PO
EN
Search
Close this search box.

Ályktanir landsfundar 2015

Samþykkt:

STYÐJUM KJARABARÁTTU!

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, sendir félagsmönnum SFR, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna baráttukveðjur og lýsir yfir stuðningi við kröfur þeirra um bætt kjör. Ríkinu ber að tryggja öllum starfsmönnum sínum sem og öldruðum og öryrkjum mannsæmandi kjör sem standast samanburð innbyrðis og gagnvart öðru launafólki.

FRAMSÆKIN STJÓRNARSKRÁ

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, leggur áherslu á að ljúka vinnu við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar til að þjóðin eignist framsækna stjórnarskrá. Það er löngu kominn tími til!

Landsfundurinn ítrekar jafnframt mikilvægi þess að ráðist verði í stjórnarskrárbreytingar á þessu kjörtímabili. Að störfum hefur verið stjórnarskrárnefnd sem ætlað var að gera tillögur um fjögur ákvæði: auðlindir í sameign þjóðarinnar, leiðir til þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd og ákvæði um framsal valdheimilda á afmörkuðu sviði. Fundurinn leggur áherslu á að nefndin ljúki vinnu sinni í tæka tíð þannig að unnt verði að ráðast í breytingar á þessum sviðum samhliða forsetakosningum 2016.
Næsti áfangi er að uppfylla þau ákvæði sem greidd voru atkvæði um í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 ásamt ákvæðum um þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur; þ.e. ákvæði um persónukjör, jafnt vægi atkvæða og skipan kirkjumála og byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs og vinnu ráðsins, stjórnalaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta kjörtímabili. Þá telur fundurinn mikilvægt að staða Alþingis verði styrkt þannig að tiltekinn hluti þingmanna fái rétt til að skjóta málum til þjóðarinnar.

GEGN OLÍUVINNSLU

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, leggst gegn hugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslensku yfirráðasvæði, þar með talið fyrirhugaðri olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Stefna hreyfingarinnar er að landið verði kolefnishlutlaust fyrir 2050. Frekari olíuvinnsla er tímaskekkja nú þegar aldrei hefur verið meiri þörf á að sporna við hlýnun jarðar. Aukin olíuvinnslan vinnur gegn þeirri þróun að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og væri því mikil afturför, einkum og sér í lagi þegar umhverfisvænni orkugjafar eru í mikilli sókn og tækniþróun leiðir til minni þarfar fyrir orku. Það eru táknræn og fordæmisgefandi skilaboð til alþjóðasamfélagsins ef Ísland kysi að nýta ekki mögulegar olíu- og/eða gaslindir í lögsögu sinni.

Í stefnu hreyfingarinnar er lögð áhersla á að í stað áforma um vinnslu jarðefnaeldsneytis skuli Ísland marka þá stefnu að verða óháð notkun slíks eldsneytis sem orkugjafa fyrir árið 2050. Samhliða hefur VG markað þá stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum að umhverfisvitund og lífstílsbreytingar séu forsendur slíkra umbreytinga. Dæmi um þær væru; efling umhverfisvænna almenningssamgagna, að hætta notkun plastpoka og plastumbúða, orkusparnaður og grænar lausnir alls staðar þar sem því verður við komið.
Landsfundur ítrekar mikilvægi þess að horfið verði af þessari braut olíuvinnslu og nýtingar og hvetur stjórn, þingflokk, sveitarstjórnarfólk og félagsmenn alla til dáða í einarðri baráttu fyrir umbreytingu Íslands í samfélag án jarðefnaeldsneytis. Þannig getum við verið sjálfum okkur samkvæm og veitt öðrum þjóðum gott fordæmi.

KOMIÐ VERÐI Á REGLUBUNDU MILLILANDAFLUGI INN Á NORÐUR- OG AUSTURLAND

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, leggur áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld veiti nauðsynlegan stuðning og beiti sér fyrir því að komið verði á reglubundnu millilandaflugi um Norður- og Austurland samhliða eflingu almenningssamgangna á svæðinu. Beint millilandaflug er ein grundvallarforsenda árangursríkrar uppbyggingar fjölbreytts atvinnulífs á Norður- og Austurlandi, hvort sem um er að ræða ferðaþjónustu eða aðrar atvinnugreinar sem byggja á góðum tengingum við erlenda markaði.

OPINBERT HÚSNÆÐISFÉLAG

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, leggur til að stofnað verði opinbert leigu- og kaupleigufélag til að koma til móts við fólk á klikkuðum húsnæðismarkaði sem hin „frjálsi markaður“ býður nú upp á.

