerðingu á námi til stúdentsprófs.

Áform menntamálaráðherra um að skerða framhaldsskólanám úr fjórum árum í þrjú til að lækka stúdentsprófsaldur eru vanhugsuð. Hugmyndin er ekki komin frá neinum þeim hópi sem málið varðar helst: nemendum, kennurum, háskólamönnum eða foreldrum. Samtök bæði nemenda og kennara hafa andmælt henni. Rökin fyrir skerðingu hafa reynst léttvæg auk þess sem algjörlega hefur verið einblínt á eina leið, þá sem langerfiðast er að framkvæma án þess að gengisfella námið. Bent hefur verið á aðrar leiðir til að auðvelda þeim nemendum sem það kjósa að ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma. Eftir sem áður ætlar ráðuneytið að skera niður einn fjórða af framhaldsskólanámi. Í skýrslum um efnið hefur því mistekist að sýna fram á að ekki verði um að ræða skerðingu á því námi sem stúdentsefnum býðst, sem mun bæði koma niður á fjölbreytni námsins og mikilvægum kjarnagreinum, s.s. íslensku, raungreinum og tungumálum.

Ályktun um Náttúruminjasafn Íslands

Landsfundur Vinstrhreyfingarinnar – græns framboðs ályktar að mikilvægt sé að hraða áformum um byggingu Náttúruminjasafns. Samkvæmt safnalögum frá 2001 á Náttúruminjasafn Íslands að vera höfuðsafn á sviði náttúrufræða og eitt af þremur höfuðsöfnum landsins ásamt Listasafni Íslands og Þjóðminjasafninu.

Ályktun landsfundar um sveitarstjórnarmál

Sveitarfélögin í landinu gegna þýðingarmiklu hlutverki og hefur mikilvægi þeirra farið vaxandi á undanförnum árum. Verkefni sveitarstjórnanna er m.a. að tryggja mikilvæga samfélagslega þjónustu við íbúa á fjölmörgum sviðum, [s.s. í menntamálum, félagsmálum, umhverfismálum, æskulýðsmálum, forvarnarmálum, orkumálum, menningarmálum, skipulagsmálum o.fl.] Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að efla og styrkja sveitarfélögin í landinu. Það verður best gert með því að auka lýðræðislegt og efnahagslegt sjálfstæði þeirra og tryggja þeim næga tekjustofna til að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem þau hafa nú þegar með höndum. Frumskilyrði fyrir því að sveitarfélögin taki að sér og geti staðið undir fleiri verkefnum er að öruggir tekjustofnar fylgi með þeim.

Mikilvægur liður í eflingu sveitarstjórnarstigsins er aukin þátttaka íbúanna í ákvörðunum og í þeim verkefnum sem sveitarfélögunum er falið að sinna. Raunverulegir möguleikar til að leysa þau verkefni vel af hendi verða hins vegar ekki til staðar fyrr en ríkisvaldið ákveður að axla þann hluta ábyrgðarinnar sem fólgin er í tryggum tekjustofnum, þetta á jafnt við um þá málaflokka sem sveitarfélögin hafa þegar tekið yfir og hina sem enn hafa ekki haft vistaskipti. Ennfremur felst efling sveitarstjórnarstigsins í sterkri stöðu sveitarstjórnanna sjálfra, því að sveitarstjórnirnar endurspegli þau ólíku viðhorf sem eru í samfélaginu og að þær hafi burði til að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli pólitískrar stefnumörkunar og lýðræðislegs samráðs við íbúa og aðra hagsmunaaðila. VG er andvígt því að sveitarfélög séu þvinguð til að sameinast og vill að skoðað verði hvort heimila eigi að sameining sveitarfélaga geti gengið til baka ef vilji íbúa stendur til þess. Nýafstaðnar kosningar um sameiningu sveitarfélaga sem ekki byggðu á frumkvæði eða hugmyndum heimamanna sjálfra , tóku því miður ekki mið af því að efla sveitarstjórnarstigið sem slíkt, heldur snerust þær fyrst og fremst um það að fækka sveitarfélögum og stækka þau. Framganga og aðferðir stjórnarvalda í aðdraganda þeirra kosninga voru ámælisverðar. Slíkar aðgerðir einar og sér hafa ekkert með eflingu sveitarstjórnarstigsins að gera og voru því dæmdar til að mistakast.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun beita sér af krafti fyrir raunverulegri eflingu sveitarfélaganna þar sem áhersla verður lögð á innihald en ekki umbúðir. Öflug og sterk sveitarfélög, sem hafa burði til að bjóða íbúum sínum góða þjónustu, er ein meginforsenda fyrir blómlegri byggð um allt land.

Sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor eru aðrar kosningar til sveitarstjórna síðan Vinstrihreyfingin – grænt framboð var stofnuð. Flokkurinn stefnir að því að bjóða sem víðast fram og í öllum stærstu sveitarfélögunum, ýmist eigin lista eða í samstarfi við aðra, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Enda þótt áherslur í málefnum sveitarfélaganna kunni að vera mismunandi frá einum stað til annars, mun grundvallarstefna VG endurspeglast í öllum framboðum á vegum flokksins. Megináhersla verður lögð á:

  • öflugt velferðarkerfi, sem byggir á hugmyndum félagshyggju, jafnrétti til þjónustu óháð samfélagsstöðu og búsetu, en sérhyggju er hafnað
  • metnaðarfullt skólastarf sem tryggir jafnrétti til náms þar sem grunnmenntun í leik- og grunnskólum er nemendum að kostnaðarlausu enda verði tekjustofnar tryggðir
  • að sveitarfélög móti sér fjölskyldustefnu, styttingu vinnuviku, og öll börn eigi kost á þátttöku í íþrótta og æskulýðsstarfi
  • vistvænt atvinnulíf sem byggir á fjölbreytni og tækifærum fyrir alla
    sjálfbæra orkustefnu, sem hvetur til varúðar við nýtingu orkulinda og hafnar frekari virkjunum í þágu mengandi stóriðju en býr í haginn fyrir aukinni notkun vistvænna orkugjafa, dregur úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda
  • virðingu fyrir umhverfi og náttúru í anda markmiða Staðardagskrár 21
  • jafnrétti óháð kyni, þjóðfélagsstöðu eða uppruna þar sem tryggt er að allir njóti virðingar og eigi möguleika til virkrar þátttöku í samfélaginu
  • kvenfrelsi þar sem aðkoma og áhrif kvenna verði tryggð til jafns við karla og gripið verður til aðgerða eins og afnáms launaleyndar til að útrýma kynbundnum launamun
  • gott aðgengi fyrir alla að opinberum stöðum
  • vel skipulagðar, öruggar og ódýrar almenningssamgöngur og stóraukinn hlutur gangandi og hjólandi vegfarenda
  • sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga verði tryggður
  • virkara lýðræði og samráð við íbúa þar sem lögð er áhersla á að taka tillit til radda allra samfélagshópa og svæða innan sveitarfélaga, sérstaklega varðandi stærri mál eða málefni einstakra svæða
  • að aukinn réttur íbúa til þátttöku í ákvarðanatöku um málefni sem þá varðar verði tryggður með löggjöf
  • auðugt menningarlíf er taki mið af menningarlegri fjölbreytni og virðingu fyrir svæðisbundnum menningararfi
  • að tekið sé mið af forsendum sjálfbærrar þróunar við stefnumótun og starfsemi sveitarfélaga

Ályktun landsfundar um heilbrigðismál

Góð lýðheilsa byggir á góðri heilbrigðisþjónustu, jöfnuði í samfélaginu og góðri undirstöðu­menntun þjóðarinnar. Alla þessa grunnþætti ber að styrkja og efla.

Það hefur sýnt sig að einkavæðing innan heilbrigðisþjónustunnar eykur misumunun, dregur úr þverfaglegu samstarfi og torveldar félagslegar lausnir.

Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því af hálfu stjórnvalda að draga úr stoðþjónustu sjúkrahúsanna með það að markmiði að færa hana ásamt ýmissi sérfærðiþjónustu í einkasrekstur, Þá hafa verið stigin skref til að markaðsvæða heilbrigðis­þjónustuna með aukinni greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum og þjónustu.

VG hafnar einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og mun að alefli beita sér gegn áformum stjórnvalda um frekari einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar.  Þvert á móti ber nú að vinda ofan af þessari öfugþróun, snúa vörn í sókn og stórefla heilbrigðisþjónustu á samfélagslegum grunni. Gróðahagsmunum verði úthýst úr heilbrigðiskerfinu.

