EN
PO
Search
Close this search box.

Ályktanir landsfundar 2019

Samþykkt:

Ályktun um loftslagsvána

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 skorar á stjórnvöld að setja loftslagsmálin í öndvegi í allri meiriháttar ákvarðanatöku. Fundurinn kallar eftir því að gengið verði lengra en að ná kolefnishlutleysi árið 2040 og mörkuð stefna sem tryggir að meira kolefni verði bundið en sem nemur nettólosun. Á næsta ári verða ríki heims krafin um uppfærð markmið gagnvart Parísarsamkomulaginu og þar er mikilvægt að Ísland sé í hópi metnaðarfyllstu þjóða um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Fundurinn fagnar þeirri áherslu sem stjórnvöld hafa lagt á loftslagsmál, m.a. með fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem kynnt var í september 2018, og þeim fjölmörgu aðgerðum sem hefur verið hrint í framkvæmd síðan. Jafnframt tekur fundurinn undir áskorun þeirra er standa að loftslagsverkfalli ungs fólks um að auka þurfi fjárframlög til loftslagsaðgerða. Landsfundur hvetur til stóraukinna fjárfestinga í loftslagsvænni tækni, að loftslagsvænar ívilnanir verði auknar og Ísland verði öðrum þjóðum fyrirmynd í loftslagsmálum.

Viðhorfsbreyting þarf að eiga sér stað á öllum sviðum samfélagsins. Það er ekki nóg að almenningur taki ábyrgð á sínum gjörðum heldur þarf atvinnulífið einnig að axla meiri ábyrgð og framleiðsla þarf að fara fram með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Við þurfum sameiginlegt átak og aðgerðir af hálfu stjórnvalda og atvinnulífsins sem hvetja neytendur til umhverfisvænni lífsstíls. 

Ályktun um verndun líffræðilegrar fjölbreytni

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 leggur áherslu á að alþjóðasamningnum um Verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sem Íslendingar eru aðilar að, verði fylgt fast eftir og þess gætt vandlega að koma í veg fyrir að ágengum tegundum sé dreift í íslenska náttúru. Landsfundurinn fer fram á að stjórnvöld á Íslandi, og aðrir sem að málinu koma, sjái til þess að ungu fólki sé veittur aðgangur að yfirstandandi samningaferli fyrir ný markmið Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og að fulltrúar ungs fólks komi að mikilvægum ákvörðunum í ferlinu.

Ályktun um stjórnarskrána

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 telur brýnt að vinna hóps formanna stjórnmálaflokkanna skili fyrsta áfanga í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils og að þeirri vinnu verði lokið á næsta kjörtímabili. Þá er lykilatriði að þjóðin fái ráðrúm til þess að kynna sér umræddar breytingar á stjórnarskránni til þess að geta tekið þátt í upplýstri umræðu um fyrirhugaðar breytingar.

Þjóðareign á náttúruauðlindum 

Landsfundurinn leggur ofuráherslu á að hlutur þjóðarinnar verði réttur með skýru ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. Með þjóðareign verði fest í sessi sérstakt eignarréttarform sem tryggi skýran rétt þjóðarinnar til að stýra nýtingarrétti og til arðsins af auðlindum. Fundurinn telur jafnframt rétt að ítreka að löggjafanum verði falið að ákveða endurgjald sem fást skal fyrir afnot af auðlindum í þjóðareign. Gjaldið renni í ríkissjóð en hugað verði að því að sveitarfélög geti nýtt staðbundnar auðlindir í þágu samfélagsuppbyggingar og sjálfbærrar þróunar. Í því samhengi skal greinarmunur gerður á markaðsrekstri annars vegar og félagslegum rekstri og verkefnum hins vegar.

Umhverfisvernd 

Einnig er tímabært að ákvæði um umhverfisvernd verði leitt í stjórnarskrá. Í það ákvæði er rétt að binda hina aldagömlu grundvallarreglu um rétt almennings til frjálsrar farar um landið og að auki verði kveðið á um réttinn til heilnæms umhverfis og að náttúran skuli njóta vafans. Virða skal rétt almennings til aðgangs að upplýsingum og veita skal öllum tækifæri til þess að taka þátt í ákvarðanatöku er varðar umhverfi. Rétturinn til að skjóta slíkum málum til dómstóla skal einnig tryggður. 

