Sjálfbært Ísland – fyrir fólkið í landinu
Vinstrihreyfingin – grænt framboð fagnar þeim ótvíræða árangri sem náðst hefur við að endurreisa efnahag Íslands á yfirstandandi kjörtímabili. Dugnaður þjóðarinnar, ríkulegar auðlindir og sterkir innviðir, en ekki síst kjölfestan sem fólgin er í þróuðu velferðarsamfélagi sem staðinn hefur verið vörður um eftir föngum, skiptir sköpum í þeim efnum. Aðferðir Íslands og árangur við að vinna sig út úr hruninu mikla árið 2008 hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim. Blönduð leið tekjuöflunar og sparnaðar, áhersla á aukinn jöfnuð og sanngjarna dreifingu byrðanna er nú þekkt sem íslenska leiðin eða íslenska módelið. Ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar hefur áorkað miklu á fjölmörgum sviðum þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður. Fjölmörg stefnumál og baráttumál Vinstri grænna gegnum tíðina hafa náð fram að ganga.
Þar má nefna samþykkt rammaáætlunar, umbætur í málefnum hælisleitenda og
útlendinga, lagabreytingar á borð við austurrísku leiðina og bann við
vændiskaupum, lögfestingu íslenska táknmálsins sem móðurmáls heyrnarlausra,
nýja rammalöggjöf um fjölmiðla, ný upplýsingalög, fjárfestingaáætlun í
atvinnumálum sem byggist á grænum atvinnutækifærum og skapandi greinum,
vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi, fjölgun friðlýstra svæða, aukna húsafriðun,
viðurkenningu Palestínu sem sjálfstæðs ríkis, aukin framlög til þróunarsamvinnu
á nýjan leik og endurskipulagningu stjórnarráðsins svo fátt eitt sé nefnt.
Þrotlaust starf undanfarin fjögur ár hefur skilað ótvíræðum árangri. Dregið hefur umtalsvert úr atvinnuleysi, halli ríkissjóðs er því sem næst horfinn og hagvöxtur hefur verið einn sá mesti í Evrópu undafarin tvö ár. Þessi hagvöxtur er ekki fenginn með ofvöxnum, ósjálfbærum stóriðjuframkvæmdum, heldur með stuðningi við nýsköpun og þróun, vöxt lítilla og meðalstórra fyrirtækja, vexti ferðaþjónustu, tækni og þekkingargreina, skapandi greina og vaxandi krafti hefðbundinna útflutnings- og samkeppnisgreina.
Við okkur blasa fjölmörg verkefni sem kalla á áframhaldandi stjórn félagshyggjufólks á Íslandi. Árangur Vinstri grænna sýnir að það eru til svör við auðhyggju og neysluhyggju sem skila langtímaárangri en reynslan sýnir einnig að verkefnið er langhlaup sem kallar á úthald og þol.
Um atvinnulíf og nýsköpun
Tækifæri til nýsköpunar hafa stórbatnað hér á landi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hefur verið stórbætt og stjórnvöld hafa fjárfest í nýsköpun og rannsóknum með því að tvöfalda framlög í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð. Miklu skiptir að halda áfram á þessari braut, tryggja að lítil og meðalstór fyrirtæki búi við gott starfsumhverfi og skapa sprotum tækifæri til að nálgast þolinmótt fjármagn til langtímauppbyggingar.
Mikilvægt er að stuðla líka að rannsóknum og þróun í hefðbundnum framleiðslugreinum,
sjávarútvegi og landbúnaði. Nýsköpun í matvælaframleiðslu hefur sjaldan verið
blómlegri og þar liggja mikil sóknarfæri. Miklu skiptir að rækta þau tækifæri,
bæði með eflingu rannsókna en einnig með því að efla enn stuðningskerfi nýsköpunar.
Þannig er unnt að gera landið sjálfbærara um matvælaframleiðslu fyrir íbúana.
Það er bæði stórt fæðuöryggismál en líka stórt umhverfismál. Þá þarf að auka
hlut lífræns landbúnaðar á Íslandi.
Ferðaþjónustan hefur blómstrað á undanförnum árum, bæði sökum hagfelldra ytri
aðstæðna en líka vegna markvissrar aðkomu stjórnvalda að landkynningu annars
vegar og svo stóraukinni áherslu á uppbyggingu ferðamannastaða í gegnum
fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Áfram þarf að halda á þeirri braut og
tryggja að náttúruperlur þjóðarinnar láti ekki á sjá undan ágangi ferðamanna,
bæði með markvissri uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferðamenn á fleiri
viðkomustöðum og bættri skipulagningu ferðaþjónustu. Miklu skiptir að tengja
landkynningu á náttúru og menningu saman í auknum mæli og breikka þannig þann
hóp ferðamanna sem kemur til landsins.
Ríkisstjórnin hefur unnið mikið verk í stefnumótun um skapandi greinar. Í fyrsta sinn voru hagræn áhrif skapandi greina kortlögð og í framhaldinu var samþykkt að stórauka framlög í verkefnasjóði skapandi greina í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og stofna formlegan samráðsvettvang stjórnvalda og skapandi greina til að móta stefnu næstu ára. Miklu skiptir að halda áfram á þessari braut, samræma stuðningskerfi við ólíkar greinar og tryggja jafnvægi frumsköpunar, vöruþróunar og markaðssetningar.
Samþykkja þarf það fiskveiðifrumvarp sem liggur fyrir Alþingi. Það er enn einn áfangi á þeirri vegferð að gera íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið réttlátara. Núverandi ríkisstjórn kom á strandveiðum og lagði á veiðigjald sem gerir það að verkum að þeir sem nýta fiskveiðiauðlindina skila hluta af hagnaði sínum til samfélagsins. Með nýju frumvarpi er gerð sú kerfisbreyting að eign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni er undirstrikuð og um leið er aukinn hluti aflaheimilda boðinn upp í gegnum kvótaþing.
Auðlindamál
Í efnahagsþrengingum undanfarinna ára hafa margar þjóðir leiðst út í að selja auðlindir, orkuvinnslu- og veitufyrirtæki. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið staðinn vörður um samfélagslegt eignarhald á auðlindum og orku- og veitufyrirtækjum. Ekki kemur til greina að einkavæða slíkar grunnstoðir. Mikilvægt er að ákvæði um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum fari inn í stjórnarskrá og lög þar að lútandi verði í framhaldinu endurskoðuð.