Árangursríkasta  leiðin til að tryggja að heildarútgjöld til heilbrigðismála séu í samræmi við efnahagslegan styrk samfélagsins er að viðhalda heilbrigðisþjónustu sem rekin er og fjármögnuð af hinu opinbera. Einkafjármögnun heilbrigðisþjónustunnar er dýrari fyrir samfélagið og eykur greiðslubyrði þeirra mest sem búa við lökust kjör og þurfa mesta þjónustu. 

VG leggur áherslu á eftirfarandi:

Heilbrigðisþjónustan verði öllum aðgengileg, óháð búsetu og efnahag.

Heilsugæslan verði gjaldfrjáls og hún efld sem grunneining í heilbrigðiskerfinu.  Þar verði boðið uppá fjölþættari þjónustu en nú er veitt, þ.á.m. félagsráðgjöf, sálfræðiþjónustu, iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun.

Sjúkrahúsin í landinu hafa þurft að búa við óþolandi fjárskort sem bitnað hefur á sjúklingum og starfseminni almennt. Með því að styrkja sjúkrahúsin á landsbyggðinni má  nýta betur fagþekkingu, mannafla og aðstöðu innan heilbrigðiskerfisins. Á þessu er þörf jafnframt því sem staða LHS, sem helsta sjúkrahús landsins og FSA sem gegnir hlutverki hátæknisjúkrahúss verði efld.

Stórbæta þarf heimaþjónustu og heimahjúkrun svo langveikir og aldraðir geti búið eins lengi í heimahúsi og vilji þeirra stendur til.

Átak verði gert til að útrýma biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu og hjálpartækjum.

Lögbundinn réttur fatlaðra barna til sérfærðiþjónustu verði virtur.

Engar stjórnsýsluákvarðanir verði teknar sem varða hagsmunahópa sjúklinga eða lífeyrisþega án samráðs við fulltrúa þeirra.

Sérstakt átak verði gert  til að efla endurhæfingu hvort heldur um er að ræða veikindi, fötlun, starfsendurhæfingu eða til að viðhalda færni til daglegs lífs.

Tannlæknaþjónusta barna og unglinga, aldraðra og öryrkja verði greidd úr sjúkratryggingum. Sama gildi um augnskoðun og augnvernd.

Forvarnir ásamt fíkni- og vímuefnameðferð verði efldar.

Geðheilbrigðisþjónusta verði efld innan heilsugæslunnar og meðferðarúrræðum fjölgað.

Nú þegar verði gengið til samninga við sálfræðinga eins og aðra sérfræðinga innan heilbrigðisþjónustunnar 

Efla þarf neyðarmótttöku vegna nauðgana sem og fræðslu um kynferðisofbeldi í námi heilsbrigðisstétta.

Virða þarf líkamlegt sjáflsforræði kvenna í allri heilbrigðisþjónustu. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar kröfum um niðurskurð og einkavæðingu velferðarþjónustunnar.  Þvert á móti er þar nú þörf á stórauknu fjármagni.

Ályktun um vernd kóralsvæða og sjálfbæra nýtingu lífvera á hafsbotni

Stöðugt fjölgar vísbendingum um tjón sem orðið hafi á lífríki hafsbotnsins við hömlulitla notkun botnveiðarfæra. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun sumarið 2002 voru málefni hafsbotnsins á dagskrá og ályktaði ráðstefnan um gildi búsvæða hans, þar á meðal kóralsamfélaga, fyrir líffræðilegan fjölbreytileika lífríkis sjávar. Núna reyna Sameinuðu þjóðirnar að ná samkomulagi um tímabundið bann við botnvörpuveiðum á alþjóðlegu hafsvæði. Slík aðgerð myndi gefa tóm til að rannsaka og kortleggja líffræðilegan fjölbreytileika sjávarbotnsins á djúpsævi. Landsfundur Vinstri-grænna hvetur stjórnvöld til að gefa gaum að þessu starfi Sameinuðu þjóðanna og styðja það.