Framkvæmdarvaldið og forsetaembættið 

Skýrt skal kveðið á um stjórnarmyndun, skipun ráðherra og hver fari með þingrofsréttinn í stjórnarskránni. Þá telur hópurinn rétt að hlutverk forseta haldist að mestu óbreytt þó nútímavæða megi ákvæði um embættið og orðalag þeirra. Leggja skal áherslu á þingræðið í þessum ákvæðum. 

Aukið lýðræði 

Tryggja skal þjóðinni möguleika á aðkomu að tiltekinni ákvarðanatöku Alþingis, til að mynda með frumkvæðisrétti þjóðar eða þjóðaratkvæðagreiðslum, með aukið lýðræði og heilbrigða samfélagsumræðu að leiðarljósi. 

Almenningssamráð við endurskoðun stjórnarskrár 

Fundurinn ítrekar að nýttar verði aðferðir almenningssamráðs við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og fagnar sérstaklega ákvörðun um að nýta aðferðafræði rökræðukannana í ferlinu en það er nýlunda í íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu og getur orðið mikilvægur leiðarvísir um áframhaldandi notkun slíkra aðferða. 

Ályktun um jarðamál 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 telur afar mikilvægt að settar verði skorður í löggjöf þannig að bújarðir og aðrar landareignir safnist ekki á fárra hendur en um leið þarf að tryggja að slíkar hömlur verði ekki til að hindra leið ungra bænda til að hefja búskap. Þar þarf að skoða stærðar- og fjöldatakmarkanir og ábúðar- eða nýtingarskyldu og setja aftur inn ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga. Skorður á samþjöppun á eignarhaldi lands eru mikilvægar til að tryggja fullveldisrétt þjóðarinnar. Þá er mikilvægt að setja skýrar reglur um minnihlutavernd veiðiréttinda. Stöðva þarf hið fyrsta þá óheillaþróun sem orðið hefur á undanförnum misserum þar sem fjársterkir aðilar hafa sölsað undir sig fjölda jarða. Við fögnum þeirri vinnu sem ríkisstjórnin hefur lagt í þetta flókna málefni og hvetjum hana til að halda henni áfram af fullum þunga.

Lækkum kosningaaldurinn

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 harmar að enn hafi ekki tekist að afgreiða frumvarp um lækkun kosningaaldurs sem veitir sextán ára einstaklingum tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku með atkvæðisrétti í kosningum. Jafnframt bendir fundurinn á að það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi tekur aðeins til kosninga til sveitarstjórna. Fundurinn leggur til að gerð verði stjórnarskrárbreyting sem tryggi sömu lækkun kosningaaldurs til Alþingiskosninga og forsetakosninga.

Ályktun um heilbrigðismál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 fagnar þeim framfaraskrefum sem stigin hafa verið í heilbrigðiskerfinu á þeim tæpu tveimur árum sem Svandís Svavarsdóttir hefur gegnt embætti heilbrigðisráðherra. Hreyfingin fagnar því sérstaklega að heilbrigðisstefna til 2030 hefur verið samþykkt á Alþingi, heilsugæsla hefur verið styrkt verulega sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu, að kraftur hefur verið settur í byggingu nýs Landspítala og að mikilvæg skref hafa verið stigin í átt að lækkun greiðsluþátttöku viðkvæmra hópa. Frumvarp til laga um þungunarrof var einnig samþykkt á kjörtímabilinu, sem er risastórt framfaraskref í þágu kvenfrelsis á Íslandi.

Verkefnin sem fyrir liggja á síðari hluta kjörtímabilsins eru ekki síður mikilvæg. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að allir eiga rétt á að lifa í heilbrigðu samfélagi. Heilbrigt samfélag er samfélag þar sem umhverfið styður við heilbrigði og vellíðan íbúanna, þar sem hlúð er að andlegri og líkamlegri heilsu og tryggt er að allir hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu þegar á þarf að halda.

Í því samhengi má nefna nokkur atriði sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að lokið verði við á yfirstandandi kjörtímabili. Tryggja þarf fjármögnun opinbera heilbrigðiskerfisins og efla geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum þjónustunnar. Einnig þarf að efla fjölskyldumiðaða þjónustu við börn og halda áfram samstarfi við skóla og félagsþjónustu í þeim málaflokki.

