Search
Close this search box.

Ályktanir landsfundar 2009

Samþykkt:

efnahagsmál, skattamál og ríkisútgjöld

Landsfundur leggur til að markmið efnahagsstefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs verði full atvinna. Slíku markmiði virðist erfitt að ná innan ramma samningsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Nauðsynlegt er að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að milda þær aðgerðir sem fara þarf í til að draga úr ríkishalla á næstu árum.

Landsfundurinn telur mikilvægt að skattbyrðinni sé dreift með réttlátum hætti og skattakerfið notað markvisst til tekjujöfnunar með þrepaskiptum tekjuskatti. Milliskattþrepið byrji ekki við lægri tekjur en 500.000 kr.  Kannaður verði kostur þess að skattleggja vaxtagreiðslur úr landi. Taka á aftur upp sanngjarna eignarskatta.

Landsfundur skorar á ríkisstjórnina að fara með gát í að skera niður störf hjá hinu opinbera. Séð skal til þess að félagslega kerfið verði varið eins og kostur er og virkja þarf opinbera starfsmenn þegar teknar eru ákvarðanir um niðurskurð á vinnustað þeirra. Upplýsingar um öll launakjör ríkisstarfsmanna verði aðgengilegar almenningi. Engin laun hjá fyrirtækjum og stofnunum ríkisins verði yfir ráðherralaunum.

endurskipulagning bankanna

Landsfundur leggur til að:

  1. ríkisbönkunum  verði fækkað með sameiningu og verði hluti bankakerfisins í eigu ríkisins til að tryggja hagsmuni almennings. 
  2. starfsemi bankanna sinni eingöngu inn- og útlánastarfsemi fyrir almenning auk grunnþjónustu við atvinnuvegina.
  3. þeir bankar sem  einungis sinna fjárfestingar- og áhættustarfsemi séu aðskildir almennri bankastarfsemi og séu alfarið á ábyrgð eigenda þeirra . Slíkur aðskilnaður starfseminnar ætti að tryggja öruggari viðskipti fyrir hinn almenna borgara sem ekki vill taka á sig áhættufjárfestingar.
  4. félagsleg eign og hlutverk sparisjóðanna verði tryggð.
  5. öflugt eftirlit verði með þeim innlendu og erlendu aðilum sem veita fjármálaþjónustu.
  6. tekin verði upp lög og reglugerðir frá öðrum löndum til að koma í veg fyrir óeðlilega viðskiptahætti, s.s. krosseignartengsl, lán til kaupa á eigin hlutabréfum, árangurstengdar launagreiðslur, o.s.frv.
  7. tryggja gagnsæi við ráðningar og ákvarðanir um launakjör.
  8. í bankaráði sitji fulltrúar eigenda og starfsfólks.
  9. bankaleynd verði afnumin þegar rökstuddur grunur leikur á óeðlilegum viðskiptaháttum.
  10. óeðlilegir viðskiptasamningar og greiðslur sem aukið hafa skuldabyrði þjóðarinnar á undanförnum árum verði látin ganga til baka. 
  11. bankarnir móti sér samfélagslega ábyrga stefnu.


afnám verðtryggingar

Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leita leiða til að lækka höfuðstól húsnæðislána eða frysta hluta hækkunar höfuðstóls lána vegna verðbólguskotsins. Einnig að gerð verði tímasett áætlun um afnám verðtryggingar.

Ekki verði gengið lengra í innheimtu skulda en að lánastofnun leysi til sín veðsetta eign.

dreift eignarhald og atvinnulýðræði

Landsfundur leggur til að Vinstrihreyfingin- grænt framboð beiti sér fyrir dreifðu eignarhaldi fyrirtækja í atvinnulífinu. Starfsfólki verði gert kleift að eignast og starfrækja fyrirtæki sem það starfar við. Jafnframt verði lögð áhersla á félagsleg rekstrarform eins og samvinnufélög, enda tryggja þau atvinnusköpun, atvinnulýðræði og byggðafestu.