DEILIHAGKERFIÐ

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, telur að með vexti upplýsingatækni hafi svokölluðu deilihagkerfi vaxið fiskur um hrygg. Deilihagkerfið byggir í grunninn á því að einstaklingar deili hver með öðrum vöru, þjónustu og upplýsingum gegnum netvanga. Þeir geta ýmist gert það gegn gjaldi eða í skiptum fyrir annað það sem hinn hefur upp á að bjóða. Með tilkomu deilihagkerfis geta einstaklingar aukið sínar ráðstöfunartekjur með því að deila tíma sínum, efnislegum gæðum eða þekkingu. Tryggja þarf hins vegar að fólk geti nýtt sér þessi tækifæri á eigin forsendum og eftir leiðum sem það stýrir sjálft. Girða þarf fyrir samþjöppun á eignarhaldi netvanga og gjaldtöku þriðja aðila, byggja upp færni fólks til að nýta sér netvangana og standa vörð um sjálfsprottna fjölbreytni sem í þeim felst. Þannig getur deilihagkerfið helst bætt framleiðni og nýtingu framleiðsluþátta, verið umhverfisvæn leið til jöfnuðar og betri nýting auðlinda.

AUÐLINDASJÓÐUR

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, ályktar að stofnaður verði auðlindasjóður að norskri fyrirmynd. Í hann myndi renna arður af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

HELGUVÍK

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, ályktar að endurskoða beri uppbyggingu iðnaðarsvæðisins í Helguvík og taka tillit til íbúakosningar um málið.

HVALVEIÐAR

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, leggst eindregið gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur. Við veiðarnar er beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna. Háum upphæðum af opinberu fé hefur verið kastað á glæ til að styrkja þessa áhugamenn um hvalveiðar. Nú er mál að linni.

Fátt bendir til þess að hvalveiðar muni nokkru sinni ná fyrri stöðu í atvinnulífinu og enn minni líkur eru á að slíkar veiðar öðlist viðurkenningu alþjóðlegra stofnana á sviði umhverfisverndar. Má í því sambandi nefna CITES-samninginn sem bannar alþjóðlega verslun með hvalaafurðir. Aðildarríkin eru nú 181 meðan einungis þrjú ríki, Ísland Japan og Noregur hafa lagt til að því banni verði aflétt. Bæði Samskip og Eimskip neita nú að flytja hvalkjöt líkt og mörg önnur skipafélög gera.

ÍSRAEL

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, telur að þjóðarmorð Ísraelsríkis á Palestínumönnum verði ekki stöðvað með aðgerðaleysi. Hvetur fundurinn til þess að sett verði viðskiptabann á ísraelskar vörur og að ríkisstjórnin slíti stjórmálasambandi við Ísrael.
Landsfundurinn fagnar þingmáli Vinstri grænna og fleiri um að vörur sem framleiddar eru á hernumdum svæðum í Palestínu verði upprunamerktar með ábyrgum hætti, svo netendur hafi kost á að sniðganga þær. Fundurinn skorar á borgarfulltrúa Vinstri grænna að undirbúa og leggja að nýju fram tillögu um að Reykjavíkurborg sniðgangi vörur frá Ísrael meðan hernám Palestínu varir.

Með því að versla ekki við ísraelsk fyrirtæki þangað til Palestína verður frjáls skapar alþjóðasamfélagið þrýsting á yfirvöld þarlendis um að láta af framferði sínu. Alþjóðasamfélagið verður að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni í verki. Ísland skal sýna frumkvæði og áræðni í þessum málum. Þó Ísland hafi viðurkennt sjálfstæði Palestínu þá er baráttan langt frá því að vera búin. Hernaður er ekki lausnin við vandamálum í Palestínu heldur friðsamlegar aðgerðir líkt og þær sem hér eru lagðar til. Telur hreyfingin að slíkar aðgerðir séu eina rétta svarið við hernaðarbrölti stórvelda heimsins.

INNRA STARF

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, fagnar þeirri atorku og þeim dugnaði sem einkennir þingmenn hreyfingarinnar.

RAF- OG METANBÍLAR

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, krefst þess að hleðslustöðvar fyrir rafbíla og metanstöðvar verði settar upp með reglulegu millibili á landsbyggðinni.