Brýnt er að greiðsluþátttaka sjúklinga verði afnumin í grunnþjónustu og að mönnun í heilbrigðisþjónustu verði fullnægjandi. Meðferð og forvarnir sem lúta að áfengis- og vímuefnum verði bættar. Nauðsynlegt er að bæta kjör og starfsaðstæður umönnunarstétta og minnka álag. Umhverfissjónarmið þurfa að vera hluti af allri vinnu tengdri heilbrigðismálum, bæði í ráðuneyti heilbrigðismála og hjá stofnunum sem heyra undir málaflokkinn. Leita þarf allra leiða til að draga úr sóun og bregðast við lyfjaskorti þegar hann kemur upp.

Tryggja þarf aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og auka við menntun og framhaldsnám heilbrigðisstétta um land allt. Í því samhengi þarf að efla fjarheilbrigðisþjónustu og tryggja örugga sjúkraflutninga. Vinstrihreyfingin – grænt framboð minnir á mikilvægi þess að jafnhliða uppbyggingu nýs Landspítala verði horft til uppbyggingar nýrrar legudeildarálmu á Sjúkrahúsinu á Akureyri og leyst úr alvarlegum húsnæðisvanda heilsugæslustöðvarinnar. Sérstaklega þarf að styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri sem meginkennslustofnunar í heilbrigðisfræðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Aðeins með því að stíga þess skref náum við því takmarki sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð ætlar sér að ná: að tryggja jafnan aðgang allra að góðri heilbrigðisþjónustu og að íslensk heilbrigðisþjónusta standi áfram undir nafni sem heilbrigðisþjónusta í fremstu röð.

Ályktun um rafrettur

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 beinir því til þingflokksins og heilbrigðisráðherra að sporna við aukinni dreifingu og markaðssetningu á rafrettum sem virðast samkvæmt fréttum eiga stóran þátt í því hve mörg börn og ungmenni eru að fikta við og nota nikótínefni. Fundurinn fagnar frumkvæði landlæknis og heilbrigðisráðherra í kjölfar opinberrar umræðu um mögulegar skaðlegar afleiðingar notkunar á rafrettum og tekur undir það að mikil þörf er á rannsóknum á langtíma áhrifum rafrettna, bæði hvað varðar bein áhrif á heilsu fólks og tengsl þeirra við tóbaksnotkun.

Ályktun um kjör aldraðra 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 áréttar að aldraðir eru fjölbreyttur hópur, ekki hvað síst þegar kemur að kjörum. Það er samfélagsleg skylda okkar að tryggja að félagsleg staða fólks versni ekki þegar kemur að starfslokum og töku lífeyris. Aðgerðir stjórnvalda þurfa að byggja á þeim upplýsingum og greiningum sem til eru á stöðu aldraðra og miða við að bæta stöðu þeirra sem verst eru settir. Einkum er mikilvægt að horfa til aldraðra verkakvenna og kvenna af erlendum uppruna, en rannsóknir hafa leitt í ljós að staða þeirra er hvað verst. Einnig þarf að líta sérstaklega til þeirra sem ekki eiga full réttindi til lífeyris.

Ályktun um kjör öryrkja

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 ályktar að þrátt fyrir að nokkuð hafi áunnist við að bæta kjör öryrkja er enn langt í land með að kjör þeirra séu ásættanleg. Nauðsynlegt er að hækka lífeyri en huga þarf sérstaklega að kjörum þeirra sem ekki hafa neinar aðrar tekjur sér til framfærslu. Byggja þarf aðgerðir stjórnvalda á þeim upplýsingum og greiningum sem til eru á stöðu öryrkja.

Efla þarf hvers kyns endurhæfingu, bæði líkamlega og andlega, en ekki síður starfstengda, svo fólk haldist virkt í samfélaginu og á vinnumarkaði, því sjálfu og þar með samfélaginu öllu til hagsbóta. Mikilvægt er að nám geti verið þáttur í endurhæfingu fólks. Jafnframt er nauðsynlegt að líta til þess að örorka er kynjapólitískt mál og að stefnumótun stjórnvalda verður að taka mið af því að þær aðstæður sem íslenskt samfélag býr konum gera það að verkum að konur missa fremur starfsgetu en karlar. Vinstri græn gera kröfur um það að örorkubætur verði ekki undir lágmarkstekjum.