Landsfundurinn leggur til að atvinnulýðræði verði tryggt í sessi með sérstökum lögum sem veita starfsfólki stjórnunaraðild að fyrirtækjum og stofnunum.

útreikningur verðbóta á lán

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skorar á fjármálaráðherra að beita sér fyrir rannsókn á útreikningi verðbóta á lán hjá Reiknistofu bankanna. Dregið verði fram í dagsljósið hvort um tvívöxtun sé að ræða og hvaða útreikningar standi á bak við hana. Til verksins verði skipuð 5 manna nefnd með fulltrúum frá fjármálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, Neytendasamtökunum, Hagsmunasamtökum heimilanna og oddamanni skipuðum af forsætisráðherra. Nefndin fái sérfræðinga til að annast útreikninga og skýra þá fyrir almenningi.

félagslegar aðgerðir í húsnæðismálum                                                                                                                    

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs leggur til að Íbúðalánasjóður taki upp félagsleg íbúðalán til tekjulágra fjölskyldna og þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Jafnframt telur landsfundurinn að grípa eigi til aðgerða sem auðvelda húsnæðissamvinnufélögum og félagasamtökum á borð við Búseta, Búmenn, Öryrkjabandalagið og samtök námsmanna að eignast leigu- og kaupleiguíbúðir.

Renna þarf styrkari stoðum undir starfsemi húsnæðissamvinnufélaga og annarra leigufélaga með breytingum á reglum Íbúðalánsjóðs. Eignir sem Íbúðalánsjóður þarf að leysa til sín frá verktökum, leigufélögum og almenningi renni til félagslegra leigufélaga. Markmið þessara aðgerða er að öflugur almennur leigu- og kaupleigumarkaður á vegum sjálfseignarstofnana verði til samhliða eignaíbúðamarkaðinum.

Tryggja þarf jafnræði milli þeirra sem fá greiddar húsnæðisvaxtabætur og þeirra sem njóta húsaleigubóta með því að hækka báða bótaflokka  í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs.

atvinnuuppbygging

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Rekjavík 20.-22. mars 2009 ályktar að ekki skuli einblína á stóriðju þegar kemur að enduruppbyggingu atvinnulífs á Íslandi, heldur styðja frekar við lítil og meðalstór fyrirtæki. Beita skal skattaívilnunum til að styðja við sprotafyrirtæki vegna rannsóknar- og þróunarstarfa. Eins skal styðja við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með jöfnunaraðgerðum á borð við skattaívilnanir og niðurgreiðslu á raforkuverði vegna mismunar á aðgengi fyrirtækja á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega skal í því tilliti horfa til svæða á landsbyggðinni þar sem að samgöngur og fjarskipti hafa setið á hakanum en fyrirtæki á slíkum svæðum þurfa greinilega að starfa við mjög skerta samkeppnisstöðu. Enn fremur skal verðlauna fyrirtæki sem að starfa í anda umhverfisvænna vinnubragða og sjálfbærrar þróunar. Með fjölbreyttu atvinnulífi í kjölfar þessara aðgerða yrði atvinnulífið betur í stakk búið til þess að takast á við áföll.

sköpum störf um allt land

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – grænt framboðs lýsir þungum áhyggjum af atvinnuástandinu í landinu og mikilli fjölgun atvinnulausra. Langtímaatvinnuleysi er samfélagsmein sem ríki, sveitarfélög og atvinnulífið verða að tryggja að ekki skjóti rótum á Íslandi. Í því skyni leggur fundurinn til að fulltrúar flokksins í sveitarstjórnum og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga beiti sér fyrir samstarfi um að leita nýrra atvinnumöguleika og skapa forsendur til að þeir geti orðið að veruleika. Þannig gæti Samband íslenskra sveitarfélaga beitt sér fyrir samræmdu átaki allra sveitarfélaga í landinu til þess að skapa forsendur fyrir fleiri störf á vinnumarkaði. Markmiðið verði að skapa atvinnutækifæri þannig að fyrir lok næsta árs hafa atvinnulausum á Íslandi fækkað um að minnsta kosti helming frá því sem nú er.