Byggðamál
Núverandi ríkisstjórn hefur sett fram nýja stefnu í byggðamálum undir yfirskriftinni Sóknaráætlun landshluta þar sem áhersla er lögð á að landið er ein heild og höfuðborg og landsbyggðir eiga sameiginlega hagsmuni í að um land allt sé öflugt samfélag og atvinnulíf. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar er þar lykilatriði þar sem miklu skiptir að byggja atvinnulíf á fjölbreyttum stoðum, nýta nærumhverfið, draga úr flutningskostnaði og treysta grunnstoðir samfélagsins. Annað lykilatriði er að fjárveitingar eru í auknum mæli fluttar heim í hérað þannig að heimamenn koma sjálfir að forgangsröðun fjármuna. Þessi hugmyndafræði byggir á lýðræðislegu samráðsferli um land allt og miklu skiptir að byggja áfram á henni og styrkja þannig byggðir landsins. Þar mun Byggðastofnun einnig skipta máli sem stuðningsaðili við byggðir sem á þurfa að halda. Þá er jöfnun flutningskostnaðar sem loksins komst á í tíð núverandi ríkisstjórnar mikið byggðamál. Eitt af forgangsverkefnum byggðamála á komandi árum þarf að vera ljósleiðaravæðing í dreifbýli og full jöfnun húshitunarkostnaðar. Treysta þarf byggð í landinu með sanngjarnari skiptingu tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins til ákvarðana um grunnþjónustu.
Um heilbrigðis- og velferðarmál
Á tímum stórfellds niðurskurðar hefur núverandi ríkisstjórn lagt mikla áherslu á að hlífa heilbrigðiskerfinu. Eigi að síður hefur þar dregið úr þjónustu sem miklu skiptir að efla á nýjan leik þegar jöfnuður er kominn á í ríkisfjármálum. Fyrstu merki þess sjást nú þegar, með auknum fjárveitingum til tækjakaupa á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri, og þá er viðamikil áætlun í gangi um uppbyggingu hjúkrunarheimila víða um land. Einnig skiptir miklu að ráðast í markvissar aðgerðir til að bæta kjör umönnunarstétta í heilbrigðiskerfinu og þarf það að vera forgangsmál í jafnlaunaátaki stjórnvalda.
Það eru tækifæri framundan til að endurskoða heilbrigðiskerfið og leggja aukna
áherslu á heilsugæslu og forvarnir í heilbrigðiskerfinu. Miklu skiptir að stjórnvöld
tryggi að heilsugæslan fái aukið vægi sem fyrsti viðkomustaður í
heilbrigðisþjónustunni. Breyta á fyrirkomulagi sjúkratrygginga og leggja niður
núverandi Sjúkratryggingastofnun.
Hefja á uppbyggingu nýs Landspítala enda markmiðið allt í senn að bæta þjónustu við sjúklinga, vinnuaðstæður starfsfólks og gera rekstur spítalans einfaldari og hagkvæmari. Þessi framkvæmd á að vera opinber framkvæmd. Samhliða þarf að tryggja rekstur öflugs sjúkrahúss á Akureyri og heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa um land allt sem eru lykilatriði í þeirri hugmyndafræði að halda landinu öllu í byggð.
Hafin er framkvæmd áætlunar um að auka í áföngum niðurgreiðslu tannlækninga barna og unnið hefur verið að því að ná samningum við tannlækna um að þeir komi inn í sjúkratryggingakerfið. Brýnt er að ljúka þessu verkefni. Næsta skref er að gera sálfræðiþjónustu hluta af almenna heilbrigðiskerfinu og brýnt að vinna að úrbótum í geðheilbrigðismálum á næstu árum.
Unnið hefur verið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í tíð núverandi ríkisstjórnar. Leggja þarf áherslu á að afmá þann smánarblett sem fátækt er í okkar ríka samfélagi, meðal annars með endurskoðun á atvinnuleysis- og örorkubótum og samspili almannatrygginga- og lífeyrisgreiðslna í skattkerfi sem hlífir tekjulægri hópum. Setja þarf í samstarfi við sveitarfélög grunnviðmið fyrir framfærslu sveitarfélaga.
Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið lyft grettistaki í því að efla virkni atvinnuleitenda, bæði með menntaátakinu Nám er vinnandi vegur en einnig með virkniátökum og nú síðast hinu umfangsmikla verkefni Liðsstyrkur þar sem gert er ráð fyrir að útvega fjölda atvinnuleitenda störf. Nýta þarf lærdóminn af þessum verkefnum og breyta kerfinu varanlega, m.a. að taka upp framfærslustyrki fyrir atvinnuleitendur sem vilja leita sér menntunar.
Hlutfall eldri borgara undir fátæktarmörkum var orðið mjög hátt þrátt fyrir meint góðæri í aðdraganda hrunsins en það hefur farið jafnt og þétt lækkandi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hins vegar eru mörg verkefni óunnin á þessu sviði, ekki síst að tryggja eldri borgurum búsetu sem lengst á eigin heimili ásamt því að tryggja framboð hjúkrunarrýma um land allt en með breyttri aldurssamsetningu samfélagsins er líklegt að álagið á þessu sviði muni aukast á komandi árum. Þá þarf að tryggja að hjón geti eytt efri árunum saman þó að annað eða bæði þurfi á hjúkrun að halda.
Um kvenfrelsi
Eitt einkenni heilbrigðs samfélags er að bæði konur og karlar fá notið sín og fólki sé ekki mismunað eftir kyni. Að þessu markmiði hefur verið markvisst unnið á kjörtímabilinu. Fagna ber yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um átak til að jafna laun karla og kvenna og miklu skiptir að því sé fylgt eftir og laun kvenna hækkuð í þeim kjarasamningum sem eru framundan hjá ríki og sveitarfélögum. Veita þarf Jafnréttisstofu sérmerktar fjárveitingar til launaúttekta á vinnumarkaðnum þannig að unnt sé að fylgjast nánar með kynbundnum launamun. Samhliða því er mikilvægt að móta aðgerðir gegn kynskiptu námsvali sem leiðir af sér kynskiptan vinnumarkað, t.d. með því að efla kynjafræðilega nálgun í náms- og starfsráðgjöf.
Mikið hefur verið unnið gegn kynbundnu ofbeldi og austurríska leiðin, sem snýst um að ofbeldismaður skuli fjarlægður af heimili en ekki þolandi, varð að lögum. Þar þarf hins vegar að bæta framkvæmd laganna með fræðslu og þjálfun löggæslufólks. Ennfremur þarf að bjóða upp á meðferðarúrræði fyrir ofbeldismenn og efla Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana.
Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum og vakið athygli á stöðu kláms og klámvæðingar í samfélaginu. Þar þarf að vinna áfram, bæði innan skólakerfisins, með því að bæta fræðslu um klám og kynferðisofbeldi gegn börnum inn í menntun kennara og með aukinni fullorðinsfræðslu sem ætti að beinast að foreldrum. Öll börn eiga samkvæmt lögum að njóta jafnréttismenntunar. Því þarf að fylgja nýjum námskrám eftir, þar sem jafnrétti er einn af sex grunnþáttum, með auknu fjármagni til símenntunar og námsefnisgerðar en ekki síst með aukinni áherslu á kynjafræði í uppeldisfræðitengdum greinum á háskólastigi.
Um umhverfi og náttúruvernd
Mikið hefur áunnist í náttúruverndarmálum á kjörtímabilinu. Árósarsamningurinn var innleiddur, fjölmörg svæði hafa verið friðlýst, frumvarp til nýrra laga um náttúruvernd liggur nú fyrir þinginu og rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma var samþykkt, sem lengi hefur verið kappsmál náttúruverndarsinna. Þá hefur landslagssáttmáli Evrópu verið fullgiltur. Fyrir liggur hins vegar að vinna þarf áfram ötullega að friðlýsingum svæða, ekki síst í kjölfar samþykktrar rammaáætlunar.
Loftslagsmál munu verða fyrirferðarmesta mál umhverfisumræðunnar á næstu árum
og áratugum og þar hefur þegar verið samþykkt aðgerðaáætlun fyrir Ísland til
2020 sem gerir ráð fyrir 30% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Í
loftslagsmálum skiptir höfuðmáli að Vinstrihreyfingin – grænt framboð fari
áfram með stjórn umhverfismála, innleiði orkuskipti í innlendum samgöngum og
stuðli að breyttum og vistvænni samgönguháttum. Þar skiptir mestu að hið
opinbera gangi á undan með góðu fordæmi, leggi aukna áherslu á vistvæna
samgönguhætti og taki upp endurnýjanlega
orkugjafa í öllum sínum bílaflota. Jafnframt verði sjávarútvegsfyrirtæki hvött með
skattaívilnunum að reyna nýja
endurnýjanlega orkugjafa.
Vinna þarf að breytingum á neyslumynstri Íslendinga til að draga úr vistspori þjóðarinnar, meðal annars með því að stuðla að frekari endurvinnslu og minni neyslu.
Undir forystu ríkisstjórnarinnar var ákveðið að setja milljarð árlega í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að setja fjármuni í dýrar stofnframkvæmdir í þágu einkabílsins. Þetta er marktæk aðgerð til að bæta loftgæði, draga úr því rými sem fer í samgöngumannvirki og bæta umhverfi. Þessu verkefni þarf að halda áfram. Á sama tíma hafa almenningssamgöngur um land allt verið bættar sem bæði hefur skilað umhverfislegum ávinningi og lægri fargjöldum. Áfram þarf að bæta almenningssamgöngur, sérstaklega á landsbyggðinni, en enn eru stór svæði á landsbyggðinni sem ekki njóta almenningssamgangna. Huga þarf að samnýtingu póst-, vöru- og fólksflutninga á strjálbýlum svæðum.
Upptaka strandsiglinga í kringum landið hefur verið undirbúin en hún mun draga
úr álagi á vegakerfi og auka umferðaröryggi og er brýnt að festa komist á slíkt
fyrirkomulag.
Um hag barnafjölskyldna
Það eru stærstu hagsmunir íslenskra barnafjölskyldna að stjórnvöld á hverjum tíma hugi að samfélagsþróun til langs tíma með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Það eru hagsmunir íslenskra barna að ekki sé gengið á náttúruauðlindir þjóðarinnar, að grunnstoðirnar séu ekki færðar í hendur einkaaðila, að efnahags- og atvinnustefna geri ráð fyrir sjálfbærri og jafnri uppbyggingu þar sem ekki er gengið á samfélagsleg gæði, náttúruauðlindir eða efnahagsleg gæði.
Ósjálfbær húsnæðisstefna, ofuráhersla á einkaeign húsnæðis, með tilheyrandi skuldsetningu, og skortur á samræmdum leikreglum um fasteignalán hafa skapað mikinn vanda fyrir íslenskar fjölskyldur eftir hrun. Þó gripið hafi verið til margþættra aðgerða til að styðja við fjölskyldur í greiðsluvanda, meðal annars stóraukinna vaxtabóta, er ljóst að endurskoða þarf íslenska húsnæðiskerfið til framtíðar. Þar er mikilvægt að skoða verðtrygginguna og hugmyndir um 2% vaxtaþak á hana, tryggja að óverðtryggð lán verði í boði hjá Íbúðalánasjóði á félagslegum grunni og að byggður verði upp öflugur leigumarkaður með aðkomu stjórnvalda í byrjun sem geri leiguhúsnæði að raunverulegum og öruggum valkosti fyrir fjölskyldufólk. Sérstaklega ber í því tilliti að líta til húsnæðissamvinnufélaga þar sem íbúar verða rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði.
Ríkisstjórnin hefur nú þegar lagt línurnar með breytingum á lögum um fæðingarorlof, hækkað viðmiðunarfjárhæðir sem skornar voru niður í kreppunni og hafið lengingu orlofs í áföngum upp í eitt ár. Efna þarf til viðræðna milli ríkis og sveitarfélaga um að samhliða lengingu fæðingarorlofs verði hugað að því að fjölga leikskólaplássum þannig að foreldrar lendi ekki í vanda við að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar. Stefna ber að enn frekari hækkun barnabóta, þó mikilvægum áfanga sé náð í núgildandi fjárlögum, þær hækkanir verði varanlegar og gagnist þeim best sem lægstar tekjur hafa.
Nauðsynlegt er að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst eins og segir í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem nú hefur verið lögfestur. Í því felst að tryggja skilyrðislausan aðgang barna að grunnþjónustu, öfluga barnavernd og forvarnir til að koma í veg fyrir ofbeldi. Landsfundur fagnar mikilvægu frumkvæði UNICEF á Íslandi, sem hefur lagt fram ítarlegar tillögur um aðgerðir gegn ofbeldi, þ.á m. um stofnun ofbeldisvarnarráðs. Sérstaklega áréttar landsfundur mikilvægi þess að forvörnum gegn kynferðislegu ofbeldi verði komið í markvissari farveg, ásamt því að rannsóknir á ofbeldi verði efldar.
Hvetja þarf til umhverfisvænni neysluhátta og þar skipta fjölskyldurnar lykilmáli. Lækka á virðisaukaskatt á umhverfisvottuðum vörum og stuðla þannig að bættum kjörum barnafjölskyldna og bættu umhverfi.
Stytta á vinnuvikuna án þess að skerða kjör og tryggja þannig fjölskyldum auknar samvistir og tíma.