Ályktun gegn vígvæðingu á norðurslóðum og hernaðaruppbyggingu Keflavíkurvelli

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 lýsir yfir eindreginni andstöðu sinni við vígvæðingu á norðurslóðum og frekari uppbyggingu og umsvifum bandaríska hersins og NATO á Keflavíkurflugvelli. Fundurinn ítrekar andstöðu VG við aðild Íslands að NATO og við hernaðarsamninginn við Bandaríkin frá 1951 og hvetur aðra flokka til að taka þá andstöðu inn í sína stefnu. Fundurinn fagnar frumvarpi þingmanna VG um breytingu á varnarmálalögum, sem ætti að stuðla að aukinni umræðu á Alþingi og í samfélaginu og efla lýðræðislega aðkomu að hernaðarlegum málefnum. Friðsamleg alþjóðahyggja er ein af grunnstoðum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Ísland á ekki að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem felur í sér hernað.

Ályktun um fjármögnun samgangna

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 október leggur til að nýjar leiðir verði útfærðar til að afla fjármuna til að mæta gríðarmikilli og brýnni þörf á innviðauppbyggingu í samgöngum í landinu öllu. Óhjákvæmilegt er að horfa til þeirra breytinga sem orkuskipti í samgöngum munu hafa í för með sér á tekjustofna ríkisins, einkum skatta af sölu á eldsneyti. Við breytingu á fjármögnunarleiðum skal huga sérstaklega að því álagi og sliti á vegum og öðrum umferðarmannvirkjum sem þyngd, gerð og umhverfisáhrif hinna ýmsu ökutækja hafa í för með sér. Tryggja þarf að við slíkar breytingar verði landsmönnum ekki mismunað eftir búsetu og fjárhag.

Ályktun um flugmál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 hvetur til þess að flugmál á landsbyggðinni verði tekin til endurskoðunar, bæði hvað varðar innanlands- og millilandaflug.

Til þess að stýra betur dreifingu ferðamanna um landið þarf að styðja enn frekar við innviðauppbyggingu á flugvöllum utan suðvesturhornsins. Enn fremur er hvatt til þess að innleiðing „skosku leiðarinnar“ í innanlandsflugi taki gildi strax í upphafi ársins 2020 svo að flugsamgöngur verði raunverulegur valkostur fyrir íbúa á landsbyggðinni og tenging landsbyggðar við höfuðborgarsvæðið þannig efld.

Í allri þessari vinnu skulu loftslagsmál og mengandi áhrif flugsamgangna þó ávallt höfð til hliðsjónar Stefna þarf að því að gera flugsamgöngur eins umhverfisvænar og kostur er. Stuðla á að orkuskiptum í flugi þegar tækni sem gerir slíkt kleift er orðin aðgengileg.

Ályktun um umhverfisvæna samgöngumáta

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 skorar á vinnustaði að gera kostnað við rekstur bílastæða sýnilegri og draga úr honum með því að efla notkun umhverfisvænna samgöngumáta meðal starfsmanna sinna, bæði til og frá vinnu sem og í vinnuerindum. Í þeim tilgangi verði samgöngusamningar nýttir og boðið verið upp á vistvæn farartæki til afnota fyrir starfsmenn á vinnutíma.

Ályktun um vegamál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 fagnar framkomnum drögum að nýrri samgönguáætlun þar sem mikilvægar vega- og samgönguúrbætur eru áætlaðar. Fundurinn lýsir þó yfir þungum áhyggjum af ástandi vega á landinu öllu. Sem dæmi má nefna vegi á Suðurlandi austan Markarfljóts þar sem vegir eru þröngir og vegaxlir ekki fyrir hendi. Breikka þarf vegi, setja rifflur á miðju vegar þar sem pláss er og vegrið þar sem veghætta er fyrir höndum, hátt er niður af vegi og veghelgunarsvæðin lítil. Auk þess þarf að fjölga áningarstöðum og setja upp löggæslumyndavélar til að draga úr umferðarhraða.

Ályktun um bætta tölfræði um ferðavenjur og ökutækjaeign

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 fagnar framkomnum tillögum í nýjum drögum að samgönguáætlun um að gerð verði könnun á ferðavenjum fyrir landið allt á minnst þriggja ára fresti. Lagt er til að aflað verði upplýsinga um reiðhjólaeign landsmanna og við gagnaöflun verði einnig horft til nýrra samgöngutækja. Lagt er til að Samgöngustofa miðli upplýsingum um ökutækjaeign yfir skráningarskyld ökutæki með sama hætti og er gert innan Evrópusambandsins og gefi upp ökutæki í umferð.