Sérstaklega verði hugað að stöðu og rekstrarumhverfi byggingariðnaðarins og því beint til ríkis og sveitarfélaga að horfa til mannaflsfrekra framkvæmda og viðhaldsverkefna en jafnframt stofnframkvæmda á vegum hins opinbera. Með markvissum aðgerðum er hægt að hluta stórar framkvæmdir niður í smærri hluta og aðgengilegri og gefa þar með fleirum kost á aðkomu að verkefnum.

Loks ber að hafa í huga að velferðarmál eru atvinnumál. Þannig er heilbrigðis- og velferðarkerfið vinnustaður fjölmargra kvennastétta. Í stað þess að ýta þeim út í atvinnuleysi og þar með að rýra velferðarkerfið ber að verja þessi störf sérstaklega sem og önnur störf sem eru hluti mennta- og velferðarkerfisins.

Þá beinir Vinstrihreyfingin – grænt framboð því til samtaka launafólks að þau efni til samráðs um hliðstæðar aðgerðir á vegum stéttarfélaganna og bandalaga þeirra. Eðlilegt er að Samband íslenskra sveitarfélaga fylgist með þróun og árangri þessa verkefnis í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og aðra hlutaðeigandi aðila.

Í átaki af þessu tagi verður að gera ráð fyrir því að ríkið geti við fækkun atvinnulausra sparað fjármuni sem ella færu til atvinnuleysisbóta. Ríkið hlýtur því að koma til móts við verkefnið með því að veita stuðningsframlög til viðkomandi sveitarfélaga og nemi heildarútgjöld ríkisins í þessu skyni upphæð sem á árinu 2009 svari til helmings útgjalda vegna 10% atvinnuleysis og á árinu 2010 fjórðungi þeirrar upphæðar. Réttlætanlegt er að taka lán í þessu skyni þar sem með fleiri atvinnutækifærum skapast auknar tekjur fyrir ríkissjóð og í sjóði sveitarfélaganna auk þess sem dregur úr ýmiss konar samfélagsvanda.

ferðaþjónustan á flug

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur til að farið verði í stórátak til eflingar íslenskrar ferðaþjónustu. Átakið taki mið af mikilvægi greinarinnar fyrir atvinnu- og efnahagslífið en nýlegar upplýsingar frá Hagstofu Íslands sýna svart á hvítu að ferðaþjónustan er ein af þremur meginstoðum efnahagslífisins og vaxtarmöguleikar hennar miklir. Landsfundurinn leggur áherslu á stuðning við samstarf, frumkvæði og nýsköpun heimamanna á hverjum stað ásamt því að stórefla rannsóknir og grunnstoðir ferðaþjónustunnar þannig að greinin geti starfað í sátt við umhverfi sitt.

Ferðaþjónustan hefur undanfarin ár skapað fjölmörg ný og fjölbreytt störf um land allt. Að sama skapi hefur hún haft í för með sér fjölbreyttari og arðbærari þjónustu og aukna afþreyingarmöguleika fyrir heimamenn. Félagsleg áhrif ferðaþjónustu eru lítt könnuð og örugglega vanmetin fyrir samfélagið, því skiptir miklu máli að efla rannsóknir í þessari atvinnugrein.

Landsfundurinn leggur áherslu á að fjölga innkomuleiðum til landsins. Millilandaflug á heilsársgrunni til Akureyrar og/eða Egilsstaða kemur til með skapa ferðaþjónustufyritækjum á Norður og Austurlandi algjörlega nýjan rekstrargrundvöll, efla nýsköpun og þróun í ferðaþjónustu og hafa gríðarlega jákvæð áhrif á aðra atvinnustarfsemi á landsbyggðinni sérstaklega yfir vetrartímann. Margfeldisáhrif af ferðaþjónustu eru mikil og því getur þessi aðgerð ein og sér stuðlað að verulegri atvinnuuppbyggingu á áhrifasvæðum millilandsflugsins.