Um lýðræði og mannréttindi
Undir forystu núverandi ríkisstjórnar hefur verið mótuð landsáætlun í mannréttindum og unnið mikið starf í að fullgilda skuldbindingar Íslands í mannréttindamálum á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að láta rödd sína heyrast víðar í alþjóðlegri baráttu fyrir mannréttindum.
Mikilvægt er að koma ákvæðum um beint lýðræði inn í stjórnarskrá og tryggja að tiltekinn hluti landsmanna geti með undirskrift sinni krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin málefni. Skoða á þann möguleika að skilgreindur minnihluti þingmanna geti gert slíkt hið sama. Ennfremur á að halda áfram að þróa leiðir fyrir almenning til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda, meðal annars með hjálp tækninnar.
Um menntun
Mótuð hefur verið ný menntastefna sem birtist í nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Meginmarkmið hennar er að rækta þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: Læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Á þessum gildum á að byggja menntakerfið til framtíðar.
Mikilvægt er að vinna áfram að eflingu starfsmenntunar en á kjörtímabilinu var settur á laggirnar Vinnustaðanámssjóður sem hefur styrkt fyrirtæki og stofnanir til að taka nema á samning. Áfram þarf að vinna að því að kynna starfsnám fyrir þeim nemendum sem eru að ljúka grunnskólanámi, gera það að raunverulegum valkosti og greiða svo leiðir þeirra sem ljúka starfsnámi inn í háskólanám. Þetta er liður í því að draga úr brottfalli úr íslenska skólakerfinu.
Leggja þarf áherslu á að afgreiða nýtt frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem gert er ráð fyrir að hluti lána breytist í styrki ef námi er lokið á eðlilegum viðmiðunartíma.
Vinna þarf áfram að því að styrkja rannsókna- og vísindaumhverfi á Íslandi. Stóraukin framlög í Rannsóknasjóð, nýjan starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna og Nýsköpunarsjóð námsmanna sýna skýrar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Næstu skref er að tryggja aukið hlutverk sjóðanna en styrkja um leið innviði háskólastofnana og setja upp áætlun um hvernig OECD-meðaltali verði náð í fjármögnun háskóla, en þar standa Íslendingar öðrum þjóðum langt að baki.
Um menningu
Undir forystu ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar voru sett fyrstu heildarlögin um fjölmiðla. Brýnt viðfangsefni er að breyta lögum um Ríkisútvarpið og styrkja lýðræðislegt og menningarlegt hlutverk þess og draga úr viðskiptasjónarmiðum í rekstri Ríkisútvarpsins og samþykkja frumvarp sem liggur fyrir þinginu þess efnis. Efla þarf rannsóknablaðamennsku með sérstökum rannsóknablaðamennskusjóði.
Endurskoða þarf styrkja- og sjóðakerfi listamanna eftir að þessir sjóðir hafa verið stórefldir og tryggja að fyrirkomulag úthlutunar sé sem skilvirkast og faglegast. Halda þarf áfram að efla sjóðina þannig að stöðugleiki skapist í starfsumhverfi lista og skapandi greina.
Tryggja þarf gott umhverfi bæði fyrir sköpun og þátttöku í menningarlífinu. Gera þarf áætlun um hvernig auka má aðgengi að listum og menningararfi, meðal annars með því að koma honum á stafrænt form. Stjórnvöld þurfa að eiga víðtæka samvinnu við alla þá mörgu aðila sem starfa á sviði menningar. Síðast en ekki síst þarf að tryggja þátttöku barna og ungmenna í menningarlífi, t.d. þannig að opinberar menningarstofnanir sinni börnum sérstaklega, og með aukinni áherslu á listnám og sköpun í skólakerfinu.
Um utanríkismál
Núverandi ríkisstjórn lagði niður Varnarmálastofnun, sem hafði verið komið á laggirnar eftir að bandaríski herinn loksins yfirgaf landið. Það má telja góðan áfanga til að vinna að friði en þar má þó gera mun betur. Krafan um að Ísland standi utan hernaðarbandalaga á betur við nú en nokkru sinni fyrr. Á liðnum árum hefur Nató gerst stöðugt árásargjarnara og teygir anga sína víðar. Við leggjum því áherslu á að Ísland segi sig úr því og fyrsta skrefið í þá átt gæti verið að segja sig úr hermálaráði Atlantshafsbandalagsins.
Þátttöku Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu ber að efla enn frekar. Stefnan á að vera sú að ná strax á þessum áratug, þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, um stuðning við þjóðir sem þarfnast efnahagslegrar aðstoðar.
Málefni Norðurslóða verða sífellt mikilvægari á sviði alþjóðamála. Taka ber virkan þátt í starfi og eflingu Norðurskautsráðsins og fylgjast grannt með því hvaða áhrif loftslagsbreytingar kunna að hafa á hagsmuni og valdahlutföll á svæðinu. Æskilegt er að efla samskiptin við Grænland og Færeyjar enda fara hagsmunir landanna saman á ýmsum sviðum.
Hugsanlegur ávinningur réttlætir ekki aðild Íslands að Evrópusambandinu. Heimsvaldastefna og hagsmunir fjármagns eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.
Um efnahagsmál
Lyft hefur verið grettistaki við stjórn efnahagsmála og ríkisfjármála á þessu kjörtímabili við fordæmalaust erfiðar aðstæður. Jöfnuður er því sem næst kominn á í ríkisrekstrinum en ljóst er að hann þarf að vera aðhaldssamur næstu ár til að ríkið geti greitt niður skuldir. Þannig tekur að draga úr vaxtagreiðslum og meira verður til skipta í þágu velferðar og uppbyggingar. Samhliða þarf að beita markvissri örvun á hagkerfið líkt og lagt hefur verið upp með í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og ýta þannig undir aukinn hagvöxt sem byggir á fjölbreyttum stoðum. Fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun mun þannig vafalítið skapa fjölbreytt störf og nýjan auð og sama má segja um fjárfestingu í hinum skapandi greinum. Verkefni á sviði kynjaðrar hagstjórnar hafa veitt mikilvægar upplýsingar um samfélagsleg áhrif fjárlaganna og brýnt að innleiðingu hennar verði haldið áfram. Verkefnin framundan í efnahagsmálum eru ærin og meðal annars þarf að losa um aflandskrónur samkvæmt þeirri áætlun sem samþykkt hefur verið og gerir ráð fyrir útgönguskatti á þá fjármuni. Lykilorðin verða aðhaldssemi og örvun án þess að gengið sé á ósjálfbæran hátt á auðlindir landsins. Að loknum erfiðum niðurskurði og breytingum á skattkerfinu, jafnt til tekjuöflunar og aukins jafnaðar í senn, hefur stöðugleiki náðst. Áfram ber að byggja á þrepaskiptu skattkerfi þannig að hinir tekjuhæstu beri hlutfallslega meiri byrðar en þeir sem minnst hafa á milli handanna eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.