SAMGÖNGUMÁL OG FJARSKIPTI

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, lýsir yfir miklum vonbrigðum með framgöngu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í samgöngu- og fjarskiptamálum. Þegar tvö og hálft ár eru liðin frá síðustu Alþingiskosningum er staðan sú að engin samgönguáætlun hefur verið afgreidd í tíð þessarar ríkisstjórnar og málaflokkurinn virðist mæta algerum afgangi. Þrátt fyrir batnandi afkomu ríkissjóðs verður hvorki bætt við fé til viðhalds vegakerfisins né nýbygginga. Nánast óbreyttum fjármunum er ætlað að renna til hafnargerðar og flugvellir víðs vegar um landið mega heita aflagðir. Aðeins 300 milljónir eiga samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að renna í fjarskiptasjóð þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar stjórnarliða um ljósleiðaravæðingu landsins. Áætlað er að það verkefni kosti 6.500 milljónir svo ætla mætti að ríkisstjórnin sjái fyrir sér að vinna það á 20 árum.

Landsfundurinn krefst þess að fjárfestingar ríkisins í innviðum samgangna og fjarskipta verði auknar samhliða batnandi afkomu ríkissjóðs og nái langtímameðaltali af landsframleiðslu innan tveggja ára.

FLÓTTAFÓLK, HÆLISLEITENDUR OG ÞRÓUNARSAMVINNA

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, fagnar viljayfirlýsingum yfir tuttugu sveitarfélaga um að taka við fleira flóttafólki. Landsmenn verða augljóslega að beita ríkisstjórnina þrýstingi til að koma henni í skilning um að almenningur vilji gera miklum mun betur í þessum efnum en ríkisstjórnin sjálf áformaði. Þá er það fyrir neðan allar hellur að á tímum batnandi þjóðarhags eigi framlög til þróunarsamvinnu samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að standa í stað og að ríkisstjórnin hyggist ekki einu sinni standa við sín eigin metnaðarlausu áform í þeim efnum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur langt frá því að tekist sé á við málefni flóttafólks og hælisleitenda með fullnægjandi hætti. Það er mikilvægt að skjólstæðingum Útlendingastofnunar mæti ekki tortryggni heldur fái þeir að njóta vafans í fullvissu um að við afgreiðslu umsókna þeirra séu mannréttindi höfð að leiðarljósi.
Landsfundur leggur jafnframt til að endursendingum á grundvelli Dyflinnarsáttmálans verði hætt. Það er siðferðislega rangt að skýla sér á bak við Dyflinnarsáttmálann og síst til þess fallið að bæta vandann hnattrænt. Enn býr fjöldi fólks við einangrun, stöðugan ótta við tafarlausan brottflutning, óhóflegar tafir á úrvinnslu umsókna og algeng og óþarfa brot á þeirri slöku reglugerð sem unnið er eftir við meðhöndlun umsókna. Engin manneskja á að þurfa að búa við þær aðstæður sem íslenska ríkið hefur hingað til sett flóttafólk í.
Brýnt er að endurskoða lög um útlendinga frá 2002 þannig að þau uppfylli mannréttindasáttmála sem Ísland hefur fullgilt sem og sáttmála um réttindi barna. Jafnframt að lögin einkennist af mannúð og virðingu fyrir mannlegri reisn.

Nauðsynlegt er að Ísland axli ábyrgð á forréttindastöðu sinni í alþjóðasamfélaginu og geri það sem í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Við megum ekki líta undan.

MENNT ER MÁTTUR

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, fordæmir menntastefnu stjórnvalda. Sameining framhaldsskóla, hæfnispróf, þjóðarátak í lestri og málefni háskólastigsins gefa öll tilefni til efasemda um heilindi stjórnvalda hvað varðar jafnan rétt til náms. Þá er sú ákvörðun að loka fyrir framhaldsskólanám einstaklinga 25 ára og eldri með öllu óskiljanleg. Þar með hafa stórir hópar verið reknir úr framhaldsskólum á vit dýrara einkaskólanáms í háskólabrúm eða endurmenntunarstofnunum.

Vinstri græn hafna tillögum um sameiningar framhaldsskóla sem vinna gegn sérstöðu þeirra og fjölbreytni. Auk þess er framhaldsskólunum síðan gert að koma námi sínu fyrir á þremur árum hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Draga mun verulega úr námsframboði, fjölbreytileika í námi og menntunarstig þjóðarinnar lækka svo um munar.
Hlutdeild framhaldsskóla í byggðafestu ætti að efla með enn frekara námsframboði sem byggir á þátttöku fólks í héraði á öllum aldri. Framhaldsskólar verða að tilheyra samhangandi samgöngusvæðum, þar sem greiðfært er og auðsótt til skólans fyrir heimafólk, auk þess sem nýta þarf þau tækifæri sem liggja í eflingu fjarkennslu.
Vinstri græn vilja að sérstaklega sé hugað að námi lögreglumanna svo það samræmist kröfum nútímans. Brýnt er að lögreglunám sé á háskólastigi, líkt og á hinum Norðurlöndunum, og að það heyri undir menntamálaráðuneytið og lúti öllum almennun kröfum þess.