Þá vill landsfundurinn vekja athygli á því að þörf er kerfisbundinna rannsókna á þessu sviði  hér við land og brýnt er að efla þær. Á meðan frekari þekkingar er aflað er nauðsynlegt að grípa til varúðarráðstafana og friða, a.m.k. fyrir botnlægum og hreyfanlegum veiðarfærum, þau svæði á hafsbotni sem brýnt er talið að vernda, þ.m.t. kóralsvæði. Landsfundur Vinstri grænna leggur til að gerð verði áætlun um frekari rannsóknir á áhrifum veiða og veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins við landið og um aðgerðir til að draga úr skaðlegum áhrifum af þeirra völdum. Slíkar aðgerðir ættu að draga úr hættunni á rányrkju um leið og þær myndu bæta til muna uppvaxtarskilyrði nytjastofna og auka líkurnar á því að lífríkið sé nytjað með sjálfbærum hætti

Ályktun landsfundar um náttúruvernd og friðlýsingu

Landsfundur Vinstri grænna haldinn 21. – 23. október 2005 minnir á þá staðreynd að ósnortið land, víðerni og villt náttúra er auðlind sem virða ber og varðveita á eigin forsendum. Sérstaða Íslands í samfélagi þjóðanna felst fyrst og fremst í einstæðri náttúru landsins, fjölbreytileika landslags, víðernum og víðsýni og óvíða í heiminum sjást landmótunaröfl náttúrunnar jafn greinilega og í íslenskri víðáttu. Þessi sérstaða er stærsti þátturinn í þeirri ímynd sem við flest viljum að landið hafi. Til þess að vernda þessa auðlind og treysta ímynd Íslands sem óspillts lands með óspillta náttúru þarf að takmarka alla mannvirkjagerð og röskun á verðmætustu svæðum, friðlýsa þau og tryggja að hægt sé að njóta þeirra án þess að spilla þeim. Landsfundurinn leggur áherslu á friðun eftirtalinna svæða:  

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er sérstætt háhitasvæði, nánast ósnortið og með afar hátt verndargildi. Svæðið er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi, sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum. Í Brennisteinsfjöllum eru merkar gosminjar frá sögulegum tíma, umhverfið er stórbrotið með gígum, eldhraunum og hellum, og þar má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær alveg frá sjó norður fyrir Sandskeið. Dýrmætt er að hafa aðgang að öræfakyrrð og svo fjölbreyttu landslagi í aðeins 20 km fjarlægð frá þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Að Brennisteinsfjöllum steðjar nú hætta þar sem mikill þrýstingur er á stjórnvöld um að veita rannsóknarleyfi þeim aðilum er telja svæðið fýsilegt til orkunýtingar. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs skorar á stjórnvöld að friðlýsa Brennisteinsfjöll, varðveita þau sem ósnortið víðerni og tengja þau friðlandinu í Herdísarvík eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun.

Ályktun um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og friðun Jökulsár á Fjöllum

Landsfundur VG 2005 telur  brýnt að hrinda sem fyrst í framkvæmd stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs er nái milli stranda í suðri og norðri og taki til alls áhrifasvæðis Vatnajökuls ásamt Vonarskarði og Tungnafellsjökli og til vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum ásamt þverám. Landsfundurinn harmar þau óbætanlegu náttúruspjöll sem unnin hafa verið á svæðinu með Kárahnjúkavirkjun, sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur fordæmt og reynt að koma í veg fyrir.

Verndum Langasjó

Langisjór er ein dýrmætasta perla í náttúru Íslands sem varðveita þarf óskerta í þágu komandi kynslóða. Þetta næststærsta stöðuvatn landsins við suðvesturjaðar Vatnajökuls er umlukið stórbrotnum fjallgörðum, fágæt náttúrusmíð og óspillt af manna völdum. Langisjór og umhverfi hans ætti að vera sjálfsagður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Nú eru hins vegar uppi áform um að veita Skaftá í þetta kristaltæra stöðuvatn og nýta það sem miðlunarlón fyrir virkjanir í Tungnaá og Þjórsá. Slíkum hugmyndum ber að hafna. Skaftárveita mundi auk þess valda miklum og ófyrirsjáanlegum breytingum á rennsli Skaftár, grunnvatni og ferskvatnsrennsli á láglendi og við byggð í Skaftárhreppi. Landsfundur Vinstri grænna skorar á stjórnvöld og heimamenn að friðlýsa Langasjó og umhverfi hans hið fyrsta.

Stækkun friðlands í Þjórsárverum

Þjórsárver uppi undir Hofsjökli er sú gróðurvin á hálendi Íslands sem talin er hvað dýrmætust. Landslag er þar stórbrotið, vatnafarið einstaklega öflugur þáttur í lífríkinu og vistkerfi veranna óvenju tegundaríkt. Þjórsárver njóta sérstakrar verndar bæði sem friðland og sem Ramsar-svæði, sem staðfestir sérstöðu og mikilvægi þess sem votlendis á heimsvísu. Þrátt fyrir það hefur æ ofan í æ verið sótt að verunum með framkvæmdum til virkjunar vatnsafls í Þjórsá og þverám hennar.