Jafnframt þarf að leggja áherslu á fjölbreytta vaxtarsprota ferðaþjónustunnar og má þar nefna marga nýja möguleika í náttúruskoðun, heilsuferðaþjónustu, menningar- og matarferðaþjónustu. Bæta þarf öryggi og aðstöðu flugrekstraraðila á landsbyggðarflugvöllum þannig að þeir geti sinnt eðlilegri þjónustu á þessum svæðum. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tryggja ferðaþjónustunni sambærilega stöðu í lögum og stjórnskipun og öðrum atvinnugreinum og lítur á hana sem einn af vænlegustu kostunum til eflingar gjaldeyrisöflunar, fjölgunar starfa og almennrar atvinnuuppbyggingar á komandi árum.

kraftmikill landbúnaður

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur svo á að kraftmikill landbúnaður sé nauðsynlegur til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Einnig er landbúnaðurinn brýnt samfélags- og umhverfismál. Framtíð þessa atvinnuvegar á Íslandi veltur á því að víðtæk sátt ríki um starfsskilyrði landbúnaðarins og það fjölþætta hlutverk sem hann gegnir í landinu, þar á meðal að framleiða holl matvæli á viðráðanlegu verði, treysta búsetu í dreifbýli, viðhalda umhverfisgæðum, tryggja fæðu- og matvælaöryggi, styðja ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar.

Stefna skal að sjálfbærni landbúnaðar á Íslandi. Framleiða skal innanlands eins og kostur er það eldsneyti og þau áburðarefni sem nauðsynleg eru við matvælaframleiðslu þjóðarinnar.


Stefna skal að því að fæðuöryggi þjóðarinnar verði með þeim hætti að framleitt verði það mikið af matvöru í landinu að sú framleiðsla nægi til þess að sjá landinu farborða hvað fæðu varðar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi. Fjölskyldubúið verði áfram sú framleiðslueining sem halda skal í heiðri og stuðningskerfi landbúnaðarins verði skipulagt út frá þeirri einingu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir eindregnum vilja til að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði, m.a. með lánasjóði til handa nýliða í greininni til jarðakaupa, og hindra að verslun með bújarðir hnekki byggð í sveitum landsins. Brýnt er að endurskoða jarðalög með þetta í huga og tryggja að eignarhaldi á jörðum fylgi bæði réttindi og skyldur gagnvart umhverfi og samfélagi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill beita sér fyrir lagasetningu um hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða –magni innan hverrar búgreinar. Í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verði miðað við 1% af heildargreiðslumarki. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir vilja sínum til að stuðla að upplýstri og sanngjarnri umræðu um matvælaframleiðslu og matarverð á Íslandi.