Ísland býr á flestan hátt við kjöraðstæður til að halda áfram að efla hér og þróa farsælt og gott velferðarsamfélag, samfélag fjölbreytni, menningar og fyllstu mannréttinda. Framtíðin er – „Sjálfbært Ísland“.
ALMENNAR STJÓRNMÁLAÁLYKTANIR
Ályktun um stjórnarskrá Íslands
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs áréttar að setja skuli nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, byggða á tillögum stjórnlagaráðs, í samræmi við vilja þjóðarinnar sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur sem fyrr höfuðáherslu á að tryggja þjóðareign á auðlindum Íslands á landi og í hafinu umhverfis það. Þessar auðlindir eru einkum náttúra, orka, vatn og nytjastofnar. Jafnframt þarf að tryggja skynsamlega og sjálfbæra nýtingu þeirra, jafnræði í aðgengi og að nýting þeirra verði í þágu samfélagsins í heild.
Félagshyggja til framtíðar
Ályktun um lýðræði
Aukið lýðræði stuðlar að gagnsærri stjórnarháttum, atvinnuöryggi, launajöfnuði, félagslegu réttlæti og bættu samfélagi. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur því brýnt að efla þátttöku almennings í stefnumótun og ákvarðanatöku í samfélaginu. Í því skyni þarf að auka aðgengi almennings að upplýsingum, hvetja til þátttöku í umræðum með fjölbreyttum samtals- og samráðsfundum og tryggja lögvarinn rétt til almennrar atkvæðagreiðslu á vegum hins opinbera.
Atkvæðagreiðslur
Landsfundur Vinstri grænna fagnar tillögum stjórnlagaráðs um að þjóðar-atkvæðagreiðsla skuli fara fram um tiltekið mál ef ákveðinn lágmarksfjöldi kjósenda óskar eftir því og telur brýnt að þau réttindi verði stjórnarskrárvarin. Ennfremur fagnar fundurinn ákvæðum nýrra sveitarstjórnarlaga sem tryggja að 20% íbúa geti krafist atkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Þó er áréttað að atkvæðagreiðslur snúast um álit meirihluta hverju sinni. Réttindi og sjónarmið minnihluta eru ekki síður mikilvæg. Atkvæðagreiðsla er því ekki eina leiðin og ekki endilega alltaf sú besta til að útkljá mál.
Íbúalýðræði
Brýnt er að opna stjórnsýsluna og efna til virkara samtals milli íbúa og kjörinna fulltrúa í allri stefnumótunarvinnu á vegum hins opinbera. Í því skyni þarf að auka upplýsingagjöf og efla samráð. Til þess þarf að beita þeim aðferðum og tækjum sem samfélagið hefur yfir að ráða hverju sinni, tryggja að ólík sjónarmið komi fram og tekið sé tillit til þeirra. Styrkja þarf stöðu almennings og félagasamtaka og gera þeim kleift að koma að stefnumótunarvinnu í auknum mæli. Að sama skapi þarf að tryggja að sjónarmið ólíkra hópa, s.s. ungmenna, aldraðra og innflytjenda, komi fram og hafi vægi. Landsfundur fagnar samþykkt Árósasáttmálans og þeim lýðræðisumbótum sem í honum felast og nýjum sveitarstjórnarlögum sem tryggja íbúum rétt til að krefjast íbúafunda um tiltekin mál, en hvetur sveitarstjórnir til að efla samvinnu við íbúa og koma þannig í veg fyrir nauðsyn þess að nýta þurfi ákvæðið. Vinna þarf stefnumótun um stöðu hverfisráða innan sveitarfélaga og aðkomu þeirra að sveitarstjórnum.
Lýðræðislegt hagkerfi og atvinnulýðræði
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hvetur ríki og sveitarfélög til að taka að nýju upp rekstur almannafyrirtækja sem voru lögð niður eða einkavædd á blómaskeiði nýfrjálshyggjunnar. Það á einkum við um orkufyrirtæki og almannaþjónustu sem ekki eiga að lúta markaðslögmálum. Útvistun á slíkri þjónustu veikir lýðræðið. Á sama hátt er rétt að hverfa frá einkaframkvæmdarleiðinni þar sem opinberir aðilar skuldbinda sig til að leigja fasteignir og önnur mannvirki af einkaaðilum til langs tíma með mun meiri kostnaði en hlytist af framkvæmdum ríkis eða viðkomandi sveitarfélags.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur jafnframt þörf á að auka lýðræði innan fyrirtækja og stofnana þannig að starfsfólk kjósi fulltrúa í stjórnir og umboð stjórnenda verði endurnýjað reglulega. Gera þarf breytingar á lögum um samvinnufélög til að tryggja rekstrarform fyrirtækja sem byggð eru upp á lýðræðislegan hátt.
Ályktun um umhverfismál
Ein af grunnstoðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sjálfbær þróun. Sjálfbær þróun er í grunninn djúpstæð siðferðisleg afstaða sem snertir allt samfélagið. Hún vísar til sameiginlegrar ábyrgðar okkar á því samfélagi sem við búum í og til ábyrgðar okkar gagnvart komandi kynslóðum. Sjálfbær þróun er svar nýrrar aldar við auð- og neysluhyggju og byggir á þeirri grunnhugmynd að ekki sé hægt að aðskilja efnahagslega, samfélagslega og umhverfislega þætti þegar stefna í málefnum samfélagsins er mótuð. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að sjálfbær nýting auðlinda, náttúruvernd og umhverfissjónarmið verði í öndvegi við ákvarðanatöku í íslensku samfélagi.