Þessar aðgerðir hafa valdið spjöllum á Þjórsárverum, grónu landi hefur verið sökkt undir vatn og umtalsvert landsvæði hefur farið undir veituskurði. Landsfundurinn minnir á baráttu Vinstri grænna fyrir því að ekki verði frekar gengið á dýrmæta gróðurvin Þjórsárvera. Fundurinn hvetur eindregið til þess að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að allt gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarka og einnig verði kannaðir möguleikar á friðlýsingu Þjórsár frá friðlandsmörkunum að Sultartangalóni.

Ályktun um kynbundinn launamun og baráttukveðjur landsfundar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs, haldinn í Reykjavík 21.-23. október 2005, sendir konum baráttukveðjur í tilefni 24. október. Jafnframt hvetja Vinstri græn konur til að leggja niður störf klukkan 14:08, til að sýna með táknrænum hætti mun á atvinnutekjum karla og kvenna, og sömuleiðis til þátttöku í viðburðum dagsins. Þrátt fyrir að þrjátíu ár séu liðin frá því að íslenskar konur vöktu heimsathygli fyrir baráttuhug og samstöðu, er enn langt í land. Stórátak þarf til að rétta hlut kvenna hvort sem er á vinnumarkaðinum, í stjórnmálum eða inni á heimilunum.

Vinstri-græn hafa lagt fram fjölmörg mál á síðustu árum til að þoka samfélaginu í átt til jafnréttis. Má þar nefna frumvarp um fórnarlamba- og vitnavernd til að vinna gegn mansali, frumvarp um brottvísun og heimsóknarbann á ofbeldismenn til að vinna gegn heimilisofbeldi, frumvarp um að kaup á vændi verði refsiverð, frumvarp um undanþágu á skilyrðingu dvalarleyfis við maka þegar ofbeldi er undirrót skilnaðar, tillögu um bætt starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi og frumvarp sem veitti Jafnréttisstofu heimild til að leita í gögnum fyrirtækja og beita refsingum ef kynjunum er mismunað í launum.

Ein háværasta krafan á baráttufundinum 24. október verður um að útrýma kynbundnum launamun. Undir þessa kröfu tekur landsfundur Vinstri grænna og leggur jafnframt áherslu á nauðsyn þess að endurmeta og hækka laun þeirra sem gegna umönnunarstörfum, en það eru nánast alfarið konur. Krafan er endurmat á gildi umönnunarstarfa og laun í samræmi við mikilvægi þeirra. Landsfundurinn minnir á að í 65. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis og að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Engu að síður nemur kynbundinn launamunur 14 ? 18%. Sú staðreynd  misbýður réttlætiskennd fólks. Það er ekki hægt að sætta sig við að heildaratvinnutekjur kvenna séu aðeins 64,5% af atvinnutekjum karla. Það er ekki hægt að sætta sig við að 30% einstæðra mæðra hafi framfærslu af tekjum undir fátæktarmörkum. Það er ekki hægt að sætta sig við að störf karla séu meira metin en störf kvenna. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa hundsað þessar staðreyndir og ekkert aðhafst þrátt fyrir fjálglega orðaðar jafnréttisáætlanir og yfirlýsingar.

Landsfundur Vinstri-grænna krefst beinskeyttra aðgerða gegn kynbundnum launamun, kynbundnu ofbeldi og allri mismunum kynjanna og fordæmir aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

Baráttunni má aldrei linna fyrr en fullu jafnrétti er náð.

Baráttukveðjur á kvennafrídegi 2005

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 21.-23. október 2005, sendir konum baráttukveðjur í tilefni 24. október.

Þrátt fyrir að þrjátíu ár séu liðin frá því að íslenskar konur vöktu heimsathygli fyrir baráttuhug og samstöðu er enn langt í land. Stórátak þarf til að rétta hlut kvenna hvort sem er á vinnumarkaðinum, í stjórnmálum eða inni á heimilinum. Sérstaklega þarf að endurmeta og hækka laun þeirra sem gegna umönnunar- og uppaldisstörfum, en það eru nánast alfarið konur.

Landsfundur Vinstri grænna krefst beinskeyttra aðgerða gegn kynbundnum launamun, kynbundnu ofbeldi og allri mismunun kynjanna. Baráttunni má aldrei linna fyrr en fullu kvenfrelsi er náð.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search