Ályktun um málefni flóttafólks og umsækjendur um alþjóðlega vernd

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 lýsir yfir áhyggjum af stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd og skorar á ríkisstjórnina að ráðast í markvissar aðgerðir til að tryggja mannréttindi og reisn þess hóps, sérstaklega barna. Samhliða áréttar landsfundur mikilvægi þess að Ísland taki á móti fleira flóttafólki og að þjónusta við flóttafólk og réttindi þess séu sambærileg óháð því hvort það kemur til landsins í boði stjórnvalda eða sem umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Landsfundur telur að endurskoða þurfi útlendingalög og framkvæmd þeirra með það að markmiði að tryggja öryggi og aðstæður þeirra sem sækja um vernd á Íslandi og þá sérstaklega barna. Stórauka þarf fjármagn til málaflokksins til að tryggja réttláta og skilvirka málsmeðferð og tryggja að umsækjendur um alþjóðlega vernd geti unnið eða leitað sér menntunar meðan þeir bíða niðurstöðu máls síns. Fundurinn kallar eftir gagnrýnni umræðu og stöðugri endurskoðun á lista yfir svokölluð „örugg lönd“.

Landsfundur telur síðustu breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 skref í rétta átt, en þar eru rýmkaðar heimildir Útlendingastofnunar til að taka málefni barna til efnismeðferðar. Fundurinn áréttar að stjórnvöldum ber að standa vörð um mannréttindi barna, í samræmi við Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, og að þau réttindi verða að vera grundvöllur allrar ákvarðanatöku í þessum málaflokki sem öðrum. Landsfundur Vinstri grænna skorar á þingmenn og ráðherra VG að beita sér af alefli í þessum málaflokki. Útlendingalög á Íslandi eiga að byggja á réttlæti, mannréttindum og siðferðilegri ábyrgð.

Ályktun um alþjóðlega þróunarsamvinnu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 minnir á að markmið þróunarsamvinnu er að bæta aðstæður fólks í fátækari hluta heimsins. Þá áréttar fundurinn hversu mikilvægt það er að hlutfall þjóðarframleiðslu sem fer til þróunarsamvinnu fari jafnt og þétt hækkandi í takt við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Ályktun um virkjanir

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 krefst þess að stjórnvöld bregðist hið fyrsta við vandamálum vegna umhverfisáhrifa frá vatnsaflsvirkjunum sem ná allt að 9,9 MW að stærð. Í núverandi löggjöf eru stærðarviðmið vatnsaflsvirkjana í rammaáætlun 10 MW sem reynslan sýnir að er alltof hátt viðmið. Ljóst er að aflgeta virkjunar ein og sér ræður ekki endilega umhverfisáhrifum og minni virkjanir geta haft umtalsverð umhverfisáhrif. Því er mikilvægt að stjórnvöld endurmeti þessi stærðarmörk hið fyrsta og færi þau verulega niður. Þá áréttar landsfundurinn sérstaklega að ríkisjörðum, fallvötnum stórum og smáum sem og ósnortnum víðernum og vatnasviðum innan ríkisjarða verði ekki ráðstafað undir virkjanir. Mikilvægt er að fram fari heildstætt mat á viðkomandi vatnasvæði. Það má aldrei gerast að sameiginlegar orkuauðlindir í eigu þjóðarinnar verði afhentar nær því gjaldfrjálst til einkaaðila sem hirða af þeim allan þann arð sem annars ætti að renna í sameiginlega sjóði landsmanna til uppbyggingar innviða í landinu. 

Ályktun um að virða niðurstöðu umhverfismats vegna Hvammsvirkjunar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 beinir því til Landsvirkjunar og sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að fara eftir niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar, sem gefið var út í mars 2018. Þar kemur fram að „áhrif virkjunarinnar á landslag verði veruleg í ljósi þess að umfangsmiklu svæði verður raskað og mjög margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna ásýndar- og yfirbragðsbreytinga auk þess sem áhrif af virkjuninni verða varanlega og óafturkræf.“ Þá telur Skipulagsstofnun að fyrirhugaðar framkvæmdir séu líklegar til að „hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu,“ sem muni breyta upplifun ferðafólks og þeirra sem stunda útivist. Landsfundur telur einnig mikilvægt að kanna til hlítar áhrif virkjunarinnar á nærsamfélagið, en á það skortir. Mat á umhverfisáhrifum er mikilvægt ferli til að standa vörð um umhverfi og náttúru með því að meta raunveruleg áhrif framkvæmda. Það að skella skollaeyrum við neikvæðri niðurstöðu slíks mats og halda áformum um framkvæmdir áfram grefur undan þessu mikilvæga ferli. Landsfundur áréttar mikilvægi þess að virða niðurstöðu umhverfismatsins og falla frá hugmyndum um Hvammsvirkjun.