- Unnið verði markvisst gegn hlýnun lofthjúps jarðar af mannavöldum sem er einhver sú alvarlegasta vá sem blasir við lífríki jarðar
- Við fögnum þeim áfanga sem náðist við samþykkt Rammaáætlunar en þar komust m.a. Bitra, Gjástykki og Þjórsárver í verndarflokk auk þess sem tiltekin svæði á hálendinu og í neðri hluta Þjórsár voru tekin til frekari skoðunar
- Hraðað verði vinnu við friðlýsingar þeirra svæða sem eru í verndarflokki í 2. áfanga Rammaáætlunar og þess sérstaklega gætt að afmörkun þeirra verði slík að hún tryggi vernd þeirra gæða sem flokkunin byggist á
- Næsti áfangi Rammaáætlunar nái yfir smærri virkjunarhugmyndir og flutningskerfi raforku þannig að hægt sé að meta umhverfisáhrif og áætlanir virkjunar- og framkvæmdahugmynda heildstætt
- Alþingi ljúki afgreiðslu nýrra náttúruverndarlaga og lögfesti þar með varúðarregluna
- Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og því þarf að draga úr neyslu og leggja áherslu á endurvinnslu og endurnýtingu
- Ekki verði hvikað frá kröfum um varnir gegn mengun frá jarðhitavirkjunum
- Vinna þarf markvisst eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og evrópska landslagssáttmálanum. Ísland hafi frumkvæði um gerð alþjóðlegs sáttmála um jarðfræðilega fjölbreyttni
- Rannsóknir á umhverfisáhrifum ferðamennsku verði stórauknar til að tryggja markvissa stjórnun og uppbyggingu svæðanna með verndum þeirra að leiðarljósi. Grípa þarf strax til aðgerða á álagssvæðum
- Halda verður áfram þróttmiklu starfi við stöðvun uppblásturs, verndun og endurheimt jarðvegs og gróður. Áhersla verði lögð á uppbyggingu vistkerfa, þar með talið votlendis og birkiskóga
ÁLYKTANIR UM UTANRÍKISMÁL
Friðarbarátta – Ísland úr Nató
Íslensk stjórnvöld eiga að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um afvopnun og takmörkunum á vígbúnaði. Vinstri græn vilja efla þátttöku Íslands í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, og í stofnunum eða samtökum eins og Norðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur veru Íslands í hernaðarbandalaginu NATÓ vera úr takti við friðarstefnu hreyfingarinnar og þann friðarmálstað sem Íslendingar vilja gjarnan halda á lofti í alþjóðasamvinnu. Landsfundur ítrekar þá stefnu hreyfingarinnar að Ísland skuli tala fyrir friði á alþjóðavísu, standa utan hernaðarbandalaga og andæfa hvers kyns hervæðingu. Núverandi ríkisstjórn lagði niður Varnarmálastofnun. Það var jákvætt skref en betur má ef duga skal.
Landsfundurinn hafnar því að lýðræðis- og mannúðarmarkmið séu notuð sem skálkaskjól fyrir hernaðarhyggju og stríðsbrölti. Síaukin árásargirni NATÓ á liðnum árum, með stríðsrekstri í fjarlægum löndum á borð við Afganistan, Pakistan og Líbíu sýna glögglega hið rétta eðli bandalagsins.
Krafan um að Ísland standi utan hernaðarbandalaga á betur við nú en nokkru sinni fyrr. Vinstri græn leggja því áherslu á að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu. Fyrstu skrefin í þá átt væru að segja sig úr hermálaráði Atlantshafsbandalagsins og friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum.
Lifi frjáls Palestína
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fagnar því að Ísland hefur viðurkennt sjálfstæða og fullvalda Palestínu og því frumkvæði og stuðning sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur sýnt í málefnum Palestínumanna. Ennfremur fagnar landsfundurinn því heilshugar að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi loksins viðurkennt Palestínu sem ríki. Fundurinn telur að Ísland eigi að fylgja eftir frumkvæði sínu og þrýsta af fullum krafti á alþjóðasamfélagið að gera tveggja ríkja lausnina að veruleika. Múrinn sem Ísraelsstjórn reisir í Palestínu og ólögmætar landtökubyggðir eru kúgunartæki og birtingarmynd þeirra grófu mannréttindabrota sem Ísraelsstjórn fremur daglega á palestínskum borgurum. Fundurinn hvetur ríkisstjórnina til að gera allt sem í hennar valdi stendur til að stöðva hið hægfara þjóðarmorð í Palestínu.
Ályktun um Evrópusambandsmál
Landsfundur Vinstri grænna telur að Íslandi sé best borgið utan ESB en vill ljúka aðildarviðræðum við ESB og setja ferlinu tímamörk, til dæmis 1 ár frá kosningum. Þjóðin kjósi síðan um niðurstöður aðildarviðræðnanna. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun ennfremur beita sér fyrir því að tryggðar verði breytingar á stjórnarskrá þannig að þjóðaratkvæðagreiðslan um ESB verði bindandi en ekki aðeins ráðgefandi.
Þróunarsamvinna
Þátttöku Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu ber að auka enn frekar en orðið er. Stefnan á að vera að ná strax á þessum áratug þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um stuðning við snauðari þjóðir. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vill því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu nemi að minnsta kosti 0,7% af landsframleiðslu og verði ekki eftirbátur forysturíkja í því efni.
Landsfundurinn lýsir ánægju með þá stefnumörkun sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir með stigvaxandi framlögum til málaflokksins, sem marka tímamót. Barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum eru forgangsmál í öllu þróunarstarfi. Mikilvægt er að Ísland leggi jafnframt þunga áherslu á mannréttindasjónarmið og jafnréttismál í allri þróunarsamvinnu. Sem dæmi um aðstoð sem Ísland vinnur að má nefna læknisaðstoð við barnshafandi konur, ungbarnaeftirlit sem og aðstoð við menntun. Hér er um að ræða þætti sem við Íslendingar njótum og teljum sjálfsögð mannréttindi og er það siðferðisleg skylda okkar að styðja við slíkt í öðrum löndum. Ísland á ekki að láta sér nægja annað en að vera í hópi forysturíkja í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.
EFNAHAGS OG HÚSNÆÐISMÁL
Ályktun um efnahagsmál
Traust efnahagsstjórn
Á kjörtímabilinu hefur tekist að draga úr hallarekstri ríkissjóðs, stöðva skuldasöfnun og vinna traust alþjóðasamfélagsins á íslenskum efnahagsmálum í kjölfar hrunsins haustið 2008.
Í stað þess aga- og stjórnleysis sem einkenndi íslenskt efnahagslíf áratugina fyrir hrun er nú búið að ná utan um og koma böndum á ríkisfjármálin sem nauðsynlegt er að viðhalda.
Væntanlegt frumvarp til laga um opinber fjármál, um agaða fjármálastjórn og markvissa áætlanagerð til lengri tíma, skiptir miklu máli í því að skapa stöðugleika í opinberum fjármálum og meiri efnahagslegan fyrirsjáanleika fyrir ríki og sveitarfélög og almenning í landinu. Meginatriðið í því að létta undir með heimilunum er að afla til þess tekna með umtalsverðum breytingum á skattkerfinu, bæði því sem snýr að einstaklingum og fyrirtækjum. Sjálfsprottin gróska og fjölbreytni í atvinnulífinu mun áfram vera grundvöllur öflugs efnahagslífs.