aðgerðir í landbúnaðarmálum

  • Vexti verður að lækka án tafar.
  • Stefnt verði að byggingu áburðarverksmiðju hið fyrsta.
  • Auka þarf kornbirgðir landsins og stefnt skal að byggingu birgðastöðva fyrir korn.
  • Efla skal rannsóknir og þróun á hveitirækt á Íslandi og stefna að því að landið verði sjálfbært hvað hveiti varðar eins skjótt og auðið er.
  • Raforkukostnaður í dreifbýli verður að lækka til jafns við það sem gerist í þéttbýli.
  • Tryggja verður afendingaröryggi rafmagns og ríkið skal koma að 3 fösunar átaki þannig að iðnaður í hinum dreifðu byggðum standi jafnfætis öðrum svæðum.
  • Efla skal rannsóknir á sjálfbærum orkugjöfum til landbúnaðarnotkunar og stefna að nýtingu þeirra hið fyrsta.
  • Koma skal í veg fyrir sjálfskipaðan rétt verslana til þess að skila ferskri kjötvöru aftur til afurðastöðva. Beita skal lagasetningu ef með þarf.
  • Allar landbúnaðarafurðir verði upprunamerktar og auðkenndar með tilliti til framleiðslulands, bæði íslenskar og innfluttar.
  • Að rannsakað verði hvort hægt sé að nýta úrgang annarra atvinnugreina til áburðargerðar t.d. úrgang frá fiskiskipaflotanum. Að sama skapi verði skoðaðir möguleikar á nýtingu annarra hráefna til áburðarframleiðslu.
  • Gera reglur um fullvinnslu afurða þannig úr garði að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir
  • Að hugað verði að landnýtingu og reynt að tryggja í almennu skipulagi að ræktarland fari ekki undir aðra starfsemi en landbúnaðarframleiðslu.
  • Að kortlagt verði með skipulögðum hætti hvernig Ísland getur reitt sig á innlenda matvælaframleiðslu með umfangsmeiri hætti en nú er. Sérstaklega þarf að vera tryggt að fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar verði tryggt.
  • Efla stuðning við lífrænan búskap, til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, og styrkja rannsóknir á því sviði
  • Stuðla að aukinni þátttöku bænda í landgræðslu, skjólbeltarækt og skógrækt.
  • Tryggja fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum, innlendum jafnt sem innfluttum, m.t.t. notkunar erfðabreyttra lífvera við framleiðsluna.
  • Endurskoða löggjöf um dýravernd á heildstæðan hátt.
  • Að eftirlits- og leyfisgjöld í landbúnaði verði lækkuð þannig að þau endurspegli raunverulegan kostnað vegna slíkrar starfsemi í þeim mæli sem hennar er þörf
  • Að bændur verði aðstoðaðir að virkja metan til notkunar í vélakost sinn
  • Grípa þarf til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að áburðarnotkun dragist saman með tilheyrandi framleiðslusamdrætti.

matvælafrumvarpið

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur til að matvælafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi verði hafnað. Frumvarpið opnar fyrir óafturkræfan innflutning sýkla sem ekki finnast í íslensku umhverfi og geta valdið skæðum sjúkdómum í mönnum og dýrum og þar með óbætanlegu tjóni á bústofnum landsins og heilsu manna. Frumvarpið setur auk þess fjölda starfa hérlendis í uppnám. Endurheimta þarf þá undanþágu frá innflutningi á sláturafurðum sem Íslendingar fengu þegar þeir tóku upp að hluta matvælalöggjöf EES en fellur niður með samþykkt þessa frumvarps.

ræktun í gróðurhúsum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur til að gert verði stórátak til eflingar innlendri framleiðslu í gróðurhúsum. Vinstri græn vilja að gróðurhúsa-bændur fái sömu niðurgreiðslu á dreifingarkostnaði rafmagns og var fyrir 1. mars 2009. Einnig vill landsfundurinn jafna þann mikla mun sem er á kostnaði vegna rafmagns í dreifýli og þéttbýli. Auk þess á að athuga hvort hægt sé að lækka rafmagn til þeirra svo verðið nálgist það sem stóriðjan greiðir.

menntun er leiðarljósið

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lítur svo á að menntamál séu leiðarljós íslensku þjóðarinnar út úr því ölduróti efnahagsþrenginga sem dunið hafa yfir. Menntakerfið er hjarta sem pumpar blóði út í samfélagslíkamann og því þarf að hlúa vel að því.

gjaldfrjáls menntun

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktar að menntun skuli vera ókeypis á öllum skólastigum. Innritunargjöld og bókakostnaður mega því ekki leiða til mismununar til náms í opinberum skólum. Á háskólastigi beri að stefna í áföngum að námslaunakerfi í stað námslánakerfis, líkt og þekkist á hinum Norðurlöndunum og víðar.

fjármagn til menntunar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktar að ríkisfjármunum verði forgangsraðað þannig að ekki verði dregið úr fjárveitingu til menntunar. Einnig að lögð verði áhersla á og hlúð sérstaklega að opinberum háskólum.