Vinstri græn mótmæla jafnframt hæfnisprófum sem fela í sér mælingar, greiningar og eftirlit sem virðast í fyrirrúmi í nálgun ráðherrans á skólastarf. Slíkt er aðeins til þess fallið að gera menntun einsleitari og leyfir ekki skólunum að leika sitt hlutverk sem þátttakandi og mótandi afl í samfélagi hvers staðar. Markmiðið er ávallt það sama: Að koma fólki eins hratt út á vinnumarkað og hægt er. Vinstri græn krefjast þess ráðherrann láti af miðstýringar- og eftirlitsáráttu sinni, leyfi fjölbreytni að blómstra í íslensku skólastarfi og muni að menntun hafi gildi í sjálfu sér en ekki aðeins sem hjálparhjól atvinnulífsins.

KVENFRELSISBYLTINGAR

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, vill þakka öllum þeim hugrökku og sterku konum sem tekið hafa þátt í byltingum undanfarins árs með því að sýna stuðning sinn og leggja sögur sínar og reynslu á vogarskálarnar í von um réttlátara samfélag.
Jafnframt vill hreyfingin viðurkenna að byltingarnar sýna að krafan um kvenfrelsi verður sífellt háværari og taka undir hana. Femínisminn gengur í gegnum endurnýjun lífdaga.

Feðraveldið leitar sífellt nýrra leiða til að viðhalda sér og úrsérgengnum gildum sínum. Hefur það nú fundið nýtt vopn, internetið, þar sem það birtist meðal annars í formi stafræns kynferðisofbeldis. Femínisminn hefur svarað þessari ógn með netbyltingum.

Vinstri græn fagna mjög hugrekkinu og samstöðunni sem myndast hefur í kjölfar byltinganna. Væntir hreyfingin þess að þessi samstaða muni einn daginn útrýma klámvæðingu, kynferðisofbeldi og kvennakúgun feðraveldisins í öllum sínum myndum. Hreyfingin mun styðja allar þær konur sem neita að láta kúga sig af feðraveldinu.
Áfram konur! Fokk feðraveldið! Lifi byltingin!

BLÓÐIÐ TIL SKYLDUNNAR

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, mælist til þess að karlmönnum „sem átt hafa samfarir við sama kyn“ verði gert kleift að gefa blóð í þeim tilgangi að bjarga mannslífum. Ekki er réttlætanlegt að mismuna bæði hæfum blóðgjöfum og hætt komnum blóðþegum á grundvelli úreltra og fordómafullra gilda. Skorar hreyfingin á stjórnvöld að stíga skrefið til fulls og gefa þannig rétt og skýrt fordæmi á alþjóðavettvangi.

FLOKKUNARREGLUR

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, fordæmir þá kynjatvíhyggju sem ríkir í íslensku samfélagi, og sér í lagi hvernig hún bitnar á trans- og intersex fólki. Vinstri græn leggja áherslu á kynfrelsi fólks í landinu og vilja að trans- og intersex fólk búi við full mannréttindi í íslensku samfélagi og að lög og reglur endurspegli þann vilja.

UNGT FÓLK TIL ÁHRIFA

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23. – 25. október 2015, telur að ungt fólk eigi mikið erindi á pólitískum vettvangi. Mikilvægara er að rödd unga fólksins fái að heyrast en að málefni ungs fólks séu sífellt í höndunum annarra. Landsfundurinn fagnar því tillögu formanns Vinstri grænna um að lækka kosningaaldur í 16 ár.

Það er nauðsynlegt að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sýni ungu fólki innan sinna raða traust og vinni með ungu fólki að bættum hag þess. Landsfundurinn hvetur því til þess að a.m.k. eitt af þremur efstu sætum á öllum framboðslistum hreyfingarinnar sé skipað ungliða til að stuðla að framgöngu ungs fólks í stjórnmálum.

AFDRIF ANNARRA TILLAGNA

Breytingartillögu 2.2 um málþing þar sem rætt verði hvað má læra af ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar var vísað til stjórnar.
Tillögu 5 um að Landsbankinn verði samfélagsbanki var vísað til stjórnar, sem afgreiddi hana á fyrsta fundi sínum strax að loknum landsfundi.
Tillaga 11 um dýravernd og matvælaframleiðslu var dregin til baka af flutningsmönnum, þar sem inntakið í henni rataði í landbúnaðarstefnu sem fundurinn samþykkti.
Tillaga 15 um plastpoka var dregin til baka af flutningsmönnum, þar sem inntakið í henni rataði í umhverfis- og loftslagsstefnu sem fundurinn samþykkti.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search