Gjöld fyrir afnot af auðlindum skipta miklu til að afla tekna til að skapa þessar forsendur jöfnuðar. Veiðigjald á útgerðina var vel heppnuð aðgerð og næst má horfa til þeirra sem nýta orkuauðlindir landsins og/eða menga.
Skuldamál heimilanna
Skuldir íslenskra heimila náðu hámarki undir lok árs 2008 og höfðu þá þrefaldast á fimmtán árum. Með leiðréttingum lána, dómum um gengistryggð lán og viðbrögðum stjórnvalda hafa skuldir heimilanna lækkað frá árinu 2009 og eru nú á svipuðu róli og um áramótin 2006/2007.
Vinstri græn bjóða landsmönnum upp á raunhæfar lausnir. Þau munu áfram beita skattkerfinu til þess að afla tekna og auka jöfnuð, til að létta byrðar almennings og fyrirtækja vegna hrunsins, og ráðstafa tekjum til þeirra sem á þeim þurfa að halda og eiga í mestum erfiðleikum. Ein leið dugar ekki öllum.
Landsfundurinn hafnar því kerfi sem býr að baki verðtryggðum lánum eins og þau er á Íslandi í dag. Fundurinn leggur til að fjármálakerfið á Íslandi verði endurskoðað með réttlæti og almannahagsmuni að leiðarljósi og horft verði sérstaklega á þá ójöfnu stöðu sem lántakendur hafa gagnvart lánveitendum.
Farið hefur verið í ýmsar sértækar aðgerðir til að bregðast við þeim bráða vanda sem hrunið orsakaði og þeim þarf að halda áfram. Nú þegar svigrúm hefur skapast munu Vinstri græn beita sér enn frekar fyrir að taka á vanda þess hóps sem tók húsnæðislán á árunum 2005 til 2008. Landsfundur leggur til að markaðir verði sérstakir tekjustofnar t.d. kolefnisgjald á iðnað, til að mæta þessum hópi.
Stjórn peningamála
Stjórn peningamála þarf til langs tíma m.a. að taka mið af því að þjóðin þurfi að styðjast við núverandi gjaldmiðil landsins í nánustu framtíð. Til þess að við getum valið um að halda krónunni eða taka upp annan gjaldmiðil til framtíðar, þurfum við að ná þeim markmiðum sem getið er um hér að framan um stöðugleika og jöfnuð. Markmið peningastefnunnar á m.a. að vera eftirfarandi:
- Draga úr skuldsetningu og vægi verðtryggingar
- Treysta á tekjuöflunarleiðir
- Tryggja stöðugleika í efnahagslífinu
- Líta til annarra markmiða en verðbólgumarkmiða s.s. atvinnustig, gengisstöðugleika, skuldastöðu þjóðarbús og vaxtastigs
- Setja magn peninga í umferð í þjóðarbúinu í samhengi við verðmætasköpun atvinnulífs
- Auka jöfnuð í samfélaginu
Langtímamarkmið íslenskrar peningastefnu eru að verðbólga, vextir, halli ríkissjóðs og skuldir hins opinbera sem hlutfall af VLF skeri sig ekki frá því sem best gerist í samanburðarlöndum í Evrópu.
Ályktun um húsnæðismál
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 2013 áréttar samþykkta húsnæðisstefnu frá árinu 2011 og ítrekar mikilvægi þess að stuðla beri að einföldu og skilvirku húsnæðiskerfi sem tryggir nægjanlegt framboð af húsnæði, bæði til leigu og eigu, fyrir almenning í landinu.
Gera þarf leigu og búseturétt að raunverulegum valkosti við val á húsnæði og tryggja þannig fjölbreytni á húsnæðismarkaði. Sérstaklega ber að líta til húsnæðissamvinnufélaga en þar verða íbúar rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði. Mikilvægt er að endurskoða bæði húsaleigubætur og vaxtabætur og tryggja þannig jafnræði óháð því hvort fólk velur að kaupa eða leigja sér húsnæði. Landsfundurinn fagnar nýstofnuðu leigufélagi í eigu íbúðalánasjóðs og telur það skref í rétta átt. Vinstri græn ítreka þá skoðun sína að taka þurfi löggjöf um húsnæðismál til gagngerrar endurskoðunar þannig að hún taki mið af þörfum almennings í landinu og tryggi öllum þak yfir höfuðið.
Endurskoða þarf hlutverk Íbúðalánasjóðs frá grunni og styrkja sérstaklega lán á félagslegum grunni með aðkomu hins opinbera. Nýtt húsnæðiskerfi ætti síðan að vera unnið í samvinnu við stéttarfélögin í landinu.
Ályktun um smálán
Breyta þarf lögum til að koma í veg fyrir okurlánastarfsemi svo þau nái til svonefndra smálána.
KVENFRELSI
Ályktun um staðgöngumæðrun
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggst gegn því að staðgöngumæðrun verði heimiluð á Íslandi, hvort sem er í hagnaðarskyni eða velgjörðarskyni. Fundurinn varar sérstaklega við því fyrirkomulagi á staðgöngumæðrun að staðgöngumæður og foreldrar geri með sér bindandi samning. Með því væri gengið mun lengra en í löndum sem heimila staðgöngumæðrun.
Samfélag sem nær ekki að tryggja konum tæknileg útfærsluatriði eins og sömu laun og körlum fyrir sömu vinnu, að ekki sé talað um líf án ofbeldis eða jafna aðkomu að völdum, er ekki samfélag sem er treystandi til að koma í veg fyrir að konur séu misnotaðar í þeim tilgangi að uppfylla óskir barnlausra. Raunveruleg hætta er á að konur sem næst standa barnlausu fólki verði fyrir beinum eða óbeinum þrýstingi eða þvingunum til að ganga með börn fyrir aðra.
Samfélag sem skilgreinir móðurhlutverkið sem svo mikið grundvallaratriði í sjálfsvitund kvenna að ef þær geta ekki eignast barn með hefðbundnum leiðum, þá sé eðlilegt að fá aðrar konur til að ganga með börn fyrir þær, er samfélag sem getur ekki sett lög um að kona gangi með barn í þeim tilgangi einum að láta það frá sér.
Með því að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni væri verið að samþykkja þá hugmynd að það sé í lagi að nota líkama annarra sem leið að eigin markmiði. Slíka sýn á manneskjuna getum við ekki og eigum ekki að samþykkja.
Aðgerðir gegn ofbeldi
Landsfundur Vinstri grænna fagnar þeirri forystu sem ráðherrar flokksins hafa haft um að efla aðgerðir til þess að sporna við kynbundnu ofbeldi.