Bætum lífskjör barna

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 skorar á stjórnvöld að bæta kjör barna. Árið 2016 bjuggu 9,1% íslenskra barna við efnislegan skort. 40% barna, sem koma frá heimilum undir lágtekjumörkum, eru börn einstæðra foreldra samkvæmt nýlegri rannsókn sem unnin var fyrir Velferðarvaktina. Í rannsókninni kemur einnig fram að huga þurfi að stöðu barna þeirra sem eru öryrkjar, en það er sá hópur sem er líklegastur til þess að búa við fátækt. Að því leyti er staða barna öryrkja sambærileg stöðu barna einstæðra foreldra.

Vinstri græn skora á stjórnvöld að koma til móts við fátæk börn og tryggja að þau búi við öruggt húsnæði og framfærslu. Mikilvægt skref er að lengja fæðingarorlof og tryggja að leikskólavist taki við að því loknu. Að lokum skora Vinstri græn á sveitarstjórnir að koma til móts við börn sem búa við fátækt með ókeypis skólamáltíðum fyrir öll börn og hærri tómstundastyrkjum.

Ályktun um börn af erlendum uppruna í skólakerfinu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 hvetur stjórnvöld til að tryggja börnum af erlendum uppruna aukna þjónustu í skólakerfinu á öllum skólastigum. Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku hafa ekki sömu tækifæri til náms og aðrir, sem sést meðal annars í miklu brotthvarfi þeirra úr framhaldsskólum. Tryggja þarf fjármagn til að skapa faglega umgjörð um nám barna af erlendum uppruna. Brýnt er að ráðist verði í að útbúa fjölbreyttar námskrár og heildstætt námsefni fyrir þennan hóp.

Ályktun um kynbundið ofbeldi 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 ítrekar að það er forgangsverkefni að útrýma kynbundnu ofbeldi, kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn börnum úr íslensku samfélagi. Mikilvægt er að fylgja eftir tillögum stýrihóps forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Þá fagnar fundurinn nýrri yfirlýsingu Alþjóða vinnumála-stofnunarinnar um aðgerðir gegn ofbeldi á vinnustöðum. Kynbundið ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi á er samfélagsleg meinsemd sem stendur í vegi fyrir því að fullt jafnrétti náist. Þá hvetur fundurinn til þess að stjórnvöld og allir kjörnir fulltrúar VG beiti sér af alefli til að Ísland nái 5. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um fullt jafnrétti kynjanna fyrir árið 2030. Litið er til Íslands sem fyrirmyndar í jafnréttismálum og miklar kröfur gerðar til okkar à því sviði. VG mun ekki bregðast þeim væntingum.

Ályktun um stöðu intersex fólks á Íslandi

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 tekur afstöðu með intersex fólki og baráttu þess. Í baráttu intersex fólks er meðal annars lögð áhersla á að komið verði í veg fyrir óþarfa inngrip á kyneinkennum intersex barna án þeirra samþykkis. Þó að samfélagsleg viðhorf á Íslandi séu almennt jákvæð í garð hinsegin fólks þá er enn margt ógert þegar kemur að lagarammanum. Tryggja þarf lagalega vernd gegn mismunun á grundvelli kyneinkenna. Ísland hefur dregist aftur úr í alþjóðlegum samanburði hvað varðar réttindi intersex fólks. Þá kallar landsfundurinn eftir löngu tímabærri aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks.

Ályktun um fjármál sveitarfélaga

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 leggur áherslu á nauðsyn þess að lögbundið og fullt samráð sé haft við sveitarfélögin og nægilegt fjármagn sé ævinlega tryggt til þeirra verkefna sem þeim eru falin með nýjum lögum og stjórnvaldsákvörðunum.

Ályktun um verkfallsrétt lögreglu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 tekur undir kröfur lögreglumanna um að þeir hafi verkfallsrétt. Verkfallsrétturinn er mikilvægur réttur launafólks og ætti allt vinnandi fólk að hafa þennan rétt, enda sé neyðar- og öryggisþjónusta alltaf tryggð.

Aðgengi fyrir öll

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 18.–20. október 2019 tekur afstöðu með baráttu fatlaðs fólks fyrir aðgengi og inngildingu (e. inclusion). Það er löngu tímabært að stjórnvöld geri róttækar aðgerðaráætlanir í þessum málaflokki og leggi meiri tíma og fjármuni til að rétta hlut fatlaðs fólks. 

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search