úrbætur fyrir námsmenn

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktar eftirfarandi um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

  • Hækka beri grunnframfærslu námslána þannig að hún sé í það minnsta jöfn núverandi atvinnuleysisbótum.
  • Taka beri upp samtímagreiðslur námslána hið fyrsta. Skoða þarf möguleikann á að ná því fyrir næsta skólaár.
  • Fella beri niður verðtryggingu námslána að norrænni fyrirmynd

listir í þágu barna

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktar að lista- og menningarstofnanir  á borð við söfn, leikhús, tónlistarstofnanir, ríkisútvarp og aðrar stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé, nýti hið minnsta fjórðung hins opinbera framlags til starfsemi fyrir börn og unglinga.

skipulag höfuðborgarsvæðis

Það er ljóst að sú ofurþensla sem hefur orðið á byggingamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu á undanförnum árum á talsverðan þátt í skuldsetningu þjóðarbúsins. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hvetur eindregið til þess að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og annarra þéttbýliskjarna verði endurskoðað og búið svo um hnútana að því verði framfylgt. Þar komi til fullt samráð sveitarfélaganna á viðkomandi svæði þar sem tekið verði mið af þörf, hagkvæmni, samgöngu og náttúruvernd og landsvæði nýtt skynsamlega.

umhverfisvænn ferðamáti

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur stjórnvöld til að efla almenningssamgöngur og gera umhverfisvænan ferðamáta að raunhæfum valkosti.

VG kallar eftir ábyrgri samgönguáætlun fyrirtækja og stofnana í landinu. Alþingi felli nú þegar út alla tolla og gjöld af reiðhjólum og öryggistækjum fyrir umferðina.

Bæta þarf strætó- og almenningssamgöngukerfi á landsvísu, m.a. með því að auka ferðatíðni vagna og tryggja aðgengi, stöðugleika og áreiðanleika kerfisins. Skoða skal allar sanngjarnar leiðir við verðlagningu á þjónustu almenningssamganga og skipa sérstakt neytendaráð til að mæta þörfum notenda.

Efla skal valkosti við einkabílinn og stórbæta alla aðstöðu samgönguhjólreiða. Leitast skal við að forgangsraða þannig í skipulagsmálum að áhersla sé á aðgerðir og framkvæmdir í þágu almenningssamgangna og hjólreiða, en draga úr dýrum aðgerðum sem þjóna fyrst og fremst einkabílavæðingunni.

árósarsamningi fagnað

Landsfundur VG fagnar yfirlýsingu umhverfisráðherra, Kolbrúnar Halldórsdóttur, um að Árósasamninginn verði staðfestur. Mikilvægt er að ekki dragist að fullgilda samninginn og þau lög og regluverk sem honum fylgir svo hann geti komist í framkvæmd sem fyrst.

Í samræmi við anda samningsins leggur því landsfundur VG til að það verði hluti af umhverfisstefnu flokksins að endurvekja náttúruverndarþing sem haldið yrði annað hvert ár.

Tilgangur þingsins yrði að skapa öflugan, lýðræðislegan vettvang til umræðu um umhverfismál, samþykkta og áskorana og beina athygli samfélagsins að málaflokknum. Fundurinn felur umhverfishópi VG að semja tillögur að reglum um framkvæmd þingsins og farveg fyrir samþykktir þess og ályktanir.

skipan kvenna í nefndir og ráð

Eftir efnahagshrunið hefur forysta Vinstri grænna ítrekað talað um mikilvægi þess að konur verði virkir þátttakendur til jafns við karla í því uppbyggingarstarfi sem framundan er og því skjóta tilnefningar ríkisstjórnar og þingflokks í ýmsar nefndir og ráð sem að þessu lúta skökku við.
Landsfundur Vinstri grænna krefst þess að á þessu verði gerð bragarbót og jafnframt íhugað að leiðrétta skipan í  nefndir og ráð sem þegar hefur verið skipað í, til samræmis við stefnu VG.

jafnrétti og frelsi í trúmálum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn að Hótel Nordica 20.-22. mars 2009 ályktar að stefna skuli að aðskilnaði þjóðkirkju og ríkisvalds. Mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samstarf ríkis og trúfélaga.