Vinstri græn telja að kynbundið ofbeldi sé eitt af alvarlegustu samfélagsmeinum á Íslandi. Er því full þörf á átaki í rannsóknum á ofbeldismálum, forvörnum gagnvart frekari brotum og aukinni meðferð fyrir þolendur og gerendur. Hvetur landsfundurinn til þess að haldið verði áfram á sömu braut. Er frumkvæði og framtak Vinstri grænna nauðsynlegt í þessum málum þar sem þau hafa ekki alltaf fengið næga athygli annarra flokka.
Kynjafræði í almannaþágu!
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fagnar því að einn af sex grunnþáttum nýjum aðalnámskrám leik-, grunn-, og framhaldsskóla sé jafnrétti. Eru slíkar grundvallar-breytingar á hugsunarhætti í þróun menntakerfisins mikilvægur liður í þeirri hugarfarsbreytingu sem þarf til að gera Ísland að samfélagi þar sem raunverulegt jafnrétti kynjanna ríkir. Félagsmótun barna í kynjuðu samfélagi hefst strax við fæðingu og hefur það mikil áhrif á sjálfsmynd og viðhorf fólks. Því telur fundurinn mikilvægt að gripið sé inn í sem fyrst og samhengi og tilurð kynjakerfisins séu skýrð fyrir börnum á öllum stigum menntakerfisins. Telur fundurinn breytingarnar jafnframt mikilvægan lið í að sporna gegn hrakandi jafnréttisviðhorfum ungs fólks sem og kynjamisrétti í samfélaginu í heild. Landsfundurinn telur afar mikilvægt að kennaranemum verði tryggður aukinn undirbúningur í kynjafræði í námi sínu.
FISKVEIÐAR
Ályktun um fiskveiðistjórn
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík helgina 22. til 24. febrúar 2013, vill tryggja ævarandi þjóðareign á sjávarauðlindum í kringum Ísland. Hér á landi eru það almannahagsmunir að hafa skýrar og sanngjarnar reglur um nýtingu sjávarauðlinda okkar. Fundurinn telur að með samþykkt fyrirliggjandi frumvarps um stjórn fiskveiða sem nú er til umfjöllunar á Alþingi megi ná mikilvægum áfanga að þessum markmiðum og leggur mikla áherslu á að það verði samþykkt. Með upptöku nýtingarleyfa verður eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni viðurkenndur og meint einkaeignarréttarleg krafa útgerðarinnar þar með úr sögunni. Einnig er mikilvægt að festa í stjórnarskrá ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, þ.m.t. nytjastofnun og öðrum auðlindum hafsins.
Landsfundur leggur áherslu á að takmarkanir verði gerðar á frjálsu framsali aflaheimilda þannig að öll aflaaukning til handhafa nýtingarleyfa verði óframseljanleg og nýti þeir hana ekki renni hún til ríkisins sem endurráðstafi henni með öðrum hætti, t.d. á opinberum leigumarkaði. Þá vill landsfundurinn lögbinda að hluti afla fari ávallt á fiskmarkað. Þannig má tryggja betur að skiptaverð til sjómanna endurspegli raunverulegt fiskverð. Einnig tryggir það aukið atvinnuöryggi fiskvinnslufólks með jafnara aðgengi fiskvinnslu að hráefni allt árið. Að auki þarf innlendum fiskaupendum að standa til boða að bjóða í óunninn afla áður en hann er fluttur úr landi. Landsfundur telur að fyrirtæki í sjávarútvegi eigi að lúta samkeppnislögum líkt og önnur atvinnustarfsemi.
Ályktun um strandveiðileyfi
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík helgina 22. til 24. febrúar 2013, fagnar því að sett hafi verið lög um strandveiðar á kjörtímabilinu, sem koma til móts við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um atvinnufrelsi. Strandveiðarnar hafa skapað vinnu og hleypt lífi í margar sjávarbyggðir og þannig sannað gildi sitt. Mikilvægt er tryggja þær til framtíðar. Í því skyni þarf að halda áfram að þróa útfærslu á þeim, sem tryggir jafnræði á milli svæða. Mikilvægt er að gera úttekt á þeirri reynslu sem komin er og láta framtíðarfyrirkomulag strandveiða taka mið af niðurstöðu slíkrar úttektar.
HEILBRIGÐIS- OG VELFERÐARMÁL
Vinstri græn telja að einungis með jöfnum aðgangi að heilbrigðis-og velferðarþjónustu sé hægt að tala um samfélag fyrir alla. Því ályktum við eftirfarandi:
Við lýsum yfir áhyggjum af fátækt á Íslandi og viljum forgangsraða á komandi árum svo afnema megi þann smánarblett á íslenskku samfélagi.
Við teljum það grundvallaratriði í allri velferðarþjónustu að uppbygging hennar og starfsemi sé miðuð við þarfir þeirra er þjónustunnar eiga að njóta.
Við leggjum þunga áherslu á að rekstur almannaþjónustu og þjónusta við almenning sem greidd er af almannafé sé ekki rekin í hagnaðarskyni.
Við ítrekum að tannlækningar eru hluti af heilbrigðiskerfinu og eiga að lúta sömu reglum og önnur heilbrigðisþjónusta hvað varðar aðgengi og gjaldtöku.
Við fögnum því að nú sé loks farið að myndast svigrúm hjá ríkissjóði til að auka við fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins. Við leggjumst gegn hækkunum á þjónustugjöldum og jafnframt þarf að draga úr kostnaðarhlutdeild almennings í heilbrigðisþjónustunni.
Við viljum að heilsugæslan verði styrkt og tryggt verði að allir íbúar landsins geti valið sér fastan heimilislækni. Tekið verði upp valfrelsi í þjónustu og heilsugæslunni verði gert mögulegt að sinna því grundvallarhlutverki að vera fyrsti viðkomustaður þegar heilsuvanda ber að höndum. Þverfagleg teymisvinna verði efld með ráðningu fleiri fagstétta en nú til heilsugæslunnar.
Við teljum það sjálfsögð mannréttindi að fólk sem þarf að búa á heimili sem veiti sólarhringsþjónustu hafi sérherbergi.
Við viljum að lokið verði við stefnu í geðheilbrigðismálum og samfélagsgeðþjónusta efld.
Við teljum eðlilegt að samfélagið tryggi að lágmarksútfararkostnaður sé greiddur úr sameiginlegum sjóðum.
Við viljum að leikskólinn verði gjaldfrjáls, enda hluti af skólakerfinu, og að börn geti hafið leikskólagöngu strax og fæðingarorlofi foreldra lýkur.
Við skorum á aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld að stytta vinnuvikuna og stórhækka lægstu laun.