Landsfundurinn leggur til eftirfarandi aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og frelsi í trúmálum Íslendinga:


1) Breyta skal ákvæðum laga um aðild að trúfélögum á þann veg að sjálfkrafa skráning barns í trúfélag móður  við fæðingu verði afnumin. Framvegis verði samþykki beggja forsjáraðila, ef þeir eru tveir, að liggja fyrir til þess að barn sé skráð í trúfélag þegar það er yngra en svo að því sé heimilt að sjá um trúfélagsskráningar sínar sjálft. 


2) Afnema skal 125. grein almennra hegningarlaga, lög um guðlast, sem hljóðar svo: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.” 


3) Lífsskoðunarfélög sem gegna sama félagslega hlutverki og trúfélög öðlist sömu lagalegu réttindi og þau.


4) Virða ber réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna. 


5) Það skulu vera ein hjúskaparlög á Íslandi. 

breytt heimsmynd

Miklar og sögulegar breytingar hafa á undanförnum árum gengið yfir heiminn á sviði utanríkis- og öryggismála og viðskipta og stjórnmála. Eftir langt kyrrstöðutímabil kaldastríðsáranna þar sem kjarnorkuvígbúið ógnarjafnvægi hélt heiminum í helgreipum hafa hlutirnir verið á fleygiferð.  Þessar breytingar lúta ekki aðeins að upplausn Sovétríkjanna og þar með gerbreyttum stjórnmálaaðstæðum í Evrópu, heldur einnig að hnattvæðingu á forsendum fjármagns og stórfyrirtækja, stríði um olíu og aðrar auðlindir.  Þá hafa hnattrænar umhverfisbreytingar af mannavöldum bæst við sem ógnvaldur og brýnt er að við þeim sé brugðist ef komast á hjá stórfelldum ófarnaði.  Í friðar- og öryggismálum eru áfram margar blikur á lofti. Árásarstríð Bandaríkjanna og NATO geisa enn í Afganistan og Írak og framferði Ísraelsstjórnar gegn palestínsku þjóðinni jaðrar við þjóðarmorð.  Í Afríku standa yfir átök og jafnvel hreinar kynþáttahreinsanir á fleiri en einum stað. Allt eru þetta ótvíræðar vísbendingar um að aðferðafræði hernaðarhyggjunnar, hnefaréttarins og hernaðar­bandalaganna er gjaldþrota sem leið til að tryggja öryggi.

ný sýn, sjálfstæð stefna

Landsfundur VG telur óhjákvæmilegt að Íslendingar móti stefnu í utanríkis- og öryggismálum sem tekur mið af breyttri heimsmynd og nýrri og víðari skilgreiningu á öryggishugtakinu.  Fundurinn fagnar því að út er komin skýrsla um áhættumat fyrir Ísland, sem tekur heildstætt á spurningum um öryggi lands og þjóðar. Sérstaklega ber að fagna því að öryggishugtakið er ekki lengur einangrað við hernaðarlega þætti heldur tekur á samfélagslegum og mannlegum áhættuþáttum eins og umhverfisvá, skipulagðri glæpastarfsemi, efnahagskreppu, mansali, matvælaöryggi, farsóttum o.fl.  Sú útvíkkun öryggishugtaksins  er löngu tímabær, enda eru hugmyndir um að hernaðarógn sé það helsta sem að landinu geti beinst tímaskekkja. Tryggja þarf að áhættumat fyrir Ísland sé uppfært reglulega og á faglegum grundvelli.

friðlýst land

Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu.  Landsfundurinn vekur athygli á mótmælum víða í Evrópu í tilefni þess að í vor verða 60 ár liðin frá stofnun Atlantshafsbandalagsins.  Landsfundur VG telur að leggja eigi niður Varnarmálastofnun.  Þess í stað væri fullt tilefni til að  setja á laggirnar alþjóðlega og sjálfstæða rannsóknarstofnun í öryggis- og friðarmálum og leggja þannig áherslu á hlutverk Íslands í mannréttinda-, umhverfis- og friðarbaráttu.  Ísland á að beita sér fyrir útrýmingu gereyðingarvopna.  Ennfremur á að hætta þeim kaldastríðsleikjum sem felast í svokallaðri loftrýmisgæslu.  Landsfundurinn leggur áherslu á að Íslandi beri að marka sér sjálfstæða stefnu í samfélagi þjóðanna og nota sérstöðu sína til frumkvæðis í friðar- og afvopnunarmálum.  Fundurinn fagnar framkomnu frumvarpi þingmanna VG o.fl. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja og hvetur Alþingi til að samþykkja það. 

þróunarsamvinna, ábyrg viðskipti

Þrátt fyrir þær efnahagshörmungar sem gengið hafa yfir Ísland að undanförnu, má ekki gleymast að Íslendingar standa eftir sem áður betur en flestar þjóðir.  Varast ber að draga úr framlagi til þróunarsamvinnu.  Þjóðin verður að vera virkur og ábyrgur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu.  Hér ber sérstaklega að leggja áherslu á störf í þágu kvenna sem stuðla bæði að jákvæðri þróun og friðaruppbyggingu.

Í ljósi heimskreppunnar ber íslenskum stjórnvöldum að taka undir kröfur og aðgerðir á alþjóðavísu um breytta stefnu í alþjóðafjármálum og viðskiptum.  Þar má nefna að skattaskjólum verði lokað, dregið verði úr valdi og umsvifum stórfyrirtækja með alþjóðlegum aðgerðum, fyrirkomulag alþjóðlegra fjármála- og viðskiptastofnana verði endurskoðað og viðskipti milli landa taki mið af hagsmunum almennings, jafnrétti, umhverfisvernd og sjálfbærri þróun.

norðurslóðir

Þess verður að gæta að viðkvæm náttúra hafsvæðisins umhverfis Ísland hljóti ekki skaða af mögulega aukinni skipaumferð og auðlindanýtingu í kjölfar breyttra aðstæðna í Norðuríshafi. Landsfundur VG telur að Ísland eigi að beita sér fyrir umræðu allra hlutaðeigandi ríkja um friðlýsingu Norðurheimsskautssvæðisins.  Benda má á það samkomulag sem gildir um umsvif á Suðurskautssvæðinu.

evrópusambandið

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.

palestína

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn áréttar stefnu Íslands varðandi Ísrael  og Palestínu sem samþykkt var einróma á Alþingi 18. maí 1989. Þar var lögð áhersla á að virða beri sjálfákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar, tilverurétt Ísraelsríkis og jafnframt rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna. Landsfundurinn ályktar að á grundvelli stefnu Íslands um sjálfsákvörðunarrétt þjóða beri Íslandi að viðurkenna þau stjórnvöld sem Palestínumenn kjósa sér. 

Íslensk stjórnvöld verða að leggja sitt af mörkum til að rofin verði herkvíin um Gaza sem enn hefur ekki verið aflétt. Íslenskum stjórnvöldum ber að endurskoða afstöðu sína til Ísraels.  Miðað við óbreytta stefnu ísraelskra ráðamanna gagnvart Palestínu, hljóta hérlend stjórnvöld að íhuga alvarlega að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Landsfundur VG skorar á íslensk stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að réttlátum friði í Austurlöndum nær.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search